Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög í janúar 2003.  Útgáfa 128a.  Prenta í tveimur dálkum.


Jarðalög

1976 nr. 65 31. maíI. kafli.
1. gr. Tilgangur laga þessara er að tryggja, að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra, sem landbúnað stunda.
2. gr. Landbúnaðarráðherra hefur yfirstjórn þeirra mála, sem lög þessi taka til.
3. gr. Lög þessi taka til jarða, jarðarhluta, afréttarlanda, öræfa og landspildna, svo og til ítaka, skóga, vatnsréttinda, veiðiréttinda og hvers konar annarra hlunninda, hvort sem þau eru skilin frá jörð eða ekki. Þéttbýlissvæði, sem skipulögð eru fyrir fasta búsetu manna, sem ekki stunda landbúnað, eru undanskilin ákvæðum laga þessara.
Rísi ágreiningur um, hvað teljast skuli landbúnaður samkvæmt lögum þessum eða um starfssvið jarðanefnda að öðru leyti, sker landbúnaðarráðherra úr þeim ágreiningi.

II. kafli. Um jarðanefndir.
4. gr. Í hverri sýslu skal starfa jarðanefnd skipuð þrem mönnum og jafnmörgum til vara, sem kosnir skulu hlutfallskosningu, ef óskað er. Búnaðarsamband viðkomandi sýslu tilnefnir 2 menn í jarðanefnd og [sýslumaður] 1) 1 mann. Skulu þeir, sem tilnefndir eru, kunna góð skil á byggð og búháttum í sýslunni. Ráðherra skipar formann nefndarinnar úr hópi tilnefndra manna.
Allir jarðanefndarmenn skulu vera búsettir á starfssvæði nefndarinnar.
Jarðanefnd skal skipuð til fjögurra ára í senn.
    1)L. 54/1999, 1. gr.
5. gr. Jarðanefndir skulu, hver á sínu svæði, vera sveitarstjórnum til aðstoðar við framkvæmd laga þessara, sbr. 1. gr., með því að:
    1. Fylgjast með eigendaskiptum og öðrum ráðstöfunum fasteigna samkvæmt nánari fyrirmælum laga þessara.
    2. [Gera tillögur um úthlutun landsvæða til félagsræktunar, byggingar sumarbústaða einstaklinga, orlofshúsa stéttarfélaga og til almennrar útivistar ef sóst er eftir landi í því skyni.] 1)
    3. Fylgjast með því, að sveitarstjórn gæti ákvæða gildandi laga um mannvirkjagerð í sveitum, töku hvers konar jarðefna og stuðla að góðri umgengni lands og mannvirkja.
    4. Gæta þess, ásamt sveitarstjórnum, að búseta á jörðum sé í samræmi við ákvæði ábúðarlaga.
    5.2)
    1)L. 37/1982, 1. gr. 2)L. 90/1984, 1. gr.
6. gr. Nú eru fyrirhuguð aðilaskipti að réttindum yfir fasteign eða stofnun slíkra réttinda, svo sem fyrir kaup, gjöf, skipti, nauðungarsölu, … 1) bússkipti, félags- og sameignarslit, fyrirframgreiðslu arfs, lán eða leigu, og er þá jafnan skylt að tilkynna það sveitarstjórn og jarðanefnd og afla samþykkis þeirra til ráðstöfunarinnar. Sama gildir um eigendaskipti að hlutum í félögum, sem eiga fasteignir, sem lög þessi taka til.
Nú telja sveitarstjórn og jarðanefnd, að ráðstöfun fasteignar sé andstæð hagsmunum sveitarfélagsins, og er þá rétt að synja um áformaða ráðstöfun eignarinnar.
Nú verða sveitarstjórn og jarðanefnd ekki sammála um meðferð máls og getur þá hvor um sig skotið ágreiningsefninu til ráðherra, sem fellir úrskurð, að fenginni umsögn [Bændasamtaka Íslands] 2)3)
Samþykkis þarf ekki að afla:
    1. Ef eigandi ráðstafar fasteignaréttindum til einhvers þeirra, sem upp eru taldir í 1. tölul. [35. gr.] 4) laga þessara.
    2. [Þegar ríkissjóður eða ríkisstofnanir kaupa eða selja.] 5)
    3. Þegar banki eða önnur opinber lánastofnun, sem á veð í fasteign, lögveðshafar eða [fjárnámshafar vegna opinberra gjalda kaupa eign við nauðungarsölu]. 1)
    4. Þegar veiðifélög ráðstafa veiðiréttindum.
    5. [Þegar leigð eru eða heimiluð með öðrum hætti afnot af slægjum, beit, námum, veiðiréttindum, vatnsréttindum, einstökum húsum og íbúðum, þar með töldum sumarbústöðum, og leigutími eða annar réttindatími er þrjú ár eða skemmri.] 5)
    [6. Þegar landið (fasteign) hefur verið tekið úr landbúnaðarnotum með leyfi skv. 1. mgr. 12. gr., enda hafi slíku leyfi verið þinglýst.
    7. Þegar aðilaskipti verða að sumarbústað í sumarbústaðahverfi, enda sé bústaðurinn reistur í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum. Það telst vera sumarbústaðahverfi þegar fjórir eða fleiri sumarbústaðir eru byggðir á sömu lóð (landi) eða á samtengdum lóðum.] 6)
Ákvæði greinar þessarar taka ekki til aðilaskipta að eignarréttindum fyrir lögerfðir eða ráðstöfun slíkra réttinda til annars hjóna við [fjárslit milli hjóna], 7) en tilkynna skal þó sveitarstjórn og jarðanefnd um breytingar á eignaraðild, sem verða með þessum hætti.
[Sveitarstjórn og jarðanefnd er heimilt að binda samþykki sitt samkvæmt þessari grein því skilyrði að sá sem öðlast réttindi yfir fasteign hafi í allt að tveimur árum fasta búsetu á eigninni eða innan eðlilegrar fjarlægðar frá henni til að nýta hana. Með sama hætti er heimilt að binda samþykki skilyrðum um að eignin verði nýtt til landbúnaðar eða annarrar atvinnustarfsemi í samræmi við þau áform sem lýst er í beiðni um samþykki. Slíkum skilyrðum skal þinglýst sem kvöð á eignina.
Nú fullnægir aðili ekki þeim skilyrðum sem sett hafa verið skv. 6. mgr. og getur sveitarstjórn þá með samþykki ráðherra sett honum frest til að fullnægja skilyrðunum eða afsala fasteigninni til aðila sem fullnægir skilyrðunum. Hafi skilyrðunum ekki verið fullnægt innan þess frests getur sveitarstjórn að fengnu samþykki jarðanefndar og ráðherra leyst eignina til sín. Náist ekki samkomulag um verð skal um mat og greiðslu bóta fara eftir lögum um eignarnám.] 8)
    1)L. 90/1991, 91. gr. 2)L. 73/1996, 17. gr. 3)L. 90/1984, 2. gr. 4)L. 90/1984, 11. gr. 5)L. 28/1995, 1. gr. 6)L. 28/1995, 2. gr. 7)L. 20/1991, 136. gr. 8)L. 28/1995, 3. gr.
7. gr. Þegar samþykkis sveitarstjórnar og jarðanefndar til ráðstöfunar á fasteign er leitað, ber þeim að afgreiða erindið innan 30 daga frá því að það barst. Hafi svar þá ekki borist, er hin áformaða ráðstöfun heimil næstu 6 mánuði.
8. gr. Nú neita sveitarstjórn og/eða jarðanefnd að samþykkja áformaða sölu fasteignar, sbr. 6. gr., og ráðherra staðfestir þá ákvörðun, og getur þá eigandi eða umráðamaður eignarinnar gert kröfu til þess, að sveitarsjóður eða ríkissjóður kaupi eign þá, sem hann vildi láta af hendi. Náist ekki samkomulag um verð, skal kaupverð eignarinnar ákveðið samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973.
9. gr. Óheimilt er að þinglýsa skjölum varðandi ráðstöfun fasteignar, sem lög þessi taka til, nema fyrir liggi samþykki viðkomandi sveitarstjórnar og jarðanefndar, sbr. þó 6. og 7. gr.
10. gr. [Óheimilt er að reisa sumarbústað á landi sem lögin taka til skv. 3. gr. og ekki hefur verið leyst úr landbúnaðarnotum skv. 1. og 2. mgr. 12. gr. nema jarðanefnd samþykki. Ekki er skylt að afla samþykkis skv. 1. og 2. mgr. 12. gr. vegna lóða fyrir sumarbústaði.
Sumarbústaður samkvæmt lögum þessum er bygging sem reist er til þess að búa í að sumri til og einungis endrum og eins á öðrum tímum árs. Ákvæði greinar þessarar taka einnig til veiðihúsa.] 1)
    1)L. 28/1995, 4. gr.
11. gr. [Ef það er ætlun þess sem fá þarf samþykki til að öðlast réttindi yfir fasteign skv. 6. gr. að nýta hana til landbúnaðar skal samþykki ekki veitt nema viðkomandi hafi starfað við landbúnað í tvö ár hér á landi. Ráðherra getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði að fenginni umsögn sveitarstjórnar og jarðanefndar.
Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um hvaða starfsemi telst til landbúnaðar skv. 1. mgr., til hvaða fasteigna ákvæðið tekur og hvaða aðili/aðilar þurfa að uppfylla skilyrði 1. mgr. þegar félög og aðrir lögaðilar eða einstaklingar fleiri saman öðlast réttindi yfir fasteign.] 1)
    1)L. 28/1995, 5. gr.
12. gr. [Land, sem við gildistöku laga þessara er nýtt til landbúnaðar, má ekki taka til annarra nota, nema heimild sé til slíks í lögum. Að öðrum kosti þarf samþykki ráðherra, enda hafi það áður verið samþykkt af viðkomandi jarðanefnd og sveitarstjórn, og fyrir liggi umsögn Skipulags ríkisins og [Bændasamtaka Íslands]. 1) Leyfi samkvæmt þessari grein skal þinglýst. [Með notkun til landbúnaðar í merkingu þessa ákvæðis er einnig átt við land sem nýtanlegt var til landbúnaðar við gildistöku laga nr. 65/1976, þar með taldar eyðijarðir og einstakar landspildur ef því hafði ekki með staðfestu skipulagi eða heimild í öðrum lögum verið ráðstafað til annarra nota.] 2)
Óski stéttarfélag eftir landi til reksturs orlofshúsa fyrir félagsmenn er jarðanefnd rétt að heimila slík afnot lands rýri þau ekki til muna kosti jarðarinnar til búskapar.
Til að skipta landi jarða og sameiginlegu landi fleiri jarða, til að sameina jarðir og til að leggja lönd eða jarðir til afrétta þarf samþykki jarðanefnda og sveitarstjórna og staðfestingu landbúnaðarráðuneytisins, að fenginni umsögn [Bændasamtaka Íslands]. 1) Ákvæði þessarar málsgreinar taka einnig til landskipta samkvæmt lögum nr. 46 27. júní 1941.
Stofnun nýrra býla eða fleirbýlis á jörð er háð samþykki viðkomandi jarðanefndar, sveitarstjórnar og landbúnaðarráðuneytisins, skv. III. kafla laganna.] 3)
    1)L. 73/1996, 17. gr. 2)L. 28/1995, 6. gr. 3)L. 90/1984, 5. gr.
13. gr. Þar sem skipting jarðar hefur átt sér stað og bú er ekki rekið á úrskiptum jarðarhluta, er ráðherra heimilt, ef hagsmunir sveitarfélags krefjast, að leyfa eiganda og ábúanda jarðar þeirrar, sem skipt var úr, að fengnum meðmælum jarðanefndar og [stjórnar [Bændasamtaka Íslands] 1)], 2) að leysa til sín hinn úrskipta jarðarhluta og leggja hann til hinnar upphaflegu jarðar. Á sama hátt er eiganda og ábúanda nýbýlis heimilt að leysa til býlis síns það, sem eftir stendur af landi hinnar upphaflegu jarðar, sé ekki rekinn þar sjálfstæður búskapur. Séu nýbýlin fleiri en eitt, getur einn eigandi krafist þess lands, sem ónytjað er samkvæmt framansögðu. … 2) Náist ekki samkomulag um verð, skal um mat og greiðslu bóta fara eftir lögum um eignarnám.
    1)L. 73/1996, 17. gr. 2)L. 90/1984, 6. gr.
14. gr. Nú er jörð í sameign, en einn sameigenda rekur bú á jörðinni og hefur þar fasta búsetu, og getur ráðherra þá, ef hagsmunir sveitarfélags krefjast, leyft honum að leysa til sín eignarhluta meðeigenda sinna, enda hafi jarðanefnd og [stjórn [Bændasamtaka Íslands] 1)] 2) mælt með því. Náist ekki samkomulag um verð á hinum innleystu hlutum, skal fara um mat og greiðslu bóta eftir lögum um framkvæmd eignarnáms.
    1)L. 73/1996, 17. gr. 2)L. 90/1984, 7. gr.
15. gr. Ef meðferð jarða, lands eða landsnytja er ekki í samræmi við ákvæði laga þessara og ábúðarlaga, og þörf er á landinu til bættrar aðstöðu viðkomandi byggðarlags, getur landbúnaðarráðherra heimilað sveitarstjórn eignarnám á slíkum eignum, enda hafi jarðanefnd og [stjórn [Bændasamtaka Íslands] 1)] 2) mælt með eignarnámi.
    1)L. 73/1996, 17. gr. 2)L. 90/1984, 8. gr.
16. gr. Skylt er hreppstjórum, oddvitum, ráðunautum, eigendum og ábúendum jarða, og öðrum, sem til þess hafa aðstöðu, að láta í té upplýsingar um jarðir og ábúð á þeim, eftir því sem þörf kann að verða á samkvæmt lögum þessum.
17. gr. [Ákvörðunum sveitarstjórna eða jarðanefnda samkvæmt lögum þessum er heimilt að skjóta innan eins mánaðar til landbúnaðarráðuneytisins og skal úrskurður ráðuneytisins kveðinn upp innan sex vikna frá því er kæra barst.] 1)
    1)L. 28/1995, 7. gr.
18. gr. Nú er fasteign ráðstafað andstætt fyrirmælum laga þessara, og varðar sú ráðstöfun refsingu, sbr. [70. gr.] 1) Auk þess getur sveitarstjórn þá, með samþykki jarðanefndar og ráðherra, höfðað mál til ógildingar ráðstöfuninni með kröfu um, að sveitarfélagið fái þau umráð og not fasteignar, er ráðstöfunin laut að og með sömu skilmálum. Þó getur sveitarstjórn krafist mats á endurgjaldi í samræmi við ákvæði [34. gr.] 1) Málsókn skal hefjast innan þriggja mánaða frá því að jarðanefnd barst vitneskja um ráðstöfunina, og ber að halda málinu áfram með eðlilegum hraða.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
19. gr. Jarðanefnd skal ákveða aðsetursstað sinn í samráði við viðkomandi [sýslumann] 1) og búnaðarsamband.
Rétt er, þar sem við verður komið, að jarðanefnd og búnaðarsamband hafi samvinnu um skrifstofuhald.
Jarðanefnd er heimilt að kaupa sérfræðilega aðstoð, þegar þörf krefur.
Rita skal fundargerðir á öllum fundum jarðanefndar, og halda ber skýrslu yfir allar ráðstafanir fasteigna, sem nefndin fjallar um.
    1)L. 54/1999, 2. gr.
20. gr. [Kostnaður við störf jarðanefndar greiðist að hálfu af viðkomandi sveitarsjóðum og búnaðarsambandi og að hálfu af ríkissjóði.] 1)
    1)L. 108/1988, 38. gr.
[21. gr. Þar sem samþykki eða meðmæli jarðanefndar er áskilið í lögum þessum nægir samþykki bæjarstjórnar þegar um er að ræða land eða réttindi skv. 3. gr. sem lögin taka til innan lögsagnarumdæma kaupstaða.] 1)
    1)L. 90/1984, 9. gr.

[III. kafli. Um viðurkenningu á nýjum býlum, félagsbú og jarðaskrá.] 1)
    1)L. 90/1984, 10. gr.
[22. gr. Til þess að stofna nýtt býli til búvöruframleiðslu, þar með talið til ylræktar, garðræktar, fiskræktar og loðdýraræktar eða til smáiðnaðar og þjónustu sem tengd er landbúnaði, þarf heimild landbúnaðarráðuneytisins, enda hafi viðkomandi sveitarstjórn og jarðanefnd samþykkt stofnun býlisins.
Umsókn um stofnun nýs býlis skal senda landbúnaðarráðuneytinu ásamt upplýsingum um hvers konar búskap fyrirhugað er að stunda á býlinu. Þá skulu fylgja umsókn gögn er sýni að umsækjandi hafi tryggt sér umráðarétt yfir landi og annarri búrekstraraðstöðu.
[Ráðuneytið leitar umsagnar Bændasamtaka Íslands á hverri umsókn.] 1) [Bændasamtök Íslands láta] 2) gera úttekt á búrekstrarskilyrðum býlisins.] 3)
    1)L. 112/1999, 2. gr. 2)L. 73/1996, 17. gr. 3)L. 90/1984, 10. gr.
[23. gr. Ef um er að ræða býli þar sem stofna skal til sauðfjárræktar, nautgriparæktar og/eða hrossaræktar skal að jafnaði miða við að ræktanlegt land sé eigi minna en 100 ha. Þó er heimilt að víkja frá þeirri landstærð ef í staðinn koma t.d. beitilönd eða hlunnindi til lands og sjávar.
Um landstærð og önnur skilyrði við stofnun nýrra býla af öðru tagi, sbr. 22. gr., skal fara eftir ákvæðum reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur.
Við stofnun nýs býlis skal þess gætt að ekki sé raskað búrekstraraðstöðu nálægra jarða.] 1)
    1)L. 90/1984, 10. gr.
[24. gr. Jörð, sem ekki hefur verið nytjuð með fastri búsetu þess, sem á lögheimili á jörðinni, í tvö ár eða lengur, telst eyðijörð nema sveitarstjórn hafi veitt samþykki sitt samkvæmt 21. gr. ábúðarlaga, nr. 64 31. maí 1976.
Samþykki landbúnaðarráðuneytisins, sveitarstjórnar og jarðanefndar þarf til þess að endurbyggja eyðijörð. Umsókn um það skal senda ráðuneytinu sem fer með hana eins og um stofnun nýs býlis væri að ræða, sbr. 22. og 23. gr.] 1)
    1)L. 90/1984, 10. gr.
[25. gr. Heimild landbúnaðarráðuneytisins þarf til að stofna félagsbú til búvöruframleiðslu á býli, enda hafi viðkomandi sveitarstjórn og jarðanefnd samþykkt stofnun félagsbúsins. Fara skal eftir ákvæðum 2. og 3. mgr. 22. gr. um umsókn og meðferð hennar.
Það telst vera félagsbú þegar tveir eða fleiri einstaklingar gera með sér samning skv. 27. gr. um að standa sameiginlega að búrekstri á einni eða fleiri jörðum, enda hafi aðilar félagsbúsins meiri hluta tekna sinna af landbúnaði og séu allir búsettir á viðkomandi býli (býlum).
Hjón ein sér eða með ófjárráða barni (börnum) geta ekki stofnað til félagsbús. Sama gildir um fólk í óvígðri sambúð ef það á sameiginlegt lögheimili og hefur átt eða á von á barni saman eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár.
Um stærð á landi félagsbús skal fara eftir 23. gr. þannig að landið sé ekki minna en hver aðili félagsbúsins hefði stofnað nýtt býli.] 1)
    1)L. 90/1984, 10. gr.
[26. gr. Séu aðilar félagsbús ekki allir eigendur að jörð sem félagsbúið er stofnað á skal gera sérstakt byggingarbréf samkvæmt á búðarlögum, nr. 64 31. maí 1976, milli aðila félagsbúsins og jarðareiganda og skal því þinglýst. Í slíku byggingarbréfi er heimilt að víkja frá ákvæðum 11.– 16. gr. ábúðarlaga, nr. 64 31. maí 1976.] 1)
    1)L. 90/1984, 10. gr.
[27. gr. Aðilar félagsbús skulu gera með sér skriflegan félagsbússamning þar sem getið sé stofnframlaga aðilanna til búsins, eignarhluta hvers þeirra, hvernig háttað sé ábyrgð á skuldum búsins, skiptingu tekna þess, ákvarðanatöku um málefni búsins og hvernig slitum félagsbúsins skuli háttað.
Heimild til stofnunar félagsbús öðlast ekki gildi fyrr en landbúnaðarráðuneytið hefur áritað félagsbússamning um samþykki sitt.
Landbúnaðarráðuneytið skal við hver áramót birta í Lögbirtingablaði skrá yfir samþykkt félagsbú á árinu.] 1)
    1)L. 90/1984, 10. gr.
[28. gr. Samþykkt á félagsbúi veitir hverjum aðila félagsbús sama rétt og ábúanda nýs býlis nema annað sé ákveðið í lögum.
Félagsbú, sem stofnuð hafa verið fyrir gildistöku þessara laga, skulu fyrir 1. janúar 1985 senda landbúnaðarráðuneytinu til samþykktar félagsbússamning skv. 27. gr. Eftir 1. janúar 1985 skulu þau bú ein njóta réttinda sem félagsbú sem landbúnaðarráðuneytið hefur samþykkt félagsbússamning fyrir. Ráðherra getur þó, ef sérstaklega stendur á, veitt aðilum félagsbús, sem stofnað hefur verið fyrir gildistöku þessara laga, frest í tiltekinn tíma til að samræma félagsbússamning sinn ákvæðum 27. gr. og fá hann samþykktan.
Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um stofnun félagsbúa.] 1)
    1)L. 90/1984, 10. gr.
[29. gr. Landbúnaðarráðuneytið lætur árlega gera jarðaskrá fyrir allt landið. Í jarðaskrá skulu tilgreindar allar jarðir eða lögbýli samkvæmt skilgreiningu 1. gr. ábúðarlaga, nr. 64 31. maí 1976, ásamt eigendum og ábúendum og öðrum þeim upplýsingum sem ráðherra ákveður með reglugerð.
Eigendum og ábúendum jarða skv. 1. gr. ábúðarlaga, nr. 64 31. maí 1976, hreppstjórum, sveitarstjórnum, jarðanefndum … 1) og sýslumönnum er skylt að láta í té upplýsingar um ábúð, eignarhald og annað er jarðir varðar vegna jarðaskrárinnar. Haft skal samráð við Fasteignamat ríkisins um öflun upplýsinga og gerð jarðaskrár.
Ráðherra úrskurðar um ágreining sem rísa kann um skráningu á jörð í jarðaskrá, að fenginni umsögn viðkomandi sveitarstjórnar, jarðanefndar og stjórnar [Bændasamtaka Íslands]. 2)
Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um gerð og útgáfu jarðaskrár, öflun gagna til hennar og varðveislu. Þá er ráðherra heimilt með reglugerð að fela öðrum aðila að annast gerð jarðaskrár í umboði ráðuneytisins.
Upplýsingar úr jarðaskrá skulu látnar í té gegn gjaldi sem ráðherra ákveður árlega.] 3)
    1)L. 92/1991, 69. gr. 2)L. 73/1996, 17. gr. 3)L. 90/1984, 10. gr.

[IV. kafli.]1) Forkaupsréttur.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[30. gr.]1) Eigi að selja fasteignarréttindi, sem lög þessi taka til, sbr. 3. gr., á sveitarstjórn þess sveitarfélags, þar sem eignin er, forkaupsrétt að þeim, nema um ráðstöfun ættaróðals sé að ræða, sbr. og [35. gr.] 1) laga þessara.
Nú hefur leiguliði setið jörð í 10 ár eða lengur og á hann þá forkaupsrétt á undan sveitarstjórn enda taki hann jörðina til ábúðar og fullra nytja.
[Sveitarstjórn, sem á forkaupsrétt skv. 1. mgr., er heimilt að framselja rétt sinn til Jarðasjóðs ríkisins, enda sé það gert innan 30 daga frá því að forkaupsréttartilboð barst sveitarstjórn. Sveitarstjórn skal þegar senda tilkynningu um slíka ákvörðun til landbúnaðarráðherra f.h. Jarðasjóðs ríkisins og kaupanda og seljanda þeirrar eignar sem forkaupsrétturinn tekur til. Jarðasjóður hefur þá 60 daga frá því að forkaupsréttartilboð barst sveitarstjórn til að svara forkaupsréttartilboði skriflega. Hafi Jarðasjóður ekki svarað innan þess tíma hefur hann í það sinn glatað rétti sínum til að kaupa eignina. Að öðru leyti gilda ákvæði þessa kafla um forkaupsrétt Jarðasjóðs ríkisins.] 2)
    1)L. 90/1984, 11. gr. 2)L. 28/1995, 8. gr.
[31. gr.]1) [Ef fasteignarréttindi eru seld við nauðungarsölu getur forkaupsréttarhafi skv. 30. gr. gengið inn í hæsta boð, enda tilkynni hann það áður en lokið er að leita boða í eignina við uppboð eða innan fimm sólarhringa frá því honum er kynnt kauptilboð sem er aflað við nauðungarsölu á almennum markaði.] 2)
    1)L. 90/1984, 11. gr. 2)L. 90/1991, 91. gr.
[32. gr.]1) Forkaupsréttur skv. [30. gr.] 1) skal jafnan boðinn skriflega þeirri sveitarstjórn, sem hlut á að máli. Söluverð og aðrir skilmálar skal jafnframt tilgreint á tæmandi hátt. Ef um er að ræða makaskipti á fasteignarréttindum, tilgreini seljandi, hversu hátt hann metur hin framboðnu réttindi til peningaverðs, og hefur þá forkaupsréttarhafi rétt til þess að kaupa þau því verði eða á matsverði skv. [34. gr.] 1) Sveitarstjórn skal svara forkaupsréttartilboði skriflega [innan 30 daga] 2) frá því að henni barst tilboð. Vanræki sveitarstjórn að svara innan þess tíma, hefur hún í það sinn glatað rétti sínum til að kaupa.
Yfirlýsing um afsal forkaupsréttar skal miðuð við ákveðinn kaupanda og fellur úr gildi sex mánuðum frá dagsetningu.
    1)L. 90/1984, 11. gr. 2)L. 28/1995, 9. gr.
[33. gr.]1) Ef eigandi eða annar rétthafi fasteignar ráðstafar fasteignarréttindum andstætt fyrirmælum laga þessara um forkaupsrétt, getur forkaupsréttarhafi, sem órétti var beittur, krafist þess, að salan verði ógilt, enda sé málsókn til þess hafin innan sex mánaða frá því að hann fékk vitneskju um misfelluna og málinu fram haldið með hæfilegum hraða.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[34. gr.]1) Nú er forkaupsréttarhafa boðið að neyta forkaupsréttar, en tilgreint kaupverð er óeðlilega hátt eða skilmálar ósanngjarnir miðað við almennar viðskiptavenjur, þannig að ætla má að gert sé í því skyni að halda forkaupsréttarhafa frá að neyta réttar síns. Forkaupsréttarhafi getur þá, að fengnu samþykki jarðanefndar, krafist mats dómkvaddra manna á eigninni og gildir það þá sem söluverð.
Ákveði forkaupsréttarhafi að krefjast mats skal það gert innan 15 daga frá því að tilboð barst og matsgerð lokið innan 3ja vikna þar frá.
Forkaupsréttarhafa ber síðan innan einnar viku að ákveða, hvort hann neytir forkaupsréttar samkvæmt matsgerðinni.
Matsmenn ákveða hvernig matskostnaður greiðist.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[35. gr.]1) Ákvæði laga þessara um forkaupsrétt koma ekki til framkvæmda:
    1. Þegar jarðeigandi selur eða afhendir jörð maka sínum, barni sínu, barnabarni, kjörbarni, fósturbarni, systkini eða foreldri, enda taki viðtakandi jörðina til ábúðar og fullra nytja.
    2. Þegar ríkissjóður ráðstafar fasteignarréttindum.
    [3. Þegar ráðstafað er eignum sem falla undir 6. og 7. tölul. 6. gr.] 2)
Falli fasteignarréttindi við erfðir til annarra en þeirra, er greinir í 1. tölul., á hreppsnefnd rétt á að fá þau keypt. Náist ekki samkomulag um verð, skal um mat og greiðslu bóta fara eftir lögum um eignarnám.
    1)L. 90/1984, 11. gr. 2)L. 28/1995, 10. gr.

[V. kafli.]1) Um jarðir í opinberri eigu.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[36. gr.]1) Jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins fer með málefni jarða í ríkiseign, nema annað sé ákveðið í lögum.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[37. gr.]1) Heimilt er að selja jarðir eða jarðarhluta í ríkiseign þeim sveitarfélögum, sem jarðirnar eru í, enda mæli jarðanefnd með sölu og geri tillögur um söluverð, sem endanlega er ákveðið af ráðherra eða samkvæmt matsgerð dómkvaddra manna.
Ríkisjarðir, sem ekki byggjast samkvæmt ábúðarlögum og ekki eru teknar til sérstakra nota í þágu hins opinbera, er heimilt að leigja lengst til 10 ára í senn. Sé sótt um jörð til fastrar ábúðar, sem er leigð lausri leigu, er heimilt að segja slíkum samningi upp fyrir áramót miðað við næstu fardaga þar eftir. Leigusamninga um lóðir úr ríkislandi er heimilt að gera til allt að 50 ára, enda séu þeir gerðir í samræmi við skipulagsákvæði.
[Heimilt er að veita ábúanda jarðar í ríkiseign, sem byggð er samkvæmt á búðarlögum, nr. 64 31. maí 1976, leyfi til að taka lán með veði í jörðinni til varanlegra húsabóta og annarra umbóta á jörðinni.] 2) [Þá er heimilt að veita ábúanda jarðar í ríkiseign leyfi til að taka lán hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins til búvélakaupa með veði í jörðinni, að því marki að heildarskuldir ábúanda með veði í jörðinni nemi ekki hærri fjárhæð en svarar til eignarhluta hans í fasteignum á jörðinni að mati jarðadeildar.] 3)
    1)L. 90/1984, 11. gr. 2)L. 90/1984, 12. gr. 3)L. 28/1995, 11. gr.
[38. gr.]1) Ábúendur ríkisjarða og jarða í eigu opinberra stofnana og sjóða, — nema ákvæði gjafabréfa og skipulagsskráa mæli gegn því, — sem hafa fengið erfða- eða lífstíðarábúð á jörðum sínum, hafa rétt til að fá ábúðarjarðir sínar keyptar, ef þeir fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
    1. Hafa búið á jörðinni minnst 10 ár.
    [2.] 2) Leggja fram yfirlýsingu hlutaðeigandi hreppsnefndar um, að ábúandi hafi setið jörðina vel og að hreppsnefndin mæli með, að hann fái jörðina keypta.
    [3.] 2) Leggja fram meðmæli jarðanefndar viðkomandi sýslu með kaupum.
Ákvæði greinar þessarar taka þó ekki til jarða, sem þörf er á til opinberra nota eða skiptingar í náinni framtíð, heldur ekki til jarða, sem að dómi [Bændasamtaka Íslands] 3) og hlutaðeigandi náttúruverndarnefndar eru líklegar til að verða nýttar til annars en búrekstrar, svo sem fólkvangar, sumarbústaðalönd eða til annarra útilífsnota, og ekki til þeirra jarða, sem að dómi [Umhverfisstofnunar] 4) hafa sérstök náttúrufyrirbæri innan sinna landamarka.
Námaréttindi og réttur til efnistöku skulu undanskilin sölu, sömuleiðis vatns- og jarðhitaréttindi umfram heimilisþörf, ásamt nauðsynlegri aðstöðu til að hagnýta þau réttindi.
Náist ekki samkomulag um verð milli kaupanda og seljanda, skal mat dómkvaddra manna ráða.
Sé áformuð sala jarðar eða jarðarhluta, sem seldur hefur verið af ríkissjóði samkvæmt grein þessari, á ríkissjóður forkaupsrétt fyrir hlutfallslega sama verð og jörðin var seld á að viðbættum verðmætisauka vegna framkvæmda eftir að ríkissjóður seldi jörðina.
    1)L. 90/1984, 11. gr. 2)L. 28/1995, 12. gr. 3)L. 73/1996, 17. gr. 4)L. 164/2002, 47. gr.

[VI. kafli.]1) 2)
    1)L. 90/1984, 11. gr. 2)L. 34/1992, 7. gr.

[VII. kafli.]1) Um óðalsjarðir.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[47. gr.]1) Sérhverjum jarðeiganda er heimilt að gera jörð sína að ættaróðali, ef þessi skilyrði eru fyrir hendi:
    a. Að jörðin sé svo stór eða svo gæðarík, að afraksturinn af búi, er jörðin getur borið, með hlunnindum, er henni fylgja, geti framfært að minnsta kosti meðalfjölskyldu, að dómi [Bændasamtaka Íslands] 2) og viðkomandi jarðanefndar.
    b. [Að fyrir liggi samþykki barna jarðeiganda, 18 ára og eldri, um að jörðin sé gerð að ættaróðali.] 3)
    c. Að á jörðinni hvíli ekki aðrar veðskuldir en þær, sem kunna að hafa verið teknar í Stofnlánadeild Búnaðarbanka Íslands, Orkusjóði eða Lífeyrissjóði bænda vegna þeirra framkvæmda á jörðinni, sem þessar stofnanir lána til, eða lánastofnanir, sem koma kunna í þeirra stað.
[Með sama hætti er eiganda ættaróðals heimilt að stofna til félagsbús með erfingja sem ákveðið hefur verið að erfi óðalið, enda séu uppfyllt skilyrði 25.–28. gr.] 4)
    1)L. 90/1984, 11. gr. 2)L. 73/1996, 17. gr. 3)L. 119/1999, 1. gr. 4)L. 28/1995, 13. gr.
[48. gr.]1) Þegar jörð er gerð að ættaróðali, skal skylt að láta fylgja henni hlunnindi og annað það, er jörðinni hefur fylgt og jarðeigandi á, enn fremur afurðir, sem framleiddar eru á jörðinni og eru nauðsynlegar við búreksturinn, svo sem áburð, hey o.fl. Jarðeigandi skal auk þess láta fylgja jörðinni skjöl, er varða jörðina frá fyrri tíð og eru í hans vörslu, einnig myndir og muni, er hafa minningargildi fyrir þá bændur eða bændaætt, er situr eða setið hefur jörðina.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[49. gr.]1) Nú óskar jarðeigandi að gera jörð sína að ættaróðali, og skal hann þá afhenda sýslumanni yfirlýsingu þar að lútandi ásamt lýsingu af jörð og jarðarhúsum og skilríki fyrir því, að fullnægt sé ákvæðum [47. gr.] 1)
Þegar sýslumaður hefur sannfært sig um, að fullnægt sé ákvæðum laganna um stofnun ættaróðals, skal hann færa jörðina á skrá um ættaróðul í sérstaka bók, er fylgi embættinu. Enn fremur skal hann senda [Bændasamtökum Íslands] 2) um hver áramót skýrslu um þær jarðir, sem gerðar hafa verið að ættaróðali á árinu í umdæmi hans, ásamt staðfestu samriti af gerningi þar að lútandi.
[Yfirlýsingu um, að jörð sé gerð að ættaróðali, skal þinglýsa. Í yfirlýsingu skal sérstaklega getið fylgifjár, sem jörð er lagt til eftir [48. gr.] 1)] 3)
[Bændasamtök Íslands] 2) skulu láta gera fyrirmynd, í samráði við landbúnaðarráðuneytið, að gerningi, þar sem fram sé tekið, auk þess sem áður er tilgreint, þáverandi fasteignamat jarðarinnar, jarðarverð sér og húsaverð sér, svo og tölur, er sýni stærð ræktaðs lands og ræktanlegs, meðaltal af afrakstri jarðarinnar síðustu 3 árin, hlunnindi og aðra aðstöðu til búrekstrar.
Verði misbrestur á, að stjórn [Bændasamtaka Íslands] 2) berist þau gögn, er að framan greinir, skal stjórn félagsins krefjast, að úr því verði bætt.
    1)L. 90/1984, 11. gr. 2)L. 73/1996, 17. gr. 3)L. 71/1978, 1. gr.
[50. gr.]1) Allar tryggingar, sem stofnað hefur verið til vegna ættaróðalsins eða þess, sem því fylgir, tilheyra óðalinu ásamt skaðabótum, sem greiddar eru samkvæmt þeim.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[51. gr.]1) Nú hefur bóndi gert jörð sína að ættaróðali, og eiga þá skylduerfingjar hans kröfu til þess, að viðtakandi (óðalserfingi) greiði fráfaranda eða búi hans fjárhæð sem svarar hálfu fasteignamati jarðarinnar.
Frá þessari greiðslu ber að draga áhvílandi veðskuldir, er viðtakandi tekur að sér.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[52. gr.]1) Eignir óðalsbónda og konu hans, aðrar en ættaróðalið og fylgifé þess, erfast samkvæmt ákvæðum erfðalaga.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[53. gr.]1) Skylt er þeim, sem óðal hlýtur, að lofa fyrrverandi óðalsbónda og konu hans, ef með þarf, að dveljast á óðalsjörðinni meðan þau kjósa, enda sé honum það ekki um megn.
Rísi ágreiningur um þetta atriði, sker sýslumaður úr.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[54. gr.]1) Erfðafjárskattur greiðist ekki af ættaróðali eða fylgifé þess við afhendingu óðalsins til erfingja eða viðtakanda.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[55. gr.]1) Jarðeigandi og aðrir geta ánafnað ættaróðali fylgifé, svo sem kvikfénað, verkfæri, húsmuni eða annað, og er það þá fylgifé óðalsins, sem skylt er að halda við og endurnýja. Jarðræktarstyrkur, byggingarstyrkur og aðrir opinberir styrkir, sem veittir eru til umbóta á óðalsjörðum, verða eign óðalsins.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[56. gr.]1) Heimilt er eiganda ættaróðalsins, að fengnu samþykki skv. 12. gr. laga þessara að skipta því milli erfingja í tvö eða fleiri býli, enda fullnægi hin nýju býli ákvæðum [47. gr.] 1)
Þegar skipti eru ákveðin, skal gera landamerki milli hinna nýju ættaróðala, svo sem þörf krefur. Skjöl og minjagripir, sem til eru, tilheyra gamla óðalinu.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[57. gr.]1) Heimilt er óðalsbónda að taka lán með veði í óðalinu til húsbóta eða annarra varanlegra umbóta á jörðinni í Stofnlánadeild Búnaðarbanka Íslands, í Orkusjóði og Lífeyrissjóði bænda, samkvæmt þeim reglum, er um slík lán gilda á hverjum tíma.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[58. gr.]1) Þegar eigendaskipti verða á óðalsjörð, skal kveðja til úttektarmenn hreppsins.
Úttektarmenn skulu færa í úttektarbók lýsingu á jörðinni, mannvirkjum hennar og fylgifé, svo að auðvelt sé að gera sér grein fyrir ástandi jarðarinnar og öðru, er henni fylgir.
Verði ágreiningur um afhendingu ættaróðals, sem úttektarmenn geta ekki jafnað, getur hvor aðili um sig krafist yfirúttektar og fer um það samkvæmt 44. gr. ábúðarlaga.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[59. gr.]1) Nú krefst skuldheimtumaður, að gerð sé aðför í ættaróðali vegna áhvílandi veðskulda eða opinberra gjalda af eigninni, og skal sýslumaður þá tilkynna óðalseiganda um kröfuna með símskeyti eða á annan jafntryggan hátt. Geti óðalseigandi ekki innan mánaðar fullnægt skuldheimtumanni, svo að hann taki kröfuna aftur, skal sýslumaður þá þegar kveðja til fundar þá, er vegna frændsemi koma til greina sem erfingjar óðalsins, eða forráðamenn þeirra ásamt óðalseiganda með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Skuldheimtumanni eða umboðsmanni hans ber að koma á slíkan fund. Á fundinum skal sýslumaður hlutast til um, að ákveðið sé, hver taki við óðalinu og taki að sér aðkallandi greiðslur.
Nú vill enginn af hlutaðeigendum taka við jörðinni, og skal þá sýslumaður selja hana með tilheyrandi fylgifé, enda hafi hlutaðeigandi hreppur hafnað kaupum á jörðinni.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[60. gr.]1) Eigi má gera aðför í ættaróðali eða selja það til lúkningar skuldum öðrum en áhvílandi veðskuldum eða opinberum sköttum, er hvíla á eigninni sjálfri. Sama gildir um fylgifé óðalsins.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[61. gr.]1) [Óðalsbóndi getur með leyfi landbúnaðarráðherra fengið óðalið leyst frá óðalsákvæðum, enda mæli jarðanefnd með því og þeir ættingjar, sem rétt hafa til óðalsins, hafa lýst því yfir skriflega að þeir óski ekki eftir að taka við því til ábúðar. Samþykki landbúnaðarráðherra lausn óðals frá óðalsákvæðum er óðalsréttarhafa heimilt að selja það við því verði og þeim kaupanda er hann kýs, enda hafi þeir sem forkaupsrétt eiga að lögum hafnað honum.] 2)
    1)L. 90/1984, 11. gr. 2)L. 28/1995, 14. gr.
[62. gr.]1) Nú tekur maður af annarri ætt við ættaróðalinu, og falla þá minjagripir ættarinnar til erfingja fráfarandi óðalsbónda ásamt andvirði jarðarinnar að frádregnum veðskuldum og kostnaði.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[63. gr.]1) Ættaróðal og fylgifé þess gengur óskipt til eftirgreindra aðila og í þessari röð, ef óðalseigandi hefur ekki gert aðrar ráðstafanir:
    a. Það hjóna, er lengur lifir, heldur réttinum, meðan það lifir.
    b. Til barna þess hjónanna, sem óðalsréttinn stofnaði eða erfði. Á sama hátt fá kjörbörn óðalsrétt.
    c. Til barnabarna óðalsbónda, systkina hans og barna þeirra.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[64. gr.]1) Foreldrar koma sér saman um, hvert af börnum eða fjarskyldari erfingjum, að börnum frágengnum, skuli erfa óðalið. Þessi ráðstöfun skal tilkynnt sýslumanni ekki síðar en þegar óðalsbóndi er fullra 60 ára, og skal sýslumaður hlutast til um, að þessi ákvörðun sé gerð í viðurvist hans.
Verði hjón eigi ásátt um, hvert af börnunum skuli hljóta réttinn, skal það hjónanna, er erfði óðalið, ráða viðtakanda.
Sé engin ákvörðun tekin, skal skiptafundur ákveða viðtakanda eða viðtakendur, ef heimilt er að skipta jörðinni, sbr. [56. gr.], 1) og sitji það barn eða þau börn fyrir, sem hafa að staðaldri unnið með foreldrum sínum á jörðinni og eru líklegust til að stunda þar áframhaldandi búskap. [Verði ágreiningur um þetta skal leyst úr honum eftir ákvæðum laga um skipti á dánarbúum o.fl.] 2)
    1)L. 90/1984, 11. gr. 2)L. 20/1991, 136. gr.
[65. gr.]1) Þegar svo stendur á, að óðalserfingi hefur ekki náð lögaldri, er skipti fara fram, skal fjárráðamaður hans byggja jörðina öðrum um stundarsakir, óski erfingi eða fjárráðamaður fyrir hans hönd ekki að taka jörðina til ábúðar. Á umráðamanni (eftirlifandi maka, óðalserfingja eða lögráðamanni) hvíla sömu skyldur gagnvart óðalinu og á óðalsbónda, meðan hann fer með það. En hafi óðalseigandi ekki tekið jörðina til ábúðar, þegar hann er 26 ára gamall, skal sýslumaður ráðstafa henni til næstu erfingja, sbr. [61. gr.] 1)
Óski ekkert barnanna að nota óðalsréttinn og nytja jörðina áfram, þá er foreldrum heimilt að ánafna hana fósturbarni. Nú er óðalsbóndi eða kona hans síðasti maður, er erfðarétt hefur til óðalsins, eða enginn af þeim, sem rétt hefur til óðalsins, treystist til að taka við því, er þau bregða búi eða að þeim látnum, og er þá óðalsbónda og maka hans heimilt að gefa óðalið, enda verði það ættaróðal þiggjanda.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[66. gr.]1) Nú deyr það hjónanna, er óðalsréttinn erfði, barnlaust, enda hafi hjónin ekki tekið kjörbarn, og hafa þá næstu erfingjar rétt til að taka við óðali, þó ekki fyrr en að einu ári liðnu frá andláti óðalseiganda.
Slíti óðalseigandi og kona hans samvistum, heldur það hjónanna óðalinu, sem erfði það.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[67. gr.]1) Enginn óðalseigandi getur átt nema eitt ættaróðal. Nú erfir maður fleiri en eitt ættaróðal, og er honum þá heimilt að velja milli þeirra, en sá, er næstur stendur til arfs, tekur við hinu.
Við ákvörðun á búshluta maka og erfðahlutum erfingja, skal telja óðal á því verði, sem viðtakanda þess ber að gjalda fyrir það samkvæmt [51. gr.] 1)
Ákvæði erfðalaga um skylduarf eru því ekki til fyrirstöðu, að óðalsbóndi ráðstafi óðali til eins erfingja samkvæmt því, sem nánar greinir í þessum kafla, en andvirði óðalsins samkvæmt [51. gr.] 1) rennur í búið.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[68. gr.]1) Óðalsbóndi fyrirgerir óðalsrétti sínum, ef hann:
    a. Greiðir ekki samningsbundna vexti og afborganir af þeim skuldum, sem á ættaróðalinu hvíla, svo að það leiði til kröfu um sölu, sem hann getur ekki afstýrt.
    b. Telur sér heimili annars staðar en á ættaróðalinu eða hættir að reka búskap, sbr. þó [65. gr.] 1)
    c. Ef hann að áliti sýslunefndar, enda skal leitað umsagnar viðkomandi hreppsnefndar og jarðanefndar, situr óðalið svo illa, að það mundi varða útbyggingu eftir ábúðarlögum.
    1)L. 90/1984, 11. gr.
[69. gr.]1) Þegar óðalsbóndi verður að bregða búi vegna elli, vanheilsu eða af öðrum þeim ástæðum, sem valda því, að honum er ókleift að halda áfram búskap, er landbúnaðarráðherra heimilt að leysa óðalið frá óðalsákvæðum, ef engir þeirra ættingja, sem rétt hafa til óðalsins, vilja taka við því til ábúðar, enda mæli [héraðsnefnd], 2) [Bændasamtök Íslands] 2) og jarðanefnd með þeirri ráðstöfun. Samþykki landbúnaðarráðherra lausn óðals frá óðalsákvæðum, er óðalsréttarhafa heimilt að selja það við því verði og þeim kaupanda, er hann kýs, enda hafi þeir, sem forkaupsrétt eiga að lögum, hafnað honum.
    1)L. 90/1984, 11. gr. 2)L. 73/1996, 17. gr.
[70. gr.]1) Brot gegn lögum þessum varða sektum. … 2) Mál út af brotum gegn lögum þessum skulu sæta meðferð opinberra mála.
    1)L. 90/1984, 11. gr. 2)L. 10/1983, 34. gr.
[71. gr.]1) Lög þessi öðlast þegar gildi.

    1)L. 90/1984, 11. gr.
[72. gr.
Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði er nauðsynleg þykja um framkvæmd laga þessara.] 1)
    1)L. 90/1984, 13. gr.