21.9.2005

Septemberfundir Norðurlandaráðs í Karlstad 21.-23. september 2005

Septemberfundir Norðurlandaráðs fara fram dagana 21.-23. september í Karlstad í Svíþjóð. Nefndir ráðsins munu þar leggja síðustu hönd á afgreiðslu sinna mála áður en kemur að Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík 25.-27. október nk.

Á meðal þeirra málefna sem tekin verða fyrir á fundum nefnda Norðurlandaráðs eru óhollusta og offita, gæði í skólastarfi, verndun Eystrasaltsins, aðgerðir til að hindra skipulagða flutninga á ólöglegu vinnuafli frá Eistlandi, Lettlandi, Litháen og Póllandi, baráttan gegn mansali og réttindamál frumbyggja við Barentshaf.

Þingmenn sem sæti eiga í Norðurlandaráði munu að auki taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá friðsamlegum sambandsslitum Noregs og Svíþjóðar. Rannveig Guðmundsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, mun flytja ávarp á sérstakri ráðstefnu um sambandsslitin.

Fyrir hönd Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sækja fundina þau Jónína Bjartmarz formaður, Rannveig Guðmundsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Sigurður Kári Kristjánsson og Arnbjörg Sveinsdóttir.