Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 2009.  Útgáfa 137.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um stimpilgjald

1978 nr. 36 10. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 1978. Breytt með l. 82/1980 (tóku gildi 1. jan. 1981), l. 5/1982 (tóku gildi 1. mars 1982), l. 61/1982 (tóku gildi 24. maí 1982), l. 131/1989 (tóku gildi 1. jan. 1990), l. 20/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992), l. 90/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992), l. 157/1998 (tóku gildi 1. jan. 1999), l. 29/1999 (tóku gildi 1. jan. 1999), l. 129/2004 (tóku gildi 31. des. 2005), l. 79/2006 (tóku gildi 30. júní 2006), l. 59/2008 (tóku gildi 1. júlí 2008), l. 69/2008 (tóku gildi 1. júní 2008, birt í Stjtíð. 13. júní 2008), l. 83/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema 22. gr. sem tók gildi 20. júní 2008), l. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008), l. 132/2008 (tóku gildi 21. nóv. 2008) og l. 168/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009).


I. Almenn ákvæði.
1. gr. Greiða skal stimpilgjald af þeim skjölum sem um ræðir í III. kafla laga þessara.
2. gr. Sé ekki annars getið í lögum þessum varðandi einstakar tegundir skjala gilda svofelldar almennar reglur um ákvörðun stimpilgjalds:
    a. [Þegar stimpilgjald er hundraðshluti af fjárhæð skjals og gjaldið stendur eigi í heilli krónu skal færa gjaldið upp í næstu heila krónu ef um er að ræða 50 aura eða meira en ella skal færa það niður í næstu heila krónu.
   Stimpilgjald einstaks skjals má þó aldrei vera minna en 1 kr.] 1)
    b. Í stimpilskyldum skjölum skal jafnan getið þeirrar fjárhæðar sem stimpilskyldan er bundin við.
    c. Hljóði stimpilskylt skjal um árlegar tekjur eða gjöld, sem áskilin eru eða lofuð um ótiltekinn tíma eða fyrir ákveðið tímabil sem er 25 ár eða lengra, skal reikna stimpilgjald af árgjaldinu tuttugu og fimmföldu. Ef árabil er ákveðið innan við 25 ár telst stimpilgjaldið af árgjaldinu margfölduðu með áratölunni. Sé árgjaldið mismunandi skal taka meðalgjaldið.
    1)L. 82/1980, 1. gr.
3. gr. Eftirgreind skjöl eru ávallt stimpilskyld hér á landi:
    1. Afsöl fyrir fasteignum hér á landi og skipum, sem hér eru skrásett, svo og önnur skjöl er veita eða framselja réttindi yfir slíkum eignum.
    2. Vátryggingarskjöl, ef þau snerta fasteignir eða verðmæti hér á landi, nema sannað sé að ekkert af iðgjaldinu eigi að greiðast hér.
    3. Víxlar, ef samþykki eða greiðsla fer fram hér á landi.
    4. Skjöl sem þinglýst er hér á landi eða eru grundvöllur fyrir skráningu í opinbera skrá hér á landi.
[Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., ákvæði 4. gr. og ákvæði III. kafla skulu skjöl er ella væru stimpilskyld samkvæmt lögum þessum vera stimpilfrjáls ef þau varða kaup og sölu félags, sem hefur starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags, á flugvélum og skipum sem því eru heimil lögum samkvæmt, skrásetningu réttinda og stofnun takmarkaðra eignarréttinda yfir slíkum eignum alþjóðlegs viðskiptafélags eða lántökur, lánveitingar eða viðskipti slíks félags vegna lögheimillar starfsemi þess.] 1)
    1)L. 29/1999, 6. gr.
4. gr. Enda þótt skjal falli ekki undir ákvæði 3. gr. er það stimpilskylt ef allir aðilar þess eru heimilisfastir hér á landi.
5. gr. Stimpilskylda skjals fer eftir réttindum er það veitir en eigi nafni þess eða formi.
Eftirrit af sáttum og notarialgerðum, er skapa réttindi eða skyldur sem eigi hefur áður verið gert skjal um, stimplast eftir tegund og verðmæti þeirra skyldna og réttinda er um ræðir.
6. gr. Ef í sama skjali er falin fleiri en ein tegund gerninga, svo sem afsal veitt og veð sett, eru báðar eða allar tegundir stimpilskyldar.
7. gr. Þegar skjöl eru gefin út í fleiri en einu eintaki er aðeins eitt þeirra stimpilskylt nema öðruvísi sé ákveðið sérstaklega.
8. gr. Áletranir á skjöl, sem áður eru stimpluð, svo sem áletrun um breytingu á veði, áletrun um ábyrgð, vexti, borgunarskilmála eða annað þess háttar, eru eigi stimpilskyldar, svo framarlega sem áletrunin hefði ekki breytt stimpilgjaldinu ef hún hefði staðið í skjalinu frá byrjun. Ella skal greiða gjald fyrir áletrunina og skal gjaldið nema hækkun þeirri, er orðið hefði, ef hún hefði verið í skjalinu frá byrjun.
9. gr. Ef skjal stofnar til réttinda eða skyldna er meta má mismunandi hátt telst stimpilgjaldið af hæstu fjárhæðinni.

II. Um greiðslu stimpilgjalds, stimplun og endurskoðun gjaldsins.
10. gr. Greiðsla stimpilgjalds skal staðfest með því að líma stimpilmerki á skjalið.
Fjármálaráðuneytið lætur gera stimpilmerki og ákveður útlit þeirra og fjárhæð.
Ráðuneytinu er heimilt að ákveða að í stað stimpilmerkja megi staðfesta greiðslu gjaldsins með ástimplun stimpilmerkjavélar, notkun stimpils eða með annarri áletrun á hið stimpilskylda skjal.
11. gr. Stimpilskyld skjöl, sem gefin eru út hér á landi, skulu stimpluð áður en tveir mánuðir eru liðnir frá útgáfudegi, nema eindagi sé fyrr, og þá fyrir eindaga. Ef aðilar hafa eigi undirritað samtímis telst fresturinn frá því er hinn fyrsti undirritaði.
Stimpilskyld skjöl, sem gefin eru út erlendis, skal stimpla með sama fresti og innlend skjöl, talið frá þeim tíma er skjal kom hingað til lands, og skal sá, er stimpla lætur, votta á skjalið hvenær það var. Fjármálaráðuneytið getur lengt frest þennan ef sérstaklega stendur á.
12. gr. [Opinberir starfsmenn, sem fjármálaráðuneytið felur stimplun skjala, eru skyldir til að stimpla skjöl, sem þeir gefa út eða afgreiða, án endurgjalds fyrir stimplunina.
Bankar og sparisjóðir eru skyldir til að stimpla skjöl er um hendur þeirra fara. Skulu þeir inna stimplunina af hendi endurgjaldslaust.
Fjármálaráðuneytinu er heimilt að veita einstökum mönnum, félögum eða stofnunum rétt til stimplunar skjala, enda sé fullnægt þeim skilyrðum um reikningshald, bókfærslu gjaldsins og aðra framkvæmd sem það kann að setja.
Þeir aðilar, sem fengið hafa heimild fjármálaráðuneytisins til þess að staðfesta greiðslu stimpilgjalds á annan hátt en þann að líma stimpilmerki á skjal, sbr. 3. mgr. 10. gr., skulu gera viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs skil á innheimtu stimpilgjaldi fyrir 15. dag næsta mánaðar eftir að stimplunin á sér stað, nema öðruvísi kunni að vera sérstaklega ákveðið af fjármálaráðuneytinu. Mánaðarlegum stimpilgjaldsskilum skal fylgja skýrsla um stimpilgjaldsinnheimtuna í því formi sem ráðherra ákveður.
Skili þeir aðilar, sem um ræðir í 4. mgr. þessarar greinar, ekki innheimtu stimpilgjalda á gjalddaga skal þeim skylt að greiða dráttarvexti af hinni vangoldnu fjárhæð, talið frá og með gjalddaga. Dráttarvextir skulu vera þeir sömu og hjá innlánsstofnunum, sbr. 13. gr. laga nr. 10/1961 1) og ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.
Fjármálaráðuneytið setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.] 2)
    1)l. 38/2001. 2)L. 82/1980, 2. gr.
13. gr. Þeir sem hafa á hendi stimplun skjala skulu gæta þess að hin stimpilskylda fjárhæð hvers skjals sé rétt tilgreind og geta krafist allra nauðsynlegra skýringa af hálfu þeirra er stimplunar beiðast. Sé sá sem stimplunar beiðist óánægður með ákvörðun gjaldsins getur hann skotið því undir úrskurð fjármálaráðuneytisins innan tveggja mánaða, en jafnan skal fylgja umsögn þess er ákvað gjaldið. Ef hlutaðeigandi vill eigi heldur una úrskurði ráðuneytisins getur hann lagt málið fyrir dómstóla.
14. gr. Stimpilmerki eða aðra staðfestingu um greiðslu stimpilgjalds, sem færð hefur verið á fullgild skjöl, er óheimilt að má af þeim aftur. Fjármálaráðuneytið hefur þó heimild til að endurgreiða stimpilgjaldið eða hluta af því þegar skjal er ógilt með öllu að lögum eða eigi verður af því að það réttarástand skapist sem skjalið ráðgerði.
Ef skjal er af vangá stimplað of hátt skal endurgreiða það sem ofborgað er.
Endurgreiðslur samkvæmt þessari grein mega því aðeins fara fram að beiðni um þær hafi borist fjármálaráðuneytinu áður en tvö ár eru liðin frá útgáfu þess skjals sem beiðnin varðar. Heimilt er þó að víkja frá þessum fresti ef sérstaklega stendur á.
Beiðni um endurgreiðslu skal að jafnaði fylgja frumrit þess skjals, sem beiðnin varðar, eða staðfest eftirrit af því.
15. gr. Krafa ríkissjóðs um stimpilgjald fyrnist ekki nema svo sé ástatt að opinber starfsmaður eigi sök á því að eigi var stimplað. Fyrnist krafan þá á fjórum árum. Krafa til stimpilgjalds fellur enn fremur niður þegar liðin eru fimm ár frá þeim tíma er skjalið var með öllu úr gildi.

III. Um stimpilgjald einstakra skjala.
16. gr. [Fyrir stimplun afsalsbréfa fyrir fasteignum og skipum yfir 5 [brúttótonnum] 1) skal greiða 4 kr. fyrir hvert byrjað þúsund af verði viðkomandi eignar. Sama gildir um afsöl við [aðfarargerðir, búskipti og nauðungarsölur] 2) svo og önnur skjöl um afhendingu fasteigna og skipa, svo sem kaupsamninga, makaskiptabréf, gjafabréf og þau erfðafestubréf sem veita rétt til að selja eða veðsetja.] 3)
Þegar fasteign eða skip er afsalað hlutafélagi eða sameignarfélagi og eigandinn gerist eignaraðili að félaginu eða eykur eignarhlut sinn í því lækkar stimpilgjaldið í hlutfalli við eignarhluta hans í félaginu.
Þegar fasteign eða skipi er úthlutað félagsmanni í hlutafélagi eða sameignarfélagi við félagsslit greiðist stimpilgjald að því marki sem eignarhluti hans í eigninni verður meiri en eignarhluti hans var í félaginu.
[Ef fasteign eða skip er selt veðhafa við nauðungarsölu greiðist hálft gjald.] 2)
Útdrættir úr … 4) embættisbókum eða vottorð embættismanna, félaga eða einstakra manna, er sýna eigendaskipti að fasteign eða skipi eða eru notuð sem afsöl, stimplast sem afsöl. [Undanskilin stimpilgjaldi eru þó] 4) skjöl er sýna eignayfirfærslu fasteigna, er lagðar hafa verið út erfingjum sem arfur eða maka upp í búshelming hans, enda sé eigi samhliða um sölu eða um söluafsal að ræða.
    1)L. 69/2008, 12. gr. 2)L. 90/1991, 91. gr. 3)L. 82/1980, 3. gr. 4)L. 20/1991, 136. gr.
17. gr. Stimpilgjald af heimildarbréfum fyrir fasteignum telst eftir fasteignamati þeirra að leigulóð meðtalinni. Nú hefur fasteignamat ekki farið fram eða liggur ekki fyrir þegar bréf er stimplað og skal gjaldið þá teljast af áætluðu fasteignamatsverði. Fjármálaráðuneytið getur, að höfðu samráði við [Fasteignaskrá Íslands], 1) sett nánari reglur 2) um áætlun slíks matsverðs. Ef áætlun matsverðs er sérstökum örðugleikum háð má miða við kaupverð eignar, teljist það sennilegt.
Stimpilgjald af heimildarbréfum fyrir skipum telst eftir því kaupverði sem sett er á eignina í bréfunum, enda teljist það sennilegt, þó aldrei lægri fjárhæð en nemur áhvílandi veðskuldum.
    1)L. 83/2008, 24. gr. 2) Rgl. 622/2004.
18. gr. Þegar kaupsamningur er stimplaður er afsalsbréf til sama kaupanda stimpilfrjálst.
19. gr. Ef heimildarbréf er framselt ber að stimpla framsalið sem afsal.
20. gr. [Fyrir stimplun leigusamninga um jarðir og lóðir, heimildarskjala um veiðiréttindi og skjala sem leggja ítök, skyldur og kvaðir á annarra eign skal greiða 20 kr. fyrir hvert byrjað þúsund af áskilinni leigu eða endurgjaldi. Framsöl þessara réttinda eru stimpilskyld eftir sömu reglum. Erfðafestubréf, sem eigi veita heimild til að selja eða veðsetja, stimplast samkvæmt þessari grein.] 1)
    1)L. 82/1980, 4. gr.
21. gr. [[Fyrir stimplun hlutabréfa, sem gefin eru út af félögum með takmarkaða ábyrgð, skal greiða 1/ 2% af fjárhæð bréfanna.] 1) Framsal hlutabréfa og jöfnunarhlutabréfa er stimpilfrjálst.
Hlutabréf, sem gefin eru út í stað eldri hlutabréfa, er sannanlega hafa verið stimpluð, og jöfnunarhlutabréf, sem gefin eru út í samræmi við ákvæði laga um tekjuskatt …, 2) skulu þó undanþegin gjaldi fyrir stimplun, enda beri hvert einstakt hlutabréf með sér að um endurútgefið bréf eða jöfnunarhlutabréf sé að ræða. Þeir, sem gjaldfrjálsrar stimplunar beiðast, skulu sýna fram á að þau hlutabréf, sem hin nýju hlutabréf leysa af hólmi, hafi verið úr gildi felld eða að viðkomandi útgáfa jöfnunarhlutabréfa hafi ekki í för með sér raunverulega verðmætisaukningu hlutafjár í viðkomandi félagi. Gjaldfrjáls stimplun skal fara fram áður en tveir mánuðir eru liðnir frá útgáfu hlutabréfa þeirra sem um ræðir í þessari málsgrein. Að öðrum kosti ber að innheimta stimpilgjald af þeim í samræmi við ákvæði 1. mgr.
Fjármálaráðuneytið setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.] 3)
    1)L. 131/1989, 1. gr. 2)L. 129/2004, 42. gr. 3)L. 61/1982, 1. gr.
22. gr. Skilríki fyrir eignarhluta í félögum með takmarkaða ábyrgð, öðrum en hlutafélögum, skulu stimpluð á sama hátt og hlutabréf. Hið sama gildir um skilríki fyrir eignarhluta þeirra manna sem bera takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félags þar sem sumir félagsaðilar bera ótakmarkaða ábyrgð en aðrir takmarkaða (kommandit félög).
23. gr. Félagssamningar félaga með ótakmarkaðri ábyrgð skulu stimplaðir með 2% af því fé sem í félagið er lagt.
Leggi félagi fram persónulega vinnu til félagsins, auk fjárframlags eða í stað þess, skal vinnan metin til samræmis við framlagt fé annarra félaga. Aldrei skal vinnuframlag þó metið lægra en fjárframlag þess félaga sem minnst fé leggur fram til félagsins.
[Hljóði félagssamningur ekki um nein fjárframlög skal hann stimplaður með 100 kr.] 1)
Framsöl á réttindum í félögum, sem falla undir 22. og 23. gr., eru stimpilfrjáls.
    1)L. 82/1980, 6. gr.
24. gr. [Fyrir stimplun skuldabréfa og tryggingarbréfa, þegar skuldin ber vexti og er tryggð með veði eða ábyrgð, skal greiða 15 kr. fyrir hvert byrjað þúsund af fjárhæð bréfs. [Sama gjald skal greiða fyrir stimplun aðfarargerða, kyrrsetningargerða og löggeymslu þegar endurritum úr gerðabók um þessar gerðir er þinglýst.] 1) Fyrir stimplun annarra skuldabréfa og tryggingarbréfa skal greiða 5 kr. fyrir hvert byrjað þúsund af fjárhæð bréfs.] 2)
[Fyrir stimplun skuldabréfa og tryggingarbréfa vegna afurðalána með veði í framleiðsluvörum sjávarútvegs, landbúnaðar eða iðnaðar skal greiða 3 kr. fyrir hvert byrjað þúsund af fjárhæð bréfs.] 3)
    1)L. 168/2008, 1. gr. 2)L. 82/1980, 7. gr. 3)L. 5/1982, 15. gr.
25. gr. Ef veðréttur er stofnaður eða trygging er sett fyrir væntanlegri eða óákveðinni skuld skal reikna stimpilgjaldið eftir þeirri upphæð sem frekast er ætlast til að tryggja.
26. gr. Nú er skuld endurnýjuð með nýju bréfi og skal þá sá sem stimplun annast innheimta helming gjalds þess er í 24. gr. getur. Sé skuld færð yfir á nafn annars aðila greiðist ekkert stimpilgjald.
27. gr. [Fyrir stimplun víxla og samþykktra ávísana, nema tékka, skal greiða 0,25% af hverju byrjuðu þúsundi af fjárhæð skjalsins.] 1)
Endurnýjaður víxill telst nýr víxill.
Ef skjal fullnægir eigi kröfum löggjafarinnar um víxla stimplast það sem skuldabréf.
    1)L. 82/1980, 8. gr.
28. gr. Nú hljóðar víxill eða samþykkt ávísun um borgun í erlendri mynt og reiknast þá stimpilgjaldið eftir sölugengi þeirrar myntar hér á landi á þeim tíma er stimplun fer fram. [Sama á við um önnur stimpilskyld skjöl er kveða á um greiðslur í erlendri mynt.] 1)
    1)L. 82/1980, 9. gr.
29. gr. Framsal á skuld er stimpilfrjálst.
30. gr. Greiða skal stimpilgjald af vátryggingarsamningum. Ef vátryggingarskírteini er gefið út skal það stimplað, ella samningur, fyrsta greiðslukvittun eða annað skjal er vátrygginguna varðar.
Fjármálaráðherra ákveður með reglugerð 1) fjárhæð stimpilgjalds af einstökum tegundum vátrygginga. Skal stimpilgjald annaðhvort miðað við vátryggingarfjárhæð eða iðgjald.
Fjármálaráðuneytið hefur heimild til þess að gera samninga við vátryggingarfélög um greiðslu stimpilgjalds á ákveðnum tímum gegn eftirliti sem ráðuneytið telur fullnægjandi. Enn fremur getur það veitt vátryggingarfélögum undanþágu frá því að framkvæma stimplun gegn annars konar tryggingu fyrir greiðslu stimpilgjalds. Loks getur það undanþegið einstakar tegundir vátrygginga stimpilgjaldi, ef sérstök ástæða þykir til.
    1)Rg. 219/1978, sbr. 412/1984.
31. gr. [Fyrir stimplun kaupmála, sem gerðir eru á undan stofnun hjúskapar, skal greiða 50 kr.
Fyrir stimplun kaupmála, sem gerðir eru síðar, skal greiða 4 kr. fyrir hvert byrjað þúsund þeirrar fjárhæðar sem verður séreign samkvæmt þeim. Verðmæti fasteigna skal í þessu sambandi metið samkvæmt ákvæðum 17. gr. en frá verði þeirra þannig ákvörðuðu má draga eftirstöðvar áhvílandi þinglýstra veðskulda. Frá veði annarra eigna má draga eftirstöðvar þinglýstra skulda er á þeim hvíla. Lágmarksgjald samkvæmt þessari málsgrein skal vera 50 kr.] 1)
    1)L. 82/1980, 10. gr.

IV. Ýmis ákvæði.
32. gr. Þegar skjal er stimpilfrjálst vegna sambands þess við annað skjal, svo sem afsal þegar kaupsamningur er stimplaður, skal í hinu stimpilfrjálsa skjali vísa til hins stimplaða og þess getið hversu hátt það er stimplað. Ef þessu er eigi fylgt og eigi heldur er sannað að skjal, er stimpilfrelsinu veldur, sé löglega stimplað ber að stimpla hið síðara skjal eftir efni þess.
Það breytir eigi stimpilskyldu skjals þótt það sé gefið út til tryggingar greiðslu á öðru stimpilskyldu skjali, svo sem víxli.
33. gr. Á samrit og staðfest eftirrit stimplaðra skjala skal rita hvernig aðalskjalið er stimplað. Ef þessu er eigi fylgt og eigi er heldur sannað, að frumritið sé löglega stimplað, skal stimpla samritið eða eftirritið eins og það væri frumrit.
34. gr. [Öllum opinberum starfsmönnum, [skiptastjórum] 1) og öðrum þeim er heimild hafa til stimplunar er skylt að hafa nákvæmar gætur á að lög þessi séu haldin og kæra brot er þeir verða áskynja um.
Þegar stimpilskyld skjöl eru afhent til þinglýsingar er opinberum starfsmönnum sem hana annast skylt að athuga hvort þau séu stimpluð. Ef svo er ekki ber að heimta stimpilgjaldið þá þegar. Sama á við þegar stimpilskyld skjöl eru afhent aðilum, er heimild hafa til stimplunar skjala, til meðferðar, svo sem til vörslu eða innheimtu. Sinni þeir ekki þessari skyldu bera þeir þá ábyrgð á greiðslu stimpilgjaldsins.
Handhafar stimpilskyldra skjala bera ábyrgð á greiðslu stimpilgjalds af þeim.] 2)
    1)L. 20/1991, 136. gr. 2)L. 82/1980, 11. gr.
35. gr. [Eftirtalin skjöl eru stimpilfrjáls:
    1. Húsbréf og húsnæðisbréf.
    2. Skuldabréf og víxlar sem gefin eru út af ríkissjóði, enda séu bréfin skráð á skipulögðum markaði.
    3. Skuldabréf og tryggingarbréf sem gefin eru út til Lánasjóðs íslenskra námsmanna samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
    4. Skuldabréf sem gefin eru út til Íbúðalánasjóðs vegna viðbótarláns samkvæmt lögum um húsnæðismál. Sama gildir um skuldabréf sem gefin eru út til Íbúðalánasjóðs vegna lána til byggingar eða kaupa leiguhúsnæðis, sbr. VIII. kafla laga um húsnæðismál.
    5. Heimildarbréf fyrir íbúð þegar viðbótarlán úr Íbúðalánasjóði, sbr. 4. tölul., er veitt til kaupa á henni.
    6. Húsaleigusamningar.
    7. Skjöl sem leggja höft eða bönd á kaupskip eða loftfar við skráningu, umskráningu eða afskráningu þess hérlendis, enda sé skráningin tímabundin og skipið eða loftfarið í eigu aðila sem ekki er heimilisfastur hér á landi.
    8. Afsalsbréf og skjöl sem leggja höft eða bönd á kaupskip sem einkum eru ætluð til farmflutninga og rekin af skipafélögum sem stunda siglingar innan lands, að og frá landinu eða milli hafna erlendis. Skilyrði stimpilfrelsisins er að skjalið sé gefið út vegna afhendingar á skipinu úr landi eða afhendingar á skipinu til landsins.
    9. Skjöl sem leggja höft eða bönd á loftfar, enda hafi eigandi loftfarsins flugrekstrarleyfi og loftfarið sé ætlað til nota í reglubundið áætlunarflug eða leiguflug innan lands eða milli landa. Skilyrði stimpilfrelsisins er að skjalið sé annaðhvort gefið út vegna sölu loftfarsins úr landi eða vegna kaupa á því.
    10. Samningar landbúnaðarráðherra við bændur um kaup á greiðslumarki, um töku jarða til nytjaskógræktar eða um niðurskurð sauðfjár sem þinglýst er sem kvöðum á viðkomandi jarðir.] 1)
    1)L. 157/1998, 1. gr.
[35. gr. a. Skuldabréf og tryggingarbréf sem tryggð eru með veði í fasteign og gefin eru út til fjármögnunar fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði einstaklings eru stimpilfrjáls samkvæmt lögum þessum að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í grein þessari.
Skilyrði niðurfellingar skv. 1. mgr. eru eftirfarandi:
    a. Kaupandi íbúðarhúsnæðis, og skuldari samkvæmt hinu stimpilfrjálsa skjali, hafi ekki áður verið skráður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði.
    b. Kaupandi íbúðarhúsnæðis, og skuldari samkvæmt hinu stimpilfrjálsa skjali, skal vera þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi eignarhluta í þeirri fasteign sem keypt er.
    c. Sú lánsfjárhæð sem fram kemur í hinu stimpilfrjálsa skjali skal einvörðungu ætluð til fjármögnunar kaupa á viðkomandi fasteign.
Með íbúðarhúsnæði og fasteign í grein þessari er eingöngu átt við íbúðarhúsnæði til eigin nota.
Séu fleiri en einn skuldari útgefendur að skuldabréfi eða tryggingarbréfi skv. 1. mgr. skal niðurfelling stimpilgjalds af skjalinu fara eftir hlut þess skuldara sem uppfyllir skilyrði þessarar greinar um fyrstu kaup á íbúðarhúsnæði.
Hafi maki kaupanda og skuldara, eða sambúðaraðili, áður verið skráður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði skal réttur þess sem uppfyllir skilyrði greinarinnar til niðurfellingar stimpilgjalds aldrei vera meiri en nemur helmingi af annars ákvörðuðu stimpilgjaldi hins stimpilfrjálsa skjals.
Með vísan til 12. og 13. gr. skulu þeir aðilar sem hafa á hendi stimplun skjala kanna, við ákvörðun um stimpilgjald skuldabréfs eða tryggingarbréfs sem tryggt er með veði og gefið út til fjármögnunar fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði, hvort skilyrði þessarar greinar um niðurfellingu stimpilgjalds, að hluta til eða að fullu, séu uppfyllt. Í því skyni er þeim heimilt að óska eftir gögnum frá kaupanda og skuldara en að jafnaði skulu eftirfarandi gögn liggja fyrir:
    a. Afrit af þinglýstum kaupsamningi, afsali eða annarri eignarheimild vegna fasteignar sem hið stimpilfrjálsa skjal er gefið út til fjármögnunar kaupa á.
    b. Staðfesting úr Landskrá fasteigna um að kaupandi hafi ekki áður verið skráður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði.
    c. Staðfesting um hjúskaparstöðu kaupanda og hvort maki hans eða sambúðaraðili hafi áður verið skráður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði.
Í samræmi við 13. gr. er unnt að skjóta ákvörðun um stimpilgjald undir úrskurð fjármálaráðuneytisins innan tveggja mánaða frá dagsetningu hennar.
Um viðurlög við brotum á grein þessari fer skv. 37. gr.
Fjármálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um fyrirkomulag niðurfellingar stimpilgjalds samkvæmt grein þessari.] 1)
    1)L. 59/2008, 1. gr.
36. gr. Ef stimpilskylt skjal er ekki stimplað innan tilskilins frests skulu þeir, sem hafa á hendi stimplun skjala gera stimpilbeiðanda að greiða stimpilgjaldsálag er nemi hinu vangoldna stimpilgjaldi tvöföldu, þegar um víxla er að ræða, en vegna annarra skjala skal álagið vera 10% fyrir hvert byrjað 7 daga tímabil umfram tilskilinn frest, allt að hálfu grunngjaldinu. Álag þetta má innheimta með lögtaki.
Fjármálaráðuneytinu er heimilt eftir atvikum að lækka eða láta niður falla stimpilgjaldsálag samkvæmt grein þessari ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.
37. gr. Brot á lögum þessum varða sektum. Sömu refsingu skal sá sæta sem gefur rangar skýrslur um atriði er máli skipta við ákvörðun stimpilgjalds, neitar ranglega að hafa skjal í vörslum sínum til þess að komast hjá stimpilgjaldi eða álagi, ritar rangt vottorð á samrit eða eftirrit skjals um stimplun frumrits eða dagsetur skjal ranglega til að leyna broti á lögum þessum, nema um ásetningarbrot sé að ræða er varði þyngri refsingu samkvæmt XV. kafla almennra hegningarlaga.
Heimilt er að refsa fyrir brot á lögum þessum ef þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverð, eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.
1)
    1)L. 88/2008, 233. gr.
38. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1978. Skulu skjöl, sem afhent verða til stimplunar eftir þann tíma, stimpluð eftir ákvæðum þessara laga. … Þó skulu sérákvæði um stimpilfrelsi í einstökum lögum halda gildi sínu.

[Ákvæði til bráðabirgða.
I. Þar sem í 3. gr. er kveðið á um alþjóðleg viðskiptafélög skal það ákvæði ekki eiga við að því marki sem mismunur á skattgreiðslum alþjóðlegs viðskiptafélags, annars vegar eftir þeim sérákvæðum sem um slík félög gilda samkvæmt lögum nr. 29/1999, um breyting á lögum um álagningu skatta og gjalda vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga, og hins vegar samkvæmt almennum skattalögum, fer yfir fjárhæð sem samsvarar 100.000 evrum á hverju þriggja ára tímabili að teknu tilliti til hvers konar annarrar ríkisaðstoðar. Fari mismunur á heildarskattgreiðslum yfir þau mörk gilda ákvæði almennra skattalaga um skattskyldu viðkomandi félags, frá því að farið er yfir mörkin.
Ákvæði 1. mgr. á ekki við þegar starfsemi alþjóðlegs viðskiptafélags er alfarið utan gildissviðs EES-samningsins eins og það er skilgreint í bókun 3 við EES-samninginn.
Skattstjóri skal hafa umsjón með því að ákvæði þessu sé framfylgt. Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglugerð sem kveður nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.] 1)
    1)L. 79/2006, 3. gr.
[II. Þrátt fyrir ákvæði 8. og 24. gr. laganna skulu skjöl, sem gefin eru út á tímabilinu frá og með 7. október 2008 til og með 31. desember 2009 og fela í sér breytingar á skilmálum á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga, eða ný veðskuldabréf, sem gefin eru út til uppgreiðslu vanskila á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga, vera undanþegin greiðslu stimpilgjalds að því tilskildu að sömu aðilar séu að fasteignaveðskuldabréfinu og hinu nýja skjali.] 1)
    1)L. 132/2008, 1. gr.
[III. Þrátt fyrir ákvæði 24. og 26. gr. laganna skal, þegar fasteignaveðskuldabréf einstaklings er, á tímabilinu frá og með 7. október 2008 til og með 31. desember 2009, endurnýjað með nýju fasteignaveðskuldabréfi sem kemur í stað þess eldra, ekki greiða stimpilgjald af þeim hluta nýja fasteignaveðskuldabréfsins sem svarar til uppreiknaðs virðis eldra fasteignaveðskuldabréfsins ásamt vanskilum. Er ákvæði þetta óháð því hvort um nýjan kröfuhafa er að ræða samkvæmt hinu nýja fasteignaveðskuldabréfi.] 1)
    1)L. 132/2008, 1. gr.
[IV. Þrátt fyrir ákvæði 24. og 26. gr. laganna skal ekki greiða stimpilgjald af þeim kröfuhafaskiptum á fasteignaveðskuldabréfum sem til koma ef Íbúðalánasjóður nýtir þá heimild sem honum er veitt í V. kafla laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði.] 1)
    1)L. 132/2008, 1. gr.