Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. febrúar 2000.  Útgáfa 125a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um tóbaksvarnir

1984 nr. 74 28. maíI. kafli. Markmið, gildissvið og stjórn.
1. gr.
1.1. Markmið laga þessara er að draga úr tóbaksneyslu, og þar með því heilsutjóni sem hún veldur, og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks.
2. gr.
2.1. Með tóbaki er í lögum þessum átt við tóbaksjurtir (nicotiana) og allan varning unninn úr þeim til neyslu, svo sem sígarettur, vindla, reyktóbak, neftóbak og munntóbak.
2.2. Lög þessi taka einnig til varnings sem ætlaður er til neyslu með sama hætti og tóbak þótt hann innihaldi ekki tóbak, enda gildi ekki um hann önnur lög.
2.3. Lög þessi gilda ekki um tóbak sem notað er sem lyf, samkvæmt lyfjalögum, nr. 49/1978, 1) eða sem eiturefni, samkvæmt lögum nr. 85/1968, 2) um eiturefni og hættuleg efni.
    1)l. 93/1994. 2)l. 52/1988.
3. gr.
3.1. Með reykfærum er í lögum þessum átt við áhöld og útbúnað, tengdan tóbaksreykingum, svo sem sígarettupappír, reykjarpípur, tæki til að vefja sígarettur svo og annan slíkan varning.
4. gr.
4.1. Yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum er í höndum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
5. gr.
5.1. Ráðherra skipar tóbaksvarnanefnd til fjögurra ára í senn. Í nefndinni eiga sæti þrír menn, og skulu a.m.k. tveir vera sérfróðir um skaðsemi tóbaks eða tóbaksvarnir. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar einn nefndarmann formann.
5.2. Hlutverk tóbaksvarnanefndar er fyrst og fremst:
    1. Að vera ríkisstjórn, heilbrigðismálaráðherra, Hollustuvernd ríkisins, Vinnueftirliti ríkisins og öðrum opinberum aðilum til ráðuneytis um allt er að tóbaksvörnum lýtur.
    2. Að gera tillögur til stjórnvalda um ráðstafanir til þess að vinna gegn neyslu tóbaks í samræmi við lög þessi.
    3. Að hvetja aðra aðila til átaks í reykingavörnum og leitast við að samræma störf þeirra.
    4. Að veita aðstoð og leiðbeiningar varðandi tóbaksvarnir, m.a. með því að gefa út og útvega fræðslurit og önnur fræðslugögn.
    5. Að fylgjast með tóbaksneyslu í landinu.
    6. Að nýta reynslu og þekkingu annarra þjóða á sviði tóbaksvarna.
5.3. Fjármálaráðuneytið skal hafa samráð við tóbaksvarnanefnd um stefnumörkun varðandi innflutning og verðlagningu tóbaks.
5.4. Leita skal álits nefndarinnar um allar reglugerðir sem snerta tóbaksvarnir og tóbakssölu.
5.5. Tóbaksvarnanefnd starfar í samvinnu við Hollustuvernd ríkisins og Vinnueftirlit ríkisins.
5.6. Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um hlutverk og störf tóbaksvarnanefndar í reglugerð.

II. kafli. Sala og auglýsingar.
6. gr.
6.1. Tóbak má því aðeins hafa til sölu eða dreifingar að [skráðar séu viðvaranir] 1) um skaðsemi vörunnar á umbúðir hennar.
[6.2. Sígarettupakka skal merkja sérstaklega með upplýsingum um tjöru- og nikótíninnihald.] 1)
[6.3.] 1) Ráðherra setur í reglugerð 2) nánari ákvæði um merkingar þessar, þ. á m. um aðvörunartexta, stærð hans, letur og annað sem máli kann að skipta.
[6.4.] 1) Tóbaksframleiðendur standa straum af kostnaði við merkingar samkvæmt þessari grein.
    1)L. 101/1996, 1. gr. 2)Rg. 433/1995, sbr. 234/1997 (viðvörunarmerkingar á tóbaki).
7. gr.
7.1. Hvers konar auglýsingar á tóbaki og reykfærum eru bannaðar hér á landi. Þetta nær þó ekki til auglýsinga í ritum sem út eru gefin utanlands af erlendum aðilum á erlendum tungumálum, enda sé megintilgangur þeirra ekki að auglýsa slíkar vörur. [Þrátt fyrir það er Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins heimilt að gefa út verðskrá fyrir tóbak og birta skrá yfir skaðleg efni í tóbaksvörum.] 1)
7.2. Bannað er enn fremur að sýna neyslu eða hvers konar meðferð tóbaks eða reykfæra í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu [og í myndskreytingu á varningi]. 1)
7.3. [Með auglýsingum er í lögum þessum m.a. átt við:
    1. hvers konar tilkynningar til almennings eða sérstakra markhópa, þar á meðal útstillingar í gluggum verslana, hvers konar skilti og svipaðan búnað,
    2. alla notkun hefðbundinna tóbaksvörumerkja (heita og auðkenna) eða hluta þeirra; undanskildar eru þó vörur sem framleiddar eru undir slíkum merkjum, enda gilda auglýsingatakmarkanir laganna um þær að öðru leyti,
    3. hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir nema ljóst sé að hún miði beinlínis að því að koma á framfæri upplýsingum sem draga úr skaðsemi tóbaksneyslu,
    4. dreifingu vörusýna til neytenda.] 1)
    1)L. 101/1996, 2. gr.
8. gr.
[8.1. Tóbak má hvorki selja né afhenda einstaklingum yngri en 18 ára. Bann þetta skal auglýst með áberandi hætti þar sem tóbak er selt. Leiki vafi á um aldur kaupandans getur sala því aðeins farið fram að hann sýni með skilríkjum fram á að hann sé orðinn 18 ára.
8.2. Bannað er að flytja inn, framleiða og selja leikföng eða sælgæti sem er eftirlíking af sígarettum, vindlum eða reykjarpípum eða er ætlað að minna á tóbak með öðrum hætti, svo sem myndskreytingu.
8.3. Bannað er að selja tóbak úr sjálfsölum.
8.4. Ekki er heimilt að selja sígarettur í minna magni en heilum 20 stykkja pökkum.
8.5. Bannað er að flytja inn, framleiða og selja fínkornótt neftóbak og munntóbak, að undanskildu skrotóbaki. 1)
8.6. Ekki má selja tóbak í skólum, stofnunum fyrir börn og unglinga eða á heilbrigðisstofnunum.] 2)
    1)Rg. 251/1997. 2)L. 101/1996, 3. gr.

III. kafli. Takmörkun á tóbaksreykingum.
9. gr.
9.1. Tóbaksreykingar eru óheimilar í þeim hluta af húsnæði stofnana, fyrirtækja og annarra þar sem almenningur leitar aðgangs í sambandi við afgreiðslu eða þjónustu sem þessir aðilar veita. Þetta gildir þó ekki um veitinga- og skemmtistaði. [Á þeim veitingastöðum þar sem megináhersla er lögð á kaffiveitingar og matsölu skulu þó ávallt vera reyklaus svæði, ekki síðri en þau svæði þar sem reykingar eru leyfðar, og tryggja skal að aðgangur að þeim liggi ekki um reykingasvæði.] 1)
9.2. Þar sem tóbaksreykingar eru óheimilar skv. 1. tölul. skal það gefið til kynna með merki eða á annan greinilegan hátt.
    1)L. 101/1996, 4. gr.
10. gr.
[10.1. Tóbaksreykingar eru með öllu óheimilar:
    1. Í grunnskólum, á leikskólum, hvers konar dagvistum barna og í húsakynnum sem eru fyrst og fremst ætluð til félags-, íþrótta- og tómstundastarfa barna og unglinga.
    2. Á opinberum samkomum innan húss sem einkum eru ætlaðar börnum eða unglingum.
    3. Í framhaldsskólum og sérskólum.
    4. Á heilsugæslustöðvum, á læknastofum og öðrum stöðum þar sem veitt er heilbrigðisþjónusta. Það á þó ekki við íbúðarherbergi vistmanna á hjúkrunar- og dvalarheimilum en þar er þó skylt að gefa þeim sem ekki reykja kost á reyklausum íbúðarherbergjum.
    5. Á sjúkrahúsum. Þó má leyfa reykingar sjúklinga í vissum tilvikum. Ráðherra setur reglugerð þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd undanþágunnar.
10.2. Forstöðumenn allra annarra opinberra stofnana en um getur í 1. mgr. skulu í samráði við starfsfólk gera áætlun um bann við reykingum innan viðkomandi stofnunar sem kemur til framkvæmda eigi síðar en fyrir lok ársins 2000. Innan sérhverrar stofnunar skal þó heimilt að gera ráð fyrir afdrepi þar sem reykingar eru heimilaðar.] 1)
    1)L. 101/1996, 5. gr.
11. gr.
11.1. Forráðamenn húsnæðis, sem almenningur hefur aðgang að en fellur ekki undir 9. og 10. gr. laga þessara, geta sjálfir ákveðið að takmarka reykingar í húsnæðinu. Skal slíkt látið greinilega í ljós á staðnum og tilkynnt heilbrigðisnefnd eða Vinnueftirliti ríkisins eftir því sem við á samkvæmt 1. mgr. 17. gr. og gilda þá ákvæði þessara laga þar sem við á.
12. gr.
12.1. Um tóbaksreykingar á vinnustöðum, öðrum en skv. 9. og 10. gr., fer samkvæmt nánari reglum 1) sem setja skal í samráði við Vinnueftirlit ríkisins. Skal þess gætt sérstaklega að þeir, sem ekki nota tóbak, verði ekki fyrir óþægindum.
    1)Rg. 88/1999 (tóbaksvarnir á vinnustöðum).
13. gr.
13.1. Tóbaksreykingar eru óheimilar í farþegarými almenningsfarartækja sem rekin eru gegn gjaldtöku.
13.2. Heimilt er forráðamönnum flugvéla að leyfa reykingar í hluta farþegarýmis í atvinnuflugi milli landa. Þess skal þó ávallt gætt að óþægindi skapist ekki fyrir þá sem ekki reykja.
13.3. Setja skal sérreglugerð 1) í samráði við [Siglingastofnun Íslands] 2) um tóbaksreykingar um borð í skipum.
    1)Rg. 124/1993. 2)L. 7/1996, 12. gr., sbr. 30. gr.

IV. kafli. Fræðslustarfsemi.
14. gr.
14.1. Menntamálaráðuneytið skal í samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið sjá til þess að fram fari reglubundin fræðsla [í því skyni að draga úr tóbaksneyslu]: 1)
    1. Í skólum landsins. Sérstök áhersla skal lögð á slíka fræðslu í grunnskólum og skólum þeim sem mennta fólk til starfa að uppeldis-, fræðslu- og heilbrigðismálum.
    2. Í [fjölmiðlum]. 1)
14.2. [Fræðsla um áhrif tóbaksneyslu og leiðir til að draga úr henni skal veitt á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum.] 1)
    1)L. 101/1996, 6. gr.

V. kafli. Almenn ákvæði.
15. gr.
[15.1. Skylt er að verja a.m.k. 0,7% af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarnastarfs.
15.2. Tóbaksvarnanefnd ráðstafar fénu í samráði við ráðherra.] 1)
    1)L. 101/1996, 7. gr.
16. gr.
16.1. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð 1) nánari ákvæði um framkvæmd laganna.
    1)Rg. 251/1997. Rg. 88/1999.

VI. kafli. Eftirlit og viðurlög.
17. gr.
17.1. Heilbrigðisnefndir, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hafa eftirlit með útsölustöðum tóbaks og fylgjast með því í umdæmi sínu að virt séu ákvæði II. kafla laga þessara um merkingar, auglýsingar og sölu tóbaks.
17.2. Nú er brotið gegn ákvæðum II. kafla og ekki farið að fyrirmælum heilbrigðisnefndar og getur nefndin þá beitt sömu úrræðum og talin eru upp í 27. gr. laga nr. 50/1981. 1)
    1)l. 7/1998.
18. gr.
[18.1. Heilbrigðisnefndir, Vinnueftirlit ríkisins, Siglingastofnun Íslands og Flugmálastjórn hafa, eftir því sem við á, eftirlit með því að virt séu ákvæði III. kafla laga þessara í samræmi við þau lög sem gilda um þessar stofnanir.
18.2. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd eftirlitsins.] 1)
    1)L. 101/1996, 8. gr.
19. gr.
19.1. Sá sem brýtur gegn ákvæðum 6. og 7. gr. skal sæta sektum en [fangelsi allt að 2 árum] 1) séu sektir miklar eða brot ítrekað.
19.2. Brot gegn ákvæðum 1. mgr. 8. gr. varða sektum. Fella má refsingu niður ef málsbætur eru miklar.
19.3. Brot gegn ákvæðum [2.–6. mgr.] 2) 8. gr. varða sektum.
19.4. Um tilraun til brots eða hlutdeild gilda ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    1)L. 82/1998, 173. gr. 2)L. 101/1996, 9. gr.
20. gr.
20.1. Það varðar mann sektum haldi hann áfram að reykja í húsakynnum eða farartæki þar sem bannað er að reykja skv. 9., 10. og 13. gr., sbr. einnig 11. gr., enda hafi umráðamaður húsakynna eða stjórnandi farartækis eða fulltrúi þeirra veitt honum áminningu.
20.2. Sömu aðilar geta vísað hinum brotlega úr farartækinu eða húsakynnum láti hann ekki segjast.
21. gr.
21.1. Með mál, sem kunna að rísa vegna brota á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, skal farið að hætti opinberra mála.

VII. kafli. Gildistaka.
22. gr.
22.1. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1985. …
Ákvæði til bráðabirgða.