Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. febrúar 2011.  Útgáfa 139a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

2005 nr. 85 24. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 9. júní 2005. Breytt með l. 58/2006 (tóku gildi 1. júlí 2006) og l. 123/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011).


1. gr. Tilgangur laga þessara er að stuðla að verndun lífríkis Þingvallavatns og vatnasviðs þess.
2. gr. Landsvæði innan eftirgreindra marka og Þingvallavatn skulu vera sérstakt vatnsverndarsvæði, verndarsvæði Þingvallavatns: Að sunnan eru mörkin úr Stapa við Úlfljótsvatn (markapunktur jarðanna Kaldárhöfða og Efribrúar) þvert yfir vatnið í Sauðatanga, þaðan bein lína í hornpunkt jarðanna Úlfljótsvatns og Hlíðar efst í Baulugili (við Þrívörðuflatir). Þaðan ráða mörk þeirra jarða að hreppamörkum Grímsnes- og Grafningshrepps og Sveitarfélagsins Ölfuss. Þaðan ráða hreppamörk í hápunkt Skeggja (markapunktur jarðanna Nesjavalla og Nesja) og þaðan bein lína í markapunkt við Sæluhúsatótt (á sýslumörkum Kjósarsýslu og Árnessýslu). Þaðan ræður lína í eystri enda Mjóavatns og áfram í markapunkt jarðarinnar Skálabrekku við Hádegisholt. Síðan ráða mörk jarðanna Skálabrekku og Kárastaða í sýslumörk Árnessýslu og Kjósarsýslu. Sýslumörk ráða allt norður að hreppamörkum fyrrum Biskupstungnahrepps og Laugardalshrepps á Langjökli. Þaðan ræður lína í hápunkt Hagafells og þaðan í hápunkt Hlöðufells. Þaðan ræður bein lína í eystri Hrútatind (norðan Miðdalsfjalls), síðan í hápunkt Ása og þaðan bein lína í há- Fagradalsfjall á mörkum jarðanna Snorrastaða og Laugarvatns. Þaðan ræður bein lína í hornpunkt jarðarinnar Laugarvatns sunnan megin (á Markahrygg) og síðan ráða mörk þeirrar jarðar og hreppamörk fyrrum Laugardalshrepps og Grímsnes- og Grafningshrepps á Biskupsbrekkum. Þaðan liggja mörkin í há-Þrasaborgir. Þaðan ráða mörk jarðarinnar Kaldárhöfða í Stapa við Úlfljótsvatn, sbr. kort í fylgiskjali með lögum þessum sem sýnir mörk verndarsvæðis Þingvallavatns.
Um vatnsverndun innan þjóðgarðsins á Þingvöllum eins og mörk hans eru ákveðin í lögum gilda ákvæði laga um þjóðgarðinn.
3. gr. Innan verndarsvæðisins er óheimilt að gera nokkuð það sem getur spillt vatni eða mengað það, bæði yfirborðsvatn og grunnvatn. Umhverfisráðherra setur að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórnir og iðnaðarráðuneytið nánari reglur 1) um framkvæmd vatnsverndunarinnar, þar með talið um jarðrask, byggingu mannvirkja, borun eftir vatni, töku jarðefna, vinnslu auðlinda úr jörðu og ræktunarframkvæmdir, auk reglna um flutning og meðferð hættulegra efna.
Sveitarstjórn er heimilt að binda byggingar- og framkvæmdaleyfi sem hún gefur út á grundvelli [skipulagslaga og laga um mannvirki] 2) skilyrðum um verndun vegna framkvæmda innan verndarsvæðisins enda séu skilyrðin í samræmi við ákvæði laga þessara og reglna sem settar eru á grundvelli 1. mgr.
Vatnsverndun á landinu skal ekki standa því í vegi að landeigendur, ábúendur og aðrir sem þar eiga nytjarétt geti haft hefðbundin beitar- og búskaparafnot af nytjalandi sínu nema umhverfisráðherra telji að sú notkun leiði til þess að vatni á svæðinu verði spillt. Getur ráðherra þá ákveðið takmarkanir á nytjarétti innan verndarsvæðisins. Slíkar ákvarðanir skal birta í Stjórnartíðindum.
    1)Rg. 650/2006, sbr. 449/2009. 2)L. 123/2010, 57. gr.
4. gr. Vernda skal lífríki Þingvallavatns og gæta þess að raska ekki búsvæðum og hrygningarstöðvum bleikjuafbrigða og urriðastofna sem nú lifa í vatninu.
Umhverfisráðherra setur nánari reglur 1) um framkvæmd verndunarinnar, þar með talið um breytingar á vatnshæð og takmarkanir á losun úrgangsefna og um frárennsli og fráveitur í vatnið. Telji ráðherra að slík losun í Þingvallavatn samrýmist ekki verndun vatnsins getur hann bannað hana. Ákvarðanir þessar skal ráðherra taka að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórnir, Þingvallanefnd að því er varðar þjóðgarðinn á Þingvöllum og iðnaðarráðuneytið.
Óheimilt er að stunda fiskeldi í eða við Þingvallavatn. Þrátt fyrir ákvæði laga um [fiskrækt] 2) er óheimilt án leyfis umhverfisráðherra að stunda fiskrækt í eða við Þingvallavatn.
    1)Rg. 650/2006, sbr. 449/2009. 2)L. 58/2006, 15. gr.
5. gr. Brot gegn lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Sektir renna í ríkissjóð.
Beita má dagsektum sem renna í ríkissjóð, að lágmarki 50.000 kr. og að hámarki 100.000 kr., til að knýja menn til ráðstafana sem þeim er skylt að hlutast til um samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim. Jafnframt má beita fyrrnefndum dagsektum til að knýja menn til að láta af atferli sem brýtur í bága við lög þessi og reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim.
6. gr. Um heimild til eignarnáms á verndarsvæði samkvæmt lögum þessum, sölu jarðar sem er á náttúruminjaskrá og skaðabætur fer eftir 64., 69. og 77. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
7. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Fylgiskjal.1)
    1)Sjá Stjtíð. A 2005, bls. 407.