Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög í október 1996.  Útgáfa 120b.  Prenta í tveimur dálkum.


Útvarpslög

1985 nr. 68 27. júníI. kafli. Réttur til útvarps.
1. gr. [Lög þessi eru sett með hliðsjón af lögum um fjarskipti, nr. 73/1984, hvað varðar tæknilega eiginleika.
Með útvarpi, hljóðvarpi eða sjónvarpi, er í lögum þessum átt við hvers konar útsendingu dagskárefnis innan íslenskrar lögsögu sem ætluð er almenningi til beinnar móttöku og dreift er með rafsegulöldum hvort heldur í tali, tónum eða myndum, um þráð eða þráðlaust hvort heldur sem útsendingin er læst eða ólæst.
Ákvæði þessara laga ná ekki til dreifingar útvarpsdagskrár eða útsendinga sem eingöngu eru ætlaðar þröngum hóp og takmarkast við byggingar eða húsakynni á samfelldri lóð, svo sem einstök íbúðarhús, sjúkrahús, gistihús, skóla og verksmiðju.
Útvarpsstöð er sá aðili sem leyfi hefur til útvarps samkvæmt lögum þessum.
Útvarpsdagskrá í skilningi laga þessara er heildarsamsetning dagskárliða í útvarpi.
Auglýsing er hvers konar tilkynning sem útvarpað er gegn endurgjaldi og felur í sér kynningu vöru eða þjónustu.
Dulin auglýsing er sýning eða önnur kynning í máli eða myndum á vöru, þjónustu, vörumerki eða starfsemi aðila er framleiðir vöru eða veitir þjónustu í útvarpsdagskrám utan afmarkaðra auglýsingatíma sé slík sýning til þess ætluð af hálfu útvarpsstöðvar að þjóna auglýsingamarkmiðum og villa um fyrir notendum.
Kostun er hvers konar framlag lögaðila eða einstaklinga til framleiðslu eða sýningar dagskrárliða í útvarpi, með það fyrir augum að vekja athygli á nafni sínu, vörumerki, ímynd, starfsemi eða vörum.] 1)
[Læst útsending er hljóðvarps- eða sjónvarpsútsending ætluð almenningi þar sem hljóð- eða myndmerkjum hefur verið breytt í því skyni að veita einungis þeim aðgang að útsendingunni sem greitt hafa fyrir hana (áskrifendum).
Myndlykill er búnaður sem einum sér eða með öðrum búnaði er ætlað að veita aðgang að innihaldi læstrar útsendingar.] 2)
    1)L. 82/1993, 1. gr. 2)L. 98/1995, 1. gr.
2. gr. Ríkisútvarpið annast útvarp í samræmi við ákvæði III. kafla laga þessara.
[Öðrum aðilum má veita leyfi til útvarps. Skal starfa sérstök nefnd, útvarpsréttarnefnd, sem veitir slík leyfi skv. 3.–6. gr. laga þessara og fylgist með að reglum þeirra sé fylgt. Útvarpsréttarnefnd veitir einnig leyfi til starfrækslu útvarps þar sem einvörðungu er dreift viðstöðulaust óstyttri og óbreyttri heildardagskrá útvarpsstöðva. Slík leyfi eru einvörðungu háð ákvæðum 5. og 6. gr. eftir því sem við á.] 1)
Útvarpsréttarnefnd skipa sjö menn. Skulu þeir, ásamt jafnmörgum varamönnum, kosnir hlutfallskosningu á Alþingi til fjögurra ára. Menntamálaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi hinna kjörnu nefndarmanna.
    1)L. 82/1993, 2. gr.
3. gr. Útvarpsréttarnefnd getur veitt sveitarfélögum og öðrum lögaðilum tímabundið leyfi til útvarps fyrir almenning á afmörkuðum svæðum.
Slík leyfi eru háð eftirfarandi almennum skilyrðum:
    1. [Fjarskiptaeftirlit ríkisins úthlutar senditíðnum í samræmi við alþjóðasamþykktir og gefur út leyfisbréf til þeirra sem fengið hafa leyfi til útvarps. Í leyfisbréfi skal kveðið á um tæknilega eiginleika í samræmi við settar reglur og alþjóðasamþykktir, svo sem um tíðni og útgeislað afl. Viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár sjónvarpsstöðva skal einvörðungu heimilað um þráð og/eða þráðlaust um örbylgju. Í síðara tilfellinu skal hafa samráð við samgönguráðuneytið.] 1)
    2. [Um heimildir erlends aðila eða íslensks lögaðila, sem erlendur aðili á hlut í til að reka útvarpsstöð, fer samkvæmt lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri]. 2)
    3. [a. Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Þær skulu kosta kapps um að meiri hluti útsendrar dagskrár sé íslenskt dagskrárefni og dagskrárefni frá Evrópu.    Efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpsstöð, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal sjónvarpsstöð, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem gerst hafa. Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.
   Ákvæði lagagreinar þessarar eiga ekki við þegar um er að ræða endurvarp frá erlendum sjónvarpsstöðvum, enda sé um að ræða viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár sjónvarpsstöðva.
    3. b. Útvarpsstöðvar, sem leyfi fá til útvarps, skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þeim ber að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum.    Þeir aðilar, einstaklingar, félög eða stofnanir, sem telja að lögmætir hagsmunir þeirra, einkum orðspor og mannorð, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í útvarpsdagskrá, hafa rétt til andsvara í viðkomandi útvarpsstöð eða til annarra jafngildra úrræða.
   Telji þessir aðilar að útvarpsstöð hafi ekki uppfyllt framangreind skilyrði gagnvart þeim og þeim er synjað um að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í dagskrá með þeim hætti sem þeir vilja við una geta þeir lagt málið fyrir útvarpsréttarnefnd. Nefndin skal þá, eins fljótt og við verður komið, fella úrskurð um kæruefni og er sá úrskurður bindandi fyrir aðila.] 3)
    4. Skylt er útvarpsstöðvum að lesa tilkynningar frá almannavörnum, löggæslu, slysavarnafélögum eða hjálparsveitum og gera hlé á dagskrá ef brýna nauðsyn ber til og almannaheill krefst.
    5. Útvarpsstöðvar bera ábyrgð á því efni, sem þær senda út, í samræmi við lög um vernd barna og ungmenna, hegningarlög eða önnur lög eftir því sem við á.
    6. Útvarpsstöðvar, er leyfi fá til útvarps, skulu gera útvarpsréttarnefnd grein fyrir þeirri dagskrárstefnu sem fyrirhuguð er. Áður en útvarpsstöð tekur til starfa skulu fyrirsvarsmenn hennar tilkynna útvarpsréttarnefnd hver sé útvarpsstjóri er beri ábyrgð á útvarpsefni samkvæmt VI. kafla laga þessara. Breyting í þeim efnum skal og tilkynnt útvarpsréttarnefnd.
    7. Óheimilt er að aðrir aðilar en sá, sem leyfi hefur til útvarpsrekstrar, kosti almenna dagskrárgerð þótt ekki gildi það um einstaka dagskrárliði.
    8. Gerður skal samningur milli útvarpsréttarnefndar og útvarpsstöðvar er leyfi fær þar sem nánar er kveðið á um hver sé handhafi útvarpsleyfis, reglur, samningstíma og leyfisgjald. Þar skal enn fremur kveða á um fjárhagslega ábyrgð, svo og eftirlit með fjárreiðum og dagskrárefni.
    1)L. 82/1993, 3. gr. 2)L. 23/1991, 20. gr. 3)L. 82/1993, 4. gr.
4. gr. [Útvarpsstöðvum er heimilt að afla tekna með auglýsingum, afnotagjaldi eða sérstöku gjaldi vegna framleiðslu fræðslu- og skýringarefnis.
Auglýsingar skulu vera auðþekkjanlegar sem slíkar og vera skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni með myndskilti eða hljóðmerki og skulu þær fluttar í sérstökum almennum auglýsingatímum á milli dagskrárliða.
Heimilt er að rjúfa einstaka dagskrárliði með auglýsingatíma, enda leiði það ekki til afbökunar á dagskrárefni eða verulegrar röskunar á samfelldum flutningi eða skerði rétt rétthafa svo sem hér segir:
    a. Útsendingu dagskrárliða sem samsettir eru úr sjálfstæðum þáttum, íþróttadagskrár eða sambærilega dagskrárliði, sem svipaðir eru að uppbyggingu, er heimilt að rjúfa með auglýsingatíma á þann veg að auglýsingum sé aðeins skotið inn á milli þátta eða í hléum.
    b. Útsendingu kvikmynda, þar með talinna kvikmynda sem gerðar eru fyrir sjónvarp og eru lengri en 45 mínútur í dagskrá, má rjúfa einu sinni fyrir hvert 45 mínútna tímaskeið með auglýsingatíma. Heimilt er að rjúfa útsendingu öðru sinni ef sýningartími er meira en 20 mínútum lengri en tvö eða fleiri full 45 mínútna tímaskeið.
    c. Ef dagskrárliðir, aðrir en þeir sem fjallað er um í a-lið, eru rofnir með auglýsingum skulu líða a.m.k. 20 mínútur milli auglýsingahléa í sama dagskrárlið.
Óheimilt er að skjóta auglýsingum inn í útsendingu á guðsþjónustu eða trúarlegri dagskrá, fréttum eða fréttatengdum dagskrárliðum eða dagskrá fyrir börn.
Í sjónvarpsdagskrám skal hlutfall auglýsingatíma ekki fara yfir 15% daglegs útsendingartíma. Þó má auka þetta hlutfall í 20% ef með eru talin bein tilboð til almennings um sölu, kaup eða leigu á vörum eða veitingu þjónustu. Hlutfall auglýsinga innan tiltekins klukkutímaskeiðs má ekki fara yfir 20%. Auglýsingar á borð við bein tilboð til almennings um sölu, kaup eða leigu á vörum eða þjónustu skulu ekki fara fram yfir eina klukkustund á dag, án þess þó að skerða ákvæði þessarar málsgreinar.
Duldar auglýsingar eru bannaðar.
Í auglýsingum skal ekki beita tækni til að hafa áhrif á fólk neðan marka meðvitaðrar skynjunar.] 1)
    1)L. 82/1993, 5. gr.
[4. gr. a. Heimilt er útvarpsstöð að afla kostunar við gerð einstakra dagskrárliða, þó aldrei frétta eða fréttatengdra þátta, svo framarlega sem kostunaraðili hefur ekki áhrif á innihald eða efnistök við gerð kostaðs dagskrárliðar og raskar ábyrgð og ritstjórnarlegu sjálfstæði útvarpsstöðvar. Nú er dagskrárliður kostaður og má þá efni hans ekki fela í sér hvatningu til kaupa eða leigu á vörum eða þjónustu kostunaraðila. Heimilt er að ákveða með reglugerð að sérstakar reglur skuli gilda um dagskrárliði sem kostaðir eru af góðgerðar- eða líknarfélögum.
Kostaðar sjónvarpsdagskrár skulu vera ljóslega auðkenndar sem slíkar með nafni og/eða vörumerki kostunaraðila í upphafi og/eða lok dagskrár.] 1)
    1)L. 82/1993, 6. gr.
5. gr. [Fyrir útvarp um þráð gilda eftirtaldar reglur sérstaklega:
    1. Leyfi til útvarps um þráð er háð því að sveitarstjórnir heimili lagningu þráðar um lönd sín.
    2. Lagning og not þráðar í því skyni eingöngu að dreifa viðstöðulaust dagskrárefni útvarpsstöðva óbreyttu og óstyttu er aðeins háð skilyrðum 1. tölul. þessarar greinar, sjá þó 2. mgr. 2. gr. Samgönguráðuneytið setur reglur 1) um gerð og notkun slíkra kerfa og eftirlit með þeim. Áskilja má að notkun þessara kerfa sé háð leyfi Fjarskiptaeftirlits ríkisins.] 2)
    1)Rg. 41/1991. 2)L. 82/1993, 7. gr.
6. gr. [Heimil er öllum móttaka útvarpsdagskrár sem send er um gervitungl og ætluð almenningi til beinnar móttöku, enda verði henni ekki endurvarpað. Samgönguráðuneytið setur reglur um móttöku frá fjarskiptatunglum.
Um flutning útvarpsefnis um fjarskiptatungl milli fastra stöðva, þegar ekki er um tilbúna dagskrá að ræða sem ætluð er almenningi, gilda eingöngu ákvæði fjarskiptalaga.
Viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp um þráð og/eða þráðlaust á dagskrá, sem komin er til móttökustöðvar um gervitungl, er háð samþykki útvarpsstöðvarinnar sem dagskrána sendir og samþykki samgönguráðuneytisins ef um fjarskiptatungl er að ræða.] 1)
    1)L. 82/1993, 8. gr.
7. gr. Útvarpsstöð er heimilt að reisa sendistöð og endurvarpsstöð, eiga og reka senditæki, viðtæki og önnur slík tæki sem eru sérstaklega framleidd fyrir útvarpssendingar enda fullnægi tækin reglum sem Póst- og símamálastofnunin setur um öldutíðni, útgeislun og fleira í samræmi við settar reglur og alþjóðasamþykktir varðandi fjarskipti sem Ísland er aðili að.
8. gr. Heimilt er með reglugerð 1) að setja nánari ákvæði um framkvæmd 3.–7. gr.
Útvarpsréttarnefnd getur afturkallað leyfi til útvarps séu reglur brotnar, enda sé um alvarleg og ítrekuð brot að ræða.
[Ákvæði 2.–7. mgr. 4. gr. og 4. gr. a eiga einnig við um starfsemi Ríkisútvarpsins.] 2)
    1)Rg. 610/1989, sbr. 28/1991, (útvarp samkvæmt tímabundnum leyfum). Rg. 611/1989 (auglýsingar í útvarpi). 2)L. 82/1993, 9. gr.

II. kafli. Menningarsjóður útvarpsstöðva.
9. gr. Stofna skal Menningarsjóð útvarpsstöðva.
10. gr. Hlutverk Menningarsjóðs útvarpsstöðva er að veita framlög til eflingar innlendri dagskrárgerð, þeirri er verða má til menningarauka og fræðslu.
11. gr. Tekjur Menningarsjóðs útvarpsstöðva eru sérstakt gjald, menningarsjóðsgjald, sem skal vera 10% og leggjast á allar auglýsingar í útvarpi.
Af gjaldi þessu skal greiðast hlutur Ríkisútvarpsins af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sbr. lög nr. 36/1982, áður en til úthlutunar á styrkjum til útvarpsstöðva kemur.
Sinfóníuhljómsveitinni er rétt að gera samning við Ríkisútvarpið um réttindi þess varðandi flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar gegn eðlilegu gjaldi og sé í samningunum miðað við þá hefð og venjur sem í þeim efnum hafa mótast á undanförnum árum.
12. gr. Stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva skipa þrír menn, einn tilnefndur af útvarpsráði, einn sameiginlega af öðrum útvarpsstöðvum en Ríkisútvarpinu eða af útvarpsréttarnefnd, ef þær koma sér ekki saman, og einn af menntamálaráðherra og skal hann vera formaður nefndarinnar.
Stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva skal skipuð til tveggja ára í senn.
13. gr. Menntamálaráðherra skal kveða nánar á um starfsreglur Menningarsjóðs útvarpsstöðva í reglugerð. 1)
    1)Rg. 69/1986, sbr. 166/1991.

III. kafli. Ríkisútvarpið.
14. gr. Ríkisútvarpið er sjálfstæð stofnun í eigu íslenska ríkisins.
15. gr. Ríkisútvarpið skal leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.
Ríkisútvarpið skal halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Það skal gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.
Ríkisútvarpið skal m.a. veita almenna fréttaþjónustu og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða. Það skal flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi og sjónvarpi. Ríkisútvarpið skal flytja efni m.a. á sviði lista og bókmennta, vísinda og sögu auk tónlistar. Það skal veita almenna fræðslu og gera sjálfstæða dagskrárþætti er snerta Ísland eða Íslendinga sérstaklega.
Útvarpsefni skal miða við fjölbreytni íslensks þjóðlífs. Veita skal alla þá þjónustu sem unnt er með tækni útvarpsins og þjóðinni má að gagni koma.
[Efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpsdagskrá Ríkisútvarpsins, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal Ríkisútvarpið – sjónvarp, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem gerst hafa. Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.] 1)
    1)L. 82/1993, 10. gr.
16. gr. Ríkisútvarpið skal senda út til alls landsins og næstu miða tvær hljóðvarpsdagskrár og minnst eina sjónvarpsdagskrá árið um kring.
Heimilt er Ríkisútvarpinu að senda út fleiri dagskrár hljóðvarps eða sjónvarps, í lengri eða skemmri tíma, til alls landsins eða hluta þess samkvæmt ákvörðunum útvarpsstjóra og útvarpsráðs.
Ríkisútvarpið annast hljóðvarp til annarra landa samkvæmt ákvörðunum útvarpsstjóra og útvarpsráðs.
Ríkisútvarpið reisir eftir þörfum sendistöðvar og endurvarpsstöðvar að fenginni heimild Póst- og símamálastofnunarinnar fyrir tíðni og útgeislað afl í samræmi við settar reglur og alþjóðasamþykktir.
Heimilt er Ríkisútvarpinu að hafa samvinnu við aðra aðila um dagskrárgerð og útsendingar.
Ríkisútvarpið skal stefna að því að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar og hljóðvarps í öllum kjördæmum landsins.
Ríkisútvarpið skal starfrækja fræðsluútvarp í samvinnu við fræðsluyfirvöld og skal veita til þess fé á fjárlögum.
Heimilt er Ríkisútvarpinu að leigja öðrum aðilum afnot af tækjabúnaði sínum til útsendingar. Þjónusta Ríkisútvarpsins skal í engu minnkuð frá því sem nú er hjá Ríkisútvarpinu.
17. gr. Ríkisútvarpinu ber að stuðla að því að frumflutt dagskrárefni stofnunarinnar verði varðveitt til frambúðar. Ríkisútvarpinu er rétt að hafa til útlána eða sölu dagskrárefni sem flutt hefur verið, enda sé gengið frá samningum við rétthafa efnis um að slíkt sé heimilt.
18. gr. Forseti Íslands skipar útvarpsstjóra sem annast rekstur Ríkisútvarpsins, sér um fjárreiður þess og semur ár hvert fjárhagsáætlun þess.
Útvarpsstjóri undirbýr og stjórnar framkvæmd dagskrár og gætir þess að settum reglum um hana sé fylgt.
Útvarpsstjóri gefur út reglur um fréttaflutning og auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi, þar á meðal auglýsingatíma, að fengnu samþykki útvarpsráðs.
19. gr. Útvarpsráð skipa sjö menn. Skulu þeir, ásamt jafnmörgum varamönnum, kosnir hlutfallskosningu á Alþingi eftir hverjar alþingiskosningar. Menntamálaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi hinna kjörnu útvarpsráðsmanna.
Útvarpsstjóri á sæti á fundum útvarpsráðs og hefur þar málfrelsi og tillögurétt.
20. gr. Útvarpsráð tekur ákvarðanir um hversu útvarpsefni skuli haga í höfuðdráttum innan marka fjárhagsáætlunar.
Ráðið setur reglur, 1) eins og þurfa þykir, til gæslu þess að fylgt sé ákvæðum 15. gr. Ákvarðanir útvarpsráðs um útvarpsefni eru endanlegar. Útvarpsstjóri getur þó stöðvað gerð þegar samþykkts dagskrárefnis þyki sýnt að það reynist fjárhagslega ofviða.
    1) Augl. 39/1994.
21. gr. Undir yfirstjórn útvarpsstjóra starfar Ríkisútvarpið í þremur deildum, fjármáladeild, hljóðvarpsdeild og sjónvarpsdeild.
Fjármáladeild fjallar um sameiginleg mál stofnunarinnar, gerð fjárhagsáætlana og eftirlit með framkvæmd þeirra.
Hljóðvarpsdeild og sjónvarpsdeild annast öflun og útsendingu dagskrárefnis samkvæmt ákvörðunum útvarpsstjóra og útvarpsráðs. Gerð dagskrárefnis getur farið fram í deildunum sjálfum eða utan þeirra samkvæmt sérstökum verksamningum. Kappkosta skal að hlutur innlends efnis í dagskránni verði ætíð sem mestur og til þess vandað svo sem verða má, sbr. 20. gr.
Framkvæmdastjóri er fyrir hverri deild.
Framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins skipa útvarpsstjóri, framkvæmdastjórar og formaður útvarpsráðs. Útvarpsstjóri er formaður stjórnarinnar. Skal framkvæmdastjórn vinna að samræmingu á starfi deilda og gera tillögur um önnur mál sem fyrir hana verða lögð. Tveir fulltrúar starfsmanna Ríkisútvarpsins, annar frá hljóðvarpi, hinn frá sjónvarpi, eiga sæti á fundum framkvæmdastjórnar og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.
Starfsmenn Ríkisútvarps, aðrir en framkvæmdastjórar, skulu ráðnir af útvarpsstjóra, þó að fengnum tillögum útvarpsráðs ef um starfsfólk dagskrár er að ræða. Framkvæmdastjórar skulu skipaðir af menntamálaráðherra að fengnum tillögum útvarpsstjóra og útvarpsráðs.

IV. kafli. Fjármál Ríkisútvarpsins.
22. gr. Ríkisútvarpið hefur sjálfstæðan fjárhag. Tekjum þess má eingöngu verja í þágu útvarpsstarfsemi.
Megintekjustofnar Ríkisútvarpsins eru gjöld fyrir útvarpsafnot, gjöld fyrir auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi, … 1) og aðrir tekjustofnar sem Alþingi kann að ákveða.
Útvarpsstjóri kynnir fjárhagsáætlun fyrir útvarpsráði en sendir hana menntamálaráðherra. Alþingi staðfestir áætlunina endanlega í fjárlögum.
Menntamálaráðherra staðfestir útvarpsgjald að fengnum tillögum útvarpsstjóra.
Útvarpsstjóri staðfestir auglýsingataxta og aðrar gjaldskrár eftir tillögu framkvæmdastjóra fjármáladeildar.
    1)L. 144/1995, 3. gr.
23. gr. Í sjóð, sem nefnist Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins, skal leggja 10% af brúttótekjum stofnunarinnar.
1)
Fé Framkvæmdasjóðs skal verja til að tryggja viðunandi húsnæði, tækjakost og dreifikerfi fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins.
    1)L. 144/1995, 4. gr.
24. gr. Eigandi viðtækis, sem nýta má til móttöku á útsendingum Ríkisútvarpsins, skal greiða afnotagjald, útvarpsgjald, af hverju tæki. Þó skal aðeins greiða eitt útvarpsgjald fyrir einkaafnot fjölskyldu á heimili. Afslátt skal veita þeim, sem aðeins geta nýtt sér svart/hvíta móttöku sjónvarpsefnis, og þeim sem einungis geta nýtt sér hljóðvarpssendingar. Einnig er heimilt að veita fyrirtækjum og stofnunum afslátt vegna fjölda tækja á sama stað. Nánari ákvæði um afslátt og skilgreiningu á heimili skal setja í reglugerð.
[Í reglugerð má ákveða að þeir, sem hljóta uppbót á elli- og örorkulífeyri samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum, 1) verði undanþegnir afnotagjöldum. Í reglugerð má einnig ákveða undanþágu blindra manna frá greiðslu afnotagjalds af hljóðvarpi.] 2)
    1)l. 117/1993. 2)L. 40/1986, 1. gr.
25. gr. Eigandi, sem breytir afnotum sínum, sbr. 24. gr., skal tilkynna það Ríkisútvarpinu þegar í stað.
Hver sá, er fæst við sölu viðtækja, skal tilkynna innheimtudeild Ríkisútvarpsins í fyrstu viku næsta mánaðar eftir sölumánuð hverjir séu kaupendur. Í tilkynningunni skal greina fullt nafn, nafnnúmer og heimilisfang kaupanda og seljanda, enn fremur aðrar upplýsingar samkvæmt reglugerð.
26. gr. Ríkisútvarpið heldur skrá yfir öll viðtæki sem notuð eru hér á landi og í íslenskum skipum og flugvélum og nota má til móttöku útvarpsefnis.
Afmá skal viðtæki af skrá ef sönnur, sem innheimtustjóri metur gildar, eru á það færðar að tækið sé orðið ónýtt eða verði af öðrum ástæðum ekki lengur notað til móttöku útsendingar Ríkisútvarpsins.
27. gr. Útvarpsgjaldi ásamt dráttarvöxtum, öðru vangreiðsluálagi og öllum innheimtukostnaði fylgir lögveðsréttur í viðkomandi viðtæki sem helst þótt eigendaskipti verði. Gengur veðið fyrir hvers konar eldri sem yngri samningsveðum, dómveðum og öðrum höftum sem á viðtæki kunna að hvíla, nema eignarréttarfyrirvörum.
Lögveðið helst í þrjú ár frá gjalddaga.
Eigendur viðtækja bera ábyrgð á greiðslu útvarpsgjalda af þeim til Ríkisútvarpsins sem á hafa fallið áður en tilkynning um eigendaskipti skv. 25. gr. hefur borist Ríkisútvarpinu.
28. gr. Innheimtustjóri Ríkisútvarpsins skal fullnægja almennum dómaraskilyrðum.
29. gr. Fyrsta virkan dag eftir eindaga leggst á útvarpsgjald 10% álag vegna kostnaðar af innheimtu.
[Lögtaksréttur er fyrir ógreiddum útvarpsgjöldum, álagi skv. 1. mgr., vöxtum og innheimtukostnaði.] 1)
    1)L. 92/1991, 84. gr.
30. gr. Innheimtustjóri getur framkvæmt eða látið framkvæma innsiglun á viðtæki:
    1. ef það er hagnýtt til móttöku án þess að það hafi verið tilkynnt til Ríkisútvarpsins,
    2. ef vanskil eru orðin á greiðslu útvarpsgjalds,
    3. ef hlutaðeigandi aðili hefur sagt upp útvarpsnotum.
Nú eru fyrir hendi skilyrði samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. eða gert hefur verið lögtak í viðtæki fyrir vangreiddu útvarpsgjaldi og getur þá innheimtustjóri tekið eða látið taka viðtækið úr vörslu eiganda eða annars vörslumanns.
1)
    1)L. 90/1991, 90. gr.

V. kafli. Dreifing og réttindi.
31. gr. Ríkisútvarpið, útvarpsréttarnefnd og Póst- og símamálastofnunin skulu hafa náið samstarf til að tryggja að útvarps- og fjarskiptastarfsemi verði í heild sem hagstæðust fyrir þjóðina.
Heimilt er útvarpsstjóra, að fengnu samþykki menntamálaráðherra, að semja við Póst- og símamálastofnunina um að reisa og reka sendistöðvar og endurvarpsstöðvar Ríkisútvarpsins.
32. gr. Ríkisútvarpið hefur sama rétt og Póst- og símamálastofnunin um nauðsynlegar lagnir um lönd manna, lóðir og byggingar vegna starfsemi sinnar. Óheimilt er að leggja svo nýjar lagnir að þær trufli lagnir eða tæki Ríkisútvarpsins. Reynist raflagnir, vélar eða tæki fyrirtækja, sem stofnsett eru í nágrenni útvarpsstöðva, valda truflunum á starfsemi Ríkisútvarpsins eða útvarpsstöðva er leyfi hafa til útsendinga, sbr. 3. gr., er viðkomandi stöðvum heimilt að gera eða fyrirskipa á kostnað eiganda nauðsynlegar ráðstafanir til að hindra slíkar truflanir. Sama gildir ef fyrirtæki breyta starfsemi eða vélabúnaði sínum þannig að truflunum valdi. Starfsmönnum Póst- og símamálastofnunarinnar er heimilt að fara tálmunarlaust um lönd manna til eftirlits eða athugana á þessum efnum, en skulu forðast að valda eigendum eða íbúum meiri óþægindum en brýnasta nauðsyn krefur.
33. gr. Óheimilt er útvarpsnotanda að hagnýta sér útvarpsefni til fjárgróða, t.d. með upptöku þess, útgáfu eða með því að selja aðgang að viðtæki sínu.

VI. kafli. Ábyrgð á útvarpsefni.
34. gr. Hver sá, sem heimild hefur til rekstrar útvarps samkvæmt lögum þessum, skal varðveita í a.m.k. 18 mánuði hljóðupptöku af öllu frumsömdu útsendu efni. Þó skal heimilt að varðveita fréttir í handriti. Skylt er að láta þeim, sem telur misgert við sig í útsendingu, í té afrit af hljóðupptöku þeirrar útsendingar.
35. gr. Ef útsending á útvarpsefni brýtur í bága við lög fer um refsi- og fébótaábyrgð svo sem hér segir:
Sá sem flytur sjálfur efni í eigin nafni ber ábyrgð á því. Gildir það bæði um efni sem útvarpað er samtímis því að það er flutt og efni sem útvarpað er samkvæmt áður gerðri upptöku. Ákvæði þessarar málsgreinar taka einnig til samtals í útvarpi, þannig að hver, sem tekur þátt í samtali í eigin nafni, ber ábyrgð á sínu framlagi í því.
Flytjandi ber ábyrgð á efni sem annar maður hefur samið.
Á samsettu dagskrárefni ber sá ábyrgð sem útsendingu stjórnar hverju sinni, enda sé ekki um að ræða flutning eða samtal sem ábyrgðarreglur 2. eða 3. mgr. taka til. Jafnan skal skrá fyrir fram í gerðabók hver sé stjórnandi útsendingar.
Auglýsandi ber ábyrgð á auglýsingu.
Útvarpsstjóri ber ábyrgð á öðru efni.
Nú hefur tiltekinn starfsmaður útvarpsstöðvar, sbr. 4. mgr., eða útvarpsstjóri, sbr. 6. mgr., orðið fébótaskyldur og ber útvarpsstöðin þá ásamt honum ábyrgð á greiðslu bóta.
36. gr. Engan skal dæma til ábyrgðar vegna útsendingar á útvarpsefni né fyrir hlutdeild í útsendingu annan en þann sem ábyrgð ber eftir ákvæðum 35. gr.
Skylt er útvarpsstöð að veita hverjum þeim, sem telur rétti sínum hafa verið hallað með útsendingu á útvarpsefni, fullnægjandi upplýsingar um hver hafi borið ábyrgð á útsendingunni samkvæmt ákvæðum 35. gr.
Um rétt til málssóknar út af brotum í sambandi við útsendingu útvarpsefnis fer eftir almennum reglum laga. Refsiábyrgð og fébótaskylda falla niður ef 6 mánuðir líða frá útsendingu án þess að einkamál sé höfðað, krafa hafi verið borin fram um opinbera málssókn, þegar það á við, eða hafin sé opinber [rannsókn] 1) út af broti ef það á að sæta skilyrðislausri opinberri saksókn.
    1)L. 19/1991, 195. gr.

VII. kafli. Ýmis ákvæði.
37. gr. Óheimil hagnýting útvarpsefnis samkvæmt 33. gr. varðar sektum. Beita má varðhaldsrefsingu ef sök er stórfelld. Upptæk má gera viðtæki sem notuð hafa verið til hagnýtingar á útvarpsefni í fjárgróðaskyni, sbr. 33. gr.
Vanræksla á tilkynningum samkvæmt 25. gr. varðar sektum.
Um önnur brot á lögum þessum fer eftir ákvæðum almennra hegningarlaga.
[37. gr. a. Óheimilt er að framleiða, afhenda, leigja, setja upp eða gera við myndlykla í því skyni að veita einhverjum utan hóps áskrifenda aðgang að innihaldi læstrar útsendingar.
Óheimilt er að nota myndlykil til þess að taka á móti læstri útsendingu án þess að greiða áskriftargjaldið.
Brot gegn ákvæðum 1. mgr. varðar sektum eða varðhaldi allt að sex mánuðum. Tilraun til brots og hlutdeild í brotum er refsiverð samkvæmt ákvæðum III. kafla almennra hegningarlaga.
Hluti og búnað, sem notaðir hafa verið við brot gegn ákvæðum 1. og 2. mgr., skal gera upptæka, nema þeir séu eign aðila sem ekki er við brotið riðinn. Ávinning, sem aflað hefur verið með broti, skal gera upptækan.
Hið upptæka skal vera eign ríkissjóðs. Hafi einhver beðið tjón við brotið skal sá eiga forgang til andvirðis hins upptæka ef bætur fást ekki á annan hátt.] 1)
    1)L. 98/1995, 2. gr.
38. gr. Ráðherra setur með reglugerð 1) nánari ákvæði um framkvæmd laganna í heild eða einstakra kafla þeirra. Ákveða má í reglugerð að brot gegn ákvæðum hennar varði refsingu samkvæmt lögum.
    1)Rg. 610/1989, sbr. 28/1991, (útvarp samkvæmt tímabundnum leyfum). Rg. 611/1989 (auglýsingar í útvarpi). Rg. 69/1986 (Menningarsjóður útvarpsstöðva). Rg. 357/1986, sbr. 478/1986, 67/1989 og 29/1991 (um Ríkisútvarpið).
39. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1986. …
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir það sem segir í 2. tölul. 3. gr. er utanríkisráðuneytinu heimilt að veita varnarliðinu leyfi til áframhaldandi útvarpsrekstrar, sbr. lög nr. 110/1951 og lög nr. 106/1954, og skal þá tekið mið af ákvæðum I. kafla að svo miklu leyti sem við getur átt.
Lög þessi skal endurskoða innan þriggja ára frá setningu þeirra.