Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. maí 1999. Útgáfa 123b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur
1989 nr. 52 29. maí
1. gr. Á innfluttar drykkjarvörur í einnota umbúðum úr málmi, gleri eða plastefni skal leggja skilagjald sem innheimt skal við tollafgreiðslu. Má gjaldið nema allt að 10 krónum á hverja umbúðaeiningu og er ráðherra heimilt að hækka hámarksfjárhæðina í samræmi við breytingar á verði drykkjarvaranna frá gildistöku laga þessara. Sama gjald skal lagt á drykkjarvörur sem framleiddar eru eða átappaðar hér á landi og seldar eru í sams konar umbúðum og að framan greinir. Skal greiða gjaldið samhliða vörugjaldi af innlendum drykkjarvörum. Til viðbótar skilagjaldi skal með sama hætti leggja á umsýsluþóknun sem í fyrstu nemur 1% af skilagjaldi, en ráðherra er heimilt að hækka hana í allt að 5% af skilagjaldi.
Að svo miklu leyti sem ekki er kveðið á um í lögum þessum skulu ákvæði laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, eiga við um álagningu, innheimtu, viðurlög, kærur, eftirlit og aðra framkvæmd gjaldtöku samkvæmt þessari grein.
2. gr. Iðnaðarráðherra skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags sem taki að sér umsýslan skilagjaldsins svo og söfnun og endurvinnslu einnota umbúða er falla undir lög þessi. Til samvinnu um stofnun og starfsemi hlutafélagsins skal iðnaðarráðherra heimilt að kveðja til aðila sem áhuga hafa á málinu. Heimilt er að semja við félagið um að það fái umsýsluþóknun skilagjaldsins til að standa undir rekstri sínum og auk þess skilagjald af þeim umbúðum sem eigi er skilað. Ríkissjóði er heimilt að eiga aðild að félaginu og leggja fram allt að 12 milljónum króna.
Félagið skal hafa einkarétt til framangreindrar starfsemi hér á landi.
3. gr. Skilagjald skal endurgreiða neytendum við móttöku á notuðum skilagjaldsskyldum umbúðum. Sömuleiðis skal greiða samsvarandi til einstaklinga, fyrirtækja eða félagasamtaka sem taka að sér að safna slíkum umbúðum til eyðingar eða endurvinnslu.
Félagið skal sjá til þess að koma upp skilvirku fyrirkomulagi á söfnun skilagjaldsskyldra umbúða um land allt. Félagið skal einnig endurvinna umbúðir eða koma þeim til endurvinnslu eða eyðingar.
Félagið skal kappkosta að ná sem bestum skilum á skilagjaldsskyldum umbúðum og hafa samstarf við sveitarfélög, einstaklinga, fyrirtæki og félagasamtök um sérstakar hreinsunarherferðir þar sem áhersla verður lögð á söfnun skilagjaldsskyldra umbúða. Enn fremur verði leitað samstarfs við þá aðila sem aðstöðu hafa til úrvinnslu umbúðanna.
Félagið skal greiða 5% af árlegum tekjuafgangi til Náttúruverndarráðs.
4. gr. Í reglugerð, 1) sem [umhverfisráðherra] 2) setur, skal kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara, m.a. varðandi fjárhæð, innheimtu og endurgreiðslu skilagjaldsins, gerð og efnisval skilagjaldsskyldra umbúða fyrir drykkjarvörur og upphæð umsýsluþóknunar. Við ákvörðun umsýsluþóknunar skal við það miðað að félagið geti staðið undir kostnaði við starfsemina og skilað hluthöfum hóflegum arði af hlutafé.
[Umhverfisráðherra] 2) er heimilt að ákveða í reglugerð bann við notkun einnota drykkjarvöruumbúða sem torvelt er að eyða eða koma til endurvinnslu samkvæmt lögum þessum.
1)Rg. 282/1994, sbr. 148/1995, 214/1995 og 446/1996. 2)L. 47/1990, 13. gr.
5. gr. Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Með mál vegna slíkra brota skal farið að hætti opinberra mála.
6. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.