4.9.2020

Þingmenn Norðurlanda og Eystrasaltslanda á Evrópuráðsþinginu álykta um mannréttindi og lýðræði í Hvíta-Rússlandi

Landsdeildir Norðurlanda og Eystrasaltslanda á Evrópuráðsþinginu gáfu í dag út sameiginlega yfirlýsingu um málefni Hvíta-Rússlands. Í yfirlýsingunni kemur fram að forsetakosningar þar í landi 9. ágúst hafi verið langt frá því að uppfylla alþjóðlega viðurkennda staðla lýðræðis og réttarríkja. Fram kemur að það séu grundvallarmannréttindi að fá að taka þátt í frjálsum og lýðræðislegum kosningum og að mótmæla á friðsamlegan hátt.

Þingmennirnir kalla eftir því að hvítrússnesk stjórnvöld láti tafarlaust af kúgun og ofsóknum á hendur mótmælendum, láti lausa alla pólitíska fanga og rannsaki ofbeldisverk lögreglunnar. Hvítrússnesk stjórnvöld eru hvött til að hefja samræður við stjórnarandstöðuna í Hvíta-Rússlandi þegar í stað um endurskoðun kosningalaga og til að tryggja stjórnarandstöðunni jafnræði í kosningabaráttu. Þingmennirnir ítreka stuðning sinn við fullveldi Hvíta-Rússlands og velferð og réttindi hvítrússnesku þjóðarinnar.

Yfirlýsingunni hefur verið komið á framfæri við forseta Evrópuráðsþingsins og framkvæmdastjóra Evrópuráðsins auk þess sem hún verður birt á vefsíðum þjóðþinganna átta og send öllum landsdeildum á Evrópuráðsþinginu.