Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. febrúar 2006.  Útgáfa 132a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Íslenska málnefnd

1990 nr. 2 31. janúar


Upphaflega l. 80/1984. Tóku gildi 1. janúar 1985. Endurútgefin, sbr. 3. gr. l. 41/1989, sem l. 2/1990. Breytt með l. 83/1997 (tóku gildi 6. júní 1997) og l. 44/2000 (tóku gildi 26. maí 2000).


1. gr. [Íslensk málnefnd er málræktar- og málverndarstofnun og rekur Íslenska málstöð.] 1)
    1)L. 44/2000, 1. gr.
2. gr. Hlutverk nefndarinnar er sem hér segir:
    1. Íslensk málnefnd hefur það meginhlutverk að vinna að eflingu íslenskrar tungu og varðveislu hennar í ræðu og riti.
    2. Málnefndin er stjórnvöldum til ráðuneytis um íslenskt mál. Leita skal umsagnar nefndarinnar áður en settar eru reglugerðir eða annars konar fyrirmæli um íslenska tungu, að svo miklu leyti sem einstök atriði heyra ekki undir aðra samkvæmt öðrum lögum.
    3. Nefndin skal hafa samvinnu við stofnanir sem afskipti hafa af íslenskum manna- og staðanöfnum. Hún skal enn fremur leitast við að hafa góða samvinnu við þá sem mikil áhrif hafa á málfar almennings, svo sem fjölmiðla og skóla.
    4. Íslenskri málnefnd ber að veita opinberum stofnunum og almenningi leiðbeiningar um málfarsleg efni á fræðilegum grundvelli. Fyrirspurnir og svör skulu geymd í plöggum nefndarinnar.
   Ef ástæða þykir til getur málnefndin átt frumkvæði að athugasemdum um meðferð íslenskrar tungu á opinberum vettvangi.
    5. Íslensk málnefnd gefur út rit til fræðslu og leiðbeiningar um íslenskt mál, þ. á m. stafsetningarorðabók og önnur hagnýt orðasöfn.
   Nefndin getur beitt sér fyrir fræðslu um málið og meðferð þess í opinberum stofnunum eða annars staðar, bæði með fundarhöldum og námskeiðum.
    6. Íslensk málnefnd skal annast söfnun nýyrða og útgáfu þeirra og jafnframt vera til aðstoðar við val nýrra orða og við nýyrðasmíð. Auk þess skal nefndin leitast við að fylgjast með því hvaða nýyrði ná festu í málinu.
   Málnefndin skal vinna að skipulagðri nýyrðastarfsemi í landinu. Hún skal hafa samvinnu við orðanefndir sem félög eða stofnanir hafa komið á fót og vera þeim til aðstoðar. Hún skal stuðla að samræmingu í vinnubrögðum þeirra sem fást við myndun orða til útgáfu í sérstökum orðasöfnum eða gefa út staðla.
    7. Íslensk málnefnd skal hafa samstarf við aðrar málnefndir á Norðurlöndum, m.a. með aðild að Norrænni málstöð, og eiga fulltrúa á hinum árlegu þingum þeirra ef við verður komið.
   Nefndin skal einnig, eftir ástæðum, hafa samvinnu við erlendar stofnanir sem gefa út sérhæfð orðasöfn, þ. á m. staðla.
   Að öðru leyti skal málnefndin leitast við að kynna sér starfsemi erlendra málræktarstofnana og alþjóðlegt starf til eflingar þjóðtungum.
3. gr. Skrifstofa Íslenskrar málnefndar ber heitið Íslensk málstöð og er miðstöð þeirrar starfsemi sem málnefndin hefur með höndum.
4. gr. [Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Íslenskrar málstöðvar til fimm ára í senn. Forstöðumaður skal hafa lokið meistaraprófi eða jafngildu prófi í íslenskri málfræði. Leita skal álits Íslenskrar málnefndar um umsækjendur um stöðu forstöðumanns.
Forstöðumaður ræður annað starfsfólk. Hann stjórnar daglegum rekstri málstöðvarinnar og gefur ráðherra árlega skýrslu um starfsemi stöðvarinnar.] 1)
    1)L. 44/2000, 2. gr.
5. gr. Starfsemi Íslenskrar málnefndar er kostuð af ríkisfé samkvæmt því sem veitt er í fjárlögum og hefur hún sjálfstæðan fjárhag.
Aðrar tekjur málnefndar eru:
    a. styrkir til einstakra verkefna,
    b. greiðslur fyrir aðstoð eða verk sem unnin eru á vegum málnefndar,
    c. tekjur af útgáfu rita,
    d. gjafir.
6. gr. Í Íslenskri málnefnd eiga sæti fimmtán menn, skipaðir af menntamálaráðherra. Auk þess er málnefndinni heimilt að bjóða einstaklingi, einum eða tveimur, setu í nefndinni ef hún telur það nefndarstarfinu til gagns.
Háskólaráð, heimspekideild Háskóla Íslands og Orðabók Háskólans tilnefna einn mann hvert í nefndina og skipar ráðherra úr þeirra hópi formann og varaformann nefndarinnar.
Níu nefndarmenn skipar ráðherra samkvæmt tilnefningu Örnefnanefndar, Kennaraháskóla Íslands, Ríkisútvarpsins, Þjóðleikhússins, Staðlaráðs Íslands, Samtaka móðurmálskennara, Rithöfundasambands Íslands, Blaðamannafélags Íslands og Hagþenkis. Loks skal ráðherra skipa þrjá menn frá öðrum stofnunum, félögum eða samtökum sem fást við málrækt eða hafa mikil áhrif á málfar almennings og skal að minnsta kosti einn þeirra vera úr röðum íðorðafólks.
Innan málnefndar starfar fimm manna stjórn. Í stjórninni eiga sæti þeir þrír menn sem skipaðir eru skv. 2. mgr. og tveir menn sem málnefndin kýs úr hópi nefndarmanna. Formaður og varaformaður málnefndar eru jafnframt formaður og varaformaður stjórnar.
Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár.
7. gr. Íslensk málnefnd kemur saman eigi sjaldnar en einu sinni á ári og ella þegar formaður boðar til fundar eða meiri hluti málnefndarmanna óskar þess.
Stjórn málnefndarinnar hefur forustu fyrir starfsemi nefndarinnar. Stjórnin beitir sér fyrir einstökum málræktarverkefnum og annast í umboði nefndarinnar og í samvinnu við málstöðina afgreiðslu þeirra mála er nefndinni berast. Stjórnin heldur fundi eftir þörfum. Skylt er formanni að boða til stjórnarfundar ef stjórnarmaður eða forstöðumaður málstöðvar óskar þess.
Málnefndin er ályktunarfær ef meiri hluti nefndarmanna er á fundi.
Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns.
8. gr. Ef ágreiningur verður innan málnefndarinnar um túlkun þessara laga sker menntamálaráðherra úr.
9. gr. Menntamálaráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð 1) um Íslenska málnefnd og starfsemi Íslenskrar málstöðvar.
    1)Rg. 159/1987.