17.11.2014

Forseti Alþingis sækir fund í undirbúningsnefnd alheimsráðstefnu þingforseta í New York

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sækir fund í undirbúningsnefnd alheimsráðstefnu þingforseta sem haldinn verður á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins í aðalhöfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York 17.-18. nóvember 2014.

Forseti Alþingis var tilnefndur, af forseta Alþjóðaþingmannasambandsins, til að taka sæti í undirbúningsnefndinni fyrir fjórðu alheimsráðstefnu forseta þjóðþinga sem fyrirhugað er að halda í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna haustið 2015. Hlutverk undirbúningsnefndarinnar er að ákveða dagskrá ráðstefnunnar og fyrirkomulag.


Fyrsta alheimsráðstefna þingforseta var haldin í New York árið 2000 í tengslum við samþykkt þúsaldaryfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem hafði það meðal annars að markmiði að minnka fátækt og hungur, tryggja menntun barna, vinna að jafnrétti kynjanna, lækka dánartíðni barna og efla almennt heilsufar, auk þess að vinna að sjálfbærri þróun og auka samvinnu um þróunarverkefni. Fjórða alheimsráðstefna forseta þjóðþinga, haustið 2015, verður haldin í tengslum við ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um framhald þúsaldarmarkmiðanna. Þá mun forseti Alþingis ásamt öðrum úr undirbúningsnefndinni eiga fund með Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, á meðan dvöl hans í New York stendur.