Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög í febrúar 2001.  Útgáfa 126a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um birtingu laga og stjórnvaldaerinda

1943 nr. 64 16. desember1. gr. Í A-deild Stjórnartíðinda skal birta lög öll, tilskipanir, opin bréf, auglýsingar … 1) og aðrar tilkynningar almenns efnis, sem út eru gefnar af æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins, svo og reglur, sem sameinað Alþingi kann að setja um framkvæmd almennra málefna í þingsályktunum.
    1)L. 22/1962, 1. gr.
2. gr. Í B-deild Stjórnartíðinda skal birta reglugerðir, erindisbréf, samþykktir og auglýsingar, sem gefnar eru út eða staðfestar af ráðherra, umburðarbréf, ákvarðanir og úrlausnir ráðuneyta, sem almenna þýðingu hafa, veitingar opinberra starfa og lausn frá þeim, er handhafi æðsta framkvæmdarvalds eða ráðherra fer með, reikninga sjóða, ef svo er mælt í staðfestum skipulagsákvæðum þeirra, úrslit alþingiskosninga, skrá yfir félög, firmu og vörumerki, sem tilkynnt hafa verið á árinu, heiðursmerki, nafnbætur og heiðursverðlaun, sem ríkisstjórnin veitir. [Einnig skal þar birta reglur sem opinberum stjórnvöldum og stofnunum, öðrum en ráðuneytum, er falið lögum samkvæmt að gefa út.] 1)
[Í C-deild Stjórnartíðinda skal birta samninga við önnur ríki, svo og auglýsingar varðandi gildi þeirra.] 2)
    1)L. 95/1994, 1. gr. 2)L. 22/1962, 2. gr.
3. gr. Í Lögbirtingablaði skal birta dómsmálaauglýsingar, svo sem opinberar stefnur til dóms, úrskurði um töku búa til opinberra skipta og áskoranir um kröfulýsingar, auglýsingar um skiptafundi og skiptalok þrotabúa, [nauðungarsölur, þar á meðal á fasteignum búa] 1) sem [eru til opinberra skipta] 2) auglýsingar um vogrek, óskilafé og fundið fé, auglýsingar um kaupmála hjóna, lögræðissviptingu og brottfall hennar, lögboðnar auglýsingar um félög, firmu og vörumerki, sérleyfi, er stjórnvöld veita, opinber verðlagsákvæði og annað það, er stjórnvöldum þykir rétt að birta almenningi. Einnig skal heimilt vera að birta í Lögbirtingablaði auglýsingar og tilkynningar einstakra manna.
    1)L. 90/1991, 91. gr. 2)L. 20/1991, 136. gr.
4. gr. Vafamál um það, hvar birta skuli atriði þau, er í 1.–3. gr. segir, eða hvort erindi skuli birt eða eigi, úrskurðar dómsmálaráðherra.
5. gr. Dómsmálaráðuneytið gefur Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað út. Ræður dómsmálaráðherra mann eða menn til útgáfunnar og segir fyrir um tilhögun hennar. Skylt er skrifstofustjórum hvers ráðuneytis að fá útgefanda þegar handrit af hverju því, sem afgreitt hefur verið í því ráðuneyti og birta ber í Stjórnartíðindum eða Lögbirtingablaði.
6. gr. Kostnaður af útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs telst til skrifstofukostnaðar dómsmálaráðuneytisins, enda kveður dómsmálaráðherra á um gjöld fyrir auglýsingar, er aðilar eiga að greiða. Einnig getur dómsmálaráðherra sett fyrirmæli um annað, er að útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs lýtur.
7. gr. Fyrirmælum, er felast í lögum, auglýsingum, tilskipunum, reglugerðum, opnum bréfum, samþykktum eða öðrum slíkum ákvæðum almenns efnis, má eigi beita, fyrr en birting samkvæmt 1. og 2. gr. laga þessara hefur farið fram, nema þau geymi ákvæði algerlega einkamálaeðlis og aðilar hafi komið sér saman um það, að skipti þeirra skuli fara eftir óbirtum fyrirmælum. Birt fyrirmæli skulu binda alla frá og með 1. degi þess mánaðar, er liðnir eru 3 almanaksmánuðir hið skemmsta frá útgáfudegi þess blaðs Stjórnartíðinda, er fyrirmælin voru birt, nema þau geymi aðrar ákvarðanir um gildistöku sína.