18.8.2011

Fundur forseta þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja 18.-19. ágúst

Árlegur fundur forseta þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja er haldinn í Eistlandi dagana 18.-19. ágúst. Á dagskrá fundar er m.a. samvinna í tölvuöryggismálum, staða og hlutverk stjórnarandstöðunnar í lýðræðisþingum auk samskipta við Rússland og stækkun Evrópusambandsins. Þá munu þingforsetarnir ræða viðhorf í stjórnmálum á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum og viðfangsefni þjóðþinganna.
 
Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sækir fundinn og mun í framhaldi vera viðstödd athöfn í Tallinn í Eistlandi laugardaginn 20. ágúst og Riga í Lettlandi sunnudaginn 21. ágúst í tilefni af því að 20 ár eru liðin síðan ríkin tvö endurheimtu sjálfstæði sitt.