Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. febrúar 1997. Útgáfa 121a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um mat á umhverfisáhrifum
1993 nr. 63 21. maí
1. gr. Markmið laga þessara er að tryggja að áður en tekin er ákvörðun um framkvæmdir sem kunna, vegna staðsetningar, starfsemi sem þeim fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum, svo og að tryggja að slíkt mat verði fastur liður í gerð skipulagsáætlana.
2. gr. Í lögum þessum merkir:
-
Framkvæmdaraðili: Ríki, sveitarfélag, stofnun eða fyrirtæki í eigu slíkra aðila að nokkru eða hluta, lögaðili eða einstaklingur er hyggst hefja framkvæmdir sem lög þessi taka til.
Leyfisveitandi: Lögbært yfirvald sem veitir endanlegt leyfi til framkvæmda.
3. gr. Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til. Skipulagsstjóri ríkisins annast framkvæmd laganna.
4. gr. Lög þessi gilda um allar framkvæmdir sem kunna að hafa umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag.
Lög þessi hagga ekki strangari ákvæðum annarra laga um mat á umhverfisáhrifum.
Beita skal ákvæðum skipulagslaga, nr. 19 21. maí 1964, ásamt síðari breytingum, við framkvæmd þessara laga eins og þau geta átt við.
5. gr. Eftirtaldar framkvæmdir eru háðar umhverfismati:
1. Vatnsorkuvirkjanir með uppsett afl 10 MW eða meira eða vatnsmiðlanir þar sem meira en 3 km 2 lands fara undir vatn vegna stíflumannvirkja og/eða breytinga á árfarvegi.
2. Jarðvarmavirkjanir með varmaafl 25 MW eða meira að hráorku eða 10 MW uppsett afl eða meira og önnur varmaorkuver með 10 MW uppsett afl eða meira.
3. Lagning háspennulína með 33 KV spennu eða hærri.
4. Efnistökustaðir (malarnám) á landi 50.000 m 2 eða stærri að flatarmáli eða þar sem fyrirhuguð efnistaka er meiri en 150.000 m 3.
5. Þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn utan byggða.
6. Förgunarstöðvar fyrir eitraðan og hættulegan úrgang og almennar sorpeyðingarstöðvar þar sem skipuleg förgun eða urðun á sorpi og úrgangi fer fram.
7. Verksmiðjur þar sem fram fer frum- eða endurbræðsla á steypujárni, stáli og áli.
8. Efnaverksmiðjur.
9. Lagning nýrra vega, járnbrauta og flugvalla.
10. Hafnir sem skip stærri en 1.350 tonn geta siglt um.
Enn fremur eru háðar mati á umhverfisáhrifum þær framkvæmdir sem taldar eru upp í fylgiskjali með lögum þessum en ekki eru tilgreindar í 1. mgr.
Umhverfisráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að aðrar framkvæmdir skuli háðar slíku mati í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.
6. gr. Umhverfisráðherra er heimilt, að fengnu áliti skipulagsstjóra, að ákveða að tiltekin framkvæmd eða framkvæmdir, sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag, en ekki er getið í 5. gr., verði háðar mati samkvæmt lögum þessum.
Áður en ákvörðun skv. 1. mgr. er tekin skal ráðherra leita umsagnar framkvæmdaraðila, leyfisveitanda og hlutaðeigandi sveitarstjórna.
7. gr. Áður en hafist er handa um framkvæmdir sem lög þessi eða reglugerð samkvæmt þeim taka til skal framkvæmdaraðili senda skipulagsstjóra tilkynningu um fyrirhugaða framkvæmd þar sem fram kemur lýsing á framkvæmdinni, ráðgerðri hönnun og hugsanlegri umhverfisröskun og fyrirhuguðum ráðstöfunum til að draga úr henni og aðrar upplýsingar sem skipulagsstjóri telur nauðsynlegar.
Skipulagsstjóri birtir innan tveggja vikna tilkynningu framkvæmdaraðila ásamt meðfylgjandi gögnum skv. 1. mgr. með opinberri auglýsingu. Athugasemdum skal skilað til skipulagsstjóra innan fimm vikna frá birtingu auglýsingar.
8. gr. Innan átta vikna frá því að skipulagsstjóri hefur birt tilkynningu framkvæmdaraðila skal hann kveða upp rökstuddan úrskurð um það hvort:
a. fallist er á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða,
b. ráðist skuli í frekara mat á umhverfisáhrifum.
Þegar ákvörðun skipulagsstjóra liggur fyrir skal hún kynnt framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og sveitarstjórnum sem hlut eiga að máli. Jafnframt skal birta hana opinberlega.
9. gr. Framkvæmdaraðili sér um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þessum og ber kostnað af því.
Skipulagsstjóri ríkisins setur almennar leiðsögureglur um framkvæmd matsins að teknu tilliti til sérákvæða í lögum og alþjóðlegra skuldbindinga.
10. gr. Í mati á umhverfisáhrifum skal tilgreina á viðeigandi hátt áhrif sem framkvæmdir og fyrirhuguð starfsemi kunna að hafa á menn, samfélag og menningu, dýr, plöntur og aðra þætti lífríkis, jarðveg, vatn, loft, veðurfar, landslag og samverkan þessara þátta. Þar skal gera sérstaka grein fyrir því hvaða forsendur liggi til grundvallar matinu.
Innan tveggja vikna frá því að skipulagsstjóri hefur tekið á móti niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum skal hann birta þær með opinberri auglýsingu. Athugasemdum skal skilað til skipulagsstjóra innan fimm vikna frá auglýsingu.
11. gr. Innan átta vikna frá því að skipulagsstjóri hefur birt niðurstöður mats á umhverfisáhrifum skal hann kveða upp rökstuddan úrskurð á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Í úrskurði felst að:
a. fallist er á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða,
b. krafa er gerð um frekari könnun einstakra þátta eða
c. lagst er gegn viðkomandi framkvæmd.
Þegar úrskurður skipulagsstjóra liggur fyrir skal hann kynntur framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og sveitarstjórnum sem hlut eiga að máli. Jafnframt skal birta úrskurðinn eða útdrátt úr honum opinberlega.
Almenningur skal eiga greiðan aðgang að úrskurði skipulagsstjóra, svo og niðurstöðum matsins.
12. gr. Ráðherra er heimilt að ákveða með sérstakri reglugerð að innheimt skuli gjald af framkvæmdaraðila vegna kostnaðar embættis skipulagsstjóra ríkisins af málsmeðferð samkvæmt lögum þessum.
[12. gr. a. Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda sem lög þessi taka til, hefja framkvæmdir eða staðfesta skipulagsáætlanir samkvæmt skipulagslögum, nr. 19 21. maí 1964, ásamt síðari breytingum, nema ákvæða laga þessara hafi verið gætt.] 1)
1)L. 110/1993, 1. gr.
13. gr. Í leyfi til framkvæmda ber leyfisveitanda að taka fullt tillit til niðurstaðna mats á umhverfisáhrifum og úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins.
14. gr. Úrskurð skipulagsstjóra skv. 8. og 11. gr. má kæra til umhverfisráðherra innan fjögurra vikna frá því að hann er birtur eða kynntur fyrir viðkomandi aðila.
Áður en umhverfisráðherra kveður upp úrskurð sinn skal hann leita umsagnar skipulagsstjóra, framkvæmdaraðila, leyfisveitenda og sveitarstjórna sem hlut eiga að máli.
Umhverfisráðherra skal kveða upp rökstuddan úrskurð innan átta vikna frá því er beiðni barst honum.
15. gr. Umhverfisráðherra kveður nánar á um framkvæmd laga þessara í reglugerð. 1)
1)Rg. 179/1994.
16. gr. Brot gegn lögum þessum varða sektum. Um meðferð þeirra fer að hætti opinberra mála.
17. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
I. Lög þessi skulu endurskoðuð jafnframt því sem fram fer endurskoðun skipulagslaga, nr. 19 21. maí 1964, ásamt síðari breytingum, og byggingarlaga, nr. 54 16. maí 1978, ásamt síðari breytingum.
II. Þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laga þessara eru framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þessum.
Fylgiskjal.
Skrá yfir þær framkvæmdir sem ætíð eru háðar umhverfismati, sbr. I. viðauka við tilskipun 85/337/EBE.
1. Olíuhreinsunarstöðvar (þó ekki fyrirtæki sem framleiða eingöngu smurolíur úr hráolíu) og mannvirki fyrir kolagösun og þéttingu úr a.m.k. 500 tonnum af kolum eða jarðbiksleir á dag.
2. Varmaorkuver og önnur brennsluver með a.m.k. 300 megavatta hitaafköst og kjarnorkuver og aðrir kjarnakljúfar (nema rannsóknastöðvar með yfir 1 kílóvatts heildarhitaafköst þar sem fram fer umbreyting á kjarnakleyfum efnum og tímgunarefnum).
3. Mannvirki eingöngu ætluð til langtímageymslu eða endanlegrar geymslu á geislavirkum úrgangi.
4. Verksmiðjur með blandaða framleiðslu þar sem fram fer frumbræðsla á steypujárni og stáli.
5. Mannvirki fyrir asbestnám og vinnslu og úrvinnslu á asbesti og afurðum sem innihalda asbest: fyrir afurðir úr asbestsementi með ársframleiðslu sem er yfir 20.000 tonn af fullunnum vörum, fyrir núningsþolin efni með ársframleiðslu sem er yfir 50 tonn af fullunnum vörum og fyrir aðra notkun asbests ef notkun er meiri en sem nemur 200 tonnum á ári.
6. Efnaverksmiðjur með blandaða framleiðslu.
7. Lagning vega, hraðbrauta 1) og langra járnbrauta, svo og flugvalla 2) með 2.100 m langa meginflugbraut eða lengri.
8. Viðskiptahafnir, skipgengar vatnaleiðir og innhafnir sem skip stærri en 1.350 tonn geta siglt um.
9. Förgunarstöðvar þar sem eitraður og hættulegur úrgangur er brenndur, hlýtur efnameðhöndlun eða er urðaður.
1)Í þessari tilskipun merkir „hraðbraut“: hraðbraut samkvæmt skilgreiningu í Evrópusamningnum um aðalumferðaræðar milli landa frá 15. nóvember 1975. 2)Í þessari tilskipun merkir „flugvöllur“: flugvelli samkvæmt skilgreiningunni í Chicago-samþykktinni frá 1944 um stofnun Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (14. viðauki).