27.2.2003

Opinber heimsókn forseta finnska þingsins 28. febrúar-3. mars

Dagana 28. febrúar til 3. mars 2003 verður forseti finnska þingsins, Riitta Uosukainen, í opinberri heimsókn á Íslandi í boði Halldórs Blöndals, forseta Alþingis. Í för með Riittu Uosukainen verða eiginmaður hennar, skrifstofustjóri finnska þingsins og forstöðumaður alþjóðasviðs.

Finnski þingforsetinn kom til Íslands 26. febrúar til að sækja fund norrænna þingforseta en opinber heimsókn hennar hefst föstudaginn 28. febrúar.

Forseti finnska þingsins mun ræða við Davíð Oddsson forsætisráðherra og Siv Friðleifsdóttur umhverfisráðherra og ráðherra norrænna samstarfsmála. Forsetinn mun eiga fund með fulltrúum utanríkismálanefndar Alþingis og Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA.

Riitta Uosukainen mun m.a. heimsækja Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi og skoða Gullfoss og Geysi. Ennfremur sækir forsetinn sýningu íslensku óperunnar á Macbeth og situr kvöldverð í Perlunni í tilefni hátíðarinnar Iceland Naturally Food and Fun Festival. Forseti Alþingis heldur finnska þingforsetanum kvöldverðarboð í ráðherrabústaðnum sunnudagskvöldið 2. mars.

Blaða- og fréttamönnum gefst tækifæri til að ræða við finnska þingforsetann föstudaginn 28. febrúar á milli kl. 16:10 og 17:00.

Nánari upplýsingar um heimsóknina fást hjá alþjóðasviði Alþingis í síma 563 0738 og almannatengsladeild í síma 563 0622 eða 894 6519.