21.12.2015

Tilnefning til Barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins 2016

Gunnar Helgason var í dag tilnefndur til vestnorrænu barna- og unglingabókaverðlaunanna fyrir bókina Mamma klikk. 

Vestnorrænu dómnefndirnar (á Íslandi, í Grænlandi og Færeyjum) hafa hver fyrir sig tilnefnt eina bók frá hverju landi til Barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins árið 2016.  Verðlaunabókin sem verður valin í ágúst 2016 hlýtur 60.000 danskar krónur eða um 1,2 milljónir íslenskra króna.

Tilnefningin var kynnt á blaðamannafundi íslensku dómnefndarinnar og Vestnorræna ráðsins sem haldinn var í dag.

Gunnar Helgason tilnefndur til barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsinsGunnar Helgason ásamt foreldrum sínum, Helga Hallgrímssyni og Margréti Schram, og eiginkonu, Björk Jakobsdóttur, við tilnefninguna í dag.

Grænlenska dómnefnd verðlaunanna hefur tilnefnt bókina Avuu eftir Frederik „Kunngi“ Kristensen. Dómnefnd Færeyja hefur tilnefnt bókina Hon, sum róði eftir ælaboganum eftir Rakel Helmsdal.

Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna Ráðsins eru veitt annað hvert ár og er þetta í áttunda skipti sem bækur eru tilnefndar til þeirra.  Vestnorræn dómnefnd mun velja eina af þessum þremur bókum sem svo hlýtur verðlaunin í ágúst 2016.

Árið 2002 hlaut bókin Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason verðlaunin, árið 2004 bókin Engill í vesturbænum eftir Kristínu Steinsdóttur og Höllu Sólveigu Þorgeirsdóttur, árið 2006 hlaut færeyska bókin Hundurinn, kötturinn og músin eftir Bárð Oskarsson verðlaunin, árið 2008 fékk Kristín Helga Gunnarsdóttir verðlaunin fyrir bókina Draugaslóð, 2010 hlaut Gerður Kristný verðlaunin fyrir Garðinn, 2012 hlaut Lars-Pele Berthelsen fyrir bókina Sagan um Kaassalik (Kassalimik oqaluttuaq), og í fyrra hlaut Andri Snær Magnason verðlaunin, og í annað skiptið í sögu verðlaunanna, fyrir bókina Tímakistan. 

Íslensku dómnefndina skipa Hildur Ýr Ísberg, doktorsnemi, Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur og doktorsnemi, og Halla Þórlaug Óskarsdóttir. 


Frekari upplýsingar veitir Inga Dóra Markussen, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins í síma 5630731, netfang: vestnordisk@althingi.is