Lagasafn. Íslensk lög í október 2002. Útgáfa 127b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um ostrurækt
1939 nr. 21 12. júní
1. gr. Atvinnumálaráðherra skal heimilt að ákveða í reglugerð, að tiltekin svæði í fjörðum inni skuli um tiltekinn tíma friðuð til ostruræktar fyrir hvers konar veiðum, öðrum en ostruveiðum. Enn fremur skal þar ákveðið, hvernig og á hvaða árstíma heimilt sé að stunda ostruveiðar.

Slík friðun skal þó því skilyrði bundin, að hún komi ekki í bága við veiðiskap, sem fyrir er á svæðinu, hvort heldur er um að ræða veiði nytjafiska eða skelfiskatekju, nema samkomulag náist við þá, er þar eiga hagsmuna að gæta, og enn fremur, að forstjóri fiskveiðideildar rannsóknarstofnunar atvinnuveganna telji ostrurækt nytjavænlega hér við land.
2. gr. Enginn má stunda ostrurækt á friðlýstu svæði nema með leyfi atvinnumálaráðherra.

Leyfi þessi má veita innlendum og erlendum félögum og einstaklingum, og skulu þau bundin við ákveðin svæði og til ákveðins árafjölda. Enn fremur getur atvinnumálaráðherra sett þau skilyrði fyrir leyfum þessum, sem hann telur nauðsynleg til verndar hagsmunum ríkis, almennings eða einstakra manna.
3. gr. Sérhver, sem á land eða hefur land til afnota, er liggur að friðlýstu svæði, er skyldur til að þola þær eignarkvaðir, óhagræði eða takmörkun á afnotarétti, sem ostruræktin hefur í för með sér, allt gegn því, að fullar bætur komi fyrir af hálfu leyfishafa. Náist ekki samkomulag um bæturnar, skulu þær ákveðnar með mati tveggja dómkvaddra manna. Kostnað við matið greiðir leyfishafi. Nú vill annarhvor málsaðili ekki una mati, og getur hann heimtað yfirmat, en gera skal hann það innan 30 daga frá því að matsgerð er lokið. Yfirmatið skal framkvæmt af 4 dómkvöddum mönnum.

Kostnaðinn við yfirmatið greiðir sá, er þess hefur krafist, ef matsupphæðinni verður ekki breytt meira en sem nemur 10% af hinni ákveðnu endurgjaldsupphæð, ella greiðist kostnaðurinn af leyfishafa.
4. gr. Heimilt er að undanþiggja tilrauna-ostrur (móðurdýr) öllum innflutningsgjöldum.
5. gr. [Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum og fer um mál út af þeim samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.]
1)
1)L. 116/1990, 22. gr.