Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög í febrúar 2001. Útgáfa 126a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn
1994 nr. 71 11. maí
I. kafli. Stjórnsýsla.
1. gr. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er sjálfstæð háskólastofnun með sérstaka stjórn og heyrir stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra.
2. gr. Menntamálaráðherra skipar fimm menn í stjórn bókasafnsins til fjögurra ára í senn svo sem hér segir: Tvo að tilnefningu háskólaráðs, einn að tilnefningu Rannsóknarráðs Íslands, einn að tilnefningu Bókavarðafélags Íslands og einn án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
Ráðherra skipar einn stjórnarmanna formann og annan varaformann.
Stjórnin markar bókasafninu stefnu, hefur umsjón með gerð starfs- og fjárhagsáætlana safnsins og eftirlit með starfsemi þess.
Forstöðumaður bókasafnsins, landsbókavörður, situr fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétt, svo og einn fulltrúi starfsmanna bókasafnsins.
Menntamálaráðherra ákveður stjórnarmönnum þóknun.
3. gr. [Ráðherra skipar landsbókavörð til fimm ára í senn.] 1) Landsbókavörður skal skipaður úr hópi þeirra umsækjenda sem stjórn bókasafnsins telur hæfa.
Heimilt er að endurskipa landsbókavörð einu sinni án þess að staðan sé auglýst að fenginni umsögn stjórnar.
Landsbókavörður annast daglegan rekstur og stjórn bókasafnsins og kemur fram fyrir hönd þess út á við. Landsbókavörður skal árlega semja tillögu að starfsáætlun og fjárhagsáætlun bókasafnsins og leggja fyrir stjórn þess.
1)L. 83/1997, 137. gr.
4. gr. Landsbókavörður ræður aðstoðarlandsbókavörð … 1) úr hópi þeirra umsækjenda sem stjórn bókasafnsins telur hæfa. … 1)
Landsbókavörður ræður jafnframt aðra starfsmenn bókasafnsins.
1)L. 83/1997, 138. gr.
5. gr. Í reglugerð 1) skal kveðið á um deildaskiptingu bókasafnsins, svo og um safnráð, er sé samráðsvettvangur yfirmanna bókasafnsins og forstöðumanna deilda.
1)Rg. 706/1998.
II. kafli. Hlutverk og markmið.
6. gr. Bókasafnið er þjóðbókasafn og bókasafn Háskóla Íslands.
Safnið er rannsóknarbókasafn sem skal halda uppi ávirkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu á sviði vísinda og fræða, stjórnsýslu og atvinnulífs.
7. gr. Hlutverk bókasafnsins er m.a.:
1. Að viða að sér gögnum í prentuðu formi eða á öðrum miðlum, skrá þau og búa í hendur notendum.
2. Að þaulsafna íslenskum gögnum, m.a. með viðtöku skylduskila, svo og að afla erlendra gagna er varða íslensk málefni.
3. Að varðveita handritasöfn þau sem stofnað hefur verið til, sbr. 2. mgr. 14. gr., vinna að frekari söfnun og rannsóknum íslenskra handrita og samsvarandi efnis á nýrri miðlum. Hið sama á við um hliðstætt erlent efni sem varðar Ísland.
4. Að tryggja sem best viðhald og varðveislu safnkostsins. Í því skyni skal m.a. starfrækja bókbandsstofu, viðgerðarstofu og myndastofu. Þá skal taka frá eitt eintak af öllu efni sem berst í skylduskilum, undanskilja það allri venjulegri notkun og geyma tryggilega.
5. Að starfrækja bókminjasafn.
6. Að gera skrár um íslenskar bækur, handrit og hljóðrit, svo og eftir atvikum margvíslegar efnisskrár.
7. Að halda uppi rannsóknum á sviði íslenskrar bókfræði og bóksögu og veita upplýsingar um íslenska bókaútgáfu.
8. Að starfrækja landsskrifstofu fyrir alþjóðabóknúmerakerfi og samsvarandi númerakerfi annarra safngagna, eftir því sem stjórn bókasafnsins ákveður.
9. Að gefa safngestum kost á vinnuaðstöðu og sem greiðustum aðgangi að safngögnum.
10. Að leiðbeina notendum bókasafnsins eftir föngum um heimildaöflun og halda uppi fjölþættri upplýsingaþjónustu.
11. Að sinna þörfum kennslu og rannsóknarstarfsemi í Háskóla Íslands.
12. Að stuðla að sínu leyti að sjálfstæði og frumkvæði háskólanema í námi.
13. Að veita bókasafns- og upplýsingaþjónustu í þágu atvinnuvega, stjórnsýslu, rannsókna og hvers konar lista- og menningarmála í landinu.
14. Að starfrækja samskrá bókasafna og láta bókasöfnum í té tölvu- og skráningarþjónustu eftir því sem stjórn bókasafnsins ákveður.
15. Að stuðla að samræmingu starfshátta í íslenskum bókasöfnum, veita þeim faglega ráðgjöf og eiga við þau sem víðtækast samstarf.
16. Að vera landsmiðstöð fyrir millisafnalán.
17. Að taka þátt í fjölþjóðlegu samstarfi á sviði rannsóknarbókasafna og upplýsingamála.
18. Að stuðla að fræðslu- og menningarstarfsemi, m.a. með því að standa að fyrirlestrahaldi, sýningum og listviðburðum.
Kveðið skal nánar á um hlutverk bókasafnsins í reglugerð.
III. kafli. Fjárhagsmálefni.
8. gr. Kostnaður við rekstur bókasafnsins greiðist úr ríkissjóði. Þá skal hluti af fjárveitingu til Háskóla Íslands renna árlega til bókasafnsins samkvæmt sérstöku samkomulagi milli bókasafnsins og Háskólans.
Rekstur, endurnýjun og viðhald fasteigna, búnaðar og tækja greiðist úr ríkissjóði og er sérstakur fjárlagaliður.
9. gr. Heimilt er að bjóða út vissa þætti í starfsemi bókasafnsins, svo sem veitingarekstur, ákveðin verkefni á vegum bókbandsstofu, viðgerðarstofu, myndastofu o.fl.
Stjórn bókasafnsins er einnig heimilt að semja við aðrar stofnanir um að annast ákveðna þjónustu sem bókasafninu er að lögum falið að rækja.
Enn fremur getur bókasafnið með samþykki menntamálaráðuneytis gert samkomulag við aðrar stofnanir um að litið sé á ritakost þeirra sem hluta af íslenskum þjóðbókakosti.
10. gr. Bókasafninu er heimilt að taka gjald fyrir ákveðna þætti þjónustunnar, svo sem millisafnalán, tölvuleitir, sérfræðilega heimildaþjónustu, fjölföldun hvers konar og úttak tölvugagna. Gjaldskrá vegna þessarar þjónustu skal háð samþykki stjórnar bókasafnsins.
IV. kafli. Ýmis ákvæði.
11. gr. Heimilt er að grisja efniskost bókasafnsins og farga eða ráðstafa til annarra aðila því efni sem bókasafnið telur sig ekki lengur þurfa á að halda. Landsbókavörður setur reglur um slíka grisjun að fengnu samþykki stjórnar bókasafnsins.
12. gr. Menntamálaráðherra skal með reglugerð 1) setja nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga. Í reglugerð skal m.a. mælt fyrir um starfshætti bókasafnsins, starfssvið stjórnenda þess og stjórnarfundi og boðun þeirra. Þá skal nánar kveðið á um form og efnistök umsagna sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 4. gr. laganna.
Í reglugerð má ákveða viðurlög við brotum notenda á reglum bókasafnsins.
1)Rg. 706/1998.
13. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. Bókasafnið skal taka til starfa 1. desember 1994.
…
Ákvæði til bráðabirgða.
14. gr. …