Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 1995.  Útgáfa 119.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um sálfræðinga

1976 nr. 40 23. maí1. gr. Rétt til að kalla sig sálfræðinga hér á landi hafa þeir einir sem til þess hafa fengið leyfi menntamálaráðuneytisins.
Öðrum aðilum er óheimilt að nota starfsheiti sem til þess er fallið að gefa í skyn að þeir hafi hlotið löggildingu sem sálfræðingar.
2. gr. Leyfi samkvæmt 1. gr. má aðeins veita þeim sem lokið hafa kandídatsprófi eða öðru hliðstæðu prófi í sálarfræði eða sálfræðilegri uppeldisfræði sem aðalgrein við háskóla á Norðurlöndum eða sambærilegu prófi við aðra háskóla, hvort tveggja að fenginni umsögn Sálfræðingafélags Íslands.
Ef sérstakar ástæður mæla með því er einnig heimilt að veita þeim takmarkað eða tímabundið leyfi samkvæmt 1. gr. sem hafa aðra háskólamenntun en hafa við sjálfstæðar sálfræðilegar eða uppeldisfræðilegar rannsóknir eða hagnýt störf sýnt að þekking þeirra er sambærileg við þá sem nefnd er í 1. mgr., enda liggi fyrir meðmæli Sálfræðingafélags Íslands.
Heimilt er að synja manni leyfis ef 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga á við um hagi hans.
3. gr. Sálfræðingi er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskylda nær einnig til samstarfsmanna sálfræðings, þ. á m. til fræðimanna sem fá aðgang að gögnum í vísindalegum tilgangi. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi láti af störfum.
4. gr. Sálfræðingur getur afsalað sér löggildingu. Skal hann þá tilkynna ráðuneytinu það skriflega og endursenda því löggildingarbréf sitt.
5. gr. Ráðuneytinu er heimilt að afturkalla löggildingu, sbr. 2. gr., ef sálfræðingur er vegna sjúkdóms eða af öðrum ástæðum álitinn óhæfur til að gegna starfi sem sálfræðingur. Leita skal álits Sálfræðingafélags Íslands um málið.
Einnig er heimilt að afturkalla löggildingu ef sálfræðingur þrátt fyrir viðvörun vanrækir skyldur sínar, fer út fyrir verksvið sitt eða brýtur í bág við fyrirmæli laga. Sá aðili, sem hlut á að máli, getur skotið úrskurði um sviptingu löggildingar til dómstóla.
6. gr. Sá sem afsalað hefur sér löggildingu eða verið sviptur leyfi til að kalla sig sálfræðing getur öðlast löggildingu að nýju ef skilyrðum 2. gr. er fullnægt og ástæður þær, sem tilgreindar eru í 5. gr., eiga ekki við. Heimilt er að veita slíka löggildingu til takmarkaðs tíma.
[7. gr. Enginn sálfræðingur má kalla sig sérfræðing í sérgrein innan sálarfræði nema hann hafi fengið til þess leyfi menntamálaráðuneytisins.
Ráðuneytið setur nánari ákvæði í reglugerð 1) um skilyrði fyrir veitingu leyfis til að kalla sig sérfræðing í einhverri af sérgreinum sálarfræðinnar.] 2)
    1)Rg. 158/1990. 2)L. 68/1988, 1. gr.
[8. gr.]1) Brot gegn ákvæðum laga þessara varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að þremur mánuðum. Með mál út af brotum gegn lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.
    1)L. 68/1988, 1. gr.
[9. gr.]1) Menntamálaráðuneytið getur sett nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laga þessara.
    1)L. 68/1988, 1. gr.