Lagasafn. Íslensk lög í janúar 2003. Útgáfa 128a. Prenta í tveimur dálkum.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins
1992 nr. 18 2. nóvember
Inngangur.
Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum,
sem telja, í samræmi við meginreglur þær er fram koma í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða, að viðurkenning á meðfæddri göfgi og jöfnum óaðskiljanlegum réttindum allra manna sé grundvöllur frelsis, réttlætis og friðar í heiminum,
sem hafa í huga að hinar Sameinuðu þjóðir hafa í sáttmálanum enn staðfest trú sína á grundvallarmannréttindi og virðingu og gildi allra manna, og hafa einsett sér að stuðla að félagslegum framförum og bættum lífskjörum við meira frjálsræði,
sem viðurkenna að Sameinuðu þjóðirnar hafa í mannréttindayfirlýsingunni og í alþjóðasamningunum um mannréttindi lýst því yfir og samþykkt að hver maður skuli eiga kröfu á réttindum þeim og frelsi sem þar er lýst, án nokkurs greinarmunar, svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna,
sem minnast þess að hinar Sameinuðu þjóðir hafa lýst því yfir í mannréttindayfirlýsingunni að börnum beri sérstök vernd og aðstoð,
sem eru sannfærð um að veita beri fjölskyldunni, sem grundvallareiningu samfélagsins og hinu eðlilega umhverfi til vaxtar og velfarnaðar allra meðlima sinna, en sérstaklega þó barna, nauðsynlega vernd og aðstoð til að sinna til hlítar þeirri ábyrgð sem á henni hvílir í samfélaginu,
sem viðurkenna að barn eigi að alast upp innan fjölskyldu, við hamingju, ást og skilning, til þess að persónuleiki þess geti mótast á heilsteyptan og jákvæðan hátt,
sem telja að undirbúa beri barnið að fullu til að lifa sjálfstæðu lífi innan samfélagsins, og ala það upp í anda þeirra hugsjóna sem lýst er í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða, sérstaklega í anda friðar, virðingar, umburðarlyndis, frelsis, jafnréttis og samstöðu,
sem minnast þess að þeirrar nauðsynjar að barninu sé veitt sérstök vernd hefur verið getið í Genfaryfirlýsingu um réttindi barnsins frá 1924 og í yfirlýsingu um réttindi barnsins sem samþykkt var á allsherjarþinginu hinn 20. nóvember 1959, og hefur hún verið viður kennd í mannréttindayfirlýsingunni, í alþjóðasamningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sérstaklega 23. og 24. gr.), í alþjóðasamningnum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (sérstaklega 10. gr.), og í samþykktum og ýmsum löggerningum sérstofnana og alþjóðastofnana sem láta sig velferð barna varða,
sem hafa í huga að barn þarfnist þess „að því sé látin í té sérstök vernd og umönnun þar sem það hafi ekki tekið út líkamlegan og andlegan þroska, þar á meðal viðeigandi lögvernd, jafnt fyrir sem eftir fæðingu“, eins og segir í yfirlýsingunni um réttindi barnsins, sem minnast ákvæða yfirlýsingarinnar um félagslegar og lagalegar meginreglur um vernd barna og velferð með sérstakri hliðsjón af fóstri barna og ættleiðingu innanlands og milli ríkja, almennra lágmarksreglna Sameinuðu þjóðanna um meðferð afbrotamála ungmenna (Beijing-reglnanna), og yfirlýsingarinnar um vernd kvenna og barna er neyð ríkir eða ófriður geisar,
sem gera sér grein fyrir að í öllum löndum heims eru börn sem búa við sérstaklega erfiðar aðstæður, og að þau þarfnist sérstakrar athygli,
sem taka fullt tillit til þess hversu mikilvægar siðvenjur og menningararfleið hverrar þjóðar eru til þess að vernda barnið og tryggja að það þroskist á jákvæðan hátt,
sem viðurkenna mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu svo bæta megi lífskjör barna í öllum löndum, en þó sérstaklega í þróunarlöndum,
hafa komið sér saman um eftirfarandi:
I. hluti.
1. gr. Í samningi þessum merkir barn hvern þann einstakling sem ekki hefur náð átján ára aldri, nema hann nái fyrr lögræðisaldri samkvæmt lögum þeim sem hann lýtur.
2. gr. 1. Aðildarríki skulu virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningi þessum, án mismununar af nokkru tagi, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, uppruna með tilliti til þjóðernis, þjóðhátta eða félagslegrar stöðu, eigna, fötlunar, ætternis eða annarra aðstæðna þess eða foreldris þess eða lögráðamanns.
2. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima, eða sjónarmiða sem þeir láta í ljós eða skoðana þeirra.
3. gr. 1. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.
2. Með hliðsjón af réttindum og skyldum foreldra eða lögráðamanna, eða annarra sem bera ábyrgð að lögum á börnum, skuldbinda aðildarríki sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, og skulu þau í því skyni gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu.
3. Aðildarríki skulu sjá til þess að stofnanir þar sem börnum skal veitt umönnun og vernd starfi í samræmi við reglur sem þar til bær stjórnvöld hafa sett, einkum um öryggi, heilsuvernd og fjölda og hæfni starfsmanna, svo og um tilhlýðilega yfirumsjón.
4. gr. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu, svo og á öðrum vettvangi, til að réttindi þau, sem viðurkennd eru í samningi þessum, komi til framkvæmda. Hvað efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi snertir skulu aðildarríki gera slíkar ráðstafanir að því marki sem þau framast hafa bolmagn til, og með alþjóðlegri samvinnu þar sem þörf krefur.
5. gr. Aðildarríki skulu virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra, eða eftir því sem við á þeirra sem tilheyra stórfjölskyldu eða samfélagi samkvæmt staðbundnum venjum, eða lögráðamanna eða annarra sem að lögum eru ábyrgir fyrir barni, til að veita því tilhlýðilega leiðsögn og handleiðslu í samræmi við vaxandi þroska þess er það beitir réttindum þeim sem viðurkennd eru í samningi þessum.
6. gr. 1. Aðildarríki viðurkenna að sérhvert barn hefur meðfæddan rétt til lífs.
2. Aðildarríki skulu eftir fremsta megni tryggja að börn megi lifa og þroskast.
7. gr. 1. Barn skal skráð þegar eftir fæðingu, og á það frá fæðingu rétt til nafns, rétt til að öðlast ríkisfang, og eftir því sem unnt er rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.
2. Aðildarríki skulu tryggja að réttindum þessum sé komið í framkvæmd í samræmi við lög sín og skuldbindingar í viðeigandi alþjóðasamningum á þessu sviði, einkum í þeim tilvikum þegar barn yrði ella ríkisfangslaust.
8. gr. 1. Aðildarríki skuldbinda sig til að virða rétt barns til að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling, þar með töldu ríkisfangi sínu, nafni og fjölskyldutengslum eins og viðurkennt er með lögum, án ólögmætra afskipta.
2. Sé barn ólöglega svipt einhverju eða öllu því sem auðkennir það sem einstakling skulu aðildarríkin veita viðeigandi aðstoð og vernd í því skyni að bæta úr því sem fyrst.
9. gr. 1. Aðildarríki skulu tryggja að barn sé ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema þegar lögbær stjórnvöld ákveða samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins enda sé sú ákvörðun háð endurskoðun dómstóla. Slík ákvörðun kann að vera nauðsynleg í ákveðnum tilvikum, svo sem ef barn sætir misnotkun eða er vanrækt af foreldrum sínum, eða þegar foreldrar búa ekki saman og ákveða verður hver skuli vera dvalarstaður þess.
2. Við alla málsmeðferð samkvæmt 1. tölul. þessarar greinar skal veita öllum aðilum sem hagsmuna hafa að gæta kost á að taka þátt í málsmeðferð og að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum.
3. Aðildarríki skulu virða rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.
4. Nú á aðskilnaður rætur að rekja til aðgerða af hálfu aðildarríkis, svo sem varðhalds, fangelsunar, útlegðar, brottvísunar úr landi eða andláts annars hvors foreldranna eða beggja eða barnsins (þar á meðal andláts af hvaða orsök sem er meðan ríkið hafði hinn látna í gæslu), og skal þá aðildarríkið þegar þess er beiðst veita foreldrunum eða barninu, eða öðrum í fjölskyldu þeirra ef við á, nauðsynlega vitneskju um hvar þeir fjölskyldumeðlimir eru niðurkomnir, sem fjarverandi eru, enda skaði það ekki barnið að láta vitneskjuna í té. Aðildarríki skulu enn fremur sjá til þess að það eitt að slík beiðni sé borin fram hafi ekki slæmar afleiðingar fyrir það fólk sem í hlut á.
10. gr. 1. Í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt 1. tölul. 9. gr. skulu aðildarríki með jákvæðu hugarfari, mannúðlega og með skjótum hætti afgreiða beiðni barns eða foreldris þess um að koma til eða fara frá aðildarríki vegna endurfunda fjölskyldu. Aðildarríki skulu enn fremur sjá til þess að það eitt að slík beiðni sé borin fram hafi ekki slæmar afleiðingar fyrir beiðendur eða aðra í fjölskyldu þeirra.
2. Barn sem á foreldra búsetta í mismunandi ríkjum á rétt til þess að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, nema sérstaklega standi á. Í því skyni, og í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt 1. tölul. 9. gr., skulu aðildarríki virða rétt barns og foreldra þess til að fara frá hvaða landi sem er, þar á meðal eigin landi, og til að koma til eigin lands. Réttur til að fara frá hvaða landi sem er skal einungis háður þeim takmörkunum sem ákveðnar eru með lögum og nauðsynlegar eru til að gætt sé öryggis þjóðarinnar, allsherjarreglu (ordre public), heilbrigðis almennings eða siðgæðis, eða réttar og frelsis annarra, og sem samræmast öðrum réttindum viðurkenndum í samningi þessum.
11. gr. 1. Aðildarríki skulu gera ráðstafanir gegn því að börn séu ólöglega flutt úr landi og haldið erlendis.
2. Í því skyni skulu aðildarríki stuðla að því að gerðir séu um það tvíhliða eða marghliða samningar, eða aðild fengin að samningum sem þegar hafa verið gerðir.
12. gr. 1. Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.
2. Vegna þessa skal barni einkum veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar, á þann hátt sem samræmist reglum í lögum um málsmeðferð.
13. gr. 1. Barn á rétt til að láta í ljós skoðanir sínar, og felur það í sér rétt til að leita, taka við og miðla hvers kyns vitneskju og hugmyndum, án tillits til landamæra, annaðhvort munnlega, skriflega eða á prenti, í formi lista eða eftir hvers kyns öðrum leiðum að vali þess.
2. Láta má rétt þennan sæta vissum takmörkunum, en þó aðeins að því marki sem mælt er fyrir í lögum og er nauðsynlegt
a) til þess að virða réttindi eða mannorð annarra, eða
b) til að gæta öryggis þjóðarinnar eða allsherjarreglu (ordre public), eða heilbrigðis almennings eða siðgæðis.
14. gr. 1. Aðildarríki skulu virða rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar.
2. Aðildarríki skulu virða rétt og skyldur foreldra, og lögráðamanna, eftir því sem við á, til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum á þann hátt sem samræmist vaxandi þroska þess.
3. Frelsi til að láta í ljós trú eða skoðun skal einungis háð þeim takmörkunum sem mælt er fyrir um í lögum og eru nauðsynlegar til að gæta öryggis almennings, allsherjarreglu, heilsu almennings eða siðgæðis, eða grundvallarréttinda og frelsis annarra.
15. gr. 1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til að mynda félög með öðrum og koma saman með öðrum með friðsömum hætti.
2. Þessi réttindi skulu ekki háð öðrum takmörkunum en þeim sem settar eru í samræmi við lög og nauðsynlegar eru í lýðfrjálsu þjóðfélagi vegna öryggis þjóðarinnar eða almennings, allsherjarreglu (ordre public), verndunar heilbrigðis almennings eða siðgæðis eða verndunar réttinda og frelsis annarra.
16. gr. 1. Eigi má láta barn sæta gerræðislegum eða ólögmætum afskiptum af einkalífi þess, fjölskyldu, heimili eða bréfum, né ólögmætri árás á sæmd þess eða mannorð.
2. Barn á rétt á vernd laganna fyrir slíkum afskiptum og árásum.
17. gr. Aðildarríki viðurkenna mikilvægi fjölmiðla, og skulu þau sjá um að barn eigi aðgang að upplýsingum og efni af ýmsum uppruna frá eigin landi og erlendis frá, einkum því sem ætlað er að stuðla að félagslegri, andlegri og siðferðislegri velferð þess, og líkamlegu og geðrænu heilbrigði. Aðildarríki skulu í þessu skyni:
a) Hvetja fjölmiðla til að dreifa upplýsingum og efni sem börn njóta góðs af félagslega og menningarlega og samræmist anda 29. gr.
b) Stuðla að alþjóðlegri samvinnu við undirbúning, skipti og dreifingu á slíkum upplýsingum og efni af fjölbreyttum uppruna, menningarlegum, þjóðlegum og alþjóðlegum.
c) Stuðla að því að barnabækur séu samdar og þeim dreift.
d) Hvetja fjölmiðla til að taka sérstakt tillit til tungumálaþarfa barns sem tilheyrir minnihlutahópi eða er af frumbyggjaættum.
e) Stuðla að því að mótaðar verði viðeigandi leiðbeiningareglur um vernd barns fyrir upplýsingum og efni sem skaðað getur velferð þess, með ákvæði 13. og 18. gr. í huga.
18. gr. 1. Aðildarríki skulu gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að sú meginregla sé virt að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska. Foreldrar, eða lögráðamenn, ef við á, bera aðalábyrgð á uppeldi barns og því að barni sé komið til þroska. Það sem barninu er fyrir bestu skal vera þeim efst í huga.
2. Til þess að tryggja og efla réttindi þau sem kveðið er á um í samningi þessum skulu aðildarríki veita foreldrum og lögráðamönnum viðeigandi aðstoð við að rækja uppeldisskyldur sínar og sjá til þess að byggðar séu upp stofnanir og aðstaða og þjónusta veitt til umönnunar barna.
3. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að börn foreldra sem stunda atvinnu fái notið góðs af þjónustu og aðstöðu til umönnunar barna sem þau kunna að eiga rétt á.
19. gr. 1. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun, meðan það er í umsjá annars eða beggja foreldra, lögráðamanns eða lögráðamanna, eða nokkurs annars sem hefur það í umsjá sinni.
2. Eftir því sem við á skulu meðal slíkra verndarráðstafana vera virkar ráðstafanir til að koma á félagslegri þjónustu til að veita barni og þeim sem hafa það í sinni umsjá nauðsynlegan stuðning, og til að koma á öðrum forvörnum, svo og til að greina, tilkynna, vísa áfram, rannsaka, taka til meðferðar og fylgjast með tilfellum er barn hefur sætt illri meðferð svo sem lýst hefur verið, svo og ef við á til að tryggja afskipti dómara.
20. gr. 1. Barn sem tímabundið eða til frambúðar nýtur ekki fjölskyldu sinnar, eða sem með tilliti til þess sem því sjálfu er fyrir bestu er ekki unnt að leyfa að sé lengur innan um fjölskyldu sína, á rétt á sérstakri vernd og aðstoð ríkisvaldsins.
2. Aðildarríki skulu í samræmi við lög sín sjá barni sem þannig er ástatt um fyrir annarri umönnun.
3. Slík umönnun getur meðal annars falist í fóstri, kafalah samkvæmt islömskum lögum, ættleiðingu eða, ef nauðsyn krefur, vistun á viðeigandi stofnun sem annast börn. Þegar lausna er leitað skal tekið tilhlýðilegt tillit til þess að æskilegt er að stöðugleiki verði í uppeldi barns og til þjóðlegs, trúarlegs og menningarlegs uppruna þess og tungumáls.
21. gr. Aðildarríki sem viðurkenna og/eða leyfa ættleiðingu skulu tryggja að fyrst og fremst sé litið til þess sem barni er fyrir bestu, og skulu:
a) Sjá til þess að ættleiðing barns sé aðeins heimiluð af þar til bærum stjórnvöldum sem ákveða samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð og á grundvelli viðeigandi og áreiðanlegra upplýsinga að ættleiðing sé leyfileg með hliðsjón af stöðu barnsins gagnvart foreldrum þess, skyldmennum og lögráðamönnum og þeir sem í hlut eiga hafi ef þess er krafist veitt samþykki sitt fyrir ættleiðingu, að íhuguðu máli og að fenginni nauðsynlegri ráðgjöf.
b) Viðurkenna að taka megi ættleiðingu milli landa til athugunar sem aðra leið til að sjá barni fyrir umönnun, ef ekki er unnt að koma því í fóstur eða til ættleiðingar eða veita því með einhverjum viðeigandi hætti umönnun í upprunalandi sínu.
c) Sjá til þess að barn sem ættleitt er milli landa njóti sömu verndar og við ættleiðingu innanlands og um það gildi sömu reglur.
d) Gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að ættleiðing milli landa hafi ekki í för með sér óeðlilegan fjárgróða fyrir þá sem hlut eiga að henni.
e) Stuðla að því, þar sem við á, að markmiðum greinar þessarar verði náð með því að koma á tvíhliða eða marghliða tilhögun eða samningum, og leitast innan þess ramma við að tryggja að þar til bær stjórnvöld eða stofnanir sjái um að koma barni fyrir í öðru landi.
22. gr. 1. Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leitar eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið er flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum og starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það er í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eiga og kveðið er á um í samningi þessum og öðrum alþjóðlegum löggerningum á sviði mannréttinda- eða mannúðarmála sem ríki þau er um ræðir eiga aðild að.
2. Í þessu skyni skulu aðildarríki veita Sameinuðu þjóðunum, svo og öðrum hæfum milliríkjastofnunum eða stofnunum, sem ríki eiga ekki aðild að, er hafa samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar, alla þá samvinnu er þau telja að við eigi, í viðleitni þeirra til að vernda og aðstoða börn sem þannig er ástatt um, og við að leita uppi foreldra barns sem er flóttamaður, eða aðra í fjölskyldu þess, til að afla upplýsinga sem þörf er á til að fjölskyldan geti sameinast. Þegar ekki er unnt að hafa uppi á foreldrum eða öðrum í fjölskyldunni skal veita barni sömu vernd og hverju því barni ber sem til frambúðar eða tímabundið nýtur ekki fjölskyldu sinnar, hver sem ástæða þess er, eins og kveðið er á um í samningi þessum.
23. gr. 1. Aðildarríki viðurkenna að andlega eða líkamlega fatlað barn skuli njóta fulls og sómasamlegs lífs, við aðstæður sem tryggja virðingu þess og stuðla að sjálfsbjörg þess og virkri þátttöku í samfélaginu.
2. Aðildarríki viðurkenna rétt fatlaðs barns til sérstakrar umönnunar, og skulu þau stuðla að því og sjá um að barni sem á rétt á því, svo og þeim er hafa á hendi umönnun þess, verði eftir því sem föng eru á veitt sú aðstoð sem sótt er um og hentar barninu og aðstæðum foreldra eða annarra sem annast það.
3. Með tilliti til hinna sérstöku þarfa fatlaðs barns skal aðstoð samkvæmt 2. tölul. þessarar greinar veitt ókeypis þegar unnt er, með hliðsjón af efnahag foreldra eða annarra sem hafa á hendi umönnun þess, og skal hún miðuð við að tryggt sé að fatlaða barnið hafi í raun aðgang að og njóti menntunar, þjálfunar, heilbrigðisþjónustu, endurhæfingar, starfsundirbúnings og möguleika til tómstundaiðju, þannig að stuðlað sé að sem allra mestri félagslegri aðlögun og þroska þess, þar á meðal í menningarlegum og andlegum efnum.
4. Aðildarríki skulu í anda alþjóðlegrar samvinnu stuðla að því að skipst sé á viðeigandi upplýsingum um fyrirbyggjandi heilsugæslu og læknisfræðilega, sálfræðilega og starfræna meðferð fatlaðra barna, þ. á m. með dreifingu á og aðgangi að upplýsingum um endurhæfingaraðferðir, menntun og atvinnuhjálp, er miði að því að gera aðildarríkjum kleift að bæta getu sína og færni og auka reynslu sína að þessu leyti. Hvað þetta snertir skal tekið sérstakt tillit til þarfa þróunarlanda.
24. gr. 1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar. Aðildarríki skulu kappkosta að tryggja að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu.
2. Aðildarríki skulu stefna að því að réttur þessi komist að fullu til framkvæmda, og einkum gera viðeigandi ráðstafanir:
a) Til að draga úr ungbarna- og barnadauða.
b) Til að tryggja öllum börnum nauðsynlega læknisaðstoð og heilbrigðisþjónustu, með áherslu á uppbyggingu heilsugæslu.
c) Til að berjast gegn sjúkdómum og vannæringu, þ. á m. innan heilsugæslunnar, meðal annars með því að beita þeirri tækniþekkingu sem er auðveldlega tiltæk og með því að útvega nægilega holla fæðu og hreint drykkjarvatn um leið og tekið sé tillit til hættu á umhverfismengun og áhrifa af völdum hennar.
d) Til að tryggja mæðrum viðeigandi heilbrigðisþjónustu fyrir og eftir fæðingu.
e) Til að sjá um að allir þjóðfélagshópar, en einkum foreldrar og börn, fái upplýsingar um og eigi aðgang að fræðslu og fái aðstoð við að beita grundvallarþekkingu á heilbrigði barna og næringu, kostum brjóstagjafar, hreinlæti, umhverfishreinlæti og slysavörnum.
f) Til að þróa heilsuvernd, leiðbeiningar til foreldra og fræðslu og aðstoð við fjölskylduáætlanir.
3. Aðildarríki skulu gera allar þær ráðstafanir sem vænlegar eru til árangurs og við eiga í því skyni að ryðja úr vegi hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði barna.
4. Aðildarríki skuldbinda sig til að stuðla að og hvetja til alþjóðasamvinnu er beinist að því að smám saman komi réttur sá sem viðurkenndur er í grein þessari til fullra framkvæmda. Hvað þetta snertir skal tekið sérstakt tillit til þarfa þróunarríkja.
25. gr. Aðildarríki viðurkenna að barn sem þar til bær stjórnvöld hafa falið öðrum til umönnunar, verndar eða meðferðar vegna líkamlegrar eða andlegrar vanheilsu eigi rétt á að meðferð þess og allar aðrar aðstæður sem að vistinni lúta sæti athugun reglulega.
26. gr. 1. Aðildarríki viðurkenna rétt hvers barns til að njóta félagslegrar aðstoðar, þar með talið almannatrygginga, og skulu þau gera nauðsynlegar ráðstafanir samkvæmt lögum sínum til að rétti þessum sé komið til fullra framkvæmda.
2. Bætur skulu þar sem við á veittar með hliðsjón af efnum og aðstæðum barns og þeirra sem bera ábyrgð á framfærslu þess, svo og öllu öðru sem snertir umsókn um bætur lagða fram af barninu eða öðrum fyrir þess hönd.
27. gr. 1. Aðildarríki viðurkenna rétt hvers barns til lífsafkomu sem nægir því til að ná líkamlegum, sálrænum, andlegum, siðferðilegum og félagslegum þroska.
2. Foreldrar eða foreldri, eða aðrir sem ábyrgir eru fyrir uppeldi barns, bera höfuðábyrgð á því í samræmi við getu sína og fjárhagsaðstæður að sjá barni fyrir þeim lífsskilyrðum sem eru því nauðsynleg til að komast til þroska.
3. Aðildarríki skulu í samræmi við aðstæður sínar og efni gera viðeigandi ráðstafanir til að veita foreldrum og öðrum sem ábyrgir eru fyrir uppeldi barns aðstoð til að neyta þessa réttar, og skulu þegar þörf krefur láta í té efnislega aðstoð og sjá fyrir stuðningsúrræðum, einkum að því er fæði, klæðnað og húsnæði snertir.
4. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að innheimta framfærslueyri með barni frá foreldrum eða öðrum sem bera fjárhagslega ábyrgð á barninu, bæði innanlands og frá útlöndum. Einkum skulu þau stuðla að aðild að alþjóðasamningum eða að gerð slíkra samninga svo og gera aðrar ráðstafanir sem við eiga þegar sá sem ber fjárhagslega ábyrgð á barninu býr í öðru ríki en barnið.
28. gr. 1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til menntunar og skulu þau, til þess að réttur þessi nái fram að ganga stig af stigi og þannig að allir njóti sömu tækifæra, einkum:
a) Koma á skyldu til grunnmenntunar sem allir geti notið ókeypis.
b) Stuðla að þróun ýmiss konar framhaldsmenntunar, þar á meðal almennrar menntunar og starfsmenntunar, veita öllum börnum kost á að njóta hennar, og gera aðrar ráðstafanir sem við eiga, svo sem með því að veita ókeypis menntun og bjóða fjárhagslega aðstoð þeim sem hennar þurfa með.
c) Veita öllum kost á æðri menntun eftir hæfileikum, með hverjum þeim ráðum sem við eiga.
d) Sjá til þess að upplýsingar og ráðgjöf um nám og starfsval séu fyrir hendi og aðgengilegar öllum börnum.
e) Gera ráðstafanir til að stuðla að reglulegri skólasókn og draga úr því að nemendur hverfi frá námi.
2. Aðildarríki skulu gera allt það sem við á til að tryggja að námsaga sé haldið uppi með þeim hætti sem samrýmist mannlegri reisn barnsins og í samræmi við samning þennan.
3. Aðildarríki skulu stuðla að og hvetja til alþjóðasamvinnu um menntamál, einkum í því skyni að leggja fram skerf til útrýmingar á vanþekkingu og ólæsi hvarvetna í heiminum, og greiða fyrir aðgangi að vísinda- og tækniþekkingu og nútímakennsluaðferðum. Hvað þetta snertir skal tekið sérstakt tillit til þarfa þróunarríkja.
29. gr. 1. Aðildarríki eru sammála um að menntun barns skuli beinast að því að:
a) Rækta eftir því sem frekast er unnt persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess.
b) Móta með því virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi og grundvallarsjónarmiðum þeim er fram koma í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða.
c) Móta með því virðingu fyrir foreldrum þess, menningarlegri arfleifð þess, tungu og gildismati, þjóðernislegum gildum þess lands er það býr í og þess er það kann að vera upprunnið frá, og fyrir öðrum menningarháttum sem frábrugðnir eru menningu þess sjálfs.
d) Undirbúa barn til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi, í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis karla og kvenna og vináttu milli allra þjóða, þjóðhátta-, þjóðernis- og trúarhópa, og fólks af frumbyggjaættum.
e) Að móta með því virðingu fyrir náttúrulegu umhverfi mannsins.
2. Eigi skal líta svo á að í grein þessari eða í 28. gr. sé fólgin nein íhlutun í rétt manna og hópa til að koma á fót og stjórna menntastofnunum, enda sé ávallt gætt þeirra meginreglna, sem fram koma í 1. tölul. þessarar greinar, og lágmarkskrafna sem ríkisvaldið kann að gera til menntunar sem slíkar stofnanir veita.
30. gr. Í ríkjum þar sem minnihlutahópar hafa myndast vegna sérstakra þjóðhátta, trúarbragða eða tungumála, eða þar sem frumbyggjar eru, skal barni sem heyrir til slíks hóps ekki meinað að njóta eigin menningar, játa og iðka eigin trú, og nota eigið tungumál í samfélagi með öðrum í hópnum.
31. gr. 1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til hvíldar og tómstunda, til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess, og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum.
2. Aðildarríki skulu virða og efla rétt barns til að taka fullan þátt í menningar- og listalífi, og skulu stuðla að því að viðeigandi og jöfn tækifæri séu veitt til að stunda menningarlíf, listir og tómstundaiðju.
32. gr. 1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til að vera verndað fyrir arðráni og vinnu sem líklegt er að því stafi hætta af eða komið gæti niður á námi þess eða skaðað heilsu þess eða líkamlegan, sálrænan, andlegan, siðferðislegan eða félagslegan þroska.
2. Aðildarríki skulu gera ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félagsmála og menntamála til að tryggja framkvæmd þessarar greinar. Í því skyni, og með hliðsjón af viðeigandi ákvæðum annarra alþjóðlegra löggerninga, skulu aðildarríki einkum:
a) Kveða á um lágmarksaldursmark eða -mörk til ráðningar í starf.
b) Setja viðeigandi reglur um vinnutíma og vinnuskilyrði.
c) Mæla fyrir um viðeigandi refsingar eða önnur viðurlög til að tryggja að ákvæðum greinar þessarar verði framfylgt á virkan hátt.
33. gr. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félagsmála og menntamála, til verndar börnum gegn ólöglegri notkun ávana- og fíkniefna og skynvilluefna svo sem þau eru skilgreind í alþjóðasamningum sem um þau fjalla, og til að koma í veg fyrir að börn séu notuð við ólöglega framleiðslu slíkra efna og verslun með þau.
34. gr. Aðildarríki skuldbinda sig til að vernda börn fyrir hvers kyns kynferðislegri notkun eða misnotkun í kynferðislegum tilgangi. Í þeim tilgangi skulu þau einkum gera allt sem við á, bæði innanlands og með tvíhliða og marghliða ráðstöfunum, til að koma í veg fyrir:
a) Að barn sé talið á eða þvingað til að taka þátt í hvers konar ólögmætri kynferðislegri háttsemi.
b) Að börn séu notuð til vændis eða annarra ólögmætra kynferðisathafna.
c) Að börn séu notuð í klámsýningum eða til að búa til klámefni.
35. gr. Aðildarríki skulu gera allt sem við á, bæði innanlands og með tvíhliða og marghliða ráðstöfunum, til að koma í veg fyrir brottnám barna, sölu á börnum og verslun með börn í hvaða tilgangi sem er, og hvernig sem slíkt á sér stað.
36. gr. Aðildarríki skulu vernda börn gegn hvers kyns annarri notkun sem á einhvern hátt getur stefnt velferð þeirra í hættu.
37. gr. Aðildarríki skulu gæta þess að:
a) Ekkert barn sé látið sæta pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Ekki skal ákveða dauðarefsingu eða lífstíðarfangelsi án möguleika á lausn fyrir afbrot sem yngri menn en 18 ára hafa framið.
b) Ekkert barn sé ólöglega eða gerræðislega svipt frjálsræði sínu. Handtaka, varðhald og fangelsun barns skal eiga sér stað samkvæmt lögum, og skal slíku aðeins beitt sem síðasta úrræði og í skemmsta tíma sem við getur átt.
c) Farið sé mannúðlega með hvert það barn sem svipt er frjálsræði sínu og af virðingu fyrir meðfæddri göfgi manna og með þeim hætti að tekið sé tillit til þarfa einstaklings á þeim aldri sem um ræðir. Einkum skal halda hverju því barni sem svipt er frjálsræði sínu aðskildu frá fullorðnum, nema ef talið er að því sé fyrir bestu að gera það ekki, og á barn rétt á að halda tengslum við fjölskyldu sína með bréfaskriftum og heimsóknum, nema sérstaklega standi á.
d) Hvert það barn sem svipt er frjálsræði eigi rétt á skjótri lögfræðilegri aðstoð og annarri viðeigandi aðstoð, svo og rétt til að vefengja lögmæti frjálsræðissviptingar sinnar fyrir dómstól eða öðru þar til bæru óháðu og óhlutdrægu stjórnvaldi, og til að fá skjótan úrskurð þar um.
38. gr. 1. Aðildarríki skuldbinda sig til að virða og tryggja virðingu fyrir þeim alþjóðlegu mannúðarreglum sem gilda gagnvart þeim í vopnaátökum og varða börn.
2. Aðildarríki skulu gera allar raunhæfar ráðstafanir til að tryggja að þeir sem ekki hafa náð fimmtán ára aldri taki ekki beinan þátt í vopnaviðskiptum.
3. Aðildarríki skulu forðast að kalla þá sem hafa ekki náð fimmtán ára aldri til herþjónustu. Við herkvaðningu þeirra sem náð hafa fimmtán ára aldri en hafa ekki náð átján ára aldri skulu aðildarríki leitast við að láta hina elstu ganga fyrir.
4. Í samræmi við skyldur sínar samkvæmt alþjóðlegum mannúðarreglum til að vernda óbreytta borgara í vopnaátökum skulu aðildarríki gera allar raunhæfar ráðstafanir til að tryggja börnum, sem áhrif vopnaátaka ná til, vernd og umönnun.
39. gr. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að stuðla að því að barn, sem sætt hefur vanrækslu, notkun eða misnotkun af nokkru tagi, pyndingum eða annars konar grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, eða er fórnarlamb vopnaátaka, hljóti líkamlegan og sálrænan bata og aðlagist samfélaginu á ný. Leita skal bata og aðlögunar í umhverfi sem hlynnir að heilsu, sjálfsvirðingu og göfgi barnsins.
40. gr. 1. Aðildarríki viðurkenna rétt hvers þess barns, sem er grunað, ásakað eða fundið sekt um brot á refsilögum, til meðferðar sem styrkir vitund þess um eigin göfgi og manngildi, sem treystir virðingu þess fyrir mannréttindum og mannfrelsi annarra, og sem tekur tillit til aldurs barnsins og þess að æskilegt sé að stuðla að aðlögun þess og því að það gegni jákvæðu hlutverki í samfélaginu.
2. Skulu aðildarríki í þessu skyni, og með hliðsjón af viðeigandi ákvæðum alþjóðlegra löggerninga, einkum sjá til þess að:
a) Ekkert barn sé grunað, ásakað eða fundið sekt um brot á refsilögum vegna verknaða eða aðgerðarleysis sem ekki var lagt bann við í landslögum eða að þjóðarétti á þeim tíma er verknaðurinn eða aðgerðarleysið átti sér stað.
b) Hvert það barn sem grunað er eða ásakað um refsilagabrot njóti eftirgreindra lágmarksréttinda:
i) Að vera talið saklaust þar til það er fundið sekt að lögum.
ii) Að fá vitneskju um kærurnar gegn því án tafar og beint, og, ef við á, fyrir milligöngu foreldra sinna eða lögráðamanna og að njóta lögfræðilegrar aðstoðar eða annarrar viðeigandi aðstoðar við undirbúning og framsetningu á vörn sinni.
iii) Að fá gert út um mál sitt án tafar af þar til bæru, óháðu og óhlutdrægu yfirvaldi eða dómstól, við réttláta og lögmælta rannsókn, enda sé til staðar lögfræðileg eða önnur viðeigandi aðstoð, svo og foreldrar þess eða lögráðamenn, nema það sé ekki talið barninu fyrir bestu, sérstaklega með tilliti til aldurs eða aðstæðna þess.
iv) Að verða ekki þröngvað til að bera vitni eða játa á sig sök, að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn því, og að vitni þess komi fyrir og séu spurð við sömu aðstæður.
v) Að ákvörðun um að það hafi brotið gegn refsilögum svo og ráðstafanir sem gerðar eru vegna hennar séu endurskoðaðar af æðra þar til bæru óháðu og óhlutdrægu yfirvaldi eða dómstól samkvæmt lögum.
vi) Að fá ókeypis aðstoð túlks ef barnið skilur ekki eða talar ekki tungumál það sem notað er.
vii) Að friðhelgi einkalífs þess sé virt að fullu á öllum stigum málsmeðferðarinnar.
3. Aðildarríki skulu hvetja til þess að settar séu lagareglur, og reglur um málsmeðferð, skipuð stjórnvöld og settar á fót stofnanir sérstaklega fyrir börn sem eru grunuð, ásökuð eða fundin sek um refsilagabrot, og einkum:
a) Ákveða þann lágmarksaldur, sem börn verða að hafa náð til þess að vera talin sakhæf.
b) Gera, þegar það á við og þykir henta, ráðstafanir til að fara með mál slíkra barna án þess að leita til dómstóla, enda sé mannréttinda og lögverndar gætt að fullu.
4. Séð skal til þess að grípa megi til ýmiss konar ráðstafana, svo sem umsjónar, leiðsagnar, eftirlits, ráðgjafar, skilorðs, fósturs, fræðslu- og starfsnámsáætlana og annarra valkosta í stað vistunar á stofnunum, til að tryggja að með börn sé farið á þann hátt sem velferð þeirra hæfir og samræmist bæði aðstæðum þeirra og brotinu.
41. gr. Ekkert í samningi þessum skal hafa áhrif á reglur sem stuðla frekar að því að réttindi barnsins komist til framkvæmda og vera kunna í
a) lögum aðildarríkis, eða
b) alþjóðalögum sem í gildi eru gagnvart því ríki.
II. hluti.
42. gr. Aðildarríki skuldbinda sig til að kynna meginreglur og ákvæði samnings þessa víða með viðeigandi og virkum hætti, jafnt börnum og fullorðnum.
43. gr. 1. Til þess að kanna hvernig aðildarríkjum miðar við að koma í framkvæmd þeim skuldbindingum sem þau taka á sig með samningi þessum skal setja á stofn nefnd um réttindi barnsins, er fer með þau verkefni sem hér á eftir segir.
2. Í nefndinni skulu eiga sæti tíu sérfræðingar sem séu vammlausir og viðurkenndir fyrir hæfni á því sviði sem samningur þessi tekur til. Nefndarmenn skulu valdir af aðildarríkjum úr hópi ríkisborgara þeirra og starfa sem einstaklingar, en taka skal tillit til þess að landfræðileg dreifing sé sanngjörn, svo og til helstu réttarkerfa.
3. Nefndarmenn skulu kjörnir leynilegri kosningu af skrá um menn sem aðildarríki hafa tilnefnt. Hvert aðildarríki getur tilnefnt einn mann úr hópi eigin ríkisborgara.
4. Fyrsta kosning nefndarmanna skal fara fram eigi síðar en sex mánuðum eftir að samningur þessi öðlast gildi, og síðan annað hvert ár. Eigi síðar en fjórum mánuðum fyrir hvern kjördag skal aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna senda aðildarríkjum bréf, og bjóða þeim að leggja fram tilnefningar sínar innan tveggja mánaða. Skal aðalframkvæmdastjóri síðan gera skrá í stafrófsröð um þá sem tilnefndir hafa verið, þar sem getið sé aðildarríkis þess sem tilnefndi, og leggja hana fyrir aðildarríkin.
5. Kosning skal fara fram á fundum aðildarríkja, sem aðalframkvæmdastjóri kallar saman í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Á fundunum, sem eru lögmætir ef tveir þriðju aðildarríkjanna sækja þá, skulu þeir teljast kosnir til nefndarinnar sem fá flest atkvæði og hreinan meiri hluta atkvæða fulltrúa aðildarríkja sem viðstaddir eru og greiða atkvæði.
6. Kjörtímabil nefndarmanna er fjögur ár. Þá má endurkjósa ef þeir eru tilnefndir að nýju. Kjörtímabil fimm þeirra nefndarmanna sem kosnir eru í fyrstu kosningu rennur út að liðnum tveimur árum, og skal fundarstjóri velja nöfn þeirra með hlutkesti þegar er fyrsta kosning hefur farið fram.
7. Nú deyr nefndarmaður eða segir af sér, eða lýsir því yfir að hann geti ekki lengur sinnt nefndarstörfum af einhverjum öðrum ástæð um, og skal þá aðildarríki það sem tilnefndi hann tilnefna annan nefndarmann úr hópi ríkisborgara sinna er gegni störfum það sem eftir lifir kjörtímabilsins, enda samþykki nefndin það.
8. Nefndin setur sér sjálf starfsreglur.
9. Nefndin kýs embættismenn sína til tveggja ára.
10. Fundir nefndarinnar skulu að jafnaði haldnir í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna, eða á öðrum hentugum fundarstað að ákvörðun nefndarinnar. Nefndin skal yfirleitt koma saman árlega. Á fundi aðildarríkja að samningi þessum skal ákveðið, og endurmetið ef þörf krefur, hve lengi fundir nefndarinnar skuli standa að áskildu samþykki allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.
11. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal sjá fyrir nauðsynlegu starfsliði og aðstöðu til þess að nefndin geti rækt starf sitt á fullnægjandi hátt samkvæmt samningi þessum.
12. Þeir sem sæti eiga í nefnd þeirri sem stofnuð er samkvæmt samningi þessum skulu, með samþykki allsherjarþingsins, fá þóknun úr sjóðum Sameinuðu þjóðanna, og með þeim skilmálum og skilyrðum sem þingið kann að ákveða.
44. gr. 1. Aðildarríki skuldbinda sig til að láta nefndinni í té fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna skýrslur um það sem þau hafa gert til að koma í framkvæmd réttindum þeim sem viðurkennd eru í samningi þessum, og um hvernig miðað hefur í beitingu þeirra:
a) innan tveggja ára frá því er samningur þessi hefur öðlast gildi gagnvart aðildarríki því sem í hlut á,
b) og síðan á fimm ára fresti.
2. Í skýrslum sem gerðar eru samkvæmt þessari grein skal bent á þá þætti og þau vandkvæði, ef um það er að ræða, sem áhrif kunna að hafa á að hve miklu leyti tekist hefur að fullnægja þeim skuldbindingum sem kveðið er á um í samningi þessum. Í skýrslunum skulu einnig koma fram upplýsingar er nægja til að veita nefndinni gagngera yfirsýn yfir framkvæmd samningsins í viðkomandi landi.
3. Samningsríki, sem lagt hefur fyrir nefndina í upphafi alhliða skýrslu, þarf ekki í síðari skýrslum sínum til nefndarinnar samkvæmt b-lið 1. tölul. þessarar greinar að endurtaka grundvallarupplýsingar sem veittar hafa verið áður.
4. Nefndin getur óskað frekari upplýsinga frá aðildarríkjum sem skipta máli fyrir framkvæmd samningsins.
5. Nefndin skal fyrir milligöngu efnahags- og félagsmálaráðs leggja skýrslu um störf sín fyrir allsherjarþingið á tveggja ára fresti.
6. Hvert aðildarríki skal sjá um að skýrslur þess séu auðveldlega tiltækar almenningi í landi sínu.
45. gr. Til að hlynna að virkri framkvæmd samnings þessa og stuðla að alþjóðlegri samvinnu á gildissviði hans:
a) Eiga sérstofnanirnar, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna rétt á fyrirsvari þegar fjallað er um framkvæmd þeirra reglna samningsins sem skyldur þeirra varða. Nefndin getur boðið sérstofnununum, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og öðrum þar til hæfum stofnunum að veita sérfræðilega ráðgjöf um framkvæmd samningsins á þeim sviðum sem varða skyldur hverrar stofnunar um sig, eins og hún telur henta. Nefndin getur boðið sérstofnununum, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna að leggja fram skýrslur um framkvæmd samningsins á þeim sviðum sem falla innan starfssviðs þeirra.
b) Skal nefndin eins og hún telur henta senda sérstofnununum, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og öðrum hæfum stofnunum skýrslur aðilda rríkja þar sem beiðni er borin fram um tæknilega aðstoð eða aðra hjálp, eða þar sem fram kemur að slíks sé þörf, ásamt athugasemdum og tillögum nefndarinnar varðandi slíka beiðni eða ábendingu, ef við á.
c) Getur nefndin mælst til þess við allsherjarþingið að það fari fram á við aðalframkvæmdastjóra að hann geri fyrir hönd nefndarinnar athuganir á tilgreindum álitaefnum sem varða réttindi barnsins.
d) Getur nefndin lagt fram tillögur og almenn tilmæli er byggjast á vitneskju sem henni hefur borist samkvæmt 44. og 45. gr. samnings þessa. Slíkar tillögur og almenn tilmæli skulu send hverju því aðildarríki sem málið varðar, og skal allsherjarþinginu skýrt frá þeim og athugasemdir aðildarríkja látnar fylgja, ef um þær er að ræða.
III. hluti.
46. gr. Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu allra ríkja.
47. gr. Samningur þessi er háður fullgildingu. Fullgildingarskjölum skal koma í vörslu hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
48. gr. Öllum ríkjum skal heimilt að gerast aðilar að samningi þessum. Aðildarskjölum skal koma í vörslu hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
49. gr. 1. Samningur þessi gengur í gildi á þrítugasta degi eftir að tuttugasta fullgildingar- eða aðildarskjalinu hefur verið komið til vörslu hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
2. Gagnvart sérhverju ríki sem fullgildir samning þennan eða gerist aðili að honum eftir að tuttugasta fullgildingar- eða aðildarskjalinu hefur verið komið í vörslu skal hann öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að fullgildingar- eða aðildarskjali þess hefur verið komið í vörslu.
50. gr. 1. Sérhvert aðildarríki má bera fram breytingartillögu og fá hana skráða hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Aðalframkvæmdastjórinn skal síðan senda hana aðildarríkjum, ásamt tilmælum um að þau tilkynni hvort þau séu því hlynnt að haldin verði ráðstefna aðildarríkja til þess að athuga tillögurnar og greiða atkvæði um þær. Ef að minnsta kosti einn þriðji aðildarríkjanna er hlynntur slíkri ráðstefnu innan fjögurra mánaða frá því er tilmælin eru borin fram skal aðalframkvæmdastjórinn boða til hennar á vegum Sameinuðu þjóðanna. Sérhver breytingartillaga, sem samþykkt er af meiri hluta þeirra aðildarríkja sem ráðstefnuna sækja og atkvæði greiða, skal lögð fyrir allsherjarþingið til samþykktar.
2. Breytingartillaga, sem samþykkt er skv. 1. tölul. þessarar greinar, skal öðlast gildi þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt hana og hún hefur verið staðfest af tveimur þriðju hluta aðildarríkjanna.
3. Þegar breytingartillaga öðlast gildi er hún bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa staðfest hana, en önnur aðildarríki skulu áfram bundin af samningi þessum og fyrri breytingum sem þau hafa samþykkt.
51. gr. 1. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal taka við og framsenda öllum ríkjum texta þeirra fyrirvara sem ríki gera er þau fullgilda samninginn eða gerast aðilar að honum.
2. Ekki er heimilt að gera fyrirvara sem ósamrýmanlegur er markmiðum og tilgangi samnings þessa.
3. Fyrirvara má afturkalla hvenær sem er með tilkynningu um það til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem síðan skýrir öllum ríkjum frá því. Tilkynningin öðlast gildi á þeim degi er aðalframkvæmdastjóri tekur við henni.
52. gr. Aðildarríki getur sagt upp samningi þessum með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Uppsögn öðlast gildi einu ári eftir að aðalframkvæmdastjóri tekur við tilkynningunni.
53. gr. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna er tilnefndur vörsluaðili samnings þessa.
54. gr. Frumrit samnings þessa, en arabískur, enskur, franskur, kínverskur, rússneskur og spánskur texti hans eru jafngildir, skal komið til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.