9.6.2008

Forseti Alþingis í opinberri heimsókn í Frakklandi 9.-13. júní

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, og Hallgerður Gunnarsdóttir eiginkona hans heimsækja Frakkland 9.-13. júní, í boði forseta vináttuhóps Frakklands og Íslands á franska þinginu.
 
Með forseta í för eru formenn þingflokka, Arnbjörg Sveinsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Ögmundur Jónasson, Siv Friðleifsdóttir og Kristinn H. Gunnarsson, auk Vigdísar Jónsdóttur, aðstoðarskrifstofustjóra og Jörundar Kristjánssonar, alþjóðaritara á skrifstofu forseta Alþingis.
 
Í heimsókninni mun forseti Alþingis og formenn þingflokka m.a. eiga fundi með forseta neðri deildar franska þingsins, umhverfisráðherra og aðstoðarviðskiptaráðherra Frakklands, vináttuhópi Frakklands og Íslands á franska þinginu, auk ýmissa fulltrúa franskra fyrirtækja og íslenskra fyrirtækja sem starfa í Frakklandi.