Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. júlí 2003.  Útgáfa 128b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um skráð trúfélög

1999 nr. 108 28. desember


Tóku gildi 1. janúar 2000.

I. kafli. Almenn ákvæði um trúfélög.
1. gr. Trúfrelsi.
Rétt eiga menn á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Eigi má þó fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði og allsherjarreglu. Á sama hátt eiga menn rétt á að stofna félög um hvers konar kenningar og lífsskoðanir, þ.m.t. um trúleysi.
Eigi er skylt að tilkynna stjórnvöldum um stofnun eða starfsemi trúfélaga eða annarra félaga um lífsskoðanir.
Óheimilt er að taka upp nafn á trúfélag sem er svo líkt nafni annars trúfélags að misskilningi geti valdið.

II. kafli. Skráð trúfélög.
2. gr. Skráning trúfélags.
Heimilt er að skrá trúfélög utan þjóðkirkjunnar. Með skráningunni fær trúfélag réttindi og skyldur sem lög ákveða. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið annast skráningu trúfélaga. Þegar trúfélag hefur verið skráð skal ráðuneytið láta því í té vottorð um skráninguna og auglýsa hana í Lögbirtingablaði. Réttaráhrif skráningar teljast frá birtingu tilkynningar í Lögbirtingablaði.
3. gr. Almennt skilyrði skráningar.
Skilyrði fyrir skráningu trúfélags er að um sé að ræða félag sem leggur stund á átrúnað eða trú sem tengja má við þau trúarbrögð mannkyns sem eiga sér sögulegar eða menningarlegar rætur.
Enn fremur er það skilyrði skráningar að félag hafi náð fótfestu, starfsemi þess sé virk og stöðug og að í félaginu sé kjarni félagsmanna sem reglulega iðka trú sína í samræmi við kenningar þær sem félagið er stofnað um og eiga til sóknar að gjalda hér á landi samkvæmt lögum um sóknargjöld.
4. gr. Umsókn um skráningu.
Trúfélag sem óskar skráningar skal senda dóms- og kirkjumálaráðuneytinu umsókn um skráningu. Með umsókn skulu fylgja upplýsingar um:
    1. nafn trúfélags og heimilisfang,
    2. nákvæmt félagatal, þar sem fram koma nöfn, kennitölur og heimili félagsmanna,
    3. trúarkenningar þess og tengsl þeirra við önnur trúarbrögð eða trúarhreyfingar,
    4. lög félagsins og allar aðrar reglur sem kunna að gilda um ráðstöfun fjármuna félagsins,
    5. nöfn stjórnarmanna og forstöðumanns,
    6. starfsemi félagsins, svo sem reglulegt samkomuhald eða annað sem gefur til kynna að starfsemi þess sé stöðug og virk.
Ráðuneytið getur enn fremur, ef tilefni er til, óskað nánari upplýsinga um skipulag trúfélags, starfshætti, félagssvæði, skiptingu í söfnuði eða deildir ef því er að skipta.
Áður en trúfélag er skráð skal félagið tilnefna forstöðumann sem er ábyrgur gagnvart dóms- og kirkjumálaráðuneytinu fyrir því að farið sé að ákvæðum laga þessara. Um hæfi forstöðumanns gilda ákvæði 7. gr.
Áður en leyfi er veitt til skráningar trúfélags skal leita álits nefndar sem dóms- og kirkjumálaráðherra skipar á eftirfarandi hátt: Einn nefndarmaður er skipaður samkvæmt tilnefningu lagadeildar Háskóla Íslands, og skal hann vera formaður nefndarinnar, annar tilnefndur af félagsvísindadeild Háskóla Íslands og sá þriðji tilnefndur af guðfræðideild Háskóla Íslands.
5. gr. Eftirlit með skráðu trúfélagi.
Skráð trúfélag skal árlega fyrir lok marsmánaðar senda dóms- og kirkjumálaráðuneytinu skýrslu um starfsemi sína á næstliðnu ári og jafnframt gera grein fyrir breytingum sem orðið hafa á þeim atriðum sem upplýsingar ber að veita um í umsókn um skráningu. Sérstaklega skal gera grein fyrir breytingum á félagatali og ráðstöfun fjármuna félagsins.
Tilkynna skal ráðuneytinu þegar í stað um skipun, flutning og starfslok forstöðumanns og um tilnefningu nýs forstöðumanns.
6. gr. Skráning felld úr gildi.
Ef skilyrði skráningar eru ekki lengur fyrir hendi eða trúfélag vanrækir skyldur sínar samkvæmt lögum skal dóms- og kirkjumálaráðuneytið veita félaginu skriflega viðvörun og setja því frest til að bæta úr því sem áfátt er. Skal fresturinn ekki vera skemmri en einn mánuður. Ef ekki er bætt úr því innan frestsins getur ráðherra ákveðið að fella skráningu trúfélags úr gildi. Áður en skráning er felld úr gildi skal gefa stjórn félags kost á að tjá sig um málið.
Þegar skráð trúfélag er lagt niður eða starfar af öðrum ástæðum ekki lengur sem skráð trúfélag er þeim sem annast vörslu embættisbóka, sem því er falið að færa, skylt að afhenda þær dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Embættisbækurnar skulu afhentar Þjóðskjalasafni til varðveislu eftir sömu reglum og gilda um önnur opinber gögn.
Ráðuneytið skal auglýsa niðurfellingu skráningar í Lögbirtingablaði og miðast réttaráhrif hennar við það.
7. gr. Forstöðumenn skráðra trúfélaga.
Forstöðumaður skráðs trúfélags skal ekki vera yngri en 25 ára. Hann skal að öðru leyti fullnægja almennum hæfisskilyrðum til að gegna störfum á vegum hins opinbera, öðrum en þeim sem varða ríkisfang. Enn fremur er skilyrði að forstöðumaður eigi til sóknar að gjalda hér á landi samkvæmt lögum um sóknargjöld.
Áður en forstöðumaður trúfélags tekur til starfa skal hann senda dóms- og kirkjumálaráðuneytinu skriflega yfirlýsingu um að hann muni vinna af samviskusemi þau störf sem honum eru í því starfi falin samkvæmt lögum.
Forstöðumaður skal færa þær embættisbækur sem ráðuneytið fyrirskipar. Hann gefur jafnframt út fullgild embættisvottorð um það efni sem í embættisbækurnar er skráð og um þau embættisverk sem hann hefur unnið.
Forstöðumaður skráðs trúfélags er háður ábyrgð opinbers starfsmanns í framkvæmd þeirra starfa sem honum eru falin samkvæmt ákvæðum laga. Vanræki hann skyldur sínar samkvæmt ákvæðum laga eða reglugerða settra samkvæmt þeim skal dóms- og kirkjumálaráðuneytið veita honum skriflega viðvörun og tilkynna það stjórn trúfélagsins. Ef ekki er bætt úr eða ef um mjög alvarlegt brot er að ræða getur ráðuneytið svipt hann rétti til að framkvæma þau störf sem honum eru falin samkvæmt ákvæðum laga. Sama á við ef hann á annan hátt missir skilyrði til að gegna starfi forstöðumanns.
8. gr. Aðild að skráðu trúfélagi.
Þeir sem eru orðnir 16 ára að aldri geta tekið ákvörðun um inngöngu í skráð trúfélag eða úrsögn úr trúfélagi.
Barn skal frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess.
Það foreldri sem fer með forsjá barns tekur ákvörðun um inngöngu þess í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi. Ef foreldrar fara saman með forsjá barns taka þeir ákvörðun sameiginlega. Hafi barn náð 12 ára aldri skal leita álits þess um slíka ákvörðun.
Hafi forsjá barns verið falin öðrum en foreldrum á grundvelli laga tekur forsjáraðili ákvörðun um inngöngu þess í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi.
Enginn má samtímis heyra til þjóðkirkjunni og skráðu trúfélagi utan þjóðkirkjunnar eða fleiri en einu skráðu trúfélagi utan þjóðkirkjunnar.
9. gr. Innganga og úrsögn úr skráðu trúfélagi og úrsögn úr þjóðkirkjunni.
Um inngöngu í og aðild að trúfélagi gilda þau ákvæði sem lög og samþykktir þeirra mæla fyrir um. Forstöðumaður sem í hlut á skal gæta þess að skilyrðum laga sé fullnægt og að sá sem leitar inngöngu heyri ekki samtímis til öðru skráðu trúfélagi eða þjóðkirkjunni.
Úrsögn úr skráðu trúfélagi eða þjóðkirkjunni skal beint skriflega eða með persónulegri tilkynningu til forstöðumanns sem í hlut á en hann skal gæta þess að skilyrðum laganna sé fullnægt.
Forstöðumaður skal skrá inngöngu í eða úrsögn úr trúfélagi og láta í té vottorð því til staðfestu.
Að því leyti sem tilkynning til þjóðskrár um inngöngu í og úrsögn úr trúfélagi ræður skráningu vegna sérstakra atriða í sambandi við aðild að félagi, svo sem álagningar opinberra gjalda, ræðst gildistími í þeim atriðum af lögmætri tilkynningu til þjóðskrár. Geta þeir sem hlut eiga að máli annast slíka tilkynningu með framvísun vottorðs skv. 3. mgr.

III. kafli. Ýmis ákvæði.
10. gr. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um framkvæmd laga þessara.
11. gr. Ákvæði laga þessara gilda um starfsemi skráðra trúfélaga sem fengið hafa skráningu fyrir gildistöku þeirra.
12. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000. …