30.5.2022

Þingforsetar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja heimsækja Moldóvu

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, sækir Moldóvu heim ásamt öðrum forsetum þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja 29. maí til 1. júní. Á dagskrá heimsóknar eru m.a. fundir með Grosu Igor, forseta þjóðþings Moldóvu, Nataliu Gavrilița forsætisráðherra og formönnum þingflokka á Moldóvuþingi. 

Einnig verða búðir úkraínskra flóttamanna heimsóttar og fundað með fulltrúum félagasamtaka en  Moldóva hýsir hlutfallslega flesta flóttamenn frá stríðssvæðum. Forsetar þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna hafa áður heimsótt Moldóvu sameiginlega, í maí 2014.

Fundur-forseta-thjodthinga-Nordurlanda-og-Eysrasaltsrikja-29.-mai-1.-juni-2022
Hópmynd af forsetum þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja fyrir utan þinghús Moldóvu.

© Ljósmynd / Moldóvuþing