Lagasafn. Íslensk lög 1. október 1997. Útgáfa 121b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um listmenntun á háskólastigi
1995 nr. 43 7. mars
1. gr. Menntamálaráðherra er heimilt að gera samning við lögaðila, félög eða stofnanir um að annast menntun á háskólastigi í listum sem fari fram á vegum sjálfstæðrar stofnunar, að fullnægðum þeim kröfum sem gerðar eru af hálfu menntamálaráðuneytisins til slíkrar menntunar.

Listmenntun á háskólastigi skal miðuð við að nemendur öðlist þekkingu og leikni til sjálfstæðrar listsköpunar og listtúlkunar. Sá aðili, sem með samningi skv. 1. mgr. veitir menntun í listum á háskólastigi, ákveður inntökuskilyrði nemenda, enda svari inntökuskilyrði og námskröfur jafnan til þess sem tíðkast í viðurkenndum listaháskólum erlendis.
2. gr. Í samningi skv. 1. mgr. 1. gr. þessara laga skal m.a. kveðið á um á hvaða sviðum skuli veita háskólamenntun í listum, námskröfur og námsframboð. Enn fremur skal í samningnum kveða á um hvernig framlögum úr ríkissjóði skuli háttað. Fjárframlög skulu háð fjárveitingu í fjárlögum. Samningur um listmenntun á háskólastigi skal í fyrsta sinn gerður til fimm ára.

Fyrir lok fyrsta samningstímabilsins skulu óháðir sérfræðingar fengnir til að gera úttekt á starfsemi viðkomandi stofnunar í heild og skal skýrsla um niðurstöður úttektarinnar lögð fyrir Alþingi.
3. gr. Nú gerir menntamálaráðherra samning um listmenntun á háskólastigi með heimild í 1. gr. þessara laga og frestast þá framkvæmd reglugerðar um Leiklistarskóla Íslands, nr. 190/1978, og laga um Myndlista- og handíðaskóla Íslands, nr. 38/1965, meðan á samningstíma stendur, enda verði í samningnum ákvæði um áframhald náms og námslok nemenda er þegar hafa innritast í þessa skóla.
4. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.