Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 2006.  Útgáfa 132b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um kirkjumálasjóð

1993 nr. 138 31. desember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 1994.

1. gr. Stofna skal sjóð er nefnist kirkjumálasjóður.
2. gr. Ríkissjóði ber að skila kirkjumálasjóði árlega af tekjuskatti gjaldi er nemur 11,3% af gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld. Gjaldið greiðist mánaðarlega.
3. gr. Kirkjumálasjóður skal skila á hverju ári fjárhæð er rennur til prestssetrasjóðs eftir nánari ákvörðun kirkjuráðs. Framlagið skal eigi nema lægri fjárhæð en 52 milljónum króna og skal sú fjárhæð endurskoðuð árlega með hliðsjón af byggingarvísitölu í júlímánuði. Framlagið skal innt af hendi með jöfnum mánaðarlegum greiðslum.
4. gr. Auk framlags í prestssetrasjóð, sbr. 3. gr., skal kirkjumálasjóður standa straum af kostnaði við eftirtalið eftir nánari ákvörðun kirkjuráðs:
    1. Kirkjuþing, kirkjuráð og prestastefnu.
    2. Biskupsgarð.
    3. Ráðgjöf í fjölskyldumálum (fjölskylduþjónustu kirkjunnar).
    4. Söngmálastjórn og tónlistarfræðslu á vegum þjóðkirkjunnar.
    5. Starfsþjálfun guðfræðikandídata.
    6. Önnur verkefni.
5. gr. Kirkjuráð hinnar íslensku þjóðkirkju hefur á hendi umsjá og stjórn kirkjumálasjóðs og ber ábyrgð fyrir kirkjuþingi á stjórn hans. Kirkjuráð semur árlega fjárhagsáætlun fyrir sjóðinn er kynnt skal dóms- og kirkjumálaráðuneytinu fyrir lok maímánaðar ár hvert. Áætlun skal einnig kynnt kirkjuþingi.
Reikningshald sjóðsins skal vera í höndum biskupsstofu og reikningsleg endurskoðun framkvæmd af Ríkisendurskoðun í samræmi við lög um Ríkisendurskoðun, ásamt síðari breytingum.
6. gr.
7. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994 en skulu koma til endurskoðunar eigi síðar en fjórum árum eftir gildistöku þeirra.

Ákvæði til bráðabirgða.