Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. febrúar 2011. Útgáfa 139a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um Blindrabókasafn Íslands
1982 nr. 35 7. maí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 24. maí 1982. Breytt með l. 83/1997 (tóku gildi 6. júní 1997), l. 121/1999 (tóku gildi 30. des. 1999) og l. 154/2000 (tóku gildi 29. des. 2000).
1. gr. Hlutverk Blindrabókasafns Íslands er að sjá blindum, sjónskertum, og öðrum þeim, sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt, fyrir alhliða bókasafnsþjónustu. Blindrabókasafn Íslands heyrir undir menntamálaráðuneytið. [Aðsetur Blindrabókasafns Íslands er í Kópavogi, nema ráðherra ákveði annað.] 1)
1)L. 121/1999, 2. gr.
2. gr. [Blindrabókasafn Íslands miðlar skáldverkum, fræðiritum og öðru efni, þar á meðal námsgögnum, til blindra og til þeirra sem eiga við lestrarörðugleika að etja í sem bestu samræmi við óskir og þarfir lesandans.
Blindrabókasafn fylgist með nýjungum á sínu sviði og kynnir þær. Safnið skal hafa samstarf við aðila sem standa að skipulagningu bókasafnsmála, þá sem vinna að framleiðslu og dreifingu námsefnis og þá sem starfa að málefnum blindra og sjónskertra og annarra hópa fatlaðra sem njóta þjónustu safnsins.] 1)
1)L. 154/2000, 1. gr.
3. gr. Menntamálaráðuneytið skipar til fjögurra ára í senn fimm manna stjórn Blindrabókasafns og jafnmarga til vara:
a. tvo fulltrúa tilnefnda af Blindrafélaginu, samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi,
b. einn fulltrúa tilnefndan af Félagi íslenskra sérkennara,
c. einn fulltrúa tilnefndan af [Upplýsingu – Félagi bókasafns- og upplýsingafræða], 1)
d. einn fulltrúa menntamálaráðuneytisins.
Stjórnin velur úr sínum hópi formann og varaformann. Ráðherra ákveður laun stjórnarinnar.
1)L. 154/2000, 2. gr.
4. gr. Stjórn Blindrabókasafns gerir framkvæmdaáætlanir og endurskoðar þær reglulega. Hún staðfestir fjárhagsáætlanir og ber ábyrgð á heildarstarfsemi og fjárreiðum stofnunarinnar. [Forstöðumaður Blindrabókasafns ræður starfslið stofnunarinnar.] 1)
1)L. 83/1997, 109. gr.
5. gr. [Blindrabókasafn skiptist í þrjár deildir, útláns- og upplýsingadeild, námsbókadeild og tæknideild. Að öðru leyti skal starfsskipting stofnunarinnar ákveðin í reglugerð, sbr. 10. gr. Verkefni deilda eru í megindráttum þessi:
a. Útláns- og upplýsingadeild. Þar fer fram flokkun og skráning safnkosts, upplýsingaþjónusta, útlán og kynning á þjónustu Blindrabókasafnsins í heild.
b. Námsbókadeild. Aflar og gefur út námsefni við hæfi blindra, sjónskertra og annarra sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt.
c. Tæknideild. Sér um framleiðslu útlánsefnis, varðveislu frumgagna og viðhald safnkosts.] 1)
1)L. 154/2000, 3. gr.
6. gr. [Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Blindrabókasafns Íslands til fimm ára að fenginni umsögn stjórnar safnsins. Forstöðumaðurinn annast yfirstjórn safnsins, er í fyrirsvari fyrir safnið út á við, ber ábyrgð á rekstri þess og stjórnar daglegum rekstri. Jafnframt annast hann ráðningar annarra starfsmanna.] 1)
1)L. 154/2000, 4. gr.
7. gr. [Stjórn Blindrabókasafns skipar þriggja manna bókvalsnefnd til tveggja ára í senn. Hlutverk hennar er að móta stefnu í bókvali og gæta jafnvægis milli fræðslu- og skemmtiefnis. Í henni skulu sitja einn bókmenntafræðingur, einn sérkennari og einn fulltrúi Blindrafélagsins.] 1)
1)L. 154/2000, 5. gr.
8. gr. Kostnaður við starfsemi Blindrabókasafns Íslands greiðist úr ríkissjóði eftir því sem fé er veitt í fjárlögum. Ef um aðrar tekjur safnsins er að ræða, skal þeim varið í þágu þeirra verkefna, sem lög þessi mæla fyrir um.
9. gr. Menntamálaráðuneytið gerir samning við Rithöfundasamband Íslands um rétt til að framleiða og dreifa ritverkum hljóðrituðum og á blindraletri.
10. gr. Menntamálaráðuneytið setur reglugerð samkvæmt lögum þessum, þar sem nánar er ákveðið um hlutverk og starfsemi Blindrabókasafns. 1) Reglugerðin skal sett að höfðu samráði við Blindrafélagið, [Upplýsingu – Félag bókasafns- og upplýsingafræða], 2) Félag íslenskra sérkennara og Rithöfundasamband Íslands.
1)Rg. 799/2002. 2)L. 154/2000, 2. gr.