Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. janúar 2007.  Útgáfa 133a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um opinber innkaup

2001 nr. 94 31. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 15. júní 2001. EES-samningurinn: XVI. viðauki tilskipun 89/665/EBE, 92/13/EBE, 92/50/EBE, 93/36/EBE, 93/37/EBE og 93/38/EBE. Breytt með l. 72/2003 (tóku gildi 10. apríl 2003) og l. 108/2006 (tóku gildi 1. nóv. 2006 skv. augl. C 1/2006).


1. þáttur. Almenn ákvæði.
I. kafli. Tilgangur og orðskýringar.
1. gr. Tilgangur laganna.
Tilgangur laga þessara er að tryggja jafnræði bjóðenda við opinber innkaup og stuðla að virkri samkeppni og hagkvæmni í opinberum rekstri.
2. gr. Orðskýringar.
Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
    Almennt útboð: Útboð þar sem ótilteknum fjölda er með auglýsingu gefinn kostur á að gera tilboð.
    Bjóðandi: Einstaklingur eða lögaðili sem býður fram þá vöru, verk eða þjónustu sem aflað er samkvæmt lögum þessum.
    Evrópskur staðall: Staðall sem samþykktur er af Staðlastofnun Evrópu (CEN) eða Rafstaðlastofnun Evrópu (CENELEC) sem evrópskur staðall (EN) eða samræmingarskjal (HD) samkvæmt sameiginlegum reglum þessara stofnana eða af Fjarskiptastaðlastofnun Evrópu (ETSI) sem evrópskur fjarskiptastaðall (ETS).
    Evrópskt tæknisamþykki: Jákvæður dómur um nothæfi vöru með hliðsjón af grunnkröfum til byggingarframkvæmda sem byggist á eðliseiginleikum vöru og skilgreindri notkun og notkunarsviði hennar. Evrópskt tæknisamþykki skal gefið út af stofnun sem ríki Evrópska efnahagssvæðisins [eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu] 1) [eða Færeyjar] 2) samþykkja í þessu skyni.
    Forval: Aðferð við val á þátttakendum í lokuðu útboði eða samningskaupum.
    Frávikstilboð: Tilboð sem leysir þarfir kaupandans á annan hátt en gert er ráð fyrir í tæknilegri lýsingu útboðsgagna og uppfyllir jafnframt lágmarkskröfur þeirra.
    Kaupandi: Ríki, sveitarfélög, stofnanir þeirra og samtök og aðrir opinberir aðilar skv. 2. mgr. 3. gr.
    Lokað útboð: Útboð þar sem tilteknum aðilum er einum gefinn kostur á að gera tilboð.
    Rammasamningur: Samningar við einn eða fleiri bjóðendur þar sem magn og umfang samnings er að meira eða minna leyti ótilgreint, en kaupendur, einn eða fleiri, skuldbinda sig til að kaupa af þeim þá vöru, þjónustu eða verk sem samningurinn kveður á um, m.a. hvað varðar gæði, tækni, þjónustu, afhendingartíma og verð á samningstímanum.
    Sameiginleg tækniforskrift: Tækniforskrift sem samin er samkvæmt sameiginlegum reglum ríkja Evrópska efnahagssvæðisins [eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu] 1) [eða Færeyja] 2) í því skyni að tryggja einsleita beitingu í öllum ríkjunum og birt hefur verið í EES-viðbæti Stjórnartíðinda Evrópubandalagsins.
    Samningskaup: Þegar kaupandi ræðir við seljendur samkvæmt fyrir fram ákveðnu ferli, sem þeim hefur áður verið kynnt, og semur við einn eða fleiri þeirra.
    Sérleyfissamningur um verk: Verksamningur þar sem greiðsla fyrir verk felst að hluta eða í heild í rétti til að nýta sér afrakstur verksins.
    Staðall: Forskrift sem samþykkt er af viðurkenndri staðlastofnun og beita má endurtekið og að staðaldri án þess að skylt sé að fara eftir henni. Staðall er opinbert skjal og ætlaður til frjálsra afnota.
    Tækniforskrift: Allar tæknilegar kröfur sem gerðar eru í útboði og skilgreina einkenni verks, efnis, vöru eða aðfanga og gefa hlutlæga lýsingu á verki, efni, vöru eða aðföngum á þann hátt að þau komi að þeim notum sem kaupandi ætlast til. Þessar kröfur geta varðað gæðastig, notkunareiginleika, öryggi og stærð, þar á meðal kröfur um ábyrgðir fyrir gæðum, merkingar, prófanir og pökkun. Tækniforskrift getur einnig varðað reglur um hönnun, ákvörðun kostnaðar, skilmála um prófun, skoðun og samþykki verka og aðferða eða tækni við byggingar ásamt öllum öðrum tæknilegum skilyrðum sem kaupandi getur áskilið samkvæmt almennum eða sérstökum reglum um fullbúin verk og um efni og hluta sem til þeirra teljast.
    Útboð: Þegar kaupandi leitar skriflegra, bindandi tilboða í vöru, þjónustu eða verk frá fleiri en einum aðila á grundvelli sömu upplýsinga og innan sama frests.
    1)L. 72/2003, 19. gr. 2)L. 108/2006, 19. gr.

II. kafli. Gildissvið.
3. gr. Til hverra lögin taka.
Lög þessi taka til ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila, sbr. 2. mgr. Lögin taka einnig til samtaka sem þessir aðilar, einn eða fleiri, kunna að hafa með sér.
Aðili telst opinber ef hann getur borið réttindi og skyldur að lögum og sérstaklega hefur verið stofnað til hans í því skyni að þjóna almannahagsmunum, enda reki hann ekki starfsemi sem jafnað verður til starfsemi einkaaðila, svo sem á sviði viðskipta eða iðnaðar. Auk þess skal eitthvert eftirfarandi atriða eiga við um hann:
    a. Starfsemi hans er að mestu leyti rekin á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila. Miðað skal við að aðili sé að mestu leyti rekinn á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila, ef opinber fjármögnun nemur meira en 50% af rekstrarkostnaði. Tekjur aðila á grundvelli gagnkvæms viðskiptasamnings við opinberan aðila teljast ekki opinber fjármögnun.
    b. Hann lýtur yfirstjórn ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila.
    c. Hann lýtur sérstakri stjórn sem ríki eða sveitarfélög, stofnanir þeirra eða aðrir opinberir aðilar skipa að meiri hluta.
4. gr. Til hvaða samninga lögin taka.
Lög þessi taka til samninga sem kaupendur skv. 3. gr. gera við bjóðendur um innkaup á vörum, þjónustu og verkum.
Til vörusamninga teljast samningar um kaup, leigu eða fjármögnunarleigu á vörum, með eða án kaupréttar. Samningur um vörukaup getur falið í sér flutning, afhendingu og uppsetningu vöru.
Til þjónustusamninga teljast samningar sem ekki eru samningar um vöru- eða verkkaup.
Til verksamninga teljast samningar um framkvæmd eða framkvæmd og hönnun á þeim verkum sem greinir í II. viðauka laga þessara eða verkum þar sem stefnt er að byggingu mannvirkis eða gerð búnaðar með verkfræðilegum aðferðum í því skyni að mæta einhverjum fjárhagslegum eða tæknilegum þörfum. Einnig aðrir samningar um verk sem unnin eru samkvæmt tilteknum kröfum kaupanda. Sérleyfissamningar um verk teljast verksamningar.
Eftirfarandi samningar teljast ekki til vöru-, þjónustu- eða verksamninga:
    a. Samningar um kaup eða leigu á landi, byggingum, sem þegar eru til, eða öðrum fasteignum eða réttindum yfir þeim að undanskildum samningum um fjármálaþjónustu sem gerðir eru fyrir, eftir eða samhliða samningi um kaup eða leigu á fasteign.
    b. Samningar um kaup, þróun og framleiðslu á dagskrárefni fyrir útvarp og sjónvarp eða samningar um útsendingartíma.
    c. Samningar um talsíma, telex, þráðlausa síma, boðkerfi og gervihnattaþjónustu.
    d. Samningar um gerðardóma og sáttameðferðir.
    e. Samningar um fjármálaþjónustu í tengslum við útgáfu, sölu, kaup eða aðilaskipti að verðbréfum eða öðrum sambærilegum gögnum og þjónustu seðlabanka.
    f. Vinnusamningar.
    g. Samningar um rannsókn og þróun á þjónustu, að frátöldum samningum þar sem kaupendur skv. 3. gr. bera allan kostnað af þjónustunni og hafa einkarétt á að njóta góðs af árangrinum í starfsemi sinni.
Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. getur ráðherra ákveðið að ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki hagi innkaupum sínum samkvæmt lögum þessum einnig við gerð þeirra samninga sem þar greinir.
Ef opinber samningur nær bæði til kaupa á vöru og þjónustu telst hann samningur um þjónustu ef sá þáttur samningsins, sem lýtur að þjónustu, nemur hærri fjárhæð en vöruþátturinn.
5. gr. Kostnaðarþátttaka opinberra aðila.
Fara ber að ákvæðum laga þessara þegar þeir aðilar, sem eru kaupendur skv. 3. gr., greiða meira en 50% af kostnaði við kaup á þjónustu eða verki á vegum annars aðila. Þetta á þó aðeins við um þá verksamninga sem tengjast byggingarframkvæmdum fyrir sjúkrahús, íþrótta- og tómstundaiðkun, skóla og háskóla og opinbera stjórnsýslu auk þeirra verka sem greinir í flokki 50, hópi 502 í skrá Evrópubandalagsins um atvinnugreinaflokkun (NACE), sbr. II. viðauka laga þessara.
6. gr. Samningar stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti.
Ákvæði XIII. og XIV. kafla laga þessara gilda um innkaup þeirra aðila sem falla undir tilskipun nr. 93/38/EBE frá 14. júní 1993 um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti, eins og hún hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Að öðru leyti taka lögin ekki til innkaupa þessara aðila.
Ráðherra getur með reglugerð 1) mælt nánar fyrir um innkaup þeirra aðila, sem greinir í 1. mgr., til samræmis við skuldbindingar íslenska ríkisins á sviði opinberra innkaupa samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða öðrum milliríkjasamningum.
    1)Rg. 705/2001, sbr. 255/2003, 654/2003, 35/2004 og 427/2004.
7. gr. Samningar undanskildir lögunum.
Lög þessi taka ekki til:
    a. Þjónustusamninga sem gerðir eru við aðila, sem sjálfir teljast kaupendur skv. 3. gr., á grundvelli einkaréttar sem þeir njóta samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.
    b. Vöru-, þjónustu- eða verksamninga sem lýstir eru leynilegir eða ef sérstökum öryggisráðstöfunum verður að beita við framkvæmd þeirra í samræmi við gildandi lög og stjórnvaldsfyrirmæli eða ef grundvallarhagsmunir ríkisins krefjast þess.
    c. Samninga sem lúta öðrum reglum um opinber innkaup og gerðir eru á grundvelli milliríkjasamnings íslenska ríkisins við ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins [eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu] 1) [eða Færeyja] 2) um kaup á þjónustu til sameiginlegra framkvæmda eða hagnýtingar verkefna, enda sé slíkur samningur tilkynntur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).
    d. Samninga á grundvelli milliríkjasamnings um setu herliðs.
    e. Samninga samkvæmt sérstökum reglum alþjóðlegra stofnana.
    1)L. 72/2003, 20. gr. 2)L. 108/2006, 20. gr.
8. gr. Þeir sem njóta réttar samkvæmt lögunum.
Réttar samkvæmt lögum þessum njóta einstaklingar og lögaðilar með staðfestu í einhverju ríkja Evrópska efnahagssvæðisins [eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu] 1) [eða í Færeyjum]. 2) Sama gildir um aðra einstaklinga og lögaðila sem eiga að njóta slíkra réttinda á grundvelli milliríkjasamninga sem íslenska ríkið er aðili að.
Í reglugerð 3) er heimilt að setja nánari fyrirmæli um opinber innkaup samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup og öðrum samningum um opinber innkaup sem íslenska ríkið kann að gerast aðili að.
    1)L. 72/2003, 21. gr. 2)L. 108/2006, 21. gr. 3)Rg. 1012/2003, sbr. 429/2004.

2. þáttur. Opinber innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins.
III. kafli. Gildissvið þessa þáttar.
9. gr. Innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins.
Ákvæði þessa þáttar taka til opinberra innkaupa undir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins skv. 56. gr.
10. gr. Aðilar undanskildir ákvæðum þessa þáttar.
Ákvæði þessa þáttar taka ekki til innkaupa sveitarfélaga, stofnana þeirra, annarra opinberra aðila á þeirra vegum, sbr. 2. mgr. 3. gr., eða samtaka sem þessir aðilar kunna að hafa með sér.

IV. kafli. Fyrirkomulag opinberra innkaupa.
11. gr. Jafnræði bjóðenda.
Við opinber innkaup skal kaupandi gæta jafnræðis bjóðenda.
Heimilt er samkvæmt lögum þessum að áskilja í útboðsgögnum að vara sé afhent, þjónusta veitt eða verk unnið á tilteknum stað, enda byggist slíkur áskilnaður á lögmætum kvöðum.
12. gr. Útboðsskylda.
Öll innkaup á vörum yfir 5.000.000 kr. og kaup á þjónustu og verkum yfir 10.000.000 kr. skal bjóða út. Sérleyfissamninga um verk er þó ekki skylt að bjóða út. Sama á við um innkaup á þeirri þjónustu sem talin er upp í I. viðauka B.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki einungis gera sérleyfissamninga og samninga um kaup á þeirri þjónustu sem talin er upp í I. viðauka B í samræmi við reglur sem ráðherra setur með reglugerð. 1)
Fjárhæðir skv. 1. mgr. skulu breytast annað hvert ár í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs, í fyrsta sinn 1. janúar 2002. Heimilt skal að færa fjárhæðir þessar upp þannig að þær standi á heilu þúsundi. Ráðherra skal með hæfilegum fyrirvara auglýsa opinberlega þær breytingar sem verða á viðmiðunarfjárhæðum samkvæmt þessari grein.
    1)Rg. 655/2003, sbr. 428/2004; rg. 343/2006.
13. gr. Innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum.
Við innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum 1. mgr. 12. gr. skal kaupandi ávallt gæta hagkvæmni og gera samanburð meðal sem flestra seljenda.
14. gr. Áætlun fjárhæða samninga.
Við mat á ætlaðri fjárhæð samnings skal telja með allan kostnað innkaupa að frátöldum virðisaukaskatti miðað við þann tíma þegar auglýsing um þau ætti að birtast. Sé fyrirhugað að kaupa vöru, þjónustu eða verk í áföngum skal miða við samanlagt heildarverð allra áfanga.
Þegar valfrjáls ákvæði eru fyrirhuguð í samningi skal miða við hæsta mögulega kostnað við samning.
Óheimilt er að skipta innkaupum eða nota sérstakar aðferðir við útreikning á kostnaði í því skyni að komast hjá útboði.
15. gr. Áætlun fjárhæða vörusamninga.
Við mat á ætlaðri fjárhæð vörusamninga skal telja kostnað vegna flutnings vöru með í vöruverði. Ef vara er keypt „frí á skipsfjöl“ (fob) í erlendri höfn skal þó ekki telja flutning með í vöruverði.
Þegar um er að ræða samninga um fjármögnunarleigu, leigu eða kaupleigu á vörum skal áætla fjárhæð með eftirfarandi hætti:
    a. Þegar samningur er tímabundinn skal miða við heildarsamningsfjárhæð ef samningstíminn er 12 mánuðir eða skemmri, en heildarfjárhæð auk virðis varanna við lok samningstímans ef samningur er til lengri tíma en 12 mánaða.
    b. Þegar samningur er ótímabundinn eða óvíst er hver samningstíminn verður skal miða við heildargreiðslur samkvæmt samningnum í 48 mánuði.
Þegar um er að ræða reglulega samninga eða samninga sem endurnýja á innan tiltekins tíma skal áætla fjárhæð með öðrum hvorum hætti:
    a. Með hliðsjón af heildarfjárhæð áþekkra samninga á undangengnu fjárhagsári eða síðustu 12 mánuðum að teknu tilliti til breytinga á magni og verði fyrir næstkomandi 12 mánuði.
    b. Með hliðsjón af áætluðum kostnaði fyrir næstu 12 mánuði, eða lengra tímabil ef því er að skipta, frá fyrstu afhendingu.
Ef gera á tvo eða fleiri sjálfstæða samninga á sama tíma um sömu vöru, sem ætlað er að mæta sömu þörfum, skal miða við samanlagða fjárhæð allra samninganna.
16. gr. Áætlun fjárhæða þjónustusamninga.
Þegar um er að ræða tryggingarþjónustu skal miða við fjárhæð þeirra iðgjalda sem greidd eru.
Þegar um er að ræða banka- og fjármálaþjónustu skal miða við fjárhæð gjalda, umboðslauna og vaxta auk annarrar þóknunar.
Þegar um er að ræða samninga um hönnun skal miðað við fjárhæð gjalda eða launa sem greidd eru.
Þegar um er að ræða samninga þar sem heildarfjárhæð er ótilgreind skal áætla fjárhæð með eftirfarandi hætti:
    a. Þegar samningur er gerður til 48 mánaða eða skemmri tíma skal miða við áætlaða samningsfjárhæð allan gildistíma samningsins.
    b. Þegar samningur er ótímabundinn eða óvíst er hver samningstíminn verður skal miða við heildargreiðslur samkvæmt samningnum í 48 mánuði.
Þegar um er að ræða reglulega samninga eða samninga sem endurnýja á innan tiltekins tíma skal áætla fjárhæð með eftirfarandi hætti:
    a. Annaðhvort með hliðsjón af heildarfjárhæð áþekkra samninga á undangengnu fjárhagsári eða síðustu 12 mánuðum að teknu tilliti til breytinga á magni og verði fyrir næstkomandi 12 mánuði.
    b. Eða með hliðsjón af áætluðum kostnaði fyrir næstu 12 mánuði, eða lengra tímabil ef því er að skipta, frá því þjónustan er fyrst innt af hendi.
17. gr. Áætlun fjárhæða verksamninga.
Við útreikning fjárhæða verksamninga skal einnig taka tillit til verðmætis aðfanga sem kaupandi lætur bjóðanda í té við verkið.
Þar sem verki er skipt í nokkra áfanga og hver þeirra lýtur sérstökum samningi skal miða við samanlagt verðmæti allra samninganna. Þegar heildarfjárhæð slíkra samninga er yfir viðmiðunarfjárhæðum er heimilt að gera einstaka samninga án útboðs fyrir allt að 20% af samanlagðri heildarfjárhæð verksamninganna.
18. gr. Meginreglan um almennt eða lokað útboð.
Í öllum öðrum tilvikum en greinir í 19. og 20. gr. skal útboð vera almennt eða lokað. Forval skal ávallt viðhaft á undan lokuðu útboði.
Við framkvæmd forvals skal fara að reglum um almennt útboð eftir því sem við á.
19. gr. Samningskaup að undangenginni birtingu útboðsauglýsingar.
Ef ekkert lögmætt tilboð berst í almennu eða lokuðu útboði, öll tilboð eru óaðgengileg eða öllum boðum er vísað frá á grundvelli ákvæða VI. kafla er heimilt að viðhafa samningskaup að undangenginni birtingu auglýsingar, enda sé upphaflegum skilmálum útboðsins ekki breytt í verulegum atriðum. Þó þarf ekki að auglýsa útboð að nýju ef öllum bjóðendum, sem uppfylltu skilyrði VI. kafla um hæfi og lögðu fram gild tilboð, er boðið að taka þátt í útboði.
Innkaup á þjónustu eftir samningskaup að undangenginni birtingu útboðsauglýsingar eru heimil þegar ómögulegt er að áætla heildarkostnað fyrir fram vegna eðlis þjónustunnar eða áhættu sem henni fylgir. Sama á við þegar þjónustan sem leitað er eftir, einkum þjónusta á sviði hugverka eða rannsókna og þróunar, er þess eðlis að ekki er unnt að skilgreina forsendur samnings fyrir fram í almennu eða lokuðu útboði.
Innkaup á verki eftir samningskaup að undangenginni birtingu útboðsauglýsingar eru heimil þegar um er að ræða verk sem eingöngu eru unnin vegna rannsókna, tilrauna eða þróunar og ekki í ágóðaskyni eða til þess að mæta kostnaði vegna rannsókna og þróunarverkefna. Sama á við þegar ómögulegt er að áætla heildarkostnað fyrir fram vegna eðlis verksins eða áhættu sem því fylgir.
20. gr. Samningskaup án undangenginnar birtingar útboðsauglýsingar.
Opinber innkaup eftir samningskaup án undanfarandi birtingar útboðsauglýsingar eru heimil í eftirfarandi tilvikum:
    a. Þegar engin tilboð eða engin gild tilboð berast í almennu eða lokuðu útboði á vöru, verki eða þjónustu, enda sé í endanlegum samningi ekki vikið í verulegum atriðum frá upphaflegum skilmálum útboðsgagna.
    b. Þegar um er að ræða samninga um vörur sem eingöngu eru framleiddar vegna rannsókna, tilrauna, athugana eða þróunar. Þetta nær þó ekki til fjöldaframleiðslu sem ætlað er að skila hagnaði eða endurheimta rannsóknar- og þróunarkostnað.
    c. Þegar aðeins einn bjóðandi vöru, þjónustu eða verks kemur til greina af tæknilegum eða listrænum ástæðum eða sökum þess að um lögverndaðan einkarétt er að ræða.
    d. Þegar ekki er unnt að standa við fresti í almennu útboði, lokuðu útboði eða samningskaupum skv. 19. gr. á vöru, þjónustu eða verki vegna ófyrirsjáanlegra atburða sem kaupanda verður ekki um kennt.
    e. Þegar um er að ræða viðbótarvörur sem annaðhvort er ætlað að koma að hluta til í stað venjulegra birgða eða búnaðar eða eru aukning á venjulegum birgðum eða búnaði og val á nýjum bjóðanda mundi skuldbinda kaupanda til að kaupa efni sem hefðu aðra tæknilega eiginleika og samræmdust illa eldri tæknibúnaði eða leiddu til óeðlilega mikilla tæknilegra erfiðleika við rekstur og viðhald. Slíkir samningar svo og endurnýjaðir samningar skulu að jafnaði ekki gilda lengur en þrjú ár.
    f. Þegar um er að ræða viðbótarverk sem ekki var gert ráð fyrir í áður umsömdu verki og nauðsynlegt er, vegna áður ófyrirsjáanlegra aðstæðna, að sami bjóðandi sjái um, enda sé ekki unnt að skilja verkið frá áður umsömdu verki af tæknilegum og fjárhagslegum ástæðum án stórfelldra vandkvæða fyrir kaupanda. Sama á við ef viðbótarverk er óhjákvæmilegt til að ljúka áður umsömdu verki. Samanlagt verðmæti samninga um viðbótarverk skal ekki nema hærri fjárhæð en helmingi af upphaflegri samningsfjárhæð.
    g. Þegar um er að ræða sams konar verk eða þjónustu og áður hefur verið samið um við bjóðanda á grundvelli almenns eða lokaðs útboðs. Þetta á þó aðeins við að í útboðsgögnum hafi verið tiltekið að þessari reglu kynni að verða beitt og ekki eru liðin þrjú ár frá því fyrsti samningurinn var gerður.
    h. Þegar um er að ræða viðbót á þjónustu sem vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna hefur orðið nauðsynleg vegna áður keyptrar þjónustu, enda sé ekki unnt að skilja þjónustuna frá áður umsaminni þjónustu af tæknilegum eða fjárhagslegum ástæðum án stórfelldra vandkvæða eða ef viðbótarþjónustan er óhjákvæmileg til að ljúka verkefni.
    i. Þegar samningur um þjónustu er gerður eftir samkeppni um hönnun þar sem skylt er að semja við þann þátttakanda sem sigrar eða fleiri þeirra. Í síðarnefnda tilvikinu er skylt að bjóða öllum, sem sigra í hönnunarsamkeppni, að taka þátt í viðræðum.
21. gr. Samningskaup vegna hönnunarsamkeppni.
Þegar nota skal samningskaup vegna hönnunarsamkeppni skv. i-lið 20. gr. skal öllum gefinn kostur á þátttöku eða skýr skilyrði sett fyrir þátttöku, sem mismuna ekki þátttakendum, ef þátttaka er takmörkuð. Í síðarnefnda tilvikinu skal fjöldi þátttakenda vera nægilegur til að tryggja raunverulega samkeppni.
Í dómnefnd mega aðeins sitja menn sem eru óháðir þátttakendum og skulu þeir vera sjálfstæðir og óháðir í störfum sínum. Sé í samkeppninni farið fram á tiltekna starfsmenntun eða að þátttakendur uppfylli tiltekin hæfisskilyrði skal að minnsta kosti þriðjungur dómnefndarmanna fullnægja þessum eða sambærilegum skilyrðum.
Óheimilt er að takmarka rétt til þátttöku í hönnunarsamkeppni við einstaklinga eða lögaðila í íslenskri lögsögu eða hluta hennar.
22. gr. Rammasamningar.
Rammasamninga skal gera að undangengnu almennu eða lokuðu útboði.
Ef vara, þjónusta eða verk er keypt inn samkvæmt rammasamningi skal litið svo á að skyldu til útboðs hafi verið fullnægt, enda þótt innkaup séu yfir viðmiðunarfjárhæðum skv. 1. mgr. 12. gr.
Í rammasamningi er heimilt að ákveða að kaupendur séu ekki skuldbundnir til að skipta eingöngu við aðila rammasamnings við þau innkaup sem samningur tekur til. Tilgreina skal slík frávik í útboðsgögnum.

V. kafli. Útboðsgögn.
23. gr. Almennir skilmálar.
Útboðsgögn skulu innihalda allar nauðsynlegar upplýsingar til að bjóðanda sé unnt að gera tilboð. Eftirfarandi atriði skulu koma fram í útboðsgögnum eftir því sem við á:
    a. Lýsing á útboðinu þar sem kveðið er á um magn og annað sem máli skiptir.
    b. Nafn kaupanda og allar upplýsingar um samskipti við umsjónaraðila útboðsins.
    c. Framsetning tilboða.
    d. Upptalning á útboðsgögnum.
    e. Tilboðstími og hvar og hvenær tilboð verða opnuð.
    f. Afhendingar- eða framkvæmdatími.
    g. Gildistími tilboða.
    h. Greiðslur, verðbætur og tryggingar ef því er að skipta.
    i. Gögn til sönnunar á fjárhagslegri og tæknilegri getu sem bjóðandi skal leggja fram eða kann að verða krafinn um, sbr. 30. og 31. gr.
    j. Meðhöndlun fyrirspurna frá væntanlegum bjóðendum.
    k. Afhendingarskilmálar.
    l. Á hvaða tungumáli eða tungumálum skila skal tilboðum.
    m. Forsendur fyrir vali tilboða.
    n. Hvort leyfilegt sé að bjóða í aðeins hluta af fyrirhuguðum innkaupum.
    o. Hvort frávikstilboð séu óheimil og hver séu skilyrði fyrir gerð þeirra.
    p. Frestur kaupanda til að taka tilboði.
Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um gerð og frágang útboðsgagna.
24. gr. Tæknilegar útskýringar.
Í útboðsgögnum skal vöru, þjónustu eða verki lýst eins nákvæmlega og kostur er með tækniforskriftum. Ef frávikstilboð eru heimil skal tilgreina hvaða lágmarkskröfum slík tilboð þurfi að fullnægja.
Tækniforskriftir skulu að jafnaði vera í samræmi við evrópska staðla eða íslenska staðla, sem settir eru samkvæmt þeim, evrópskt tæknisamþykki eða sameiginlegar tækniforskriftir.
Heimilt er að víkja frá áskilnaði 2. mgr. í eftirfarandi tilvikum:
    a. Þegar staðlar, evrópskt tæknisamþykki eða sameiginlegar tækniforskriftir fela ekki í sér ákvæði um hvernig skuli ganga úr skugga um hvort það sem óskað er kaupa á er í samræmi við þau viðmið sem þar koma fram eða tæknilegar aðferðir skortir til þess að það verði gert.
    b. Þegar notkun staðla, evrópsks tæknisamþykkis eða sameiginlegra tækniforskrifta mundi neyða kaupanda til að afla sér efnis eða áhalda sem samræmdust ekki tækjabúnaði þeim sem þegar er í notkun eða hefði í för með sér ótilhlýðilegan kostnað eða tæknilega örðugleika.
    c. Þegar það sem óskað er kaupa á felur í sér algera nýjung og notkun gildandi staðla, evrópsks tæknisamþykkis eða sameiginlegra tækniforskrifta á ekki við.
    d. Þegar framkvæmd áskilnaðar 2. mgr. brýtur í bága við framkvæmd tilskipunar ráðherraráðsins nr. 86/361/EBE frá 24. júlí 1986 um fyrsta áfanga gagnkvæmrar viðurkenningar á samþykki fyrir gerð notendabúnaðar til fjarskipta eða ákvörðun ráðherraráðsins nr. 87/95/EBE frá 22. desember 1986 um stöðlun á sviði upplýsingatækni og fjarskipta eða annarra reglna Evrópska efnahagssvæðisins um tiltekin þjónustu- eða vörusvið.
Séu evrópskir staðlar, tæknisamþykki eða sameiginlegar tækniforskriftir ekki fyrir hendi skulu tækniforskriftir skilgreindar með hliðsjón af íslenskum tækniforskriftum, enda samræmist þær reglum Evrópska efnahagssvæðisins um tæknilega samræmingu. Heimilt er að vísa til íslenskra tækniforskrifta þegar um er að ræða hönnun, útreikninga og útfærslu verka og efnisnotkun. Einnig er heimilt að skírskota til íslenskra staðla sem samþykktir hafa verið til að framfylgja alþjóðlegum stöðlum. Ef það er ekki unnt skal vísað til staðla og tæknisamþykkis annarra landa, en ef það er ekki unnt til enn annarra staðla.
Ekki má vísa til vörumerkja, einkaleyfa, gerða eða sérstaks uppruna eða framleiðslu án þess að efni samningsins réttlæti slíka tilvísun. Ef engin leið er til þess að lýsa efni samnings með tækniforskriftum, sem eru nógu nákvæmar eða skilmerkilegar fyrir kaupanda og bjóðendur, er þó heimilt að vísa til slíkra atriða, enda fylgi slíkri tilvitnun orðalagið „eða jafngildur“ eða sambærilegt orðalag.
25. gr. Tilboðsblað.
Tilboðsblað skal vera hluti útboðsgagna og skal það vera þannig úr garði gert að tilboð séu sett fram á sama hátt og þannig samanburðarhæf.
Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um gerð og frágang tilboðsblaða.
26. gr. Forsendur fyrir vali tilboðs.
Í útboðsgögnum skal tilgreina forsendur fyrir vali tilboðs með eins nákvæmum hætti og framast er unnt. Í forsendum má ekki vísa til annarra atriða en staðreynd verða á grundvelli gagna sem bjóðendur leggja fram eða með öðrum hlutlægum hætti.
Ef kaupandi hyggst meta hagkvæmni tilboðs á grundvelli fleiri forsendna en verðs skal tiltekið hverjar þessar forsendur eru og þeim raðað eftir mikilvægi nema slíkt sé útilokað.
Heimilt er að taka tillit til umhverfissjónarmiða við mat á hagkvæmni tilboðs.
27. gr. Frávikstilboð.
Ef kaupandi hyggst meta tilboð á grundvelli fjárhagslegrar hagkvæmni er heimilt að gera frávikstilboð, enda fullnægi slíkt boð lágmarkskröfum útboðsgagna til eiginleika þess sem óskað er kaupa á. Ef frávikstilboð eru óheimil skal það tekið fram í útboðsgögnum.

VI. kafli. Hæfi bjóðenda.
28. gr. Heimild til að vísa bjóðanda frá.
Á hvaða stigi útboðs sem er skal vísa bjóðanda frá ef eitthvert af eftirtöldum atriðum á við um hann:
    a. Bú bjóðanda er undir gjaldþrotaskiptum, hann hefur fengið heimild til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða er í annarri sambærilegri stöðu.
    b. Óskað hefur verið gjaldþrotaskipta á búi bjóðanda, hann hefur leitað heimildar til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða er í annarri sambærilegri stöðu.
    c. Bjóðandi hefur með dómi verið fundinn sekur um refsivert brot í starfi.
    d. Fyrir liggur að bjóðandi hefur sýnt alvarlega vanrækslu í starfi.
    e. Bjóðandi er í vanskilum með opinber gjöld, lífeyrissjóðsiðgjöld, eða sambærileg lögákveðin gjöld.
    f. Bjóðandi hefur gefið rangar upplýsingar um fjárhagslega og tæknilega getu sína, sbr. 30. og 31. gr.
Heimilt er að krefjast þess að bjóðandi sýni fram á að ekkert þeirra atriða, sem greinir í a–f-lið 1. mgr., eigi við um hann á hvaða stigi útboðs sem er. Ef bjóðandi er krafinn um sönnun um þessi atriði skal viðeigandi opinbert vottorð, þar sem fram kemur að hann uppfylli öll skilyrðin, metið sem fullnægjandi sönnun.
29. gr. Skráning bjóðanda.
Þess má krefjast að bjóðandi sýni fram á að hann sé skráður í fyrirtækjaskrá, eða sambærilega skrá, samkvæmt þeim reglum sem gilda í því landi þar sem hann hefur staðfestu.
30. gr. Fjárhagsstaða bjóðanda.
Fjárhagsstaða bjóðanda skal vera það trygg að hann geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda.
Að jafnaði getur bjóðandi fært sönnur á fjárhagslega getu sína með því að leggja fram viðeigandi upplýsingar frá bönkum, endurskoðaða reikninga fyrri ára, upplýsingar um veltu síðustu ára eða hlutdeild viðkomandi vöru, þjónustu eða verks í þeirri veltu.
Í útboðsgögnum skal koma fram hvaða gögn skv. 2. mgr. krafist er að bjóðandi leggi fram eða kunni á síðari stigum að verða beðinn um að leggja fram. Ekki skal krefjast frekari gagna en nauðsynlegt er með hliðsjón af eðli og umfangi fyrirhugaðra innkaupa.
Þegar bjóðandi er ófær um að leggja fram þau gögn, sem greinir í 2. mgr., af ástæðum sem honum verður ekki um kennt skal gefa honum kost á að sýna fram á fjárhagslega getu sína með framvísun annarra gagna.
31. gr. Tæknileg geta.
Tæknileg geta bjóðanda skal vera það trygg að hann geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda.
Bjóðandi getur fært sönnur á tæknilega getu sína með eftirfarandi gögnum:
    a. Með vottorðum um efndir helstu samninga síðastliðin þrjú ár þegar um er að ræða útboð á vöru og þjónustu, en fimm ár þegar um er að ræða útboð á verkum. Í vottorðum skulu koma fram upphæðir samninga, dagsetningar og yfirlýsing um að samningur hafi verið efndur með fullnægjandi hætti.
    b. Með lýsingu á fjölda starfsmanna, tæknibúnaði, aðferðum til að tryggja gæði og aðstöðu til athugana og rannsókna.
    c. Með upplýsingum um menntun og hæfni yfirmanna og annarra sem koma munu að framkvæmd samnings, hvort sem þeir eru starfsmenn bjóðanda eða ekki.
    d. Þegar um er að ræða vöru: með sýnishornum, lýsingum eða ljósmyndum þannig að unnt sé að staðreyna að vara sé fullnægjandi.
    e. Þegar um er að ræða vöru: með vottorði frá opinberri gæðaeftirlitsstofnun eða viðurkenndum aðila um að vara, sem á að vera í samræmi við tækniforskriftir eða staðla, sé það í raun.
    f. Þegar um er að ræða vöru eða þjónustu sem er margbrotin eða sem aflað er í sérstökum tilgangi: með opinberu vottorði um framleiðslu, rannsóknaraðstöðu og gæðaeftirlit bjóðanda.
Í útboðsgögnum skal koma fram hvaða gögn skv. 2. mgr. krafist er að bjóðandi leggi fram eða kunni á síðari stigum að verða beðinn um að leggja fram. Ekki skal krefja um frekari gögn en nauðsynlegt er með hliðsjón af eðli og umfangi þess sem óskað er kaupa á.
Taka skal tillit til lögmætra hagsmuna bjóðenda af vernd tækni- og viðskiptaleyndarmála.
32. gr. Framlagning gagna.
Kaupanda er heimilt að gefa bjóðanda færi á því að auka við framkomin gögn skv. 28.–31. gr. eða skýra þau á hvaða stigi útboðs sem er.

VII. kafli. Framkvæmd útboða.
33. gr. Auglýsing útboða.
Skylt er að auglýsa almennt útboð með áberandi hætti þannig að allir mögulegir bjóðendur viðkomandi vöru, þjónustu eða verks eigi kost á að taka þátt í útboði. Í auglýsingu skulu koma fram nægilega miklar upplýsingar til að bjóðendur viðkomandi vöru, þjónustu eða verks geti tekið afstöðu til þess hvort þeir hyggjast taka þátt í útboði eða forvali.
Samtímis því, eða eftir að auglýst er, getur kaupandi hvatt tiltekna aðila til þátttöku í forvali eða útboði. Ekki má þó veita slíkum aðilum aðrar upplýsingar en fram koma í tilkynningu um útboð.
34. gr. Lokuð útboð og samningskaup.
Við lokað útboð og samningskaup skal velja þá með forvali sem gefinn er kostur á að leggja fram tilboð.
Þegar um lokað útboð er að ræða, eða samningskaup skv. 19. gr., skal auglýsa forval með áberandi hætti með það fyrir augum að allir þeir sem boðið geta fram viðkomandi vöru, þjónustu eða verk eigi kost á að taka þátt í forvali.
Þegar um lokað útboð er að ræða er heimilt að takmarka fjölda þeirra sem valdir eru til að taka þátt í útboði. Aðilarnir skulu að jafnaði ekki vera færri en fimm og ekki fleiri en tuttugu. Fjöldi valinna aðila skal í öllum tilvikum nægja til að tryggja raunhæfa samkeppni í útboði. Taka skal fram í útboðsgögnum ef takmarka á þann fjölda sem velja á í forvali.
Þegar um er að ræða samningskaup skv. 19. gr. skal fjöldi þeirra sem velja á í forvali til að taka þátt í útboði ekki vera færri en þrír, svo fremi fjöldi þátttakenda sé nægur.
Við lokað útboð og samningskaup skal gefa þeim sem valdir hafa verið til að taka þátt í útboði í forvali kost á að gera tilboð með tilkynningu sem þeim er send samtímis. Með tilkynningu skulu fylgja útboðsgögn og fylgiskjöl ef því er að skipta.
35. gr. Frestur til að skila tilboðum.
Tilboðstími skal vera nægjanlega langur til að bjóðendur geti undirbúið tilboð.
36. gr. Frestur í almennu útboði.
Frestur til að leggja fram tilboð í almennu útboði skal vera minnst 15 almanaksdagar. Frestur reiknast frá deginum eftir að útboð er auglýst að meðtöldum opnunardegi. Allir almanaksdagar eru taldir með.
37. gr. Frestur í lokuðu útboði og samningskaupum.
Frestur til að skila þátttökubeiðnum í forvali vegna lokaðs útboðs eða samningskaupum skv. 19. gr. skal vera minnst 15 almanaksdagar. Frestur reiknast frá deginum eftir að útboð er auglýst að meðtöldum opnunardegi.
Þeim sem valdir hafa verið í forvali skal gefa minnst tíu almanaksdaga frest til að leggja fram tilboð. Frestur reiknast frá þeim degi þegar útboðsgögn eru send út. Að öðru leyti gilda sömu reglur um ákvörðun frests og við almenn útboð.
38. gr. Hraðútboð.
Ef nauðsynlegt er að hraða útboði af ástæðum, sem kaupanda verður ekki um kennt, er heimilt að víkja frá þeim frestum sem greinir í 36., 37. og 41. gr. Frestur til að skila tilboðum skal þó aldrei vera skemmri en sjö almanaksdagar frá birtingu auglýsingar.
39. gr. Afhending gagna.
Útboðsgögn skulu vera tilbúin til afhendingar innan þriggja daga frá birtingu auglýsingar.
40. gr. Vettvangsskoðun.
Ef ekki er unnt að gera tilboð án þess að bjóðendur skoði vettvang, eða ef boðið er upp á vettvangsskoðun, skal lengja tilboðsfrest sem nemur eðlilegum tíma til vettvangsskoðunar, ef þess er óskað af bjóðendum.
41. gr. Fyrirspurnir og athugasemdir á tilboðstíma.
Ef óskað er eftir ítarlegri gögnum eða nánari skilgreiningu á útboðsgögnum skal skrifleg beiðni vera komin til umsjónarmanns útboðs eigi síðar en sjö almanaksdögum áður en tilboðsfrestur rennur út.
Telji kaupandi tilefni til að senda ný gögn eða svara fyrirspurn skv. 1. mgr. skal senda gögnin eða fyrirspurnina ásamt svörum við henni til allra sem hafa óskað eftir og fengið send útboðsgögn. Ný gögn eða skýringar skulu vera komin til bjóðenda eigi síðar en fjórum almanaksdögum áður en tilboðsfrestur rennur út.
Allar athugasemdir við útboð og framkvæmd þeirra skulu vera skriflegar.
42. gr. Tilboð afturkölluð.
Bjóðandi getur afturkallað tilboð sitt áður en tilboð eru opnuð, enda sé það gert skriflega eða með öðrum jafntryggum hætti.
43. gr. Opnun tilboða frestað.
Þurfi að fresta opnun tilboða skal það gert með að minnsta kosti fjögurra almanaksdaga fyrirvara. Séu færri en fjórir dagar fram að opnun er óheimilt að boða frestun heldur skal haldinn opnunarfundur og skráð hverjir skila inn tilboði, án þess að opna tilboðin. Þeim sem skiluðu tilboði er einum boðin áframhaldandi þátttaka.
44. gr. Afhending tilboða.
Tilboðum skal skilað í lokuðu umslagi og þarf nafn og aðsetur bjóðanda að koma fram á umslaginu ásamt heiti útboðs og númeri ef því er að skipta.
Séu tilboð send með pósti eða í símbréfi er bjóðandi ábyrgur fyrir því að þau komist í réttar hendur fyrir opnun tilboða.
Leyfilegt er að skila eingöngu inn heildartilboðsupphæð ef einingarverð og önnur tilskilin gögn fylgja í lokuðu umslagi eða eru sannanlega komin í póst degi áður en tilboð eru opnuð. Bjóðandi getur síðan óskað eftir því að einingarverð verði ekki tekin til skoðunar nema tilboð hans komi til álita.
45. gr. Gerð frávikstilboða.
Sé frávikstilboð gert skal geta þess sérstaklega á tilboðsblaði að um slíkt tilboð sé að ræða. Með frávikstilboði skal fylgja skýr og greinargóð lýsing á því í hvaða atriðum vikið sé frá tæknilegri lýsingu útboðsgagna.
46. gr. Tilboð fleiri aðila.
Fleiri aðilum er heimilt að standa að tilboði sameiginlega, enda teljast þeir þá bera ábyrgð einn fyrir alla og allir fyrir einn á efndum samnings.
Þegar um sameiginlegt tilboð fleiri aðila er að ræða skal leggja fram þau gögn sem um ræðir í VI. kafla og skulu þau miðast við alla bjóðendur.
Kaupanda er heimilt að áskilja í útboðsgögnum að einn bjóðenda komi fram fyrir hönd hinna við framkvæmd samnings og standi kaupanda öll skil.
47. gr. Opnun tilboða.
Bjóðendum skal vera heimilt að vera við opnun tilboða og eiga rétt á að eftirfarandi upplýsingar séu lesnar upp eftir því sem þær koma fram í tilboðum:
    a. Nafn bjóðanda.
    b. Heildartilboðsupphæð.
    c. Greiðsluskilmálar.
    d. Afhendingarskilmálar.
    e. Eðli frávikstilboða.
Tilboð sem berast of seint skulu send bjóðendum óopnuð ásamt skýringu á ástæðum þess að þau eru endursend.
48. gr. Form tilboða og annarra gagna.
Tilboð skulu vera skrifleg og skal afhenda þau kaupanda eða umsjónarmanni hans eða senda honum þau í pósti.
Heimilt er kaupanda að ákveða að tilboð megi leggja fram með öðrum hætti en skriflegum ef tryggt er að óviðkomandi verði ekki kunnugt um efni tilboðsins og unnt er að staðreyna móttöku og móttökutíma þess.
Kaupanda er heimilt að taka við og svara fyrirspurnum bjóðenda skv. 41. gr. með öðrum hætti en skriflegum, til dæmis með símbréfi, rafpósti, símskeyti eða öðrum jafntryggum hætti.

VIII. kafli. Val tilboðs.
49. gr. Þau tilboð sem koma til greina.
Við val á bjóðanda skal eingöngu litið til gildra tilboða.
50. gr. Mat á hagstæðasta boði.
Við val á bjóðanda skal gengið út frá hagkvæmasta boði. Hagkvæmasta tilboð er það boð sem er lægst að fjárhæð eða það boð sem fullnægir þörfum kaupanda best samkvæmt þeim forsendum sem settar hafa verið fram í útboðsgögnum, sbr. 26. gr.
Óheimilt er að meta tilboð á grundvelli annarra forsendna en fram koma í útboðsgögnum, sbr. 26. gr.
Heimilt er að velja fleiri en eitt tilboð sé kaupum skipt í fleiri sjálfstæða hluta í útboðsgögnum.
51. gr. Óeðlilega lág tilboð.
Þegar tilboð virðist óeðlilega lágt miðað við raunvirði þess sem kaupa á skal kaupandi óska eftir nánari upplýsingum frá bjóðanda um þau atriði sem máli skipta og sannreyna þau áður en boði er hafnað. Ef kaupandi hafnar bjóðanda á fyrrgreindum forsendum skal hann tilkynna honum um þau atriði sem hann getur ekki fallist á.
Þegar í útboðsgögnum er kveðið á um að lægsta tilboði skuli tekið ber kaupanda að rökstyðja þá ákvörðun að hafna tilboðum sem álitin eru óeðlilega lág.
Upplýsingar sem kaupandi fær samkvæmt þessari grein skal fara með sem trúnaðarmál.
52. gr. Höfnun tilboðs.
Kaupandi telst hafa hafnað tilboði ef hann er búinn að semja við annan aðila, gildistími tilboðs er liðinn án þess að óskað hafi verið eftir framlengingu tilboðs eða öllum tilboðum hefur verið hafnað formlega.
Eftir að kaupandi hefur hafnað tilboði getur bjóðandi óskað eftir að hann endursendi sér tilboðið og öll gögn sem því fylgdu.
Kaupanda er óheimilt að nýta hugmyndir eða tilboð bjóðanda á nokkurn hátt eftir að því hefur verið hafnað.
53. gr. Rökstuðningur höfnunar tilboðs og annarra ákvarðana.
Kaupandi skal tilkynna bjóðendum um niðurstöðu útboðs eða forvals eins fljótt og kostur er. Ef ákveðið hefur verið að hafna öllum boðum eða láta nýtt útboð fara fram skal rökstuðningur fylgja slíkri ákvörðun. Tilkynning skal vera skrifleg sé þess óskað.
Skylt er að skýra frá ástæðum þess að tilboði tiltekins bjóðanda var hafnað ef hann krefst þess. Rökstuðningur skal liggja fyrir eigi síðar en 15 dögum eftir að beiðni um það barst kaupanda eða umsjónarmanni útboðs. Í rökstuðningi skal þó ekki upplýsa um atriði sem gætu torveldað löggæslu eða ganga að öðru leyti gegn almannahagsmunum eða mundu skaða lögmæta viðskiptahagsmuni einstakra fyrirtækja eða samkeppni milli þeirra.
54. gr. Samþykki tilboðs.
Tilboð skal samþykkja skriflega innan gildistíma þess og er þá kominn á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna og tilboðs bjóðanda. Þó skal gera sérstakan samning um kaup á vöru, þjónustu eða verki á grundvelli útboðsins þegar við á eða annar aðila óskar þess.
Þegar kominn er á samningur skv. 1. mgr. skal það tilkynnt öllum bjóðendum án tafar.
55. gr. Gerviverktaka.
Verktaka og undirverktaka er óheimilt að gera samning um undirverktöku við einstaka starfsmenn eða starfshópa í þeim tilvikum þar sem um ráðningarsamband er að ræða og það á við samkvæmt venju og eðli máls.

3. þáttur. Opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu.
IX. kafli. Gildissvið þessa þáttar.
56. gr. Ákvæði þessa þáttar gilda um opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum sem ráðherra birtir í reglugerð 1) í samræmi við tilskipun ráðherraráðsins nr. 92/50/EBE frá 18. júní 1992 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra samninga um kaup á þjónustu, tilskipun ráðherraráðsins nr. 93/36/EBE frá 14. júní 1993 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra samninga um vörukaup og tilskipun ráðherraráðsins nr. 93/37/EBE frá 14. júní 1993 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, eins og þessum tilskipunum kann síðar að hafa verið breytt og þær teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Einnig skal í reglugerð birta aðrar viðmiðunarfjárhæðir sem máli skipta fyrir framkvæmd opinberra innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu, svo sem viðmiðunarfjárhæðir heildarinnkaupa.
Í reglugerð skv. 1. mgr. er heimilt að setja nánari reglur 2) um opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu til samræmis við ákvæði þeirra tilskipana sem þar greinir.
    1)Rg. 1012/2003, sbr. 429/2004. 2)Rg. 655/2003, sbr. 428/2004.

X. kafli. Framkvæmd innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu.
57. gr. Almennar reglur.
Við opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum 56. gr. skal fara að reglum 2. þáttar ef ekki leiðir annað af ákvæðum þessa kafla.
Við ákvörðun tímabila, dagsetninga og fresta skal gæta ákvæða reglugerðar ráðherraráðsins nr. 1182/71/EBE/KBE frá 3. júní 1971 sem setur reglur um hvernig reikna ber tímabil, dagsetningar og fresti.
58. gr. Samningar um hönnun og byggingu húsnæðis á vegum hins opinbera.
Þegar um er að ræða hönnun og byggingu félagslegs húsnæðis, þar sem umfang, tími og eðli verksins gerir það nauðsynlegt að skipulagning sé frá upphafi byggð á nánu samstarfi innan verkefnahóps, sem í eiga sæti fulltrúar hins opinbera, sérfræðingar og verktakar, er heimilt að velja bjóðanda samkvæmt reglum sem hafa það að markmiði að sá sem best fellur inn í verkefnahópinn verði fyrir valinu. Að öðru leyti fer um slíkt útboð samkvæmt reglum um lokuð útboð.
59. gr. Tilkynning um heildarinnkaup.
Eins snemma á fjárhagsárinu og unnt er skulu kaupendur birta áætluð heildarinnkaup á vörum, þjónustu eða verkum, sem greinir í I. viðauka A, fyrir næstu tólf mánuði ef heildarfjárhæð kaupanna nær viðmiðunarfjárhæðum vegna heildarinnkaupa sem birtar eru í reglugerð ráðherra skv. 1. mgr. 56. gr.
60. gr. Tilkynning um einstök innkaup.
Kaupandi, sem hyggst bjóða út opinber innkaup yfir þeim viðmiðunarfjárhæðum sem ráðherra birtir í reglugerð skv. 56. gr., skal tilkynna þá fyrirætlun sína. Sama á við þegar um hönnunarsamkeppni er að ræða og gerð sérleyfissamninga um verk. Fyrirhuguð innkaup á þjónustu, sem greinir í I. viðauka B, þarf þó ekki að tilkynna.
61. gr. Tilkynning um samning.
Þegar gerður hefur verið samningur í framhaldi af útboði á Evrópska efnahagssvæðinu skal tilkynna um niðurstöðu útboðsins. Sama gildir um niðurstöðu hönnunarsamkeppni.
Heimilt er að víkja frá 1. mgr. ef birting tilkynningar gæti torveldað löggæslu, verið á annan hátt andstæð almannahagsmunum, skaðað lögmæta viðskiptahagsmuni einstakra fyrirtækja, opinberra eða einkarekinna, eða hindrað samkeppni.
Þegar um er að ræða þjónustu, sem tilgreind er í I. viðauka B, skal kaupandi ákveða í tilkynningu um samning hvort hana eigi að birta skv. 62. gr.
62. gr. Birting tilkynninga.
Senda skal tilkynningar með tryggum hætti til útgáfustjórnar Evrópubandalagsins, eins skjótt og unnt er, til birtingar í Stjórnartíðindum bandalagsins og gagnabönkum. Tilkynning skal að jafnaði ekki vera lengri en 650 orð.
Tilkynning, sem um getur í 59. gr., skal send eins snemma á fjárhagsárinu og unnt er.
Tilkynning, sem um getur í 61. gr., skal send í síðasta lagi 48 dögum eftir að samningur hefur verið gerður eða frá lokum hönnunarsamkeppni.
Óheimilt er að birta aðrar tilkynningar um útboð áður en samsvarandi tilkynning hefur verið send útgáfustjórn Evrópubandalagsins. Sömuleiðis skulu í öðrum tilkynningum ekki koma fram ítarlegri upplýsingar en þar greinir.
63. gr. Form og efni tilkynninga.
Ráðherra getur í reglugerð 1) mælt fyrir um form og efni tilkynninga skv. 59.–62. gr.
    1)Rg. 239/2003, rg. 655/2003, sbr. 428/2004.
64. gr. Frestir í almennum útboðum.
Við almenn útboð skal frestur til að leggja fram tilboð ekki vera skemmri en 52 dagar frá sendingardegi tilkynningar að telja.
Nú hefur kaupandi tilkynnt heildarinnkaup skv. 59. gr. með fullnægjandi hætti eigi síðar en 52 dögum fyrir sendingu tilkynningar um einstök innkaup og ekki fyrr en 12 mánuðum fyrir sama dag og er þá heimilt að stytta frest til að skila tilboðum ef tilkynning um heildarinnkaup hafði að geyma sambærilegar upplýsingar um innkaupin og fram skulu koma í tilkynningu um einstök innkaup. Fresturinn skal jafnan eigi vera skemmri en 36 dagar og aldrei skemmri en 22 dagar.
Skylt er að senda útboðsgögn innan sex daga frá því að beiðni berst, enda hafi beiðni borist með hæfilegum fyrirvara.
Viðbótarupplýsingum skv. 41. gr. skal komið til bjóðenda eigi síðar en sex dögum áður en frestur til að skila tilboðum rennur út, enda hafi upplýsinganna verið óskað með hæfilegum fyrirvara. Þegar um er að ræða þjónustu er þessi frestur þó fjórir dagar.
Ef útboðsgögn eða viðbótarupplýsingar eru svo umfangsmikil að ekki er unnt að afhenda þau innan þeirra fresta sem greinir í 2. og 3. mgr. eða ef vettvangsganga er nauðsynleg skulu frestir lengjast í samræmi við þær tafir sem af þessu hljótast.
Frestur til að sækja um aðild að sérleyfissamningi um verk skal ekki vera skemmri en 52 dagar frá sendingardegi auglýsingar.
65. gr. Frestir í lokuðum útboðum og samningskaupum.
Við lokuð útboð og samningskaup skal frestur til að skila tilkynningum um þátttöku ekki vera skemmri en 37 dagar frá sendingardegi tilkynningar að telja.
Frestur til að skila tilboði í lokuðu útboði skal ekki vera styttri en 40 dagar.
Nú hefur kaupandi tilkynnt heildarinnkaup skv. 59. gr. með fullnægjandi hætti eigi síðar en 52 dögum fyrir sendingu tilkynningar um einstök innkaup og ekki fyrr en 12 mánuðum fyrir sama dag og er þá almennt heimilt að stytta frest til að skila tilboðum ef tilkynning um heildarinnkaup hafði að geyma sambærilegar upplýsingar um innkaupin og fram skulu koma í tilkynningu um einstök innkaup. Fresturinn skal eigi vera skemmri en 26 dagar.
Ef útboðsgögn eða viðbótarupplýsingar eru svo umfangsmikil að ekki er unnt að afhenda þau innan þeirra fresta sem greinir í 1. og 2. mgr. eða ef vettvangsganga er nauðsynleg skulu frestir lengjast í samræmi við þær tafir sem af þessu hljótast.
Reynist frestur til að skila tilboði of skammur við gerð aðkallandi samninga má stytta frest bjóðanda til að tilkynna um þátttöku og skila tilboði. Frestur til að tilkynna um þátttöku skal þó eigi vera skemmri en 15 dagar frá sendingardegi tilkynningar og frestur til að skila tilboði eigi skemmri en 10 dagar frá sendingu tilkynningar.
66. gr. Heimild til að auglýsa útboð undir viðmiðunarfjárhæðum.
Kaupanda er heimilt að birta í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins auglýsingar um opinber innkaup sem eru undir viðmiðunarfjárhæðum 56. gr.

XI. kafli. Skýrslur, Eftirlitsstofnun EFTA o.fl.
67. gr. Skýrslur um opinber innkaup.
Kaupanda er skylt að senda fjármálaráðuneytinu skýrslu um þá samninga sem hann hefur gert. Fjármálaráðuneytið sendir Eftirlitsstofnun EFTA skýrslurnar ef þess er óskað.
Kaupandi skal eigi síðar en 1. febrúar ár hvert senda fjármálaráðuneytinu yfirlit yfir þá dóma sem kveðnir hafa verið upp vegna brota hans á ákvæðum laga þessara og varða innkaup sem skylt er að bjóða út á Evrópska efnahagssvæðinu.
Heimilt er í reglugerð 1) að kveða nánar á um hvaða upplýsingar skuli koma fram í skýrslum samkvæmt þessari grein.
    1)Rg. 655/2003, sbr. 428/2004.
68. gr. Rannsókn Eftirlitsstofnunar EFTA.
Telji Eftirlitsstofnun EFTA að um augljóst brot á reglum Evrópska efnahagssvæðisins um opinber innkaup sé að ræða getur hún hafið rannsókn á ætluðu broti. Innan 14 daga frá tilkynningu Eftirlitsstofnunar EFTA um ástæður fyrir því áliti að augljóst brot hafi átt sér stað skal kaupandi senda fjármálaráðuneytinu staðfestingu á því að bætt hafi verið úr brotinu, greinargerð um ástæður þess að engar úrbætur hafi verið gerðar eða tilkynningu um að útboð og gerð samnings hafi verið stöðvuð um stundarsakir.
Fjármálaráðherra getur stöðvað um stundarsakir útboð eða gerð samnings í tilefni af tilkynningu Eftirlitsstofnunar EFTA samkvæmt þessari grein.

4. þáttur. Stjórnsýsla, meðferð kærumála, o.fl.
XII. kafli. Yfirstjórn opinberra innkaupa og starfsemi innkaupastofnunar.
69. gr. Yfirstjórn opinberra innkaupa.
Opinber innkaup heyra undir fjármálaráðherra sem fer með framkvæmd laga þessara.
70. gr. Ríkiskaup.
Á vegum ríkisins skal rekin innkaupastofnun, Ríkiskaup. Stofnunin annast innkaup fyrir ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki, rannsakar sameiginlegar þarfir á vörum og þjónustu og beitir sér fyrir samræmdum innkaupum til þarfa ríkisins. Einnig skal stofnunin láta í té aðstoð og leiðbeiningar um útboð og innkaup eftir því sem þörf krefur. Komi upp ágreiningur um ákvörðun við val á tilboðum milli Ríkiskaupa sem umsjónaraðila útboðs og kaupanda er heimilt að vísa ágreiningnum til fjármálaráðuneytisins.
Stofnunin ráðstafar eignum ríkisins sem ekki er lengur þörf fyrir samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra.
Ríkiskaup gera rammasamninga fyrir hönd ríkisins og annast útboð á vegum ríkisstofnana vegna innkaupa yfir viðmiðunarmörkum skv. 12. gr. laganna. Fjármálaráðherra getur þó heimilað einstökum ríkisstofnunum að annast eigin innkaup yfir viðmiðunarmörkum.
71. gr. Markmið í rekstri Ríkiskaupa.
Ríkiskaup skulu leitast við að tryggja hagkvæmni við innkaup ríkisins. Markmiði þessu skal náð með því að:
    a. þróa hágæða þjónustustofnun á sviði opinberra innkaupa með starfsfólki sem býr yfir þekkingu og reynslu á sviði innkaupa fyrir ríkisstofnanir,
    b. þróa verklag við útboð og innkaup sem tryggir jafnræði bjóðenda og virka samkeppni,
    c. auka framleiðni og einföldun í opinberum innkaupum með nútímalegu innkaupakerfi, útboðum og samræmdum innkaupum,
    d. auðvelda viðskiptatengsl milli birgja og ríkisstofnana,
    e. miðla þekkingu og reynslu til ríkisstofnana til að fullnægja sem best viðskiptalegum þörfum ríkisins.
72. gr. Yfirstjórn Ríkiskaupa.
Fjármálaráðherra skipar stjórn Ríkiskaupa til þriggja ára í senn og skal hún skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Hlutverk stjórnar er að móta stefnu um helstu áherslur, verkefni og starfshætti stofnunarinnar í samráði við forstjóra.
73. gr. Forstjóri Ríkiskaupa.
Fjármálaráðherra skipar forstjóra til fimm ára í senn að fenginni umsögn stjórnar. Forstjóri annast daglegan rekstur Ríkiskaupa og ber ábyrgð á fjárreiðum stofnunarinnar og reikningshaldi. Forstjóri gerir tillögur um fjárhagsáætlun stofnunarinnar og leggur áætlunina fyrir stjórn til meðferðar. Forstjóri ræður starfslið í samráði við stjórn stofnunarinnar.
74. gr. Gjaldskrá Ríkiskaupa.
Ríkiskaup selur ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum þjónustu sína á kostnaðarverði að viðbættri þóknun samkvæmt gjaldskrá sem fjármálaráðherra setur samkvæmt tillögum stjórnar stofnunarinnar. Gjaldskráin skal miðast við að tekjur standi undir rekstri stofnunarinnar.

XIII. kafli. Kærunefnd útboðsmála.
75. gr. Hlutverk og skipan kærunefndar útboðsmála.
Í kærunefnd útboðsmála eiga sæti þrír menn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Formaður nefndarinnar og varamaður hans skulu fullnægja skilyrðum laga til að gegna embætti héraðsdómara. Aðrir nefndarmenn skulu hafa alhliða reynslu og þekkingu á viðskiptum. Nefndarmenn skulu vera óháðir hagsmunum ríkis eða annarra opinberra aðila. Við skipan nefndarinnar skal ráðherra hafa samráð við aðra opinbera aðila sem og helstu samtök sem hafa hagsmuna að gæta við framkvæmd laganna.
Hlutverk kærunefndar útboðsmála er að leysa með skjótum og óhlutdrægum hætti úr kærum einstaklinga og lögaðila vegna ætlaðra brota á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim.
Nefndin er sjálfstæð í störfum sínum. Úrskurðum hennar og ákvörðunum samkvæmt lögum þessum verður ekki skotið til annarra stjórnvalda.
Að beiðni fjármálaráðuneytis eða tiltekins kaupanda er kærunefnd útboðsmála heimilt að gefa ráðgefandi álit á tilteknum innkaupum þótt engin kæra hafi borist.
76. gr. Sérfræðileg ráðgjöf.
Nefndinni er heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila ef hún telur þörf á. Skulu þeir aðilar starfa með kærunefndinni eftir nánari ákvörðun formanns eða varaformanns sem ákveður þeim þóknun fyrir starfann.
77. gr. Málskotsréttur.
Heimild til að skjóta málum til nefndarinnar hafa þeir einstaklingar og lögaðilar sem njóta réttinda samkvæmt lögum þessum og hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn máls.
Heimilt er kæranda að framselja kæruheimild sína til félags eða samtaka sem gæta hagsmuna hans.
78. gr. Kærufrestur.
Kæra skal borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum.
Í kæru skulu koma fram upplýsingar um kæranda, þann aðila sem kæra beinist að og ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem er kærð. Í kæru skulu koma fram kröfur kæranda ásamt stuttri lýsingu málsatvika og málsástæðna og rökstuðningur. Kröfugerð kæranda skal lúta að úrræðum nefndarinnar skv. 79. og 80. gr.
Ef kæra fullnægir ekki skilyrðum 2. mgr. skal kærunefndin beina því til kæranda að bæta úr annmörkum innan hæfilegs frests. Verði kærandi ekki við því skal kærunefndin vísa kærunni frá.
Kærunefnd er jafnan heimilt að beina því til kæranda að leggja fram frekari gögn eða upplýsingar máli til skýringar ef hún telur málið ekki nægilega upplýst og setja honum ákveðinn frest í því skyni.
79. gr. Meðferð kæru og gagnaöflun.
Nú er kæra tæk til efnismeðferðar skv. 78. gr. og gefur nefndin þá þeim sem kæra beinist gegn kost á að tjá sig um efni kærunnar. Kæranda skal jafnan gefinn stuttur frestur til að tjá sig um athugasemdir hins kærða. Málflutningur skal vera skriflegur, en heimilt er nefndinni að gefa aðilum kost á að færa fram athugasemdir munnlega ef mál er óvenjulega flókið eða umfangsmikið.
Nefndin getur krafist þess að málsaðilar leggi fram öll þau gögn og aðrar upplýsingar sem málið varðar. Sinni kærandi ekki slíkri kröfu er heimilt að vísa kæru hans frá þegar í stað. Sinni sá sem kæra beinist að ekki slíkri kröfu má meta tómlæti hans honum í óhag við úrlausn málsins.
Afl atkvæða nefndarmanna ræður niðurstöðu máls. Minnihlutaatkvæði skal fylgja nefndaráliti ef því er að skipta. Formaður eða varaformaður stýrir störfum nefndarinnar. Þegar nefndarmenn eru eigi sammála um niðurstöðu ræður meiri hluti niðurstöðu máls. Ef nefndin þríklofnar í afstöðu sinni eða niðurstaða getur eigi ráðist af atkvæðamagni ræður atkvæði formanns.
Kærunefnd skal kveða upp úrskurð um kæru eins fljótt og auðið er og eigi síðar en einum mánuði eftir að henni hafa borist gögn sem um ræðir í 78. og 79. gr.
Um meðferð mála fer að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.
80. gr. Stöðvun samningsgerðar um stundarsakir.
Nú telur nefndin að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim við tiltekin innkaup og getur hún þá, eftir kröfu kæranda, stöðvað útboð eða gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.
Þeim sem kæra beinist gegn skal að jafnaði gefinn skammur frestur til að tjá sig um hugsanlega stöðvun útboðs eða stöðvun samningsgerðar um stundarsakir. Víkja má frá þessu ef um er að ræða skýrt og augljóst brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.
Aðili máls getur krafist þess að nefndin rökstyðji ákvörðun samkvæmt þessari grein skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt.
81. gr. Úrræði kærunefndar útboðsmála.
Nefndin getur með úrskurði fellt úr gildi eða breytt ákvörðun kaupanda vegna opinberra innkaupa, sbr. þó 83. gr. Nefndin getur lagt fyrir kaupanda að bjóða út tiltekin innkaup, auglýsa útboð á nýjan leik eða breyta útboðsauglýsingu, útboðslýsingu eða öðrum þáttum útboðsgagna.
Nefndin getur látið uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kaupanda gagnvart kæranda, en tjáir sig ekki um fjárhæð skaðabóta.
Nefndin getur ákveðið að sá sem kæra beinist gegn greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi. Ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa getur nefndin úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað sem rennur í ríkissjóð.
Ef ekki er farið að úrskurði nefndarinnar skv. 1. mgr. er henni heimilt að ákveða að leggja dagsektir á þann sem úrskurður beinist að. Sektir geta numið allt að 500.000 kr. fyrir hvern dag sem líður án þess að farið sé að úrskurði nefndarinnar. Ef úrskurði er skotið til dómstóla byrja dagsektir ekki að falla á fyrr en dómur er endanlegur.
Dagsektir skv. 4. mgr. renna í ríkissjóð. Gera má aðför, án undangengins dóms, til fullnustu dagsekta og úrskurðar um málskostnað skv. 3. mgr.
82. gr. Starfsreglur fyrir kærunefnd útboðsmála.
Kærunefnd útboðsmála getur sett nánari reglur, 1) sem ráðherra staðfestir, um framlagningu gagna, málsmeðferð fyrir nefndinni og birtingu úrskurða.
    1)Starfsreglur 982/2001.

XIV. kafli. Gildi samninga og skaðabætur.
83. gr. Ógilding samninga.
Eftir að samningur hefur verið gerður verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt.
Nú gerir kaupandi samning þótt útboð eða samningsgerð hafi verið stöðvuð skv. 80. gr. og er þá allt að einu heimilt að ógilda samninginn og beita þeim úrræðum sem greinir í 81. gr.
Um gildi samninga, sem stofnað er til samkvæmt lögum þessum, fer að öðru leyti eftir almennum reglum.
84. gr. Skaðabótaskylda.
Kaupandi er skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem brot á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim hefur í för með sér fyrir bjóðanda. Bjóðandi þarf einungis að sanna að hann hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn af kaupanda og möguleikar hans hafi skerst við brotið. Bótafjárhæð skal miðast við kostnað við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði.
Um skaðabætur vegna brota á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim fer að öðru leyti eftir almennum reglum.

XV. kafli. Gildistaka, brottfall laga o.fl.
85. gr. Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglugerð 1) um nánari framkvæmd laga þessara.
    1)Rg. 206/2003, rg. 655/2003, sbr. 428/2004; rg. 343/2006.
86. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.
87. gr.

I. Viðauki A og B. …1)
    1)Um texta viðauka þessara vísast til Stjtíð. A 2001, bls. 206–207.

II. Viðauki. …1)
    1)Um texta viðaukans vísast til Stjtíð. A 2001, bls. 207–208.