11.10.2013

Forseti Evrópuráðsþingsins í opinberri heimsókn á Íslandi

Forseti Evrópuráðsþingsins, Jean-Claude Mignon, verður í opinberri heimsókn á Íslandi dagana 13.-16. október 2013 í boði Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis.

Forseti Evrópuráðsþingsins mun, meðal annars, meðan á dvöl hans stendur eiga fund með forseta Alþingis og Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins, ásamt því að kynna sér starfsemi Alþingis og hitta fulltrúa ungliðahreyfinga stjórnmálaflokka. Þá mun hann einnig eiga fund með Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra, og kynna sér starfsemi Barnahúss.

Evrópuráðsþingið er vettvangur þingmannasamskipta hinna 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Markmið Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum.