Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög í febrúar 2001.  Útgáfa 126a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um tannlækningar

1985 nr. 38 12. júní1. gr. [Rétt til þess að stunda tannlækningar hér á landi og kalla sig tannlækni hefur:
    1. sá sem fengið hefur leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 2. og 3. gr.,
    2. sá sem fengið hefur staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á tannlækningaleyfi í landi sem aðili er að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um þá sem stunda mega tannlækningar hér á landi skv. 2. tölul. 1. mgr.] 1)
    1)L. 116/1993, 2. gr.
2. gr. [Leyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hefur prófi frá tannlæknadeild Háskóla Íslands.] 1)
Áður en leyfi er veitt samkvæmt þessari grein skal leita umsagnar tannlæknadeildar Háskóla Íslands um hæfni umsækjanda til tannlæknisstarfa. Heimilt er ráðherra að synja um leyfi ef umsögn er neikvæð.
    1)L. 116/1993, 2. gr.
3. gr. [Veita má manni, sem lokið hefur sambærilegu prófi og um getur í 1. mgr. 2. gr. í landi utan hins Evrópska efnahagssvæðis, leyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. Tannlæknadeild Háskóla Íslands getur sett það skilyrði fyrir meðmælum sínum að umsækjandi sanni deildinni hæfni sína með prófi. Sé um erlenda ríkisborgara, aðra en ríkisborgara frá EES-landi, að ræða skulu þeir enn fremur sanna fullnægjandi kunnáttu sína í íslenskri tungu. Binda má leyfið við ákveðinn tíma. Leita skal umsagnar Tannlæknafélags Íslands og landlæknis.] 1)
Gerist Ísland aðili að milliríkjasamningi um gagnkvæma viðurkenningu á starfsréttindum tannlækna skal fara eftir ákvæðum þessarar greinar eftir því sem við getur átt og samrýmist viðkomandi milliríkjasamningi.
    1)L. 116/1993, 2. gr.
4. gr. Heimilt er að synja manni um tannlækningaleyfi eigi 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga við um hagi hans.
5. gr. [Tannlæknir hefur rétt til að kalla sig sérfræðing og starfa sem slíkur hér á landi hafi:
    1. hann fengið til þess leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra,
    2. hann fengið staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á sérfræðingsleyfi frá landi sem aðili er að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
Ráðherra setur reglur um nám sérfræðinga að fengnum tillögum nefndar sem hann skipar til þriggja ára í senn. Í nefndinni skulu eiga sæti deildarforseti tannlæknadeildar Háskóla Íslands, og er hann jafnframt formaður, yfirtannlæknir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og aðili tilnefndur af Tannlæknafélagi Íslands. Nefnd þessi skal einnig gefa umsögn um umsóknir um sérfræðileyfi og skal við meðferð einstakra mála heimilt að kveðja til tvo sérfróða tannlækna í þeirri sérgrein sem sótt er um viðurkenningu á. Fá þeir þá einnig atkvæðisrétt í nefndinni.
Ráðherra skal með reglugerð 1) setja nánari reglur um þá sem kalla mega sig sérfræðinga í tannlækningum skv. 2. tölul. 1. mgr.] 2)
    1)Rg. 402/1986, sbr. 358/1988. 2)L. 116/1993, 2. gr.
6. gr. Verksvið tannlækna tekur til varna, greiningar og meðferðar á tannskemmdum, tannskekkju og tannleysi, til sjúkdóma, slysa og galla er þessu tengjast, þar með talið í mjúkvefjum og beinum.
7. gr. Um lyfjaávísanir tannlækna fer samkvæmt lyfjalögum, nr. 108/1984, 1) og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
    1)l. 93/1994.
8. gr. Tannlæknum er heimilt að hafa aðstoðarfólk. 1) Um sérhæft aðstoðarfólk fer samkvæmt lögum um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir.
    1)Rg. 258/1990 (menntun, réttindi og skyldur aðstoðarmanna tannlækna).
9. gr. Aðstoðarfólk samkvæmt 8. gr. skal ávallt starfa undir handleiðslu og á ábyrgð tannlæknis. Það hefur ekki heimild til að taka að sér sjálfstæð verkefni á neinu sviði sem undir tannlækningar falla.
Öðrum en tannlæknum og sérhæfðu aðstoðarfólki undir þeirra stjórn er óheimilt að stunda tannlækningar.
10. gr. Sérhverjum tannlækni er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins.
Sama þagnarskylda hvílir á öllu aðstoðarfólki tannlækna og helst þagnarskyldan þótt viðkomandi láti af starfi.
11. gr. Tannlæknum eru óheimilar hvers konar auglýsingar um starfsemi sína sem tannlæknar. Við opnun tannlæknastofu má þó auglýsa það með látlausri auglýsingu í blöðum sem mest má birta þrisvar sinnum. Tannlæknum og stéttarfélagi þeirra ber að vinna gegn því að eftir þeim séu birt ummæli eða samtöl eða um þá ritaðar greinar í blöð eða tímarit í auglýsingaskyni. Verði ekki komið í veg fyrir það ber þeim eða stéttarfélagi þeirra jafnskjótt að leiðrétta það sem ofmælt kann að hafa verið.
12. gr. Ef landlæknir verður þess var að tannlæknir vanrækir skyldur sínar, fer út fyrir verksvið sitt eða brýtur í bága við fyrirmæli heilbrigðislaga landsins skal hann áminna viðkomandi og skýra jafnframt heilbrigðisráðuneytinu og Tannlæknafélagi Íslands frá áminningunni og tilefni hennar.
Komi áminningin ekki að haldi ber landlækni að kæra málið fyrir ráðherra. Getur þá ráðherra úrskurðað að viðkomandi skuli sviptur tannlækningaleyfi, en skjóta má þeim úrskurði til dómstólanna.
[Ákvæðum 1. og 2. mgr. svo og ákvæðum 13. gr. skal beitt eftir því sem við á gagnvart þeim sem fengið hafa staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. eða 2. tölul. 1. mgr. 5. gr.
Nú er einstaklingur, sem hér starfar á grundvelli leyfis skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. eða 2. tölul. 1. mgr. 5. gr., sviptur því leyfi og fellur þá niður heimild hans til að starfa á grundvelli þess hér á landi.] 1)
    1)L. 116/1993, 2. gr.
13. gr. Sérhverjum tannlækni ber að viðhalda þekkingu sinni. Telji landlæknir að tannlæknir hafi sýnt að hann uppfylli ekki lengur þau skilyrði sem krefjast beri af honum skýrir hann ráðherra frá málavöxtum. Ráðherra leitar álits tannlæknadeildar Háskóla Íslands. Fallist hún á álit landlæknis má svipta viðkomandi tannlækningaleyfi, en skjóta má þeim úrskurði til dómstólanna.
14. gr. Tannlæknar skulu færa sjúkraskrár yfir sjúklinga sem þeir annast. Óheimilt er að ónýta slíkar skrár nema með leyfi heilbrigðisráðherra að fengnum tillögum landlæknis. Þegar tannlæknir lætur af störfum skal sjúkraskrám, sem hann hefur fært, komið í umsjá landlæknis.
15. gr. Brot gegn ákvæðum laga þessara varða, auk sviptingar tannlækningaleyfis, sbr. 12. og 13. gr., sektum [eða fangelsi allt að 2 árum]. 1)
Að öðru leyti gilda ákvæði 18. gr. læknalaga, nr. 80/1969, 2) eftir því sem við á.
    1)L. 82/1998, 177. gr. 2)l. 53/1988.
16. gr. Ákvæði læknalaga, nr. 80 frá 23. júní 1969, 1) skulu gilda að öðru leyti, eftir því sem við getur átt, um tannlækna og sérmenntað aðstoðarfólk þeirra.
    1)l. 53/1988.
17. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. …