27.11.2018

Rúmlega 400 kvenleiðtogar frá um 100 löndum funda í Hörpu

Í dag, þriðjudaginn 27. nóvember, hefst Heimsþing kvenleiðtoga í Hörpu, þar sem rúmlega 400 kvenleiðtogar frá um 100 löndum koma saman til að ræða leiðir til að tryggja aukin tækifæri kvenna og læra af reynslu Íslendinga varðandi árangur í jafnréttismálum. Yfirskrift Heimsþingsins er „Power Together“ og til þess er boðið kvenleiðtogum úr stjórnmálum, viðskiptum, stjórnsýslu, vísindum og fleira, en Heimsþing kvenleiðtoga er haldið í samstarfi við Women Political Leaders Global Forum, ríkisstjórn
Íslands, Alþingi og fjölda íslenskra og alþjóðlegra samstarfsaðila.  

Dagskrá Heimsþingins er afar fjölbreytt; með ræðum, stuttum ávörpum og pallborðsumræðum í aðalsal, yfir tuttugu sérstökum hringborðsumræðum um ólík málefni ásamt fjölmörgum hliðarviðburðum víða um borg í samstarfi við íslenska samstarfsaðila. Nefna má að á Heimsþinginu verður kynntur sérstakur „Reykjavík Index on Leadership“ sem felur í sér mælingu á viðhorfum 10.000 einstaklinga víðs vegar í heiminum til kvenna og karla í leiðtogahlutverkum á ólíkum sviðum, en það er í fyrsta skipti sem slík athugun fer fram í ólíkum löndum á sama tíma. Á Heimsþinginu verður einnig kynntur „Womens World Atlas“ þar sem heimskortið er dregið upp með hliðsjón af stöðu kynjanna í ákveðnum starfsgreinum. Sérstakur fundur kvenleiðtoga á sviði friðar og öryggismála verður haldinn í Höfða, auk þess sem hópar kvenna verða heiðraðir fyrir frumkvæði og aðgerðir sem breytt hafa viðhorfum eða stöðu kvenna alþjóðlega. Sérstakt þema Heimsþingsins að þessu sinni er stafræn bylting samtímans og þau tækifæri sem það gefur til að fjölga konum í leiðtogahlutverkum og tryggja jöfn tækifæri kvenna og karla til
ákvarðanatöku. Upplýsingar um þessa þætti og dagskrá Heimsþingsins í heild er hægt að nálgast á heimasíðu samtakanna https://womenleaders.global/.

Heimsþing kvenleiðtoga verður sett í Silfurbergi í Hörpu kl. 9.30 í dag með ávörpum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra; Silvönu Koch-Mehrin, forseta Women Political Leaders, Global Forum, Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra.

Beinn hlekkur á dagskrá þingsins er https://womenleaders.global/programme/.

IMG_0562

Hópur stjórnmálakvenna af þinginu heimsóttu Alþingi í gær og gekk um húsið í fylgd alþingiskvenna og starfsfólks skrifstofu Alþingis.