Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 1998.  Útgáfa 122b.  Prenta í tveimur dálkum.


Ættleiðingarlög

1978 nr. 15 8. maíI. kafli. Veiting ættleiðingarleyfa og lagaskilyrði fyrir þeim.
1. gr. Dómsmálaráðherra veitir leyfi til ættleiðingar.
2. gr. Eigi má veita leyfi til ættleiðingar, nema sýnt þyki eftir könnun á málefnum væntanlegs kjörbarns og þeirra, er óska ættleiðingar, að ættleiðing sé barninu til gagns, enda sé það ætlun ættleiðenda að ala upp barnið eða barn hafi verið alið upp hjá þeim eða aðrar sérstakar ástæður liggi til ættleiðingar.
3. gr. Eigi er manni heimilt að ættleiða barn sitt.
4. gr. Leyfi til ættleiðingar verður veitt þeim einum, sem náð hefur 25 ára aldri, en þó má, ef sérstaklega stendur á, veita manni, sem orðinn er tvítugur, leyfi til ættleiðingar.
5. gr. Hjón skulu bæði standa að ættleiðingu, sbr. þó 2. mgr., enda er hjónum einum heimilt að ættleiða saman.
Öðru hjóna má þó veita leyfi til ættleiðingar, ef hitt er horfið, geðveikt eða fáviti eða geðrænum högum þess að öðru leyti er svo háttað, að það beri ekki skyn á gildi ættleiðingar. Öðru hjóna má og með samþykki hins veita leyfi til að ættleiða barn þess eða kjörbarn.
Meðan ættleiðandi er á lífi, verður kjörbarn hans eingöngu ættleitt af maka hans.
6. gr. Eigi má ættleiða þann, sem orðinn er tólf ára, án samþykkis hans. Samþykki skal gefa skriflega, og skal barn njóta leiðsagnar um lagaáhrif ættleiðingar, svo sem segir í 10. gr.
7. gr. Samþykki foreldra þarf til ættleiðingar barns undir 18 ára aldri.
Nú hefur annað foreldra eigi forræði barns eða er horfið, geðveikt eða fáviti eða geðrænum högum þess er að öðru leyti svo háttað, að það má eigi láta uppi marktæka yfirlýsingu, og er þá samþykki hins nægilegt. Ef þannig er ástatt um bæði foreldri, þarf samþykki lögráðamanns.
8. gr. Áður en ákvörðun er tekin um umsókn um ættleiðingarleyfi, skal, ef unnt er, leita umsagnar þess foreldris, sem eigi þarf að samþykkja ættleiðingu, sbr. 7. gr., enda sé geðrænum högum þess eigi svo háttað, að girði fyrir, að það geti látið uppi yfirlýsingu, sem mark sé takandi á. Nú er sérstakur lögráðamaður skipaður, og skal þá leita umsagnar hans. Enn fremur skal leita umsagnar barnaverndarnefndar, sem í hlut á.
Nú er sá, sem ættleiða á, í hjúskap, og skal þá leita umsagnar maka hans.
9. gr. Nú er sá lögræðissviptur, sem ættleiða á, og skal þá leita umsagnar lögráðamanns, áður en afstaða er tekin til ættleiðingarbeiðni.
10. gr. Samþykki til ættleiðingar skal gefa skriflega, og skal viðkomandi staðfesta yfirlýsingu fyrir starfsmanni dómsmálaráðuneytisins eða öðrum opinberum starfsmanni eða stofnun, sem dómsmálaráðuneytið löggildir til þessa.
Samþykki er eigi gilt, nema staðfest sé hið fyrsta þremur mánuðum eftir fæðingu barns, nema alveg sérstaklega hagi til.
Rita skal á samþykkisyfirlýsingu vottorð starfsmanns dómsmálaráðuneytisins eða annars opinbers starfsmanns eða starfsmanns stofnunar, sbr. 1. mgr., þess efnis, að viðkomandi hafi fengið fræðslu um lagaáhrif ættleiðingar og samþykkisyfirlýsingar.
Samþykki er gilt, þótt væntanlegir kjörforeldrar séu eigi nafngreindir, ef samþykki lýtur að því að ráðstafa barni til ættleiðingar til foreldris, sem barnaverndarnefnd (félagsmálastofnun) ákveður eða annar aðili, sem ráðuneytið kann að löggilda til að hafa milligöngu um ættleiðingar. Endranær er samþykki eigi gilt, nema væntanlegir kjörforeldrar séu nafngreindir.
11. gr. Dómsmálaráðherra getur ákveðið, að samþykki, sem gefið er fyrir opinberum starfsmanni eða starfsmanni stofnunar erlendis, jafngildi samþykki, sem gefið er fyrir opinberum starfsmanni eða starfsmanni stofnunar hér á landi, sbr. 1. mgr. 10. gr., og má að því leyti heimila frávik frá reglum 1.–3. mgr. 10. gr.
12. gr. Nú tekur aðili, sem lögbær er um að láta uppi samþykki samkvæmt 7. sbr. 10. gr., aftur samþykki sitt, áður en gengið er frá ættleiðingarleyfi, og er þá yfirleitt eigi heimilt að gefa út leyfið. Veita má þó leyfi til ættleiðingar, þegar svona stendur á, ef barn hefur verið í fóstri hjá ættleiðingarbeiðanda eða þegar hagir barns mæla að öðru leyti eindregið með því, að það verði ættleitt, og afturköllun á samþykki styðst eigi við skynsamleg rök.
Nú fæst ekki samþykki lögbærs aðilja samkvæmt 7. og 10. gr., og er þá, ef alveg sérstaklega stendur á, heimilt að veita leyfi til ættleiðingar, ef þarfir barns mæla eindregið með því, enda fallist barnaverndarráð á þá skipan mála.
Nú hefur barni verið ráðstafað af barnaverndarnefnd, og má þá samkvæmt ósk nefndar og að fengnum meðmælum barnaverndarráðs leyfa ættleiðingu á barni, þótt samþykki samkvæmt 7. og 10. gr. sé ekki til að dreifa, að gættum skilmálum 2. mgr.
Áður en máli er ráðið til lykta samkvæmt 1.–3. mgr., skal leita umsagnar foreldra, sem láta skyldu uppi samþykki samkvæmt 7. gr. Einnig skal leita umsagnar foreldris, sem eigi þarf að samþykkja ættleiðingu, sbr. 8. gr., nema dómsmálaráðuneyti telji, að slíkt sé til tjóns fyrir barnið eða valdi varhugaverðum drætti á úrlausn máls.
13. gr. Nú er veitt leyfi til ættleiðingar samkvæmt 12. gr. án þess að samþykki samkvæmt 7., sbr. 10. gr., liggi fyrir, og skal ráðuneytið þá án tafar skýra þeim aðiljum, sem bærir voru til að samþykkja ættleiðingu, frá leyfi og benda þeim á, að heimilt sé að bera leyfisveitingu undir dómstól.
Réttur aðili getur borið framangreinda ákvörðun dómsmálaráðuneytis undir dómstól, enda sé mál höfðað innan 6 mánaða frá því að dómsmálaráðuneyti sendi aðilja tilkynningu samkvæmt 1. mgr. Stefnandi skal njóta gjafsóknarkjara.
14. gr. Áður en ættleiðingarleyfi er veitt, skal leiða í ljós, hvort innt hafi verið gjald eða ætlun sé að greiða af hendi gjald í sambandi við ættleiðingu af hálfu annars hvors aðiljans, og ef svo er, þá hversu hátt gjaldið sé. Má ganga eftir skriflegum yfirlýsingum aðilja um þetta.
Ef ættleiðendum er greitt gjald samkvæmt 1. mgr., má binda ættleiðingu því skilyrði, að tryggt sé, að greiðsla renni til kjörbarns eða framfærslu þess.

II. kafli. Lagaáhrif ættleiðingar.
15. gr. Við ættleiðingu öðlast kjörbarn sömu réttarstöðu gagnvart kjörforeldrum, ættmennum þeirra og þeim, sem eru í kjörsifjum við þá, eins og væri það skilgetið barn kjörforeldra, nema lög mæli annan veg. Frá sama tíma falla niður lagatengsl barnsins og kynforeldra þess, nema lög kveði annan veg á.
Nú ættleiðir aðili barn maka síns eða kjörbarn, og fær barnið þá réttarstöðu sem væri það skilgetið barn þeirra hjóna.
Kjörbarn kennir sig til kjörforeldra, nema kjörforeldri óski eftir því, að barn haldi fyrra kenningarnafni. Þó getur kjörbarn, sem náð hefur 12 ára aldri, ráðið því sjálft, hvort það haldi kenningarnafni sínu eða taki upp kenningarnafn annars kjörforeldris. Tilkynna skal presti um ættleiðingu barns og nafnbreytingu til færslu í kirkjubók. Sama gildir um niðurfellingu ættleiðingar.
16. gr. Foreldravald og önnur lögráð, ásamt réttindum og skyldum þeim samfara, flytjast til ættleiðanda. Lýkur þá framfærsluskyldu kjörbarns og foreldris þess.
Um erfðatengsl kjörbarns og kjörforeldris fer að erfðalögum.

III. kafli. Niðurfelling ættleiðingar.
17. gr. Dómsmálaráðherra getur fellt niður ættleiðingu, ef kjörforeldri og kjörbarn eru sammála um að æskja þess. Ef aðili er sviptur lögræði, þarf einnig samþykki lögráðamanns.
Nú er kjörbarn ólögráða, og verður ættleiðing þá eigi niður felld samkvæmt 1. mgr., nema kjörforeldrar og kynforeldrar séu sammála um það, og niðurfelling ættleiðingar verði talin henta best þörfum barns. Ef kjörbarn hefur náð 12 ára aldri, þarf einnig samþykki þess. Samþykkið skal vera skriflegt, og skal barn njóta leiðsagnar um lagaáhrif ættleiðingar, sbr. 10. gr.
Nú hafa kjörforeldrar látist, og getur dómsmálaráðherra þá samkvæmt ósk kynforeldra fellt niður ættleiðingu, ef þarfir barnsins mæla með því. Nú hefur kjörbarn náð 12 ára aldri, og þarf þá samþykki þess. Um samþykki fer svo sem segir í 3. málsl. 2. mgr.
18. gr. Unnt er að fella ættleiðingu niður með dómi, sbr. 2. mgr., ef kjörforeldri brýtur mjög af sér gagnvart barni eða vanrækir stórlega þær skyldur, sem á því hvíla vegna ættleiðingar, svo og ef telja verður að öðru leyti að það varði kjörbarn miklu, að ættleiðing sé felld niður.
Mál til niðurfellingar ættleiðingar samkvæmt 1. mgr. höfðar kjörbarn. Nú er það ólögráða, geðveikt eða fáviti eða geðrænum högum þess að öðru leyti er svo háttað, að það getur ekki staðið að málssókn, og höfðar lögráðamaður þá málið eða dómsmálaráðherra eða aðili, sem hann felur það. … 1)
    1)L. 91/1991, 160. gr.
19. gr. Nú hafa hjón ættleitt barn saman, og tekur þá niðurfelling ættleiðingar til þeirra beggja, enda sé hjúskap þeirra eigi lokið.
Unnt er að fella niður ættleiðingu samkvæmt 18. gr., 1. mgr., þótt aðeins annað kjörforeldra hafi sýnt af sér atferli, sem þar greinir.
20. gr. Nú er barn ættleitt öðru sinni, og fellur þá fyrri ættleiðing niður, sbr. þó 15. gr., 2. mgr.
21. gr. Nú er ættleiðing felld niður, og falla þá úr gildi lagaáhrif ættleiðingar milli kjörbarns og kjörforeldris og ættmenna kjörforeldris. Þegar sérstaklega stendur á, getur dómstóll, sbr. 18. gr., kveðið svo á, að kjörforeldri skuli greiða fé til framfærslu barnsins.
Nú er ættleiðing felld úr gildi samkvæmt 2. eða 3. mgr. 17. gr., og takast þá að nýju lagatengsl milli barnsins og kynforeldra þess. Ef ættleiðing er felld niður samkvæmt 18. gr., getur dómstóll ákveðið, með hliðsjón af aðdraganda að niðurfellingu ættleiðingar, aldri barns og atvikum að öðru leyti, að lagatengsl barns við kynforeldra og ættmenni þess skuli rakna við.
Kjörbarni er heimilt þrátt fyrir niðurfellinguna að halda kenningarnafni sínu, er það fékk við ættleiðingu, en getur einnig tekið upp fyrra kenningarnafn sitt.
Að öðru leyti veldur niðurfelling ættleiðingar því eigi, að lagatengsl barns við kynforeldri og aðra ættmenn rakni við.
22. gr. Dómstóll leitar, ef hægt er, eftir áliti þeirra aðilja, sem skyldu samþykkja ættleiðingu í öndverðu eða láta uppi umsögn um ættleiðingarumsókn, áður en máli er ráðið til lykta. Dómstóll getur þó, ef sérstök rök mæla með, ákveðið, að umsagnar skuli ekki leitað, einkum ef ekki er ætlunin að láta lagatengsl barns við kynforeldri og aðra ættmenn rakna við.

IV. kafli. Ýmis ákvæði.
23. gr. Dómsmálaráðherra setur reglur um ættleiðingarumsóknir og getur mælt fyrir um sérstök eyðublöð undir þær og um gögn, er þeim skuli fylgja, og um form og efni samþykkisyfirlýsingar, svo og um könnun á umsóknum þessum, þ. á m. um félagslega könnun á högum aðilja.
24. gr. Heimilt er að ákveða, með samningum við önnur ríki, að ríkisborgurum þeirra ríkja megi eigi veita leyfi til ættleiðingar hér á landi og að ríkisborgarar þeirra verði eigi ættleiddir hér á landi, nema með skilyrðum, sem greind séu í samningi. Slík samningsákvæði geta einnig tekið til niðurfellingar ættleiðingar, ef ríkisborgari frá ríki því, sem samningur er gerður við, á í hlut.
25. gr. Dómsmálaráðherra getur ákveðið með reglugerð, að íslenskir ríkisborgarar verði eigi ættleiddir, nema með nánar tilteknum skilyrðum í ríkjum, sem til eru greind í reglugerð, svo og að íslenskir ríkisborgarar megi því aðeins ættleiða barn í ríkjum þessum, að nánar tilteknum skilyrðum sé fullnægt.
Með hliðstæðum hætti getur dómsmálaráðherra ákveðið, að ættleiðing verði eigi felld niður í tilteknum erlendum ríkjum, svo að réttaráhrif hafi hér á landi, ef ættleiðandi er íslenskur ríkisborgari.

V. kafli. Gildistökuákvæði o.fl.
26. gr. Lög þessi taka gildi 1. janúar 1979.

27. gr. Ákvæði 10. gr. á ekki við um samþykki, sem látið er uppi fyrir gildistöku laganna.
Ákvæði III. kafla laganna eiga einnig við um ættleiðingu, sem til er stofnað fyrir gildistöku laganna.