1.12.2008

Lokayfirlýsing fundar þingforseta smáríkja Evrópu í Liechtenstein, 27.-29. nóvember 2008

Forsetar þjóðþinga evrópskra smáríkja funduðu í Liechtenstein, dagana 27.-29. nóvember 2008. Fundurinn er árlegur samráðsvettvangur þjóðþinga evrópskra smáríkja sem eru aðilar að Evrópuráðinu með íbúafjölda undir einni milljón. Á málefnaskrá fundar að þessu sinni voru málefni innflytjenda, efnahagslegt mikilvægi ferðaþjónustu og vinnumarkaðsmál evrópskra smáríkja.
 
Í lokayfirlýsingu fundarins lögðu þingforsetar m.a. áherslu á að styðja bæði bætta reglusetningu og aukið gagnsæi í alþjóðlegum fjármálaviðskiptum. Þá lýstu þeir yfir sérstökum stuðningi við Möltu og Kýpur vegna þeirra vandamála sem löndin tvö eiga við að etja sökum ólöglegra innflytjenda. Loks var ákveðið að næsti fundur þingforseta smáríkja í Evrópu verður haldinn á Kýpur að ári.
 
Fundinn sóttu að þessu sinni fulltrúar Andorra, Íslands, Kýpur, Lúxemborgar, Svartfjallalands, Möltu og Mónakó, auk gestgjafanna í Liechtenstein. Fulltrúi Alþingis var Ásta R. Jóhannesdóttir, 1. varaforseti Alþingis.