Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 2010.  Útgáfa 138b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um skaðsemisábyrgð

1991 nr. 25 27. mars


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 1992.

Gildissvið.
1. gr. Lög þessi gilda um skaðabótaábyrgð framleiðenda og dreifingaraðila á tjóni sem hlýst af ágalla á vöru sem þeir hafa framleitt eða dreift (skaðsemistjóni).
Tjón sem lögin taka til.
2. gr. Samkvæmt lögum þessum skal greiða bætur vegna líkamstjóns og fyrir missi framfæranda.
Einnig skal greiða bætur fyrir tjón á hlut ef hann er samkvæmt gerð sinni venjulega ætlaður til einkanota, enda hafi sá er fyrir tjóni varð aðallega haft hlutinn til einkanota. Lögin taka ekki til skemmda á hinni gölluðu vöru sem tjón hlaust af.
Hugtakið vara.
3. gr. Orðið vara í lögum þessum merkir hvers kyns lausafjármuni, þar á meðal afurðir náttúrunnar. Til vöru teljast einnig munir sem orðnir eru hluti annars lausafjárhlutar eða fasteignar. Reglur laga þessara gilda einnig um rafmagn.
Framleiðandi og dreifingaraðili.
4. gr. Framleiðandi telst vera sá sem býr til fullunna vöru; einnig sá sem býr til hluta vöru eða lætur af hendi hráefni og sá er vinnur eða aflar afurða úr náttúrunni. Enn fremur hver sem lætur líta svo út að hann sé framleiðandi með því að setja nafn sitt á vöru, vörumerki eða annað auðkenni.
Auk þess skal hver sá teljast framleiðandi sem í atvinnuskyni flytur vöru til landsins í þeim tilgangi að selja hana, leigja eða versla með hana á annan hátt.
Dreifingaraðili telst hver sá sem í atvinnuskyni dreifir vöru án þess að teljast framleiðandi.
Geti tjónþoli ekki komist að því hver hefur búið til vöru sem framleidd er hér á landi eða flutt vöru til landsins skal sérhver dreifingaraðili hennar teljast framleiðandi.
Þetta á þó ekki við ef dreifingaraðili skýrir þeim sem fyrir tjóni varð án óþarfs dráttar frá nafni og heimilisfangi framleiðanda, innflytjanda eða þess sem afhent hefur dreifingaraðila vöruna, enda beri sá bótaábyrgð eftir lögum þessum og eigi varnarþing hér á landi.
Hugtakið ágalli.
5. gr. Vara telst haldin ágalla þegar hún er ekki svo örugg sem með réttu mátti vænta eftir öllum aðstæðum, einkum eftirfarandi:
    1. Hvernig hún var boðin og kynnt.
    2. Notkun þeirri sem með sanngirni mátti gera ráð fyrir.
    3. Hvenær vöru var dreift.
Vara telst eigi haldin ágalla þó að síðar komi betri vara á markað.
Grundvöllur bótaábyrgðar framleiðanda.
6. gr. Framleiðandi skal greiða bætur fyrir tjón sem rakið verður til ágalla á vöru sem hann hefur framleitt eða dreift.
Tjónþola ber að sanna tjón sitt, ágalla vöru og orsakatengsl milli ágalla og tjóns.
Atvik sem leysa framleiðanda undan ábyrgð.
7. gr. Framleiðandi ber ekki ábyrgð eftir lögum þessum ef hann sannar:
    1. að hann hafi ekki dreift vöru þeirri sem tjón hlaust af,
    2. að framleiðsla eða dreifing vöru hafi eigi verið í atvinnuskyni,
    3. að ágalli vöru verður rakinn til ófrávíkjanlegra fyrirmæla hins opinbera um gerð hennar eða
    4. að ekki var unnt að finna ágallann á grundvelli fræðilegrar eða tæknilegrar þekkingar sem völ var á þegar vöru var dreift.
Enn fremur ber framleiðandi ekki ábyrgð ef ætla má að ágalli sá, er tjón varð rakið til, hafi eigi verið fyrir hendi þegar hann dreifði vöru.
Framleiðandi einstaks hlutar, sem notaður er til annarrar framleiðslu, er ekki ábyrgur ef hann leiðir í ljós að ágallinn verður rakinn til gerðar hinnar fullunnu vöru eða fyrirmæla þess sem býr hana til.
Takmörkuð ábyrgð.
8. gr. Samanlögð ábyrgð framleiðanda vegna líkamstjóns, þar á meðal dauðaslyss, er rakið verður til vöru sem er nákvæmlega eins og haldin sama ágalla, skal takmarkast við fjárhæð sem svarar til 70 milljóna Evrópureikningseininga (ECU).
Eigin sök tjónþola.
9. gr. Heimilt er að lækka eða fella niður bætur ef tjónþoli er meðvaldur að tjóni af ásetningi eða gáleysi.
Ábyrgð dreifingaraðila.
10. gr. Dreifingaraðili ber ábyrgð á skaðsemistjóni beint gagnvart tjónþola og síðari dreifingaraðilum.
Fleiri en einn bótaábyrgir. Framkröfur.
11. gr. Nú eru tveir eða fleiri bótaskyldir eftir þessum lögum vegna sama tjóns og bera þeir þá óskipta ábyrgð.
Séu tveir eða fleiri ábyrgir sem framleiðendur skv. 1. mgr. 4. gr. skal ábyrgð þeirra innbyrðis skiptast eftir því hver orsök ágallans var, hverja aðstöðu hver framleiðandi hafði til að hafa eftirlit með vöru, ábyrgðartryggingum sem aðilar höfðu og atvikum að öðru leyti, enda leiði eigi annað af samningi.
Hafi dreifingaraðili eða framleiðandi skv. 2. eða 4. mgr. 4. gr. greitt tjónþola eða síðari dreifingaraðila bætur eignast hann kröfu tjónþola á hendur framleiðendum og dreifingaraðilum er áður dreifðu vöru. Framkröfuna má fella niður eða lækka ef sá er endurgreiðslu krefst var meðvaldur að tjóni af ásetningi eða gáleysi.
Bann við að víkja frá lögunum með samningi.
12. gr. Eigi má, áður en tjón verður, víkja með samningi frá ákvæðum laga þessara tjónþola í óhag eða þeim sem öðlast rétt sinn frá honum.
Almennar skaðabótareglur.
13. gr. Lög þessi takmarka eigi rétt tjónþola til bóta eftir almennum reglum um skaðabætur innan eða utan samninga eða samkvæmt reglum í öðrum lögum. Ákvæði 14. gr. eiga þó við um kröfur um bætur fyrir skaðsemistjón þótt krafa sé gerð á grundvelli almennra reglna um skaðabætur innan eða utan samninga.
Fyrning.
14. gr. Kröfur um bætur fyrir skaðsemistjón eftir þessum lögum eða eftir almennum reglum um skaðabætur innan eða utan samninga, sbr. 13. gr., fyrnast þegar þrjú ár eru liðin frá þeim degi er tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt, ágalla vörunnar og nafn og dvalarstað framleiðanda þess sem í hlut á.
Sé krafa ekki fyrnd eftir reglum 1. mgr. fellur hún niður þegar tíu ár eru liðin frá þeim degi er framleiðandi dreifði vöru þeirri sem tjón hlaust af.
Um slit fyrningar samkvæmt þessari grein fer eftir almennum réttarreglum um fyrningu.
Gildistaka.
15. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1992.
Lögin eiga ekki við um tjón er hlýst af vöru sem framleiðandi dreifir fyrir gildistöku þeirra.