26.10.2020

Stafrænir fundir í stað Norðurlandaráðsþings

Norðurlandaráðsþingi sem halda átti í Reykjavík þessa viku var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins en þrátt fyrir það er fundað í nefndum, landsdeildum og flokkahópum. Allir fundir eru fjarfundir en vikan verður samt sem áður hápunktur norrænna stjórnmála árið 2020, því fjölmargir mikilvægir pólitískir leiðtogafundir verða haldnir dagana 26.–30. október. Vegna hinnar norrænu þingviku eru engir þingfundir á Alþingi þessa viku. 

Opinn umræðufundur um Covid-19 og afleiðingar faraldursins fyrir norrænt samstarf verður haldinn þriðjudagskvöldið 27. október kl. 18–19:30. Umræðurnar verða sendar út beint á netinu. Sérstakur gestur fundarins verður António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. 

Verðlaunahátíð Norðurlandaráðs verður sömuleiðis stafræn og verður hægt að fylgjast með henni í sjónvarpi á öllum Norðurlöndunum, þar með talið á RÚV, eða í beinu streymi á netinu á þriðjudagskvöld og hefst kl. 20:10. 

67. Norðurlandaráðsþing í HörpuNorðurlandaráðsþing var síðast haldið í Reykjavík haustið 2015.