21.10.2021

Ráðstefna forseta þjóðþinga Evrópuráðsríkja

Willum Þór Þórsson, starfandi forseti Alþingis, sækir ráðstefnu forseta þjóðþinga aðildarríkja Evrópuráðsins sem haldin er í Aþenu 21.–22. október. Á dagskrá ráðstefnunnar eru meðal annars umræður um áhrif heimsfaraldursins á þjóðþing og lýðræði, umhverfis- og loftslagsmál og framtíðaráskoranir í samstarfi Evrópuráðsríkja.

Í ávarpi sínu gerði Willum Þór grein fyrir þeim aðgerðum sem þurft hefur að grípa til á Alþingi á tímum heimsfaraldurs, til að tryggja að þjóðþingið væri starfhæft. Lagði hann ríka áherslu á mikilvægi eftirlitshlutverks þjóðþinga með framkvæmdavaldi, ekki síst þegar nauðsynlegt hefur verið að grípa til íþyngjandi aðgerða með tilliti til sóttvarna þar sem líf og heilsa er sett í forgang. Þá lagði hann áherslu á að stjórnvöld hefðu jafnrétti og hagsmuni verr settra þjóðfélagshópa að leiðarljósi við endurreisnina eftir heimsfaraldurinn.

Evrópuráðsþingið er vettvangur þjóðþinga hinna 47 aðildarríkja og hefur Alþingi átt aðild því síðan 1950. Ráðstefnur þingforseta hafa verið haldnar á tveggja ára fresti síðan 1975, að jafnaði til skiptis í Strassborg og einhverju aðildarríkjanna. Nánari upplýsingar má nálgast á vef ráðstefnunnar

WThTh_Athenu_Radstefna-forseta-thjodthinga-Evropuradsrikja

Willum Þór Þórsson, starfandi forseti Alþingis, ávarpar ráðstefnu forseta þjóðþinga aðildarríkja Evrópuráðsins í Aþenu.