Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. febrúar 2011. Útgáfa 139a. Prenta í tveimur dálkum.
Tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf
1798 9. febrúar
1. gr. Eins og það er skylda lánardrottins, þegar skuldunautur borgar allan höfuðstól skuldabréfs, að skila honum aftur bréfinu með áritaðri kvittun, eins á hann, þegar nokkuð er afborgað af höfuðstólnum, að hafa við höndina frumrit skuldabréfsins, og vera skyldur til, í nærveru skuldunauts eða umboðsmanns hans, að rita bæði á bréfið sjálft það, er afborgað er, og að gefa auk þess sérstaka kvittun fyrir því.
Ef lánardrottinn skorast undan að gera þetta, þá er skuldunaut (sem vottfast býður fram afborgun þá, er greiða skyldi) heimilt að fresta afborguninni, þangað til lánardrottinn gegnir fyrrgreindri skyldu sinni; og er skuldunaut eigi skylt, meðan svo stendur, að svara vöxtum af þeim hluta höfuðstólsins, sem í gjalddaga var fallinn og boðinn var fram.
2. gr. Kvittanir á lausu blaði fyrir afborgunum af höfuðstól, er skuldabréf er fyrir, skulu, ef afborganirnar eru eigi einnig ritaðar á skuldabréfið sjálft, aðeins hafa gildi gagnvart þeim, sem gaf þær út, en eigi teljast gildar gagnvart öðrum, sem fyrir veðsetningu, framsal eða á annan löglegan hátt eru orðnir réttmætir handhafar skuldabréfsins.
3. gr. Þó má vaxtagreiðsla vera undanþegin þessum fyrirmælum, og sérstakar kvittanir fyrir vöxtum vera fullgildar, eigi aðeins gagnvart þeim, er út gaf kvittunina, heldur og gagnvart hverjum öðrum, sem skuldabréfið hefir síðar verið selt í hendur að veði eða til eignar.