Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 1995.  Útgáfa 119.  Prenta í tveimur dálkum.


Íþróttalög

1956 nr. 49 7. apríl



I. kafli. Um stjórn íþróttamála.
1. gr. Í lögum þessum merkja íþróttir hvers konar líkamsæfingar, er stefna að því að auka heilbrigði manna og hreysti, líkamsfegurð, vinnuþrek og táp.
2. gr. Menntamálaráðuneytið hefur yfirumsjón allra íþróttamála að því leyti, er ríkið lætur þau til sín taka. Til aðstoðar ráðuneytinu um stjórn og framkvæmd íþróttamála er íþróttafulltrúi í skrifstofu fræðslumálastjóra og íþróttanefnd.
3. gr. Íþróttafulltrúi skal hafa alhliða þekkingu um íþróttamál og auk þess þekkingu á sviði almennra uppeldismála. Hann skal ráðinn af menntamálaráðherra, að fengnum tillögum íþróttanefndar, og greiðast laun hans úr ríkissjóði. Skipa má hann í embættið eftir þrjú ár, að fengnum tillögum nefndarinnar.
Íþróttafulltrúi skal hafa á hendi þessi störf:
    1. Að hafa umsjón með íþróttastarfsemi í skólum.
    2. Að vinna að útbreiðslu og eflingu íþrótta í landinu.
    3. Að gera tillögur um framkvæmdir til eflingar íþróttum og hafa eftirlit með slíkum framkvæmdum.
    4. Að veita íþróttafélögum og einstaklingum leiðbeiningar og aðstoð varðandi íþróttamál.
    5. Að safna skýrslum um íþróttastarfsemi í landinu.
    6. Að gera tillögur um úthlutun fjár úr íþróttasjóði.
    7. Annað það, sem honum er falið í lögum þessum eða verður falið með reglugerðum, er settar kunna að verða samkvæmt þeim.
Ráðherra setur íþróttafulltrúa erindisbréf.
4. gr. Íþróttanefnd skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Menntamálaráðherra skipar íþróttanefnd, og skal einn nefndarmanna skipaður samkvæmt tillögum stjórnar Íþróttasambands Íslands, en annar samkvæmt tillögum stjórnar Ungmennafélags Íslands. Á sama hátt skal skipa varamann. Íþróttanefndin er skipuð til þriggja ára í senn. Nefndarmenn allir skulu vera búsettir í Reykjavík eða nágrenni hennar.
Íþróttanefnd tekur eigi laun fyrir starfa sinn, en útlagðan kostnað fær hún greiddan úr ríkissjóði. Kostnað við sérfræðilega aðstoð skal þó greiða úr íþróttasjóði.
Íþróttanefnd stjórnar íþróttasjóði og úthlutar fé úr honum eftir fyrirmælum laga þessara. Að öðru leyti skal nefndin hafa á hendi þessi störf:
    1. Að vinna að eflingu íþróttamála, og getur hún gert tillögur um allt, sem að þeim lýtur.
    2. Að vinna ásamt íþróttafulltrúa að því að koma skipulagi á íþróttamál í landinu, sbr. 21. gr.
    3. Annað það, sem henni er falið í lögum þessum eða verður falið með reglugerðum, sem settar kunna að verða samkvæmt þeim.
Íþróttafulltrúi á sæti á fundum íþróttanefndar, en á þar eigi atkvæðisrétt nema hann sé skipaður í nefndina. Afl atkvæða ræður úrslitum mála í íþróttanefnd.

II. kafli. [Um byggingarstyrki.] 1)
    1)L. 87/1989, 50. gr.
5. gr. [Bygging íþróttamannvirkja í þágu skóla og til almenningsnota er í verkahring sveitarfélaga.
Sveitarstjórn veitir byggingarstyrki til íþróttafélaga og íþróttasamtaka eftir því sem ákveðið er í fjárhagsáætlun sveitarfélags.
Alþingi veitir árlega fé í sjóð sem nefnist íþróttasjóður. Fé úr sjóðnum skal veita til bygginga íþróttamannvirkja á vegum félaga sem um getur í 2. mgr. Íþróttanefnd gerir tillögur til fjárveitinganefndar um skiptingu fjárins.
Í reglugerð, 1) sem menntamálaráðuneytið setur, að höfðu samráði við íþróttanefnd og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, skal m.a. ákveða nánar um skilyrði fyrir opinberum styrkveitingum, rekstur og afnot mannvirkja sem njóta styrks.] 2)
    1)Rg. 68/1976 (fyrir íþróttahúsið Ásgarð í Garðakaupstað), rg. 298/1983 (fyrir íþróttahúsið á Akranesi) og rg. 352/1977 (Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja). Rg. 609/1989 (um Íþróttasjóð). 2)L. 87/1989, 49. gr.

III. kafli. Um íþróttir í skólum.
[6. gr.]1) Í öllum skólum landsins skulu íþróttir iðkaðar eftir því, sem mælt er fyrir í lögum þessum, eða reglugerðum, 2) er ráðherra setur samkvæmt þeim.
    1)L. 87/1989, 49. gr. 2)Rg. 69/1959, sbr. 395/1986 (sundnám). Rg. 204/1964 (leikfimi).
[7. gr.]1) Barnaskólum í kaupstöðum og kauptúnum með 400 íbúum eða fleiri, öllum æðri skólum og heimavistarskólum skal séð fyrir hæfu húsnæði með heitu og köldu vatni og nauðsynlegum áhöldum til íþróttakennslu, og er hvort tveggja háð úrskurði íþróttafulltrúa. Í barnaskólum í sveitum og kauptúnum með færri en 400 íbúum skal kenna nemendum þær íþróttir, sem við verður komið í húsnæði skólanna, enda sé eigi völ á öðru húsnæði betra. Allir fastir barnaskólar og æðri skólar skulu hafa til umráða hæfilegt landsvæði eða leikvang til þess að leika knattleiki og útiíþróttir.
    1)L. 87/1989, 49. gr.
[8. gr.]1) Öll börn í landinu skulu læra sund, nema þau séu óhæf til þess að dómi skólalæknis. Höfuðáherslu skal leggja á að kenna bringu- og baksund og helstu aðferðir við björgunarsund og lífgun úr dauðadái. Skal hver nemandi hafa lokið þessu námi áður, eða eigi síðar, en hann lýkur prófi úr barnaskóla, og hafa leyst af hendi ákveðnar raunir í sundi og björgun samkvæmt reglugerð, sem menntamálaráðuneytið setur. Þar sem sundlaugar eru svo nærri skólum, að sundiðkunum verður við komið samhliða öðru námi, skal ætla þeim tíma á stundaskrá skólanna. Að öðrum kosti skal kenna sund í námskeiðum, og skal hver nemandi eiga kost á sem næst þriggja vikna sundkennslu.
Í öðrum skólum en barnaskólum skulu nemendur iðka sund, nema þeir teljist til þess óhæfir að dómi skólalæknis, enda eigi þeir kost á sundkennslu og aðgang að sundlaug. Skulu nemendur leysa af hendi prófraunir, er miðist við aldur þeirra og þroska. Menntamálaráðuneytið setur nánari ákvæði um þetta í reglugerð.
Þar, sem sækja þarf langt til sundnáms, skal ríkissjóður taka þátt í ferðakostnaði nemenda, eftir reglum, sem menntamálaráðuneytið setur.
    1)L. 87/1989, 49. gr.
[9. gr.]1) Í öllum skólum skal leggja áherslu á það, að nemendur fái tækifæri til þess að stunda íþróttir úti, eftir því sem fært þykir og staðhættir leyfa. Þá skal og stuðla að því, að nemendur iðki íþróttir í tómstundum sínum. Enn fremur skulu piltar í öllum skólum eiga kost á tilsögn í glímu.
    1)L. 87/1989, 49. gr.
[10. gr.]1) Menntamálaráðuneytið setur, að fengnum tillögum íþróttanefndar og íþróttafulltrúa, ákvæði um tilhögun og stundafjölda íþróttaiðkana í skólum. Nemendum þeim, sem að dómi skólalæknis þarfnast sérstakrar sjúkraleikfimi, skal þar sem því verður við komið séð fyrir slíkum æfingum á vegum skólans. Enn fremur skal sjá nemendum þeim, sem að dómi skólalæknis eru eigi færir um að taka þátt í hinum almennu íþróttaiðkunum skólans, fyrir líkamsæfingum við þeirra hæfi, eftir því sem fært þykir.
    1)L. 87/1989, 49. gr.
[11. gr.]1) Í öllum barnaskólum og öðrum almennum skólum skal fara fram kennsla í heilsufræði. Leggja skal sérstaka áherslu á fræðslu um heilsuvernd, gildi íþrótta og skaðsemi eiturnautna.
    1)L. 87/1989, 49. gr.
[12. gr.]1) Menntamálaráðuneytinu er heimilt að láta gera íþróttamerki fyrir skóla, samkvæmt reglugerð, sem það setur. Merkin skulu allir skólanemendur eiga kost á að fá fyrir lágt verð, er þeir hafa unnið tilskilið afrek og náð tilskilinni leikni.
    1)L. 87/1989, 49. gr.

IV. kafli. Um réttindi til íþróttakennslu.
[13. gr.]1) 2)
    1)L. 87/1989, 49. gr. 2)L. 51/1978, 18. gr.
[14. gr.]1) Við Íþróttakennaraskóla Íslands skal starfrækja leiðbeinendadeild, sem veiti takmörkuð réttindi til leiðbeininga um iðkun eða þjálfun í einni eða fleiri íþróttagreinum hjá félögum, stofnunum eða einstaklingum.
Heimilt er héraðsskólum, svo og Í.S.Í. og U.M.F.Í., að starfrækja slíkar sérdeildir.
    1)L. 87/1989, 49. gr.

V. kafli. Um frjálsa íþróttastarfsemi.
[15. gr.]1) Íþróttastarfsemi utan skólanna er falin frjálsu framtaki landsmanna, og fer fram í félögum og sem einstaklingsstarf, með þeim stuðningi, sem veittur er samkvæmt lögum þessum. Íþróttasamband Íslands (Í.S.Í.) er æðsti aðili um frjálsa íþróttastarfsemi áhugamanna í landinu og kemur fram erlendis af Íslands hálfu í íþróttamálum, nema að því leyti, sem ríkisstjórnin kann að velja til þess fulltrúa sjálf.
Öll opinber íþróttakeppni skal fara fram samkvæmt reglum, er Í.S.Í. setur, enda séu þær ætíð í samræmi við alþjóðaíþróttareglur. Þó getur íþróttanefnd mælt svo fyrir, að enginn megi taka þátt í keppni í tilteknum íþróttagreinum, nema læknir hafi áður skoðað hann.
    1)L. 87/1989, 49. gr.
[16. gr.]1) Landið skiptist í íþróttahéruð eftir legu og aðstöðu til samvinnu um íþróttaiðkanir. Íþróttanefnd annast skiptingu þessa í samráði við Í.S.Í. og U.M.F.Í. Íþróttanefnd og íþróttafulltrúi skulu vinna að því, að allir aðilar um íþróttamál í íþróttahéraði hverju bindist samtökum um hagsmuni sína. Þar sem aðilar þessir hafa eigi myndað slík samtök, skal íþróttanefnd skipa þriggja manna stjórnarnefnd í héraði hverju. Skal einn nefndarmanna skipaður samkvæmt tilnefningu Í.S.Í., annar samkvæmt tilnefningu U.M.F.Í. og hinn þriðji samkvæmt tilnefningu menntamálaráðuneytisins. Nefndin skiptir sjálf með sér verkum. Formaður er umboðsmaður íþróttanefndar og íþróttafulltrúa í héraði sínu. Eigi þiggur hann laun fyrir það starf.
Þá er héraðssamtök íþróttaaðila hafa myndast, tekur stjórn þeirra við starfi nefndarinnar.
    1)L. 87/1989, 49. gr.
[17. gr.]1) Til þess að félög séu viðurkennd til styrkveitinga samkvæmt lögum þessum verða þau að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
    1. Inntaka manna í þau sé ekki bundin skilyrðum um trúar- eða stjórnmálaskoðanir.
    2. Allir félagsmenn séu skyldir að greiða iðgjöld í sjóði félaganna.
    3. Félögin séu í Í.S.Í. eða U.M.F.Í., greiði þeim tilskilin gjöld, sendi árlegar fyrirskipaðar skýrslur og séu a.m.k. tveggja ára gömul.
    4. Félögin hafi lækniseftirlit með íþróttamönnum sínum, eftir því sem við verður komið.
    1)L. 87/1989, 49. gr.

VI. kafli. Ýmis ákvæði.
[18. gr.]1) Skylt er [sveitarfélögum] 2) að leggja til endurgjaldslaust hentug lönd og lóðir undir íþróttamannvirki, sem styrkt eru úr íþróttasjóði eða íþróttanefnd viðurkennir. Heimilt er að taka land til þessa eignarnámi, ef þörf krefur.
    1)L. 87/1989, 49. gr. 2)L. 108/1988, 56. gr.
[19. gr.]1) Ef félag eða skóli, sem fengið hefur styrk úr ríkissjóði eða íþróttasjóði til mannvirkja eða íþróttatækja, leggst niður, skulu þessar eignir þess renna til íþróttasjóðs, nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum eða reglugerðum. Íþróttanefnd sér um, að þær komi að notum til íþróttaiðkana á þeim stað, sem þær eru, eftir því sem ástæður leyfa. Íþróttamannvirki, sem styrk hefur hlotið úr íþróttasjóði, má hvorki gefa né selja, nema samþykki íþróttanefndar komi til, enda endurgreiðist þá til íþróttasjóðs sú styrkupphæð, sem veitt hefur verið til viðkomandi íþróttamannvirkis.
    1)L. 87/1989, 49. gr.
[20. gr.]1) Viðurkenndir skólar og íþróttafélög skulu hafa forgangsrétt að notkun íþróttamannvirkja og tækja, sem þegar eru til í landinu, eða byggð kunna að verða, að því leyti sem eigendur nota þau ekki til íþróttaiðkana, enda sé greitt fyrir það sanngjarnt verð.
    1)L. 87/1989, 49. gr.
[21. gr.]1) Ágreiningi, sem rísa kann út af skilningi á lögum þessum eða framkvæmdum þeirra, skal skjóta til úrskurðar íþróttanefndar, nema svo sé vaxinn, að hann heyri undir dómstóla.
    1)L. 87/1989, 49. gr.