Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. janúar 2014.  Útgáfa 143a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

2001 nr. 76 31. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 2001. EES-samningurinn: VII. viðauki tilskipun 92/51/EBE og XII. viðauki tilskipun 94/58/EB. Breytt með l. 31/2003 (tóku gildi 3. apríl 2003; EES-samningurinn: XVIII. viðauki tilskipun 93/104/EB, XIII. viðauki tilskipun 1999/63/EB, 1999/95/EB og 1999/130/EB), l. 72/2003 (tóku gildi 10. apríl 2003), l. 108/2006 (tóku gildi 1. nóv. 2006 skv. augl. C 1/2006), l. 30/2007 (tóku gildi 1. jan. 2008), l. 39/2008 (tóku gildi 5. júní 2008; EES-samningurinn: XIII. viðauki reglugerð 336/2006), l. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008), l. 139/2008 (tóku gildi 13. des. 2008), l. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011), l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011) og l. 59/2013 (tóku gildi 1. júlí 2013).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innanríkisráðherra eða innanríkisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið, markmið og tilgangur.
Lög þessi taka til áhafna allra íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa sem skráð eru hér á landi samkvæmt lögum um skráningu skipa.
Markmið þessara laga er að tryggja öryggi áhafna, farþega og íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa og efla varnir gegn mengun sjávar. Þessu markmiði skal náð með því að gera tilteknar kröfur um menntun og þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn þeirra sem starfa um borð og tryggja með því faglega hæfni áhafna miðað við stærð skips, verkefni og farsvið.
[Tilgangur laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim er að laga íslenskan rétt að þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW) frá 1978 með síðari breytingum, EES-samningnum, sbr. [tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/25/EB um lágmarksþjálfun sjómanna, með síðari breytingum, og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/45/EB um gagnkvæma viðurkenningu á skírteinum sjómanna sem aðildarríkin gefa út og um breytingu á tilskipun 2001/25/EB] 1) og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu [og efnahagssamningi Íslands og Færeyja]. 2)] 3)
    1)L. 39/2008, 1. gr. 2)L. 108/2006, 52. gr. 3)L. 72/2003, 47. gr.
2. gr. Orðskýringar.
Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
    1. Alþjóðasamþykktin er alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW) frá 1978 með síðari breytingum.
    2. Skip er hvert það skip sem skráð er samkvæmt lögum um skráningu skipa og lög þessi taka til.
    3. Farþegaskip er hvert það skip, skrásett sem farþegaskip, sem getur flutt fleiri en 12 farþega til og frá landinu, milli hafna innan lands og utan.
    4. Flutningaskip er hvert það skip, skrásett sem flutningaskip, er siglir með varning til og frá landinu, milli hafna innan lands og utan.
    5. Áritun er viðurkenning skírteina erlendra ríkisborgara til starfa á íslenskum skipum samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
    6. Skipstjóri er sá sem fer með æðsta vald á skipi.
    7. Yfirstýrimaður er skipstjórnarmaður sem gengur næst skipstjóra og tekur við skipstjórn í forföllum hans.
    8. Yfirvélstjóri er æðsti vélstjóri um borð og ber ábyrgð á vélum sem knýja skipið, rekstri og viðhaldi vél- og rafbúnaðar þess.
    9. 1. vélstjóri er sá vélstjóri sem gengur næst yfirvélstjóra og ber ábyrgð á vélum sem knýja skipið, rekstri og viðhaldi vél- og rafbúnaðar þess í forföllum yfirvélstjóra. 1. vélstjóri er sá sami og telst annar vélstjóri samkvæmt alþjóðasamþykktinni og skal uppfylla sömu kröfur og þar eru gerðar.
    10. Fjarskiptamaður er lögmætur handhafi skírteinis sem er gefið út eða viðurkennt af [Samgöngustofu] 1) samkvæmt ákvæðum alþjóðaradíóreglugerðarinnar.
    11. Skírteini er staðfesting á réttindum samkvæmt ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Í skírteininu skal tilgreina á hvaða ábyrgðarsviði handhafi þess má vinna, á skipi hvaða gerðar og stærðar og með hvaða vélarafli og vélbúnaði.
    12. Siglingatími er viðurkenndur starfstími um borð í skipi sem er í förum og krafist er vegna útgáfu skírteinis samkvæmt lögum þessum.
    13. Sjómannaskóli er menntastofnun sem er viðurkennd af [ráðherra er fer með fræðslumál] 2) eða [ráðherra] 2) og uppfyllir skilyrði alþjóðasamþykktarinnar um nám og kennslu.
    14. Innanlandssigling er sigling innan íslenskrar fiskveiðilögsögu.
    15. Öryggismönnun er ákvörðun [Samgöngustofu] 1) um lágmarksfjölda í áhöfn farþega- og flutningaskipa skv. 12. gr.
    16. Brúttótonn er mælieining fyrir heildarstærð skips eins og hún er ákvörðuð samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykktar um skipamælingar frá 23. júní 1969.
    17. Ábyrgðarsvið tekur til menntunar og þjálfunar, skiptingar starfa og ábyrgðar um borð í flutninga- eða farþegaskipi og skiptist í stjórnunarsvið, rekstrarsvið og stoðsvið:
    a. Á stjórnunarsviði starfa þeir sem öðlast hafa skírteini samkvæmt lögum þessum og reglum alþjóðasamþykktarinnar sem skipstjóri, yfirvélstjóri, yfirstýrimaður og 1. vélstjóri.
    b. Á rekstrarsviði starfa þeir sem öðlast hafa skírteini samkvæmt lögum þessum og reglum alþjóðasamþykktarinnar sem stýrimenn og vélstjórar undir stjórn yfirmanna á stjórnunarsviði.
    c. Á stoðsviði starfa þeir sem öðlast hafa skírteini samkvæmt lögum þessum og reglum alþjóðasamþykktarinnar og starfa hvorki á stjórnunar- né rekstrarsviði.
    18. Vélarafl er mesta samfellda heildarhámark ásafls allra aðalvéla skipsins í kílóvöttum (kW) eins og það er skráð í skráningarskírteini skipsins eða öðrum opinberum skjölum.
    19. Útgerðarmaður er sá sem mannar skipið, ræður ferðum þess, ber kostnaðinn af þeim og nýtur arðsins af þeim.
    [20. ISM-kóðinn er alþjóðlegur kóði um öryggisstjórnun skipa og mengunarvarnir, sem samþykktur var af Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) með ályktun þingsins A.741(18) frá 4. nóvember 1993, með áorðnum breytingum.
    21. Viðurkennd stofnun er aðili sem er viðurkenndur í samræmi við reglugerð um viðurkenningu flokkunarfélaga, sbr. tilskipun 94/57/EB.] 3)
    1)L. 59/2013, 18. gr. 2)L. 126/2011, 326. gr. 3)L. 39/2008, 2. gr.
3. gr. Menntun og þjálfun.
Sjómannaskólar annast menntun og þjálfun áhafna íslenskra skipa. Um inntökuskilyrði sjómannaskóla, námskrá, nám, námstilhögun, námsmat og námsstig til öflunar tiltekinna skírteina samkvæmt lögum þessum fer eftir lögum um framhaldsskóla og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Nám og kennsla í sjómannaskólum skal vera samkvæmt viðurkenndu gæðastjórnunarkerfi.
Starfsgreinaráð um sjávarútvegsgreinar og siglingar, sem starfar samkvæmt lögum um framhaldsskóla, gerir tillögu til [ráðherra er fer með fræðslumál], 1) að fenginni umsögn [Samgöngustofu], 2) um námskrár sjómannaskóla.
Um Slysavarnaskóla sjómanna gilda lög nr. 33/1991 og staðfestir [ráðherra] 1) námskrá skólans.
[Það ráðuneyti er fer með fræðslumál] 1) hefur eftirlit með að námskrár sjómannaskóla uppfylli kröfur alþjóðasamninga og [Samgöngustofa] 2) hefur eftirlit með að nám við sjómannaskóla uppfylli kröfur alþjóðasamninga.
    1)L. 126/2011, 326. gr. 2)L. 59/2013, 18. gr.
4. gr. Skírteini.
1) [Samgöngustofa] 2) gefur út alþjóðleg skírteini og áritanir samkvæmt lögum þessum. Skírteini skulu rituð á þar til gerð eyðublöð eftir fyrirmynd sem [ráðuneytið] 3) ákveður og skulu þau vera bæði á íslensku og ensku. Útgáfa alþjóðlegra skírteina og áritana skal vera samkvæmt viðurkenndu gæðastjórnunarkerfi.
Íslenskur ríkisborgari sem fullnægir skilyrðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim um menntun og þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn á rétt á því að fá útgefið viðeigandi skírteini sér til handa skv. 11. gr. laganna og starfa samkvæmt því um borð í skipum. Þennan rétt hafa einnig ríkisborgarar annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins [og ríkisborgarar aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu], 4) sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna, [sem og Færeyingar]. 5)
Umsækjandi skírteinis skal hafa að baki siglingatíma skv. 11. gr. laganna. Ráðherra getur með reglugerð vikið frá kröfum 11. gr. og gert vægari kröfur um siglingatíma. Umsækjanda er skylt að færa sönnur á siglingatíma sem hann telur sig hafa að baki. Unnt er að færa sönnur á þann siglingatíma með staðfestingu lögskráningarstjóra eða rétt útfylltri sjóferðabók. Umsækjandi skírteinis sem kveðst hafa að baki siglingatíma á skipi sem ekki er skráð á Íslandi skal færa sönnur á þann siglingatíma á fullnægjandi hátt að mati [Samgöngustofu]. 2) Ef vafi leikur á um réttmæti þeirrar sönnunar skal [Samgöngustofa] 2) í því tilviki skera úr um siglingatíma.
Umsækjandi um skírteini skipstjórnarmanns eða vélstjórnarmanns skal vera svo heill heilsu að hann geti rækt störf sín af öryggi. Skal umsækjandi leggja fram vottorð læknis um að hann uppfylli skilyrði um sjón, heyrn og aðrar heilbrigðiskröfur sem ráðherra mælir nánar fyrir um í reglugerð til samræmis við skuldbindingar íslenska ríkisins í þeim samningum sem um er getið í 3. mgr. 1. gr. laganna.
Skipstjóri á íslensku skipi skal ávallt vera íslenskur ríkisborgari. Þó geta ríkisborgarar annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu [og aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu] 4) [sem og Færeyingar] 5) starfað sem skipstjórar á íslenskum skipum hafi þeir staðist sérstakt próf um kunnáttu og færni í íslensku og þekkingu á íslenskum lögum og reglum er varða þau störf sem þeir fá réttindi til að gegna.
Yfirmenn á stjórnunarsviði, þ.e. skipstjóri, yfirstýrimaður, yfirvélstjóri og 1. vélstjóri, skulu hafa þekkingu á íslenskum lögum og reglum sem varða störf þeirra og tryggt skal að þeir geti tjáð sig á íslensku eða ensku um ábyrgðarsvið sitt.
Frumrit skírteinis sem krafist er skal ávallt vera um borð í því skipi sem skírteinishafi er skráður eða ráðinn á.
[Samgöngustofa] 2) heldur skrá yfir útgefin skírteini.
    1)L. 39/2008, 3. gr. 2)L. 59/2013, 18. gr. 3)L. 162/2010, 230. gr. 4)L. 72/2003, 48. gr. 5)L. 108/2006, 53. gr.
5. gr. Gildistími og endurnýjun skírteina.
Skírteini sem gefin eru út samkvæmt lögum þessum skulu gilda í fimm ár frá útgáfudegi. Endurnýjun skal veitt til fimm ára í senn. Við endurnýjun skírteina skal umsækjandi sem hefur skírteini og starfar á sjó eða ætlar að hverfa aftur til starfa á sjó eftir nokkurn tíma í landi:
    1. fullnægja sömu heilbrigðiskröfum og áður þurfti til að öðlast skírteini og
    2. hafa að baki siglingatíma í stöðu sem skírteini veitir honum rétt til að minnsta kosti í eitt ár á síðustu fimm árum eða
    3. með því að hafa verið í starfi sem samsvarar viðkomandi skírteini og telst að minnsta kosti sambærilegt við siglingatíma sem krafist er skv. 2. tölul. eða með því að:
    a. standast viðurkennt próf eða
    b. ljúka á fullnægjandi hátt viðurkenndu námskeiði eða
    c. hafa siglingatíma sem yfirmaður í a.m.k. þrjá mánuði í næstu lægri stöðu sem hann á tilkall til samkvæmt skírteini sínu.
Endurmenntunarnámskeið samkvæmt þessari grein skulu samþykkt af [Samgöngustofu] 1) og skal á þeim m.a. farið yfir nýlegar breytingar á alþjóðareglum um öryggi mannslífa á sjó og varnir gegn mengun sjávar.
    1)L. 59/2013, 18. gr.
6. gr. Viðurkenning erlendra skírteina.
[Samgöngustofa] 1) viðurkennir erlend skírteini í samræmi við lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Skírteini gefin út af ríki sem er ekki aðili að alþjóðasamþykktinni eða af ríki sem er aðili að alþjóðasamþykktinni en hefur ekki fullnægt kröfum hennar skulu ekki viðurkennd. [Samgöngustofu] 1) er heimilt að veita í allt að þrjá mánuði lögmætum handhöfum erlendra skírteina leyfi til að gegna tilteknu starfi á tilteknu skipi, þar sem krafist er skírteinis, ef lögð eru fram fullgild vottorð eða skírteini á meðan eða þar til [Samgöngustofa] 1) hefur sannreynt viðkomandi gögn og viðurkennt erlenda skírteinið, enda geti viðkomandi skilið fyrirmæli yfirmanna skipsins og stjórnað verkum í þeirra umboði.
[Um umsóknir um viðurkenningu á réttindum sem lögbært yfirvald í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu gefur út til starfa á skipum sem lög þessi taka til skal fara eftir ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/45/EB um gagnkvæma viðurkenningu á skírteinum sjómanna sem aðildarríkin gefa út og um breytingu á tilskipun 2001/25/EB, eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.
Um umsóknir um viðurkenningu á réttindum sem gefin eru út af ríkjum öðrum en ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu til starfa á skipum sem lög þessi taka til skal fara eftir ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/25/EB, eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.] 2)
[Samgöngustofa] 1) heldur skrá yfir viðurkennd erlend skírteini.
    1)L. 59/2013, 18. gr. 2)L. 39/2008, 4. gr.
7. gr. Vaktstaða.
Skipstjóri skal tryggja að fyrirkomulag vakta sé á þann veg að ávallt sé staðin örugg vakt um borð, hvort sem skipið er á siglingu, í höfn, á legu eða við akkeri. Undir yfirumsjón skipstjóra eru stýrimenn ábyrgir fyrir öruggri siglingu skipsins á sinni vakt og ber þeim sérstaklega að varast árekstur og strand.
Yfirvélstjóri er ábyrgur fyrir öruggri vakt í vélarrúmi og skal tryggja að vélstjóri sé tiltækur til að gegna vakt í ómönnuðu vélarrúmi og standa þar vaktir ef þörf krefur.
Þeir sem gegna starfi fjarskiptamanns eru á sinni vakt ábyrgir fyrir samfelldri hlustun á viðeigandi tíðnum.
[Ráðherra] 1) setur reglugerð 2) um vaktir og hvíldartíma þeirra sem standa vaktir. Vaktir skulu þannig skipulagðar að þeir sem standa vakt séu ávallt vel hvíldir svo að ekki dragi úr árvekni þeirra. Sérstaklega skal þessa gætt við fyrstu vakt og í upphafi sjóferðar.
    1)L. 162/2010, 230. gr. 2)Rg. 680/2004, sbr. 1019/2006.
[7. gr. A. Vinnu- og hvíldartími skipverja á íslenskum farþega- og flutningaskipum.
Miða skal við að mörk vinnu- eða hvíldartíma séu annaðhvort:
    1. hámarksvinnutími sem ekki má vera lengri en 14 klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili og 72 klukkustundir á hverju 7 daga tímabili, eða
    2. lágmarkshvíldartími sem ekki má vera skemmri en 10 klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili og 77 klukkustundir á hverju 7 daga tímabili. Hvíldartíma má ekki skipta á fleiri tímabil en tvö og skal annað vara að lágmarki í 6 klukkustundir og ekki skulu líða meira en 14 klukkustundir á milli tveggja hvíldartíma.
Heimilt er með reglugerð eða í kjarasamningum að víkja frá ákvæðum 1. mgr. vegna hlutlægra eða tæknilegra ástæðna eða ástæðna er varða skipulag vinnunnar enda sé slíkt í samræmi við almennar meginreglur um verndun öryggis og heilbrigðis sjómanna.
Skipstjóri á farþegaskipi og flutningaskipi getur ávallt krafist þess að skipverji vinni þann fjölda vinnustunda sem nauðsynlegur er fyrir öryggi skipsins, allra um borð, farms og annarra fjármuna sem á skipi eru eða til að koma til hjálpar öðrum skipum eða mönnum í sjávarháska.] 1)
    1)L. 31/2003, 3. gr.
[7. gr. B. Vinnu- og hvíldartími skipverja á erlendum farþega- og flutningaskipum.
Ákvæði 7. gr. A tekur einnig til erlendra skipa sem fara um íslenskar hafnir.
[Samgöngustofu] 1) er heimilt að framkvæma skoðun um borð í erlendum skipum sem fara um íslenskar hafnir til að ganga úr skugga um fyrirkomulag vinnu- og hvíldartíma og skipulag vakta um borð. Um framkvæmd skoðana fer eftir ákvæðum laga og reglna um hafnarríkiseftirlit. [Samgöngustofa] 1) skal, ef kvörtun berst sem augljóslega er ekki tilefnislaus eða ef hún fær sannanir um að fyrirkomulag vinnu- og hvíldartíma um borð er ekki í samræmi við lög þessi eða reglur settar samkvæmt þeim, tilkynna skráningarríki skipsins um niðurstöðu skoðunar sem gerð hefur verið. [Samgöngustofu] 1) er óheimilt að veita skipstjóra eða eiganda skipsins sem um ræðir neinar upplýsingar um þann sem ber fram kvörtun.
Ef skoðun leiðir í ljós að aðbúnaður um borð stofnar öryggi og heilsu áhafnarinnar sannanlega í hættu skal [Samgöngustofa] 1) gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að úrbætur eigi sér stað, t.d. með því að leggja farbann á skipið. Slíkt farbann skal tilkynnt skipstjóra, eiganda eða útgerðarmanni skipsins, fánaríki og skráningarríki skipsins. Eigandi eða útgerðarmaður skipsins getur kært farbann til farbannsnefndar sem starfar samkvæmt lögum um eftirlit með skipum og frestar kæra ekki áhrifum farbannsákvörðunar.] 2)
    1)L. 59/2013, 18. gr. 2)L. 31/2003, 3. gr.
8. gr. Undanþágur.
Í undantekningartilfellum og þegar menn með tilskilin skírteini vantar til starfa getur [Samgöngustofa], 1) telji hún að öryggi mannslífa, eigna eða umhverfis verði ekki stefnt í hættu, veitt tilteknum manni undanþágu til að gegna stöðu á tilteknu skipi í tiltekinn tíma hafi hann ekki tilskilin réttindi. Undanþágu í umrædda stöðu má þó ekki veita lengur en til sex mánaða, enda sé viðkomandi að mati [Samgöngustofu] 1) hæfur til að annast starfið á öruggan hátt.
Undanþáguna má aðeins veita þeim sem hefur skírteini til að gegna næstu lægri stöðu. Ef ekki er krafist skírteinis í næstu stöðu fyrir neðan má veita þeim undanþágu sem að mati [Samgöngustofu] 1) hefur til þess þekkingu og reynslu. Undanþágu má ekki veita til að gegna stöðu skipstjóra eða yfirvélstjóra á farþegaskipum og flutningaskipum nema í neyðartilvikum og þá aðeins í eins skamman tíma og unnt er.
    1)L. 59/2013, 18. gr.
9. gr. Eldri skírteini.
Sá sem er lögmætur handhafi skírteinis samkvæmt lögum sem falla úr gildi við gildistöku þessara laga skal halda réttindum sínum óskertum, enda fullnægi hann öðrum kröfum laga þessara. Heimilt er að gefa út ný skírteini samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim í stað eldri skírteina, enda séu réttindi þeirra skírteinishafa í engu skert.
Sá sem er lögmætur handhafi skírteinis til að vera skipstjóri í innanlandssiglingum á skipi sem er 30 rúmlestir eða minna skal öðlast rétt til að vera skipstjóri eða stýrimaður á skipi 65 brúttótonn eða minna í innanlandssiglingum.
Til að öðlast skírteini til starfa á farþegaskipum samkvæmt lögum þessum skal viðkomandi gangast undir sérstakt námskeið um farþegaflutninga með skipum og stjórnun mannfjölda á neyðarstundu sem sjómannaskóli skipuleggur í samráði við [Samgöngustofu]. 1)
Nú hefur skipstjórnarmaður skírteini til skipstjórnarstarfa samkvæmt brúttórúmlesta- viðmiðun á skipi sem vegna breytinga á mælingum skipa mælist stærra en eldra skírteini hans veitti réttindi til eða aðrar hliðstæðar ástæður eru fyrir hendi og er þá heimilt að veita honum skírteini til starfa á sama skipi eða skipi sem eins háttar um að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.
    1)L. 59/2013, 18. gr.
[9. gr. A. Alþjóðlegt öryggisstjórnunarkerfi.
Á flutningaskipum sem eru 500 brúttótonn eða stærri og farþegaskipum sem lög þessi taka til skal fylgt ákvæðum A-hluta ISM-kóðans um öryggisstjórnun skipa og mengunarvarnir. Skal [Samgöngustofa] 1) eða viðurkenndur aðili gefa út samræmisskjal og öryggisstjórnunarskírteini í samræmi við ISM-kóðann.
[Samgöngustofu] 1) er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum 6., 7., 9., 11. og 12. gr. kóðans, enda séu teknar upp ráðstafanir sem veiti sambærilega vernd og kveðið er á um í kóðanum.
Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um:
    1. skip sem eru nýtt eingöngu í þágu hins opinbera en ekki í atvinnuskyni,
    2. skip sem ekki eru knúin áfram með vélrænum hætti, tréskip með frumstæðu byggingarlagi, skemmtisnekkjur og skemmtibátar nema þau séu eða verði mönnuð og látin flytja fleiri en 12 farþega í atvinnuskyni,
    3. farþegaskip í flokki C og D eins og þeir eru skilgreindir í reglugerð um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum nr. 666/2001, með síðari breytingum, nema þau séu ekjufarþegaskip.] 2)
    1)L. 59/2013, 18. gr. 2)L. 39/2008, 5. gr.
10. gr. Ábyrgð útgerðarmanns og skipstjóra.
Útgerðarmaður og skipstjóri viðkomandi skips bera ábyrgð á því að ákvæðum þessara laga sé framfylgt við útgerð skips. Þeim ber að sjá til þess að eftirfarandi sé gætt:
    1. að allir þeir sem ráðnir eru um borð í skip séu lögmætir handhafar skírteina fyrir þá stöðu sem þeir gegna og að frumrit skírteina skipverja sé varðveitt um borð,
    2. að uppfærð og aðgengileg skrá sé haldin yfir alla skipverja og stöður þeirra um borð,
    3. að öllum nýráðnum skipverjum sé áður en þeir hefja skyldustörf kunnugt um skyldur sínar, að þeir séu kunnugir starfsaðferðum um borð, tækjum, búnaði, verklagsreglum og neyðaráætlunum sem og sérstökum skilyrðum í tengslum við venjubundin skyldustörf og hlutverk á neyðarstundu,
    4. að skipverjar geti með góðu móti unnið saman á neyðarstundu og þegar mengunarhætta steðjar að,
    5. að skipverjar geti tjáð sig sín á milli um grundvallaröryggismál og skilji upplýsingar um öryggisþætti, þar með talin tákn, merki og hljóðviðvörunarmerki og
    6. að tryggja að allir nýráðnir skipverjar fái nauðsynlegar upplýsingar á tungumáli sem þeir skilja.

II. kafli. Skírteini.
11. gr. Skírteini áhafnar.
Sá einn sem er lögmætur handhafi skírteinis hefur rétt til starfa um borð í farþegaskipum og flutningaskipum.
Eftirfarandi skírteini til skipstjórnar skulu gefin út að uppfylltum skilyrðum um menntun og þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn:
Stjórnunarsvið Takmarkanir Aldur Siglingatími
Yfirstýrimaður/stýrimaður <500 brúttótonn í strandsiglingum 20 A.
Skipstjóri <500 brúttótonn í strandsiglingum 20 B.
Yfirstýrimaður <3.000 brúttótonn 20 C.
Skipstjóri <3.000 brúttótonn 20 C.
Yfirstýrimaður engar 20 B.
Skipstjóri engar 20 C.
Rekstrarsvið
Stýrimaður engar 18 D.
Stoðsvið
Aðstoðarmaður í brú engar 16 E.
Siglingatími:

    A. 54 mánaða siglingatími sem háseti á skipi. Umsækjandi skal uppfylla kröfur til að öðlast skírteini fjarskiptamanns.
    B. 18 mánaða siglingatími sem stýrimaður á skipi.
    C. 54 mánaða siglingatími sem stýrimaður á skipum sem eru 500 brúttótonn eða stærri eða 36 mánuðir í sömu stöðu ef umsækjandi hefur gegnt stöðu yfirstýrimanns í 18 mánuði af þeim siglingatíma.
    D. 18 mánaða siglinga- og námstími, enda hafi umsækjandi fengið fræðslu um borð og sá tími verið skráður í þjálfunarbók, eða að öðrum kosti 54 mánaða siglingatími sem háseti á skipi. Umsækjandi skal uppfylla kröfur til að öðlast skírteini fjarskiptamanns.
    E. Að lágmarki 9 mánaða siglinga- og námstími, þar á meðal siglingatími sem má ekki vera skemmri en 4 mánuðir. Af siglingatíma skal aðstoðarmaður í brú hafa gengið vaktir í brú a.m.k. í 4 mánuði undir beinu eftirliti skipstjóra eða vakthafandi stýrimanns og skal þar leiðbeint í öllu sem varðar vaktir og varðstöðu á siglingavakt. Áður en viðkomandi byrjar þjálfun sem aðstoðarmaður í brú skal hann leggja fram læknisvottorð um að hann hafi staðist kröfur sem gerðar eru um sjón og heyrn.
Eftirfarandi skírteini til vélstjórnar skulu gefin út að uppfylltum skilyrðum um menntun og þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn:
Stjórnunarsvið Takmarkanir Aldur Siglingatími
Vélstjóri ≤375 kW 18 A.
Vélstjóri <750 kW 18 B.
1. vélstjóri <3.000 kW 20 C.
Yfirvélstjóri <3.000 kW 20 D.
1. vélstjóri engar 20 C.
Yfirvélstjóri engar 20 D.
Rekstrarsvið
Vélstjóri engar 18 E.
Stoðsvið
Aðstoðarmaður í vél engar 16 F.
Siglingatími:

    A. 9 mánaða siglingatími sem aðstoðarmaður í vél.
    B. 14 mánaða siglingatími sem vélstjóri á skipi ≤375 kW.
    C. 18 mánaða siglingatími sem vélstjóri á skipum með aðalvél stærri en 750 kW.
    D. 36 mánaða siglingatími sem vélstjóri á skipum með aðalvél stærri en 750 kW, þar af 18 mánaða siglingatími eftir að hafa öðlast réttindi til að starfa sem 1. vélstjóri.
    E. 9 mánaða siglinga- og námstími og hafa lokið viðurkenndri fagmenntun sem er ekki skemmri en 45 mánuðir, þar með talin fræðsla um borð sem skráð er í þjálfunarbók.
    F. Að lágmarki 9 mánaða siglinga- og námstími, þar á meðal siglingatími sem má ekki vera skemmri en 4 mánuðir. Af siglingatíma skal aðstoðarmaður í vél hafa gengið vaktir í vél a.m.k. í 4 mánuði undir beinu eftirliti yfirvélstjóra eða vakthafandi vélstjóra og skal þar leiðbeint í öllu sem varðar vaktir í vél. Áður en viðkomandi byrjar þjálfun sem aðstoðarmaður í vél skal hann leggja fram læknisvottorð um að hann hafi staðist þær kröfur sem gerðar eru um sjón og heyrn.
[Samgöngustofu] 1) er heimilt að veita undanþágur frá framangreindum kröfum þegar um er að ræða farþegaskip sem sigla á tilteknu farsviði og á tilteknu tímabili, enda sé ekki farið í bága við skuldbindingar sem á íslenska ríkinu hvíla samkvæmt alþjóðasamþykktinni.
    1)L. 59/2013, 18. gr.
12. gr. Öryggismönnun.
Manna skal sérhvert íslenskt farþegaskip og flutningaskip á öruggan hátt svo að unnt sé að sinna öllum þáttum sem tryggja öryggi áhafnar, farþega og skips. Farþegaskip og flutningaskip skal manna þannig að unnt sé að fylgja öllum lögum og reglum um verndun umhverfis, einkum er varðar mengunarvarnir sjávar og lífríkis.
Við ákvörðun um fjölda skipverja á farþegaskipum og flutningaskipum skal [Samgöngustofa] 1) taka fullt tillit til alþjóðasamþykktarinnar og krafna hennar um siglingatíma, aldur, heilbrigði, menntun og þjálfun, hæfni og próf. Við mönnun farþegaskipa og flutningaskipa skal tekið sérstakt tillit til skipulags vakta um borð og nauðsynlegs hvíldartíma skipverja í samræmi við alþjóðasamþykktina.
[Samgöngustofa] 1) ákveður mönnun farþegaskipa og flutningaskipa og gefur út öryggismönnunarskírteini fyrir þau þar sem kveðið er á um lágmarksfjölda í áhöfn, samsetningu áhafnar og skírteini fyrir einstakar stöður.
    1)L. 59/2013, 18. gr.

III. kafli. Ýmis ákvæði.
13. gr. [Ákvörðunum [Samgöngustofu] 1) samkvæmt lögum þessum má skjóta til [ráðherra]. 2) Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum.] 3)
    1)L. 59/2013, 18. gr. 2)L. 162/2010, 230. gr. 3)L. 139/2008, 1. gr. Þar er ekki kveðið á um að fyrirsögn greinarinnar „Úrskurðarnefnd siglingamála“ falli brott en efnislegar breytingar fela það í sér að hún á ekki lengur við.
14. gr. Gjöld.
Greiða skal fyrir útgáfu skírteina, viðurkenningu erlendra skírteina, veitingu undanþágna og útgáfu öryggismönnunarskírteina samkvæmt lögum þessum og skulu þau gjöld standa undir kostnaði [Samgöngustofu] 1) vegna afgreiðslu þeirra. Gjöld skulu ákveðin í gjaldskrá stofnunarinnar. 2)
    1)L. 59/2013, 18. gr. 2)Rg. 587/2002.
15. gr. Refsiákvæði o.fl.
Brot gegn lögum þessum eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Beita skal ákvæðum almennra hegningarlaga um tilraun og hlutdeild.
Svipta skal skírteinishafa rétti til starfa þess sem skírteinið veitir ef hann gerist sekur um vítavert brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim, eða ef telja verður með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hans sem skírteinishafa varhugavert að hann neyti réttinda samkvæmt skírteininu.
Svipting starfsréttinda skal vera um ákveðinn tíma, eigi skemur en þrjá mánuði og ævilangt ef sakir eru miklar eða brot ítrekað.
Leiði brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim til skipsstrands, áreksturs skipa eða annarra sjóslysa skal viðkomandi sæta refsingu og eftir atvikum réttindasviptingu til skipstjórnar eða vélstjórnar, skv. 238. gr. siglingalaga, nr. 34/1985, með síðari breytingum.
16. gr. [Samgöngustofu] 1) er heimilt að afturkalla skírteini ef lögmætur handhafi þess fullnægir ekki lengur skilyrðum laganna til að öðlast slíkt skírteini eða vera skírteinishafi.
Nú telur [Samgöngustofa] 1) að skilyrði, sbr. 2. mgr. 15. gr., séu fyrir hendi til sviptingar starfsréttinda og er stofnuninni þá heimilt að svipta viðkomandi aðila starfsréttindum til bráðabirgða. Skal slík svipting vera tímabundin eða ákvörðuð til þess tíma þegar endanleg ákvörðun dómstóls um sviptinguna liggur fyrir. Bráðabirgðasvipting samkvæmt ákvæði þessu skal dragast frá endanlegum sviptingartíma samkvæmt dómi.
Bera má ákvörðun [Samgöngustofu] 1) undir dómstóla samkvæmt reglum um meðferð [sakamála] 2) og skal stofnunin leiðbeina viðkomandi um þann rétt.
    1)L. 59/2013, 18. gr. 2)L. 88/2008, 234. gr.
17. gr. Reglugerð.
[Ráðherra] 1) skal setja í reglugerð 2) nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um menntun og þjálfun áhafna íslenskra skipa samkvæmt lögum þessum, bæði um borð í skipi og í landi, öryggisfræðslu, próf, skírteini og skilyrði þeirra, heilbrigðiskröfur, viðurkenningu erlendra skírteina, ábyrgð útgerðarmanna, vaktstöður, [mönnun skipa og alþjóðlegt öryggisstjórnunarkerfi]. 3) [Ákvæðin] 3) skulu vera í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt þeim samningum sem um er getið í 3. mgr. 1. gr. laganna.
[Ráðherra] 1) skal, í samráði við [ráðherra er fer með fræðslumál], 4) setja reglur um eftirlit með menntun og þjálfun áhafna íslenskra skipa.
    1)L. 162/2010, 230. gr. 2)Rg. 599/2001. Rg. 416/2003, sbr. 430/2005, 693/2006 og 438/2008. Rg. 680/2004, sbr. 1019/2006. Rg. 337/2009, sbr. 738/2009. 3)L. 39/2008, 6. gr. 4)L. 126/2011, 326. gr.
18. gr. Gildistaka o.fl.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2001.

Ákvæði til bráðabirgða.1)
Undanþágusjóður, sem starfar skv. 3. mgr. 21. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, með síðari breytingum, og 3. mgr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, nr. 113/1984, með síðari breytingum, skal lagður niður. Andvirði sjóðsins skal notað til að standa straum af kostnaði við langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda árið 2001.
2)
    1)L. 59/2013, 18. gr. 2)L. 30/2007, 21. gr.