Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 2007.  Útgáfa 134.  Prenta í tveimur dálkum.


Samkeppnislög

2005 nr. 44 19. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 2005, nema ákvæði til bráðabirgða sem tók gildi 20. maí 2005. Breytt með l. 52/2007 (tóku gildi 3. apríl 2007).


I. kafli. Markmið og gildissvið.
1. gr. Lög þessi hafa það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að:
    a. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,
    b. vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,
    c. auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaðnum.
2. gr. Lögin taka til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu, án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum.
Lögin taka ekki til launa eða annarra starfskjara launþega samkvæmt kjarasamningum.
3. gr. Lög þessi taka til samninga, skilmála og athafna sem hafa eða ætlað er að hafa áhrif hér á landi.
Lögin taka ekki til samninga, skilmála og athafna sem aðeins er ætlað að hafa áhrif utan Íslands, sbr. þó ákvæði VII. kafla og reglur um viðskipti á sameiginlegum markaði Evrópska efnahagssvæðisins.
Samkeppniseftirlitið skal aðstoða við framkvæmd samkeppnisreglna annarra ríkja og alþjóðastofnana í samræmi við gagnkvæmar skuldbindingar í milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.

II. kafli. Orðskýringar.
4. gr. Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
    1. Atvinnurekstur er hvers konar atvinnustarfsemi, óháð formi eignarhalds og án tillits til þeirrar vöru, þjónustu eða réttinda sem verslað eða sýslað er með gegn endurgjaldi.
    2. Fyrirtæki er einstaklingur, félag, opinberir aðilar og aðrir sem stunda atvinnurekstur.
    3. Fyrirtækjasamstæða er samband fyrirtækja með þannig eignauppbyggingu að eitt fyrirtæki á svo stóran hlut í öðru fyrirtæki eða fleiri fyrirtækjum að það fer með meiri hluta atkvæða. Það fyrirtæki skoðast því sem móðurfyrirtæki en hitt eða hin fyrirtækin sem dótturfyrirtæki. Til fyrirtækjasamstæðu telst einnig fyrirtæki þar sem móðurfyrirtæki og dótturfyrirtæki eða eitt eða fleiri dótturfyrirtæki eiga saman svo mörg hlutabréf eða hluti að þau fara með meiri hluta atkvæða í þeim.
    4. Markaðsráðandi staða er þegar fyrirtæki hefur þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda.
    5. Markaður er sölusvæði vöru og staðgengdarvöru og/eða sölusvæði þjónustu og staðgengdarþjónustu. Staðgengdarvara og staðgengdarþjónusta er vara eða þjónusta sem að fullu eða verulegu leyti getur komið í stað annarrar.
    6. Neytandi er einstaklingur sem kaupir vöru eða þjónustu gegn endurgjaldi, enda séu kaupin ekki gerð í atvinnuskyni.
    7. Samruni samkvæmt lögum þessum telst hafa átt sér stað þegar:
    a. tvö eða fleiri fyrirtæki, sem áður störfuðu sjálfstætt, sameinast,
    b. fyrirtæki tekur yfir annað fyrirtæki,
    c. eigendur með yfirráð í einu eða fleiri fyrirtækjum ná beinum eða óbeinum yfirráðum í einu eða fleiri fyrirtækjum til viðbótar eða
    d. fyrirtæki stofna fyrirtæki um sameiginlegt verkefni sem varir til frambúðar sem sjálfstæð efnahagseining og veldur því ekki að aðilar sem hlut eiga að máli samræmi samkeppni sín á milli eða milli sín og hins sameiginlega verkefnis.
    8. Sölustig framleiðslu ber að líta á sem eitt sölustig, heildsölu annað sölustig, smásölu hið þriðja o.s.frv.
    9. Vara er samkvæmt lögum þessum fasteignir og lausafé, þ.m.t. skip, loftför, lofttegundir, rafmagn og aðrir orkugjafar.
    10. Verð er andvirði vöru og þjónustu, þ.e. hvers konar endurgreiðsla án tillits til þess hvort notað er annað heiti, svo sem endurgjald, laun, þóknun, frakt, flutningsgjald, taxti, leiga eða því um líkt.
    11. Yfirráð samkvæmt lögum þessum eru yfirráð sem gera aðila kleift að hafa afgerandi áhrif á rekstur og stjórnun fyrirtækis, annaðhvort sér í lagi eða sameiginlega með öðrum, hvort sem þau áhrif eru til komin vegna þess að hann getur:
    a. haft áhrif á skipun stjórnar, atkvæðagreiðslu eða ákvarðanir fyrirtækisins eða
    b. notað eða ráðstafað eignum eða hluta eigna fyrirtækis.
    12. Þjónusta er hvers konar fyrirgreiðsla, vinna eða þjónusta gegn endurgjaldi, nema launuð vinna í þjónustu annarra.
Rísi ágreiningur um hvað falla skuli undir hugtök þessi sker Samkeppniseftirlitið úr þeim ágreiningi.

III. kafli. Stjórnsýsla.
5. gr. Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara en í umboði hans annast sérstök stofnun, Samkeppniseftirlitið, eftirlit samkvæmt lögum þessum og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.
Með yfirstjórn Samkeppniseftirlitsins fer þriggja manna stjórn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Þrír varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann stjórnar og ákveður þóknun stjórnarmanna.
Hlutverk stjórnar er að móta áherslur í starfi og fylgjast með starfsemi og rekstri Samkeppniseftirlitsins. Meiri háttar efnislegar ákvarðanir skal bera undir stjórn til samþykktar eða synjunar. Stjórnin skal setja sér starfsreglur 1) þar sem m.a. skal kveðið á um hvað teljist til meiri háttar ákvarðana. Reglurnar skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda.
    1) Rgl. 759/2005.
6. gr. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins skal ráðinn af stjórn stofnunarinnar. Forstjóri annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri stofnunarinnar. Stjórn stofnunarinnar ákveður starfskjör forstjóra og setur honum starfslýsingu.
Forstjóri ræður starfsmenn stofnunarinnar.
7. gr. Stjórnarmenn skulu hafa sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum og menntun sem nýtist á þessu sviði.
Forstjóri skal hafa menntun á háskólastigi og búa yfir víðtækri þekkingu og reynslu á sviði samkeppnismála.
Stjórnarmenn og forstjóri skulu vera lögráða og mega aldrei hafa verið sviptir forræði á búi sínu. Þeir skulu hafa óflekkað mannorð og mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga eða gjaldþrot eða samkeppnislögum.
Stjórnarmenn og forstjóri skulu hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga verulegra hagsmuna að gæta né mála er varða aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega.
8. gr. Hlutverk Samkeppniseftirlitsins er sem hér segir:
    a. að framfylgja boðum og bönnum laga þessara og leyfa undanþágur samkvæmt þeim,
    b. að ákveða aðgerðir gegn samkeppnishamlandi hegðun fyrirtækja,
    c. að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaði,
    d. að fylgjast með þróun á samkeppnis- og viðskiptaháttum á einstökum mörkuðum í íslensku viðskiptalífi og kanna stjórnunar- og eignatengsl á milli fyrirtækja; skal þetta gert m.a. í því skyni að meta hvort í íslensku viðskiptalífi sé að finna einkenni hringamyndunar, óæskilegra tengsla eða valdasamþjöppunar sem takmarkað geta samkeppni; stofnunin skal birta skýrslur um athuganir sínar og grípa til aðgerða til að stuðla að virkri samkeppni þar sem það er nauðsynlegt.
Samkeppniseftirlitið setur sér reglur 1) um málsmeðferð.
Samkeppniseftirlitið tekur ákvörðun um það hvort erindi sem berst stofnuninni gefi nægar ástæður til rannsóknar. Við afgreiðslu mála samkvæmt lögum þessum er Samkeppniseftirlitinu heimilt að raða málum í forgangsröð.
    1) Rgl. 880/2005, rgl. 890/2005.
9. gr. Ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins sæta kæru til sérstakrar nefndar, áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Skrifleg kæra skal berast innan fjögurra vikna frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála skal liggja fyrir innan sex vikna frá málskoti.
Í áfrýjunarnefnd samkeppnismála sitja þrír menn og jafnmargir til vara, skipaðir af ráðherra eftir tilnefningu Hæstaréttar. Formaður og varamaður hans, sem jafnframt er varaformaður, skulu uppfylla hæfisskilyrði hæstaréttardómara, en aðrir nefndarmenn skulu hafa faglega kunnáttu á sviði samkeppnis- og viðskiptamála.
Skipunartími áfrýjunarnefndar er hinn sami og skipunartími stjórnar Samkeppniseftirlitsins.

IV. kafli. Bann við samkeppnishömlum.
10. gr. Allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað eru bannaðar.
Bann þetta tekur m.a. til samninga, samþykkta og samstilltra aðgerða sem:
    a. áhrif hafa á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti,
    b. takmarka eða stýra framleiðslu, mörkuðum, tækniþróun eða fjárfestingu,
    c. skipta mörkuðum eða birgðalindum,
    d. mismuna viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og veikja þannig samkeppnisstöðu þeirra,
    e. setja sem skilyrði fyrir samningagerð að hinir viðsemjendurnir taki á sig viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna, hvorki í eðli sínu né samkvæmt viðskiptavenju.
11. gr. Misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu er bönnuð.
Misnotkun skv. 1. mgr. getur m.a. falist í því að:
    a. beint eða óbeint sé krafist ósanngjarns kaup- eða söluverðs eða aðrir ósanngjarnir viðskiptaskilmálar settir,
    b. settar séu takmarkanir á framleiðslu, markaði eða tækniþróun, neytendum til tjóns,
    c. viðskiptaaðilum sé mismunað með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannig veikt,
    d. sett sé það skilyrði fyrir samningagerð að hinir viðsemjendurnir taki á sig viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna, hvorki í eðli sínu né samkvæmt viðskiptavenju.
12. gr. Samtökum fyrirtækja er óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögum þessum eða brjóta í bága við ákvarðanir skv. 16.–18. gr.
Bann þetta nær einnig til stjórnarmanna samtaka, starfsmanna þeirra og manna sem valdir eru til trúnaðarstarfa í þágu samtakanna.
13. gr. Samningar milli fyrirtækja falla ekki undir bann skv. 10. gr. ef samanlögð markaðshlutdeild allra samstarfsfyrirtækja fer ekki á neinum markaði sem skiptir máli yfir:
    a. 5% viðmiðunarmörk, ef samningurinn er milli fyrirtækja sem starfa á sama framleiðslu- eða sölustigi (láréttur samningur),
    b. 10% viðmiðunarmörk, ef samningurinn er á milli fyrirtækja sem starfa á mismunandi framleiðslu- eða sölustigi (lóðréttur samningur).
Ef um sambland af láréttum og lóðréttum samningum er að ræða eða ef erfitt er að flokka samning annaðhvort sem láréttan eða lóðréttan gilda 5% viðmiðunarmörkin.
Samningar skv. 1. mgr. falla ekki undir bann skv. 10. gr. þrátt fyrir að markaðshlutdeild fari upp fyrir viðmiðunarmörk skv. 1. mgr. ef hlutdeildin fer ekki upp fyrir 5,5% í láréttum samningum eða 11% í lóðréttum samningum tvö fjárhagsár í röð.
Samstarfsfyrirtæki skv. 1. mgr. eru fyrirtæki sem eiga aðild að samningnum, fyrirtæki sem aðilar samningsins hafa bein eða óbein yfirráð yfir eða fyrirtæki sem hafa bein eða óbein yfirráð yfir aðilum samningsins.
Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um samstilltar aðgerðir skv. 10. gr. og ákvarðanir samtaka fyrirtækja skv. 12. gr.
Ákvæði þessarar greinar gilda ekki ef samkeppni á viðkomandi markaði er takmörkuð af uppsöfnuðum áhrifum sambærilegra samninga á markaðnum.
14. gr. Þegar um er að ræða opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar er Samkeppniseftirlitinu heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað, annars vegar á milli þess hluta rekstrar fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta rekstrar sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af starfsemi sem nýtur einkaleyfis eða verndar.
15. gr. Samkeppniseftirlitið getur veitt undanþágu frá ákvæðum 10. og 12. gr. Skilyrði slíkrar undanþágu eru að samningar, samþykktir, samstilltar aðgerðir eða ákvarðanir skv. 10. og 12. gr.:
    a. stuðli að bættri framleiðslu eða dreifingu á vöru eða þjónustu eða efli tæknilegar og efnahagslegar framfarir,
    b. veiti neytendum sanngjarna hlutdeild í ávinningi sem af þeim hlýst,
    c. leggi ekki höft á hlutaðeigandi fyrirtæki sem óþörf eru til að settum markmiðum verði náð og
    d. veiti fyrirtækjunum ekki færi á að koma í veg fyrir samkeppni að því er varðar verulegan hluta framleiðsluvaranna eða þjónustunnar sem um er að ræða.
Hægt er að setja skilyrði fyrir undanþágu. Samkeppniseftirlitið getur krafist þess að umsóknir um undanþágu skv. 1. mgr. verði settar fram á sérstöku eyðublaði.
Samkeppniseftirlitið getur dregið undanþágu til baka eða breytt skilyrðum hennar ef:
    a. forsendur sem lágu til grundvallar undanþágunni hafa breyst,
    b. undanþágan hefur verið veitt á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga eða
    c. fyrirtæki brýtur þau skilyrði sem sett voru fyrir undanþágunni.
Samkeppniseftirlitið setur reglur 1) þar sem tilteknum tegundum samninga sem uppfylla skilyrði 1. mgr. er veitt undanþága frá ákvæðum 10. og 12. gr. (hópundanþága).
    1) Rgl. 256/2002, sbr. rgl. 898/2005; rgl. 257/2002, sbr. rgl. 898/2005; rgl. 259/2002, sbr. rgl. 898/2005; rgl. 260/2002, sbr. rgl. 898/2005.

V. kafli. Eftirlit með samkeppnishömlum.
16. gr. Samkeppniseftirlitið getur gripið til aðgerða gegn:
    a. samningum, skilmálum og hvers konar athöfnum sem brjóta í bága við 10., 11. og 12. gr.,
    b. athöfnum opinberra aðila að því marki sem þær kunna að hafa skaðleg áhrif á samkeppni að því tilskildu að sérlög hafi ekki að geyma sérstakar reglur um heimild eða skyldu til slíkra athafna.
Aðgerðir Samkeppniseftirlitsins geta falið í sér hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að stöðva brot gegn ákvæðum laganna eða bregðast við athöfnum opinberra aðila sem kunna að hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Samkeppniseftirlitið getur beitt úrræðum bæði til breytingar á atferli og skipulagi, í hlutfalli við það brot sem framið hefur verið og nauðsynlegt telst til að stöðva það í reynd. Þó er einungis heimilt að beita úrræðum til breytingar á skipulagi ef sýnt þykir að ekki sé fyrir hendi árangursríkt úrræði til breytingar á atferli eða þar sem jafnárangursríkt úrræði til breytingar á atferli væri meira íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi aðila en úrræði til breytingar á skipulagi.
Samkeppniseftirlitinu er heimilt að taka ákvarðanir til bráðabirgða um einstök mál ef:
    a. sennilegt þykir að sú háttsemi eða þær aðstæður sem til athugunar eru fari gegn ákvæðum samkeppnislaga eða ákvörðunum teknum á grundvelli þeirra eða ef athafnir opinberra aðila hafa skaðleg áhrif á samkeppni og
    b. líklegt er að bið eftir endanlegri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins leiði til röskunar á samkeppni sem verði afstýrt með endanlegri ákvörðun eða málið að öðru leyti þolir ekki bið.
Bráðabirgðaákvörðun skal gilda í tiltekinn tíma og má endurnýja hana ef það er talið nauðsynlegt.
17. gr. Telji Samkeppniseftirlitið að samruni hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða, eins eða fleiri fyrirtækja, verði til eða slík staða styrkist getur stofnunin ógilt samruna sem þegar hefur átt sér stað. Samkeppniseftirlitið getur einnig sett slíkum samruna skilyrði sem verður að uppfylla innan tilskilins tíma. Við mat á lögmæti samruna skal Samkeppniseftirlitið taka tillit til þess að hvaða marki alþjóðleg samkeppni hefur áhrif á samkeppnisstöðu hins sameinaða fyrirtækis. Enn fremur skal við mat á lögmæti samruna taka tillit til þess hvort markaður er opinn eða aðgangur að honum er hindraður.
Ákvæði 1. mgr. tekur einungis til samruna þar sem sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er 1 milljarður kr. eða meira. Telja skal með veltu móður- og dótturfélaga, fyrirtækja innan sömu fyrirtækjasamstæðu og fyrirtækja sem aðilar samrunans hafa bein eða óbein yfirráð yfir. Þá skulu a.m.k. tvö af þeim fyrirtækjum sem aðild eiga að samrunanum hafa a.m.k. 50 millj. kr. ársveltu hvert um sig til að 1. mgr. taki til hans.
Tilkynna skal Samkeppniseftirlitinu um samruna sem fellur undir 1. mgr. eigi síðar en einni viku eftir að samningi um hann er lokið eða tilkynnt er opinberlega um yfirtökuboð eða að tiltekinn aðili hafi náð yfirráðum í fyrirtæki. Frestur hefst þegar eitt af þessu hefur gerst. Í tilkynningunni skal veita upplýsingar um samrunann og um þau fyrirtæki sem honum tengjast. Samkeppniseftirlitið setur reglur 1) þar sem nánar eru tilgreindar þær upplýsingar sem fram verða að koma í tilkynningu, þar á meðal um markaði sem samruninn hefur áhrif á og um önnur nauðsynleg atriði við athugun á samkeppnislegum áhrifum hans.
Samkeppniseftirlitið skal tilkynna viðkomandi fyrirtækjum innan þrjátíu daga ef það telur ástæðu til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samrunans. Frestur þessi byrjar að líða þegar Samkeppniseftirlitinu berst tilkynning sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. og reglna sem settar eru samkvæmt ákvæðinu. Berist tilkynning frá Samkeppniseftirlitinu skv. 1. málsl. ekki innan tilskilins frests getur Samkeppniseftirlitið ekki ógilt samrunann. Ákvörðun um ógildingu skal taka eigi síðar en þremur mánuðum eftir að tilkynning skv. 1. málsl. hefur verið send viðkomandi fyrirtækjum.
Til þess að tryggja að hugsanleg ákvörðun skv. 1. mgr. nái að fullu fram að ganga getur Samkeppniseftirlitið gripið til íhlutunar í samruna til bráðabirgða. Íhlutun getur falist í banni til bráðabirgða gegn því að láta samruna koma til framkvæmda þar til endanleg niðurstaða samkeppnisyfirvalda á athugun á samrunanum liggur fyrir eða öðrum ráðstöfunum sem hafa sömu áhrif.
Ákveði Samkeppniseftirlitið að ógilda samruna getur stofnunin, samhliða ákvörðun á grundvelli 1. mgr. eða með sérstakri ákvörðun, mælt fyrir um að fyrirtæki eða eignir sem sameinaðar hafa verið verði aðskildar eða sameiginlegri stjórn hætt eða að gripið verði til annarra viðeigandi aðgerða til að skapa að nýju skilyrði fyrir virkri samkeppni.
    1) Rgl. 881/2005.
[17. gr. a. Hafi fyrirtæki eða samtök fyrirtækja gerst brotleg við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins á grundvelli þeirra er Samkeppniseftirlitinu heimilt, með samþykki málsaðila, að ljúka málinu með sátt. Sama gildir ef um er að ræða samruna sem hindrar virka samkeppni, sbr. 17. gr. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni.
Samkeppniseftirlitið setur nánari reglur um framkvæmd greinarinnar.] 1)
    1)L. 52/2007, 1. gr.
18. gr. Ef Samkeppniseftirlitið telur að ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla stríði gegn markmiði laga þessara og torveldi frjálsa samkeppni í viðskiptum skal vekja athygli ráðherra á því áliti. Slíkt álit skal einnig birta almenningi á fullnægjandi hátt, t.d. með fréttatilkynningu til fjölmiðla eftir að það hefur verið kynnt ráðherra.

VI. kafli. Upplýsingaskylda.
19. gr. Samkeppniseftirlitið getur krafið einstök fyrirtæki, fyrirtækjahópa og samtök fyrirtækja, sem lög þessi taka til, um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflega og skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem stofnunin setur.
Samkeppniseftirlitið getur með sömu skilyrðum og í 1. mgr. krafist þess að fá gögn afhent til athugunar. Skulu þau afhent innan hæfilegs frests sem stofnunin setur.
Samkeppniseftirlitið getur í starfi sínu krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal frá skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, óháð þagnarskyldu þeirra.
Samkeppniseftirlitið getur einnig lagt skyldu á þá aðila sem um getur í 1. mgr. að upplýsa stofnunina reglulega um atriði sem máli skipta við framkvæmd laga þessara. Samkeppniseftirlitið getur gefið slík fyrirmæli með opinberri tilkynningu.
20. gr. Samkeppniseftirlitið getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað fyrirtækis og samtaka fyrirtækja og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum eða ákvörðunum samkeppnisyfirvalda.
Við framkvæmd aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.

VII. kafli. Framkvæmd samkeppnisreglna o.fl. samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
21. gr. Samkeppniseftirlitið, áfrýjunarnefnd samkeppnismála og íslenskir dómstólar skulu beita 53. og 54. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, eftir því sem kveðið er á um í lögum, m.a. 25.–28. gr. í lögum þessum. Við beitingu Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins á samkeppnisreglum EES-samningsins skal m.a. farið að ákvæðum þessa kafla.
Skylt er þeim sem um er beðinn að veita Eftirlitsstofnun EFTA og dómstóli EFTA þær upplýsingar sem þessum stofnunum er nauðsynlegt að afla sér til að unnt sé að framkvæma samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og samning EFTA-ríkja um eftirlitsstofnun og dómstól að því er varðar samkeppnismál. Sama gildir um framkvæmd fyrirmæla sem gefin eru með heimild í 32. gr.
Samkeppniseftirlitið getur krafist sömu upplýsinga og um getur í 2. mgr. og getur það sett skilafrest í því sambandi.
22. gr. Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að framkvæma vettvangsskoðun hér á landi enda sé fylgt þeim reglum sem settar eru í bókun 3 og bókun 4 með samningnum um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA um störf og valdsvið Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar og samkeppni.
Fulltrúum Eftirlitsstofnunar EFTA og fulltrúum framkvæmdastjórnar EB, sem fjalla um samkeppnismál, er heimilt að vera viðstaddir og taka þátt í vettvangsrannsóknum sem Samkeppniseftirlitið framkvæmir innan þeirra marka sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og fylgisamningar hans setja. Sama gildir um rétt fulltrúa Samkeppniseftirlitsins og framkvæmdastjórnar EB þegar Eftirlitsstofnun EFTA framkvæmir vettvangsrannsóknir hér á landi.
Ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA og Samkeppniseftirlitsins þess efnis að vettvangsrannsókn skuli fara fram má fullnægja með aðfarargerð.
23. gr. Lögmælt þagnarskylda íslenskra yfirvalda skal ekki vera því til fyrirstöðu að þau gefi Eftirlitsstofnun EFTA eða fulltrúum framkvæmdastjórnar EB, sem fjalla um samkeppnismál, allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd samkeppnisreglna samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
24. gr. Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum er heimilt að leggja sektir á fyrirtæki, samtök fyrirtækja eða einstaklinga fyrir brot af ásetningi eða gáleysi á 53., 54. eða 57. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, svo og á ákvæðum bókunar 4 með samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls eða á reglum sem settar eru með heimild í 32. gr. þessara laga.
Sama gildir um framkvæmdastjórn EB og dómstól EB í þeim tilvikum sem þessir aðilar fara með lögsögu máls samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
Sömu aðilar geta einnig lagt á févíti til að tryggja að farið verði eftir ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli samkeppnisreglnanna, sbr. ákvæði 1. mgr.
Ákvarðanir um sektir og févíti samkvæmt framanskráðu eru aðfararhæfar.
25. gr. Samkeppniseftirlitið og áfrýjunarnefnd samkeppnismála skulu, með þeim takmörkunum sem leiðir af EES-samningnum, tryggja að ákvæði 53. og 54. gr. EES-samningsins séu virt. Gilda þá einnig ákvæði laga þessara eftir því sem við á.
Þegar Samkeppniseftirlitið og áfrýjunarnefnd samkeppnismála taka ákvörðun um samninga, ákvarðanir eða aðgerðir skv. 53. og 54. gr. EES-samningsins, sem þegar hefur verið fjallað um í ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA í sama máli, er þeim ekki heimilt að taka ákvörðun sem gengur gegn þeirri ákvörðun sem Eftirlitsstofnunin hefur samþykkt.
Samkeppniseftirlitið getur tekið ákvörðun um að hópundanþága á grundvelli 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins eigi ekki við gagnvart tilteknu fyrirtæki með þeim skilyrðum sem fram koma í EES-samningnum, samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og reglugerðum skv. 32. gr. laga þessara.
Telji Samkeppniseftirlitið að Eftirlitsstofnun EFTA skuli fjalla um mál skal það framsent Eftirlitsstofnuninni.
26. gr. Ef Samkeppniseftirlitið, áfrýjunarnefnd samkeppnismála eða dómstólar beita ákvæðum laga þessara vegna samninga fyrirtækja, ákvarðana samtaka fyrirtækja eða samstilltra aðgerða í skilningi 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, sem gætu haft áhrif á viðskipti milli aðila að EES-samningnum, skulu þau einnig beita 53. gr. EES-samningsins að því er varðar slíka samninga, ákvarðanir eða samstilltar aðgerðir.
Ef Samkeppniseftirlitið, áfrýjunarnefnd samkeppnismála eða dómstólar beita ákvæðum laga þessara vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu sem bönnuð er skv. 54. gr. EES- samningsins skulu þau einnig beita 54. gr. EES-samningsins.
Samkeppniseftirlitið og áfrýjunarnefnd samkeppnismála skulu ekki banna samninga, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir sem gætu haft áhrif á viðskipti milli aðila að EES-samningnum, en hamla ekki samkeppni í skilningi 1. mgr. 53. gr. EES- samningsins, uppfylla skilyrði 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins eða falla undir hópundanþágu um beitingu 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins. Ákvæði þessarar málsgreinar koma ekki í veg fyrir að Samkeppniseftirlitið og áfrýjunarnefnd samkeppnismála geti beitt strangari löggjöf þar sem einhliða ákvarðanir fyrirtækja eru bannaðar eða heimilað er að leggja sektir á fyrirtæki fyrir slíkar ákvarðanir.
Með fyrirvara um almennar meginreglur og önnur ákvæði EES-samningsins gildir grein þessi hvorki þegar Samkeppniseftirlitið, áfrýjunarnefnd samkeppnismála og dómstólar beita 17. gr. laga þessara né heldur kemur það í veg fyrir beitingu ákvæða þar sem í meginatriðum eru ríkjandi önnur markmið en þau sem er að finna í 53. og 54. gr. EES-samningsins.
27. gr. Þegar dómstóll fjallar um samninga, ákvarðanir eða aðgerðir skv. 53. og 54. gr. EES- samningsins í máli sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur þegar tekið ákvörðun í má úrlausn hans ekki brjóta í bága við þá ákvörðun. Enn fremur skal hann forðast að leysa úr máli á annan veg en þann sem Eftirlitsstofnun EFTA kann að gera í máli sem hún hefur til meðferðar. Dómstóllinn getur í þessu skyni frestað meðferð málsins.
Ákvæði 1. mgr. hefur ekki áhrif á heimild dómstóls til að leita eftir ráðgefandi áliti EFTA- dómstólsins skv. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
28. gr. Samkeppniseftirlitið getur að eigin frumkvæði komið að skriflegum athugasemdum í dómsmáli vegna beitingar 53. og 54. gr. EES-samningsins. Með samþykki dómstólsins getur Samkeppniseftirlitið þá einnig komið að munnlegum athugasemdum.
Þegar samræmd beiting 53. og 54. gr. EES-samningsins krefst þess getur Eftirlitsstofnun EFTA einnig að eigin frumkvæði komið að skriflegum athugasemdum. Með leyfi dómstólsins getur Eftirlitsstofnunin þá jafnframt komið að munnlegum athugasemdum.
Samkeppniseftirlitinu og Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt, þó aðeins til undirbúnings athugasemdum sínum, að óska eftir að viðeigandi dómstóll sendi þeim eða tryggi sendingu skjala sem teljast nauðsynleg til að meta málið.
29. gr. Ákvæðum 17. gr. laga þessara verður beitt með þeim takmörkunum sem leiðir af ákvæðum EES-samningsins um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja, sbr. 57. gr. meginmáls samningsins, bókun 21 og 24 með honum og viðauka XIV við hann, svo og XIII. og XIV. kafla III. hluta bókunar 4 með samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
30. gr. Hafi ríkisaðstoð, sem 61. gr. EES-samningsins tekur til, verið tilkynnt Eftirlitsstofnun EFTA geta íslensk stjórnvöld ekki úrskurðað um það hvort aðstoðin sé í samræmi við leyfilegan opinberan fjárhagsstuðning fyrr en Eftirlitsstofnunin hefur tilkynnt um álit sitt á málinu. Sama gildir um fjárhagsaðstoð úr sveitarsjóði sem fallið getur undir 61. gr. samningsins.
31. gr. Sveitarfélag, sem hyggst veita fyrirtæki aðstoð af því tagi sem um getur í 61. gr. EES- samningsins, skal tilkynna Samkeppniseftirlitinu um hina fyrirhuguðu aðstoð.
Telji Eftirlitsstofnun EFTA að aðstoð, sem sveitarstjórn hefur tekið ákvörðun um að veita, brjóti gegn 61. gr. EES-samningsins skal Samkeppniseftirlitið tilkynna það sveitarstjórn. Samkeppniseftirlitið getur fylgt eftir framkvæmd slíks úrskurðar með álagningu févítis, sbr. 3. mgr. 24. gr.
Verði að afturkalla ákvörðun um ríkisaðstoð eða annan fjárhagsstuðning úr opinberum sjóðum vegna ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið skulu stjórnvöld, að undangenginni ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA um endurgreiðslu, gera ráðstafanir til þess að endurheimta aðstoðina frá þiggjanda hennar. Þiggjanda aðstoðar ber að greiða vexti, sem Eftirlitsstofnun EFTA ákveður, af fjárhæð þeirri sem hann er endurkrafinn um. Vextir skulu reiknaðir frá þeim degi er þiggjanda var fengin aðstoðin til umráða og fram til þess dags að hún er endurgreidd. Afturköllun samkvæmt málsgrein þessari skapar sveitarfélagi eða ríkissjóði ekki skaðabótaskyldu gagnvart þeim sem ákvörðun beinist að eða telja sig að öðru leyti bíða tjón af afturkölluninni.
32. gr. Ráðherra er heimilt að fenginni umsögn Samkeppniseftirlitsins að setja reglugerð um nánari framkvæmd samkeppnisreglna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og samningsins um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA. Fjármálaráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd reglna EES-samningsins um ríkisaðstoð til aðila hér á landi. 1)
    1)Rg. 593/1993, sbr. 338/1996, 230/1997, 358/1998, 245/1999, 584/2000, 282/2001, 652/2005, 653/2005, 654/2005 og 655/2005; rg. 904/2002, rg. 214/2006, rg. 811/2006, rg. 812/2006, rg. 813/2006, rg. 814/2006, rg. 815/2006, rg. 816/2006, rg. 817/2006, rg. 818/2006, rg. 819/2006, rg. 820/2006, rg. 821/2006, rg. 822/2006, rg. 823/2006, rg. 824/2006, rg. 825/2006, rg. 826/2006.

VIII. kafli. Almenn ákvæði.
33. gr. Samningar, sem brjóta í bága við bannákvæði laga þessara, eru ógildir.
Samningsákvæði, sem teljast hafa efnislegt og efnanlegt sjálfstæði frá þeim ákvæðum sem brutu í bága við bannákvæði laga þessara, teljast þó gild. Ágreiningi varðandi þetta atriði má skjóta til Samkeppniseftirlitsins innan mánaðar frá því að samningur var ógiltur skv. 1. mgr.
34. gr. Þeim sem starfa af hálfu stjórnvalda að framkvæmd laga þessara er óheimilt að skýra frá þeim atriðum sem þeir verða áskynja um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
35. gr. Samkeppniseftirlitinu er heimilt að afhenda samkeppnisyfirvöldum annarra ríkja upplýsingar og gögn sem nauðsynleg þykja við framkvæmd á íslenskum eða erlendum samkeppnislögum í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt milliríkjasamningum.
Við afhendingu upplýsinga og gagna til yfirvalda sem nefnd eru í 1. mgr. skal Samkeppniseftirlitið setja sem skilyrði að:
    a. farið verði með upplýsingarnar og gögnin sem trúnaðarmál hjá þeim sem við þeim tekur,
    b. upplýsingarnar og gögnin megi aðeins nota í því skyni sem kveðið er á um í viðkomandi milliríkjasamningi og
    c. upplýsingarnar og gögnin megi aðeins afhenda öðrum með samþykki Samkeppniseftirlitsins og í þeim tilgangi sem samþykkið kveður á um.
Viðskiptaráðherra getur sett nánari reglur um afhendingu Samkeppniseftirlitsins á gögnum og upplýsingum til yfirvalda og stofnana skv. 1. mgr.
36. gr. Við framkvæmd þessara laga getur Samkeppniseftirlitið birt opinberlega upplýsingar um samninga, skilmála og athafnir sem hafa eða er ætlað að hafa þau áhrif að hamla samkeppni.
Tillit skal þó tekið til réttmætra hagsmuna fyrirtækja til að halda leyndum viðskiptalegum og tæknilegum upplýsingum.

IX. kafli. Viðurlög.
37. gr. [Samkeppniseftirlitið leggur stjórnvaldssektir á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja sem brjóta gegn:
    a. banni skv. 10. eða 12. gr.,
    b. banni skv. 11. gr.,
    c. fyrirmælum samkeppnisyfirvalda á grundvelli 14. gr.,
    d. skilyrðum sem samkeppnisyfirvöld hafa sett fyrir veitingu undanþágu á grundvelli 15. gr.,
    e. ráðstöfunum, aðgerðum eða bráðabirgðaákvörðunum á grundvelli 16. gr.,
    f. íhlutun, fyrirmælum eða skilyrðum samkeppnisyfirvalda á grundvelli 1., 5. og 6. mgr. 17. gr.,
    g. tilkynningarskyldu skv. 3. mgr. 17. gr.,
    h. sátt milli Samkeppniseftirlitsins og aðila, sbr. 17. gr. a,
    i. skyldu til að veita upplýsingar og afhenda gögn skv. 19. gr.,
    j. banni skv. 53. og 54. gr. EES-samningsins. 1)
Sektir geta numið allt að 10% af heildarveltu síðasta rekstrarárs hjá hverju því fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja sem aðild eiga að broti. Ef brot samtaka fyrirtækja tengjast starfsemi aðila þeirra skal fjárhæð sektar ekki vera hærri en 10% af heildarveltu hvers aðila þeirra sem er virkur á þeim markaði sem brot samtakanna tekur til. Við ákvörðun á fjárhæð sekta skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota, hvað brot hafa staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða. Sektirnar renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Samkeppniseftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Unnt er að lækka sektir ef fyrirtæki hefur haft frumkvæði að því að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota gegn 10. eða 12. gr. sem að mati eftirlitsins eru mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum og að uppfylltum nánari skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið mælir fyrir um í reglum.
Falla má frá sektarákvörðun teljist brot óverulegt eða af öðrum ástæðum sé ekki talin þörf á slíkum sektum til að stuðla að og efla virka samkeppni. Þá má falla frá sektarákvörðun hafi fyrirtæki verið fyrst til að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota gegn 10. eða 12. gr. sem að mati eftirlitsins geta leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti og að uppfylltum nánari skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið mælir fyrir um í reglum.
Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um sektir má skjóta til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.] 2)
    1)Samkeppniseftirlitið leggur stjórnvaldssektir á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja sem brjóta gegn fyrirmælum eða skilyrðum sem gefin voru á grundvelli laga nr. 8/1993, með síðari breytingum, skv. l. 52/2007, brbákv. 2)L. 52/2007, 2. gr.
[37. gr. a. Heimild Samkeppniseftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar sjö ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Samkeppniseftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti eða þegar framkvæmd er leit á starfsstað fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja á grundvelli 20. gr. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.] 1)
    1)L. 52/2007, 3. gr.
38. gr. Ef ekki er farið að ákvörðun sem tekin hefur verið samkvæmt þessum lögum getur Samkeppniseftirlitið ákveðið að sá eða þeir sem ákvörðunin beinist gegn greiði dagsektir þar til farið verður að henni. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.
39. gr. Ákvörðun um dagsektir má skjóta til áfrýjunarnefndar samkeppnismála innan fjórtán daga frá því að hún er kynnt þeim er hún beinist að. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn. Ef ákvörðun er skotið til áfrýjunarnefndar falla dagsektir ekki á fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir.
40. gr. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar liggur fyrir.
41. gr. Nú vill aðili ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hans fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um ákvörðun áfrýjunarnefndar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar samkvæmt honum. Þó skal málshöfðun fyrir dómstólum fresta réttaráhrifum úrskurðar áfrýjunarnefndar um breytingar á skipulagi, sbr. 2. mgr. 16. gr.
[41. gr. a. Hver starfsmaður eða stjórnarmaður fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja, sem framkvæmir, hvetur til eða lætur framkvæma samráð sem brýtur gegn 10. og/eða 12. gr. og varðar þau atriði sem tilgreind eru í 2. og 3. mgr., skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum.
Ákvæði 1. mgr. tekur til eftirfarandi brota fyrirtækja eða samtaka fyrirtækja á sama sölustigi á 10. eða 12. gr.:
    a. samráðs um verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör,
    b. samráðs um takmörkun eða stýringu á framboði, framleiðslu, mörkuðum eða sölu,
    c. samráðs um skiptingu á birgðalindum eða mörkuðum, t.d. eftir svæðum eða viðskiptavinum,
    d. samráðs um gerð tilboða,
    e. samráðs um að eiga ekki viðskipti við tiltekin fyrirtæki eða neytendur,
    f. upplýsingagjafar um þau atriði sem fram koma í a–e-liðum.
Ákvæði 1. mgr. tekur einnig til ólögmæts samráðs milli fyrirtækja sem hefur það að markmiði að fyrirtæki hefji ekki samkeppni í atvinnustarfsemi.
Með samráði í þessari grein er átt við samninga, samþykktir, ákvarðanir eða samstilltar aðgerðir fyrirtækja eða samtaka fyrirtækja.
Dæma má sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga og upptöku eigna skv. 69. gr. sömu laga í máli er rís vegna brota á 10., 12. og 41. gr. b laga þessara.
Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt grein þessari er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.] 1)
    1)L. 52/2007, 4. gr.
[41. gr. b. Hver sá sem í tengslum við upplýsingaöflun á grundvelli 19. og 20. gr. og reglna sem settar eru samkvæmt þeim eyðileggur, falsar, kemur undan eða gerir á annan hátt ónothæf hvers konar gögn sem hafa þýðingu fyrir rannsókn Samkeppniseftirlitsins skal sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Hver sá sem við upplýsingagjöf skv. 19. gr. veitir Samkeppniseftirlitinu rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Sömu refsingu skal hver sæta sem að öðru leyti gefur Samkeppniseftirlitinu rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar.
Gera má lögaðila sekt samkvæmt ákvæðum II. kafla A almennra hegningarlaga fyrir brot skv. 1. og 2. mgr. þessarar greinar.] 1)
    1)L. 52/2007, 4. gr.
42. gr. [Brot gegn lögum þessum sæta aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins til lögreglu.
Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Samkeppniseftirlitið með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða hvort sá hluti málsins sem varðar refsiábyrgð einstaklings skuli kærður til lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
Samkeppniseftirlitið getur ákveðið að kæra ekki einstakling hafi hann, eða fyrirtæki sem hann starfar hjá eða er í stjórn hjá, haft frumkvæði að því að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota gegn 10. eða 12. gr. sem geta leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða eru mikilvæg viðbót að mati eftirlitsins við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, enda séu nánari skilyrði uppfyllt sem Samkeppniseftirlitið mælir fyrir um í reglum.
Með kæru Samkeppniseftirlitsins skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að kæra mál til lögreglu.
Samkeppniseftirlitinu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem falla undir 2. mgr. Samkeppniseftirlitinu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem falla undir 2. mgr.
Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem þau hafa aflað og tengjast þeim brotum sem falla undir 2. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Samkeppniseftirlitsins sem varða rannsókn þeirra brota sem falla undir 2. mgr.
Ákærandi getur sent mál sem varðar brot á samkeppnislögum og gögn því tengd til Samkeppniseftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.] 1)
    1)L. 52/2007, 5. gr.
[42. gr. a. Samkeppniseftirlitinu er heimilt að takmarka aðgang málsaðila að gögnum er tengjast rannsókn á meintum refsiverðum brotum á lögum þessum ef hætta er á að slíkur aðgangur torveldi opinbera rannsókn. Þeirri takmörkun skal þó ávallt aflétt tímanlega áður en Samkeppniseftirlitið tekur endanlega ákvörðun í málinu.
Ekki er heimilt að nota upplýsingar sem fyrirsvarsmaður fyrirtækis hefur veitt Samkeppniseftirlitinu sem sönnunargagn í opinberu máli sem höfðað er gegn honum vegna brota sem tilgreind eru í 41. gr. a.] 1)
    1)L. 52/2007, 6. gr.
43. gr. Ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins um að leggja stjórnvaldssektir eða dagsektir á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja eða mæla fyrir um ógildingu á samruna fyrirtækja, sbr. 17. gr., eru aðfararhæfar, svo og sakarkostnaður.
Málskot til áfrýjunarnefndar samkeppnismála frestar aðför en úrskurðir nefndarinnar eru aðfararhæfir.
Við aðför samkvæmt ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins eða áfrýjunarnefndar skal kveðja gerðarþola fyrir héraðsdóm og um málsmeðferð fara skv. 13. kafla aðfararlaga.

X. kafli. Gildistaka.
44. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2005. …
Ákvæði til bráðabirgða. Starfsmönnum Samkeppnisstofnunar skal boðið annað starf hjá þeim stofnunum er taka við verkefnum Samkeppnisstofnunar 1. júlí 2005, þ.e. Samkeppniseftirliti og Neytendastofu. Við ráðstöfun þeirra starfa þarf ekki að gæta 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Viðskiptaráðherra er heimilt að skipa þegar stjórn Samkeppniseftirlitsins og skal stjórnin hafa heimild til að undirbúa gildistöku laganna, þ.m.t. að bjóða starfsmönnum Samkeppnisstofnunar annað starf hjá Samkeppniseftirlitinu, sbr. 1. mgr., eftir 1. júlí 2005.