13.6.2008

Forseti Alþingis í opinberri heimsókn í Frakklandi 9.-13. júní

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, og Hallgerður Gunnarsdóttir eiginkona hans eru í opinberri heimsókn í Frakklandi 9.-13. júní, í boði Georges Colombier, forseta vináttuhóps Frakklands og Íslands á franska þinginu. Með forseta í för eru formenn allra þingflokka, Arnbjörg Sveinsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Ögmundur Jónasson, Siv Friðleifsdóttir og Kristinn H. Gunnarsson, auk Vigdísar Jónsdóttur, aðstoðarskrifstofustjóra og Jörundar Kristjánssonar, alþjóðaritara á skrifstofu forseta Alþingis.

Forseti Alþingis og formenn þingflokka með gestgjafa sínum, Georges Colombier. Forseti Alþingis og formenn þingflokka með gestgjafa sínum, Georges Colombier.

Forseti Alþingis og sendinefndin átti fund með Jean-Luis Borloo, umhverfisráðherra Frakklands, á þriðjudag og var m.a. rætt um áhrif loftlagsbreytinga og afleiðingar losunarkvóta á flugsamgöngur til og frá Íslandi. Þá ræddi forseti Alþingis framlag Íslendinga á sviði endurnýjanlegrar orku við franska umhverfisráðherrann. Einnig heimsótti íslenska sendinefndin franska þingið og fylgdist með umræðum og fyrirspurnum til ráðherra.

Forseti vináttuhóps Frakklands og Íslands, forseti Alþingis og forseti franska þingsis.

Forseti vináttuhóps Frakklands og Íslands, forseti Alþingis og forseti franska þingsis.

Á miðvikudag áttu forseti Alþingis og þingflokksformenn fund með vináttuhópi Frakklands og Íslands á franska þinginu. Umræðuefni fundarins voru m.a. staða efnahags- og umhverfismála. Síðar sama dag átti forseti Alþingis fund með forseta neðri deildar franska þingsins, Bernard Accoyer. Ræddu forsetarnir vináttusamskipti þinganna, umhverfis- og orkumál o.fl.

Í gær, fimmtudag, heimsótti íslenska sendinefndin m.a. orkurannsóknarmiðstöð CEA í Grenoble, þar sem fram fara rannsóknir á umbreytingu raforku í vetnisorku, þróun og rannsóknir á varðveislu raforku í rafhlöðum fyrir rafbíla og báta. Um kvöldið hittu forseti Alþingis og þingflokksformenn fulltrúa íslenskra fyrirtækja og franskra fyrirtækja með tengsl við Ísland, í kvöldverði sem Tómas Ingi Olrich og Emmanuel Jaques, forseti fransk-íslenska verslunarráðsins stóðu fyrir.

Sendiherra Íslands í Frakklandi, forseti fransk-íslenska verslunarráðsins og forseti Alþingis. Sendiherra Íslands í Frakklandi, forseti fransk-íslenska verslunarráðsins og forseti Alþingis.

Í dag mun íslenska sendinefndin hitta fulltrúa franskra samgöngufyrirtækja, eiga fund með yfirmönnum ferðamála í Frakklandi og sækja hátíðar- og kveðjukvöldverði í franska þinginu.