11.10.2013

Styrkir til að stuðla að umræðu og fræðslu um Evrópusambandið

Samkvæmt ákvörðun á fjárlögum Alþingis er auglýst eftir styrkumsóknum til að stuðla að opinberri og upplýstri umræðu og fræðslu um Evrópusambandið, stefnu þess og áhrif hugsanlegrar aðildar Íslands að sambandinu. Að þessu sinni er úthlutunarfé til ráðstöfunar allt að 18 milljónir króna.
Styrkir eru veittir til íslenskra félaga og félagasamtaka sem, samkvæmt tilgangi sínum, fjalla um málefni Evrópusambandsins og lýsa sjónarmiðum sínum með eða móti hugsanlegri aðild að sambandinu. Hlutlausri upplýsingamiðlun er sinnt með samstarfsverkefni Alþingis og Vísindavefs Háskóla Íslands um Evrópuvefinn.

Styrkir eru eingöngu veittir til skýrt afmarkaðra verkefna, svo sem til þess að:
 
  1. útbúa efni og birta það í blöðum, ritum eða með öðrum hætti,
  2. halda opna fundi og ráðstefnur,
  3. standa fyrir fyrirlestrum sérfræðinga,
  4. standa fyrir ýmiss konar fræðslustarfsemi.

Ekki er heimilt að veita styrki til eiginlegs reksturs, m.a. rekstur skrifstofu, þ.m.t. húsaleigugreiðslur og launagreiðslur til starfsfólks. Ekki eru veittir styrkir til einstaklinga. Hægt er að sækja um styrki til fleiri en eins verkefnis í sömu umsókn.

Vakin er athygli á Reglum úthlutunarnefndar.

Styrkhafar skulu fyrir lok árs og við lok styrkts verkefnis skila skýrslu til úthlutunarnefndar um ráðstöfun styrkjanna.

Umsóknarfrestur um styrki er til fimmtudagsins 31. október 2013.

Umsóknareyðublað (doc).

Umsóknir skulu berast skrifstofu Alþingis, merktar:

ESB fræðslu- og umræðustyrkir
Jörundur Kristjánsson, ritari úthlutunarnefndar
Skrifstofa Alþingis
150 Reykjavík

Allar frekari upplýsingar veitir Jörundur Kristjánsson, ritari úthlutunarnefndar, netfang: jorundurk@althingi.is
Stefnt er að því að ákvörðun um úthlutun liggi fyrir í nóvembermánuði.