Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. janúar 2014. Útgáfa 143a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um velferð dýra
2013 nr. 55 8. apríl
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2014.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.
2. gr. Gildissvið.
Lög þessi taka til hryggdýra auk tífætlukrabba, smokkfiska og býflugna. Lög þessi gilda einnig um fóstur þegar skynfæri þeirra eru komin á sama þroskastig og hjá lifandi dýrum. Lög þessi taka ekki til hefðbundinna veiða og föngunar á villtum fiski. Ákvæði laga þessara eru lágmarksreglur um meðferð dýra.
3. gr. Skilgreiningar.
Í lögum þessum, reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra er merking orða sem hér segir:
1. Dýrahald: Hvert það fyrirkomulag þar sem dýr eru haldin, hvort sem það er í atvinnuskyni eða ekki.
2. Föngun: Að ná dýri lifandi.
3. Hálfvillt dýr: Dýr sem ekki eru merkt í samræmi við 22. gr. og ganga laus.
4. Læknisaðgerð: Aðgerð eða meðhöndlun að undangenginni sjúkdómsgreiningu dýralæknis, þ.m.t. gelding án rofs á húð.
5. Meðhöndlun: Aðgerð, önnur en læknis- eða skurðaðgerð, þar sem gripið er inn í líkama eða atferli dýra, svo sem fæðingarhjálp, klaufhirða, járningar, rúningur, snyrting.
6. Skurðaðgerð: Aðgerð sem felur í sér rof á húð eða slímhúð, þó ekki með nálum.
7. Umráðamaður: Eigandi dýrs eða annar aðili sem er ábyrgur fyrir umsjá dýrs.
8. Umsjá: Umönnun, fóðrun og varsla dýra.
9. Veiðar: Að ná dýri í þeim tilgangi að deyða það.
II. kafli. Stjórn dýravelferðarmála.
4. gr. Yfirstjórn.
Ráðherra fer með yfirstjórn mála er varða velferð dýra en framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum Matvælastofnunar sem hefur eftirlit með því að ákvæðum laga þessara sé framfylgt.
Matvælastofnun er skylt að leita álits fagráðs um velferð dýra um stefnumótandi ákvarðanir og umsóknir um leyfi til dýratilrauna.
5. gr. Fagráð um velferð dýra.
Starfa skal sérstakt fagráð um velferð dýra. Í ráðinu skulu sitja fimm menn og jafnmargir til vara. Ráðherra staðfestir skipan ráðsins og er skipunartími þess þrjú ár. Í ráðinu skal vera fagfólk á sem flestum eftirtalinna fagsviða: dýralækninga, dýrafræði, dýraatferlisfræði, dýravelferðar, dýratilrauna, búfjárfræða og siðfræði.
Yfirdýralæknir er formaður fagráðsins en aðrir fulltrúar skulu skipaðir af Bændasamtökum Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, Dýraverndarsambandi Íslands og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Fagráðinu ber að kalla eftir sérfræðiáliti þegar fjallað er um fræðileg álitamál og ráðið skortir sérþekkingu á viðkomandi sviði. Hlutverk fagráðsins er eftirfarandi:
a. að vera Matvælastofnun til ráðuneytis um stefnumótun og einstök álitaefni er varða málefni á sviði velferðar dýra,
b. að veita Matvælastofnun umsögn um umsóknir vegna dýratilrauna,
c. að fylgjast með þróun dýravelferðarmála og upplýsa Matvælastofnun um mikilvæg málefni á sviði velferðar dýra,
d. að taka til umfjöllunar mál á sviði velferðar dýra að beiðni einstakra fagráðsmanna.
Fagráðið skal hafa aðsetur hjá Matvælastofnun sem leggur því til vinnuaðstöðu og starfsmann með sérfræðiþekkingu á starfssviði ráðsins. Fagráðið skal halda gerðabók um störf sín og gefa út ársskýrslu fyrir 1. mars ár hvert. Um málsmeðferð hjá fagráðinu skal farið að ákvæðum stjórnsýslulaga.
III. kafli. Almenn ákvæði um meðferð dýra.
6. gr. Almennt um meðferð dýra.
Skylt er að fara vel með dýr og ber umráðamaður ábyrgð á að annast sé um þau í samræmi við lög þessi. Ill meðferð dýra er óheimil.
7. gr. Hjálparskylda.
Þeim sem verður var við eða má ætla að dýr sé sjúkt, sært, í sjálfheldu eða bjargarlaust að öðru leyti ber að veita því umönnun eftir föngum. Sé umráðamaður ekki til staðar skal tilkynna atvikið til lögreglu sem kallar til dýralækni meti hún það svo að ástæða sé til. Sé fyrirsjáanlegt að ekki sé hægt að koma dýrinu til hjálpar innan hæfilegs tíma og augljóst er að sjúkdómur dýrs eða meiðsl eru banvæn er heimilt að deyða dýrið, sbr. 21. gr. Sé um að ræða búfé eða gæludýr skal tilkynna slíka aflífun til Matvælastofnunar.
Sveitarfélagi er skylt að sjá til þess að gripið sé til aðgerða skv. 1. mgr. sé um hálfvillt eða villt dýr að ræða. Ráðherra sem fer með vernd og friðun villtra fugla og villtra spendýra skal þó sjá til þess að gripið sé til slíkra aðgerða sé um að ræða villt dýr af stofni í útrýmingarhættu og dýr sem lenda í umhverfisslysum. Þrátt fyrir hjálparskyldu sem tilgreind er í 1. mgr. er ráðherra og sveitarfélagi heimilt að taka ákvörðun um aflífun villtra dýra þegar fyrirsjáanlegur kostnaður vegna aðgerða er verulegur.
Umráðamaður dýrs skal bera allan kostnað sem stofnað er til vegna ákvæða 1. mgr. Sveitarfélag ber allan kostnað sem stofnað er til skv. 1. mgr. þegar um er að ræða hálfvillt og villt dýr sem ekki eru af stofni í útrýmingarhættu. Ráðuneyti sem fer með vernd og friðun villtra fugla og villtra spendýra ber allan kostnað sem stofnað er til skv. 1. mgr. þegar um er að ræða villt dýr sem eru af stofni í útrýmingarhættu.
Sá sem stofnar til útgjalda skv. 1. mgr. á rétt á endurgreiðslu á öllum nauðsynlegum kostnaði úr hendi þess aðila sem ber ábyrgð á kostnaði samkvæmt grein þessari. Sveitarfélögum er heimilt að setja reglur um framkvæmd endurgreiðslna og skulu þær staðfestar af ráðherra.
8. gr. Tilkynningarskylda.
Leiki grunur á að meðferð á dýrum brjóti gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim skal sá sem verður þess var tilkynna það Matvælastofnun eða lögreglu svo fljótt sem auðið er. Sé mál tilkynnt lögreglu skal hún tilkynna Matvælastofnun um það. Matvælastofnun skal kanna hvort tilkynning sé á rökum reist.
Tilkynnandi skv. 1. mgr. getur óskað eftir því að nafni hans verði haldið leyndu gagnvart öðrum en Matvælastofnun eða lögreglu. Ef líklegt má telja að hagsmunir viðkomandi skaðist ef greint er frá nafni hans skal fallast á ósk um nafnleynd. Ef ekki eru forsendur til þess að fallast á nafnleynd er tilkynnanda heimilt að draga tilkynningu sína til baka. Ákvörðun Matvælastofnunar um nafnleynd er heimilt að skjóta til ráðherra innan tveggja vikna frá tilkynningu ákvörðunar. Leiðbeina skal tilkynnanda um rétt hans til að kæra ákvörðun Matvælastofnunar.
9. gr. Tilkynningarskylda þeirra sem hafa afskipti af dýrum.
Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málum dýra og verður var við aðstæður eins og lýst er í 1. mgr. 8. gr. er skylt að tilkynna það Matvælastofnun.
Sérstaklega er dýralæknum og heilbrigðisstarfsmönnum dýra skylt að fylgjast með meðferð dýra, aðbúnaði dýra, aðgerðum og meðhöndlun dýra, dýrahaldi, aðferðum við dýrahald og útbúnaði dýra eftir því sem við verður komið og gera Matvælastofnun viðvart ef ætla má að aðstæður dýrs séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. 8. gr.
Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.
10. gr. Geta, hæfni og ábyrgð.
Hver sá sem hefur dýr í umsjá sinni skal búa yfir eða afla sér grunnþekkingar á þörfum og umönnun viðkomandi dýrategundar og skal enn fremur búa yfir nægjanlegri getu til að annast dýrið í samræmi við lög þessi.
Rekstraraðili leyfisskylds dýrahalds skal sjá til þess að það starfsfólk sem sér um umönnun dýranna búi yfir nægjanlegri hæfni og þekkingu á viðkomandi sviði. Þjónustuaðili við dýrahald skal búa yfir nægjanlegri þekkingu til þeirra starfa sem hann annast.
Óheimilt er að fela börnum undir 18 ára aldri og ólögráða einstaklingum einum ábyrgð á dýrum.
Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari fyrirmæli um þær kröfur sem gera skal um getu og hæfni umráðamanna dýra, svo sem um menntun.
11. gr. Umráðaskipti dýra.
Óheimilt er að selja, gefa eða afhenda dýr einstaklingi sem ástæða er til að ætla að hafi ekki aðbúnað, getu eða vilja til að annast dýrið í samræmi við lög þessi. Veita skal viðtakanda dýrs, eftir því sem við á, upplýsingar um atriði sem máli skipta um velferð þess.
IV. kafli. Úttekt og eftirlit.
12. gr. Úttekt.
Umfangsmikið og tæknivætt dýrahald eða starfsemi er skylt að tilkynna til Matvælastofnunar áður en starfsemi hefst. Óheimilt er að hefja slíka starfsemi áður en skilyrði sem sett eru um húsakost, búnað og þekkingu, sbr. 10. gr. og 29.–32. gr., eru uppfyllt og þau tekin út af Matvælastofnun.
Ráðherra skal með reglugerð ákvarða í hvaða tilvikum fisk-, alifugla-, svína- og loðdýraeldi og hvaða tæknivædda dýrahald eða starfsemi skal vera tilkynningarskylt og falla undir grein þessa.
13. gr. Eftirlit.
Öll starfsemi sem lög þessi ná til skal háð reglulegu opinberu eftirliti af hálfu Matvælastofnunar. Að jafnaði skulu eftirlitsheimsóknir eiga sér stað eigi sjaldnar en annað hvert ár. Umfang og tíðni eftirlits skal að öðru leyti byggt á áhættuflokkun.
Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um eftirlit og framkvæmd þess.
V. kafli. Meðferð og meðhöndlun dýra.
14. gr. Meðferð.
Umráðamönnum dýra ber að tryggja dýrunum góða umönnun, þ.m.t. að:
a. sjá til þess að þörfum dýranna sé sinnt að jafnaði einu sinni á dag; þetta gildir þó ekki um dýr í sumarhögum,
b. tryggja gæði og magn fóðurs, beitilands og vatns þannig að fullnægi þörfum dýranna,
c. tryggja grasbítum beit á grónu landi á sumrin,
d. vernda þau gegn meiðslum, sjúkdómum og sníkjudýrum eða annarri hættu,
e. sjá til þess að sjúk eða slösuð dýr fái tilhlýðilega læknismeðferð eða séu aflífuð,
f. venja dýr við umgengni við menn, eftir því sem við á,
g. tryggja að útbúnaður sé til staðar svo unnt sé að annast um þau og meðhöndla á viðunandi hátt.
15. gr. Sérstakt bann.
Bannað er að:
a. ofbjóða kröftum dýrs eða þoli,
b. yfirgefa dýr í bjargarlausu ástandi,
c. hafa samræði eða önnur kynferðismök við dýr,
d. nota lifandi dýr sem fóður, agn eða sem skotmark við skotæfingar eða skotkeppni,
e. etja dýrum saman til áfloga,
f. þvinga fóður eða vatn ofan í dýr nema nauðsynlegt sé vegna læknismeðferðar,
g. misbjóða dýrum á annan sambærilegan hátt.
16. gr. Aðgerðir og meðhöndlun.
Skurð- og læknisaðgerðir og önnur meðhöndlun dýra skal aðeins framkvæmd þegar og á þann hátt að velferð dýra sé höfð að leiðarljósi og tryggð að meðferð lokinni eins og unnt er. Ekki er heimilt að framkvæma aðgerð ef fyrirséð er að dýr muni, að aðgerð lokinni, líða fyrir örkuml eða þjáningar og engar líkur eru á bata.
Skurðaðgerðir, þar á meðal fjarlæging líkamshluta eða fegrunaraðgerðir, skulu ekki framkvæmdar nema af læknisfræðilegum ástæðum. Þó er heimilt að fjarlægja horn, spora af dagsgömlum hönum og gelda dýr. Merkingar á dýrum eru einnig heimilar í samræmi við lög og reglugerðir sem um þær gilda.
Við sársaukafulla aðgerð eða meðhöndlun skal ávallt deyfa eða svæfa dýr og veita því verkjastillandi meðhöndlun, nema við eyrnamörkun lamba og kiðlinga yngri en vikugamalla.
Dýralæknum er einum heimilt að meðhöndla og framkvæma skurð- og læknisaðgerðir á dýrum. Öðrum er þó heimilt að framkvæma eftirfarandi hafi þeir fengið leyfi til þess samkvæmt lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr:
a. læknisaðgerðir samkvæmt tilvísun frá dýralækni,
b. sæðingar sauðfjár, geitfjár, nautgripa, svína, refa, kalkúna, hæna og kanína,
c. fangskoðanir nautgripa,
d. klippingu á hala grísa,
e. örmerkingar.
Öllum er heimilt að framkvæma eftirfarandi:
a. lyfjameðhöndlun samkvæmt fyrirmælum frá dýralækni,
b. meðhöndlun sem veldur hvorki sársauka né vanlíðan,
c. merkingar og eyrnamörkun, aðrar en örmerkingar.
17. gr. Þjálfun, sýningar, keppni o.fl.
Hver sá sem þjálfar dýr, notar þau í keppni og sýningar eða á annan hátt skal tryggja að þau:
a. hafi til þess líkamlegt heilbrigði og hafi hlotið viðeigandi þjálfun,
b. hafi ekki verið meðhöndluð með lyfjum sem deyfa sjúkdómseinkenni eða auka afkastagetu þannig að það samræmist ekki velferð þeirra,
c. séu ekki markvisst beitt meðferð sem veldur þeim skaða eða óþarfa ótta.
Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur samkvæmt grein þessari.
18. gr. Flutningur dýra og rekstur búfjár.
Við flutning á dýrum ber að tryggja velferð dýra eins og fært er. Gæta skal þess við flutning og rekstur búfjár að dýr verði fyrir sem minnstu álagi og hvorki þoli þeirra né kröftum sé ofboðið. Hvorki er heimilt að flytja dýr né reka sé augljóst að það þoli það ekki.
Flutningstæki skulu þannig útbúin að þau henti viðkomandi dýrategund og tryggi öryggi dýranna. Við flutning skal veita dýrum viðeigandi umönnun, aðbúnað og gæslu.
Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um flutning og rekstur dýra og um leyfi fyrir flutningstækjum, öryggisbúnaði og merkingu þeirra. Þá skal ráðherra setja fyrirmæli er tryggja velferð búfjár í tengslum við flutninga. Einnig skal ráðherra setja nánari ákvæði um flutning búfjár frá brottfararstað til áfangastaðar, þ.m.t. um hleðslu í rými, umfermingu, affermingu, hámarksflutningstíma og um þær kröfur sem eru gerðar um flutningstæki sem flytja búfé, þ.m.t. um hleðslubúnað þeirra. Heimilt er auk þess að setja reglur um flutningsskilríki flutningsaðila, skyldur gæsluaðila með búfé, sérstök leyfi flutningsaðila sem veitt verða af Matvælastofnun og reglur til að skylda aðila sem vinna við flutning á búfé til að sækja námskeið þar sem m.a. er fjallað um velferð dýra og dýrasjúkdóma.
19. gr. Ræktun.
Við ræktun mismunandi eiginleika hinna ýmsu dýrategunda skal þess gætt að ávallt séu alin heilsuhraust dýr. Æxlun, þ.m.t. tæknifrjóvgun eða erfðatækni, er óheimil þegar fyrirsjáanlegt er að hún:
a. breyti eiginleikum á þann hátt að það hafi neikvæð áhrif á heilsu og atferli dýra eða afkvæma þeirra eða viðhaldi slíkum annmörkum,
b. dragi úr getu dýra til að sýna eðlilegt atferli.
Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um skilyrði varðandi ræktun einstakra dýrategunda með tilliti til sjónarmiða um velferð dýra.
20. gr. Tilraunir, kennsla og læknisfræðileg starfsemi.
Óheimilt er að nota lifandi dýr við kennslu, tilraunir, rannsóknir, framleiðslu eða prófun efna eða lyfja og við sjúkdómsgreiningu nema með sérstöku leyfi Matvælastofnunar ef slíkri notkun fylgir álag eða þjáning fyrir dýrin. Ákvæði þetta á þó ekki við um leyfisskylda starfsemi að því marki sem útgefið leyfi heimilar slíka notkun lifandi dýra.
Einungis má nota lifandi dýr í tilraunum ef ekki eru þekktar aðrar leiðir til að ná sambærilegum árangri. Óheimilt er að nota lifandi dýr við prófun á snyrtivörum.
Leyfi skv. 1. mgr. skal taka til ræktunar, eldis, dreifingar, notkunar og aflífunar tilraunadýra. Heimilt er að binda leyfi þeim skilyrðum sem má telja nauðsynleg til að tryggja velferð tilraunadýra. Gæta skal þess við tilraunir eða aðgerðir á dýrum að þær baki þeim ekki meiri þjáningu en óhjákvæmilegt er. Matvælastofnun skal tryggja að þeir sem nota dýr í tilraunaskyni hafi hlotið þjálfun og menntun í viðkomandi vísindagrein og lokið námskeiði um meðferð tilraunadýra.
Ráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um dýratilraunir, þar á meðal meðferð tilraunadýra og eftirlit með dýratilraunum og um menntun og þjálfun þeirra sem nota dýr í tilraunaskyni.
21. gr. Aflífun.
Dýr skulu aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti og eftir því sem unnt er án þess að önnur dýr verði þess vör. Forðast skal að valda dýrum óþarfa þjáningum eða hræðslu.
Dýr í umsjón manna skulu svipt meðvitund fyrir aflífun nema þegar aflífunin veldur meðvitundarleysi umsvifalaust. Að lokinni aflífun skal gengið úr skugga um að dýr sé dautt. Óheimilt er að aflífa dýr með því að drekkja þeim nema um sé að ræða gildruveiði minka sem hluta af skipulögðum aðgerðum til að halda minkastofninum í skefjum sem heimil er samkvæmt ákvæðum laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Slík gildruveiði er þó aðeins heimil að hún hafi verið tilkynnt Umhverfisstofnun. Einnig er óheimilt að aflífa dýr með útblæstri véla, nema við aflífun loðdýra ef um er að ræða vélar sem eru sérstaklega hannaðar og framleiddar til aflífunar loðdýra og notkun vélar hefur verið samþykkt af Matvælastofnun.
Dýr skulu ávallt svipt meðvitund áður en blóðtæming fer fram og skal meðvitundarleysið a.m.k. vara frá upphafi blóðtæmingar og til dauða. Eingöngu er heimilt að nota útbúnað til sviptingar meðvitundar og/eða til aflífunar sem hæfir viðkomandi dýrategund og skal þess gætt að hann sé rétt notaður og honum vel við haldið.
Við aflífun í neyðartilvikum, sbr. 7. gr., skal uppfylla ákvæði 1. og 2. mgr. eins og kostur er.
Aflífun dýra er ekki heimil sem skemmtiatriði eða keppni.
Ráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um hverjir megi aflífa dýr, hvernig staðið skuli að aflífun og bann við tilteknum aðferðum við aflífun.
VI. kafli. Merkingar dýra o.fl.
22. gr. Merkingar og skráningarskylda.
Skylt er að einstaklingsmerkja kanínur, ketti, hunda, geitur, hross, nautgripi, sauðfé og svín.
Matvælastofnun ber ábyrgð á að starfræktir séu gagnagrunnar um skráningu einstaklingsmerkja skv. 1. mgr. Stofnuninni er heimilt að fela öðrum starfrækslu gagnagrunns með samningi.
Við merkingu á dýrum skal nota aðferðir er valda sem minnstum sársauka og takmarka ekki eðlilegt atferli dýranna eða valda þeim óþarfa álagi.
Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um merkingar dýra þar sem m.a. yrði kveðið á um aldursmörk, skilyrði eða bann við merkingum eða merkingaraðferðum og undanþágur frá merkingarskyldu. Einnig skal þar kveðið á um skilyrði varðandi gagnagrunna, einstaklingsskráningar í gagnagrunna og umsjón með þeim.
23. gr. Slepping dýra út í náttúruna.
Óheimilt er að sleppa dýrum sem hafa alist upp hjá mönnum út í náttúruna í þeim tilgangi að þau verði þar til frambúðar. Þó er heimilt að sleppa seiðum og fiskum. Umráðamanni eða sveitarfélagi, sé umráðamaður ekki þekktur, er skylt að smala eða handsama dýr, önnur en villt dýr, sem ætla má að líði fyrir umhirðu- eða skjólleysi úti í náttúrunni.
24. gr. Handsömun dýra.
Ef dýr strjúka eða sleppa úr haldi skulu umráðamenn þeirra þegar gera ráðstafanir til að handsama þau. Viðkomandi sveitarfélagi er skylt að taka slík dýr í vörslu sína, lesa af einstaklingsmerkjum og gera þegar ráðstafanir til að hafa uppi á umráðamanni þeirra. Sveitarfélögum er skylt að hafa aðstöðu til að halda slík dýr. Sveitarfélagi er heimilt að innheimta áfallinn kostnað úr hendi umráðamanns samkvæmt gjaldskrá. Ef umráðamaður vitjar ekki dýrsins innan viku frá því að honum var tilkynnt um handsömun þess eða ef umráðamaður finnst ekki innan tveggja vikna er sveitarfélaginu heimilt að ráðstafa dýrinu eins og um hálfvillt dýr sé að ræða. Sveitarfélag telst umráðamaður dýra á meðan þau eru í vörslu þess.
Eftir tvo sólarhringa frá handsömun er sveitarfélagi heimilt að ráðstafa hálfvilltu dýri til nýs eiganda, selja það gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta.
Sveitarfélagi er heimilt að fela öðrum að framkvæma þær skyldur sem tilgreindar eru í 1. og 2. mgr. með sérstökum samningi.
Við handsömun dýra er óheimilt að beita aðferðum sem valda þeim limlestingum, kvölum eða óþarfa ótta. Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um hvaða aðferðir eru heimilar við handsömun dýra.
25. gr. Dreifing og merking dýraafurða.
Ráðherra er skylt að setja reglugerð um kröfur til merkinga á vörum unnum úr dýrum eða dýraafurðum á grundvelli sjónarmiða um velferð dýra. Þá getur ráðherra einnig sett ákvæði sem takmarka eða banna innflutning eða dreifingu dýraafurða sem eru framleiddar í andstöðu við lög þessi með þeim takmörkunum sem leiðir af alþjóðasamningum.
VII. kafli. Villt dýr.
26. gr. Föngun villtra dýra.
Óheimilt er að halda villt dýr. Umhverfisstofnun getur veitt leyfi til föngunar villtra dýra til nota við rannsóknir, fyrir söfn og dýragarða, til ræktunar og undaneldis eða annarra sambærilegra nota. Umhverfisstofnun skal afla umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands og Matvælastofnunar varðandi föngun á villtum dýrum áður en leyfi til þess er veitt.
Við föngun villtra dýra er óheimilt að beita aðferðum sem valda limlestingum eða kvölum.
Ráðherra setur í reglugerð skilyrði fyrir veitingu leyfis og kveður á um aðferðir við föngun og meðferð villtra dýra við flutning og vörslu. Jafnframt er ráðherra heimilt að kveða á um bann við föngun og vörslu tiltekinna tegunda villtra dýra með tilliti til sjónarmiða um velferð dýra.
27. gr. Veiðar.
Ávallt skal staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka og aflífun þeirra taki sem skemmstan tíma. Skylt er veiðimönnum að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aflífa þau dýr sem þeir hafa valdið áverkum.
Við veiðar er óheimilt að beita aðferðum sem valda dýri óþarfa limlestingum eða kvölum. Við veiðar á villtum dýrum skal að auki fara að fyrirmælum gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
Ráðherra setur í reglugerð, að höfðu samráði við ráðherra er fer með stjórn veiða, vernd og friðun villtra fugla og villtra spendýra, nánari ákvæði um aðferðir við veiðar.
28. gr. Meindýr.
Við eyðingu meindýra er óheimilt að beita aðferðum sem valda þeim óþarfa limlestingum eða kvölum. Tryggja skal að útrýmingarefni valdi ekki tjóni á öðrum dýrum en meindýrum.
Við eyðingu á meindýrum skal að auki fara að fyrirmælum gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Ráðherra setur í reglugerð, að höfðu samráði við ráðherra er fer með hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nánari ákvæði um aðferðir við eyðingu meindýra.
VIII. kafli. Aðbúnaður, umhverfi o.fl.
29. gr. Aðbúnaður dýra.
Umráðamaður dýra skal tryggja að dýr séu haldin í umhverfi sem samræmist sjónarmiðum um velferð dýra, m.a. hvað varðar öryggi þeirra og heilbrigði, og tekur tillit til bæði sérstakra þarfa dýrsins og séreinkenna tegundarinnar. Umhverfi dýra skal vera þannig, eftir því sem við á, að þau geti athafnað sig, hreyft sig, hvílst, notið útivistar, beitar eða viðhaft annað atferli sem þeim er eðlilegt.
Dýr skulu hafa skjól fyrir veðrum í samræmi við þarfir sínar þegar þau eru úti að staðaldri. Að vetri til skal sjá til þess að á staðnum sé húsaskjól eða annað öruggt og hentugt skjól fyrir öllum veðrum.
Þegar veitt eru leyfi samkvæmt öðrum lögum fyrir athöfnum sem geta haft neikvæð áhrif á líðan eða að öðru leyti á velferð dýra, t.d. sökum hávaða eða mengunar, skal taka tillit til sjónarmiða um velferð dýra í samræmi við ákvæði laga þessara.
Ráðherra setur í reglugerð nánari kröfur er lúta að aðbúnaði einstakra dýrategunda.
30. gr. Byggingar og búnaður.
Húsnæði, innréttingar, girðingar og annar búnaður sem ætlaður er dýrum skal þannig úr garði gerður að tekið sé tillit til þarfa og öryggis dýranna hvað varðar fóðrun, atferli, hreyfingu, rýmisþörf, hvíld og annan aðbúnað, svo sem loftgæði, lýsingu, hljóðvist og efnisnotkun. Einnig skal þess gætt að dýrum stafi engin slysahætta af aðstæðum sem þeim eru búnar eða hætta skapist á því að dýrin geti orðið innikróuð eða bjargarlaus í neyð.
Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um aðbúnað og meðferð dýra samkvæmt grein þessari.
31. gr. Skilyrði varðandi aðbúnað villtra dýra í dýragörðum.
Einungis er heimilt að hafa villt dýr í dýragörðum þegar aðbúnaður sem þeim er ætlaður er þess eðlis að dýrið geti aðlagast honum á fullnægjandi hátt með tilliti til sjónarmiða um velferð dýra.
Ráðherra skal setja reglugerð um kröfur um aðbúnað villtra dýra í dýragörðum. Í henni skal m.a. kveðið sérstaklega á um aðbúnað þeirra einstöku tegunda villtra dýra sem algengt er að haldin séu í dýragörðum hér á landi.
32. gr. Dýrahald, aðferðir og útbúnaður.
Hver sá sem heldur dýr ber ábyrgð á að starfsaðferðir, tæki, tól og hvers konar útbúnaður sem notaður er á dýr í umsjá hans séu ekki andstæð velferð dýra.
Hver sá sem kynnir starfsaðferðir er varða dýrahald eða dreifir tækjum, tólum og hvers konar útbúnaði varðandi dýrahald ber ábyrgð á að það sé ekki andstætt velferð dýra.
Matvælastofnun getur krafist upplýsinga og gagna frá hlutaðeigandi aðilum um að ákvæði 1. og 2. mgr. séu uppfyllt.
Ráðherra setur reglugerð um bann við eða takmörkun á dreifingu á starfsaðferðum, tækjum, tólum og hvers konar útbúnaði. Ráðherra er enn fremur heimilt að setja ákvæði í reglugerð með nánari fyrirmælum um mat og prófanir.
IX. kafli. Gjaldtaka o.fl.
33. gr. Gjaldtaka.
Matvælastofnun er heimilt að taka gjald samkvæmt gjaldskrá fyrir leyfisumsóknir, úttektir, eftirlit, eftirfylgni og vinnu við úrvinnslu tilkynninga skv. 12., 13., 18., 20., 22. og 26. gr.
Matvælastofnun gerir tillögu að slíkri gjaldskrá sem ráðherra staðfestir og er birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldið má ekki vera hærra en nemur kostnaði við umsýslu, úttektir, eftirlit og eftirfylgni.
X. kafli. Stjórnvaldsfyrirmæli og viðurlög.
34. gr. Heimildir Matvælastofnunar og skyldur umráðamanna.
Matvælastofnun er heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á hvern þann stað þar sem dýr eru haldin til að kanna aðstæður og aðbúnað þeirra og við beitingu þvingunarúrræða. Í því felst m.a. heimild til sýna- og myndatöku og skoðunar og ljósritunar gagna. Ekki er þó heimilt að fara í þessum tilgangi í íbúðarhús, útihús eða aðra þvílíka staði án samþykkis eiganda eða umráðamanns húsnæðisins nema að fengnum dómsúrskurði, sbr. þó 2. mgr. Fylgja skal ákvæðum laga um meðferð sakamála um leit og hald á munum.
Leiki grunur á að um sé að ræða alvarlegt brot gegn lögum þessum eða reglugerðum sem eru settar með stoð í þeim getur lögregla fyrirvaralaust tekið dýr úr vörslum eiganda eða umráðamanns samkvæmt ákvörðun Matvælastofnunar. Í þessu skyni er lögreglu rétt að fara inn í íbúðarhús, útihús eða aðra þvílíka staði án dómsúrskurðar ef brýn hætta er talin á að bið eftir úrskurði valdi dýrum þeim er í hlut eiga skaða.
Matvælastofnun er heimilt að framkvæma rannsókn skv. 1. og 2. mgr. með aðstoð lögreglu.
Við skoðun og eftirlit skal umráðamaður dýra veita án endurgjalds alla nauðsynlega aðstoð við eftirlitið, svo sem aðstoð starfsmanna, aðgang að húsakynnum og tækjabúnaði. Einnig ber að veita Matvælastofnun allar umbeðnar upplýsingar og afhenda öll þau gögn sem hafa þýðingu við eftirlitið. Aðrir opinberir aðilar sem búa yfir upplýsingum sem geta haft þýðingu við eftirlit skulu að beiðni Matvælastofnunar veita þær upplýsingar.
35. gr. Stöðvun starfsemi.
Matvælastofnun er heimilt að takmarka eða stöðva starfsemi þegar um alvarleg tilvik eða ítrekað brot er að ræða eða ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests. Við stöðvun starfsemi er heimilt að leita aðstoðar lögreglu.
36. gr. Dagsektir og úrbætur á kostnað umráðamanns.
Matvælastofnun er heimilt að beita dagsektum gagnvart umráðamanni. Kveða skal á um hámark dagsekta í reglugerð sem ráðherra setur. Dagsektir, að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu, renna í ríkissjóð og má innheimta með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar.
Matvælastofnun er heimilt að gera kröfur um úrbætur. Láti umráðamaður dýra ekki skipast við tilmæli Matvælastofnunar getur stofnunin látið vinna úrbætur á hans kostnað.
37. gr. Vörslusvipting dýra og haldlagning.
Matvælastofnun er heimilt að taka ákvörðun um að svipta umráðamann dýra vörslu þeirra, ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests, og sér Matvælastofnun um framkvæmd vörslusviptingar en er jafnframt heimilt að leita aðstoðar lögreglu. Við vörslusviptingu skal Matvælastofnun ákveða hvort dýrin skuli flutt burt eða þeim haldið þar sem þau eru. Matvælastofnun er heimilt að láta aflífa dýr sem stofnunin hefur umráð yfir vegna vörslusviptingar að liðnum tveimur sólarhringum takist hvorki stofnuninni né eiganda að finna viðeigandi aðstæður eða aðbúnað fyrir dýr. Matvælastofnun telst vera umráðamaður dýra á meðan vörslusvipting stendur yfir og er skylt að annast um þau og sjá um brottflutning á dýrum sem tekin hafa verið úr vörslu umráðamanns, auk þess sem hún ber ábyrgð á fóðrun, umhirðu og aðbúnaði dýranna, allt á kostnað umráðamanns. Matvælastofnun tekur ákvörðun um hvort aflétta skuli vörslusviptingu dýra eða ráðstafa þeim með öðrum hætti að virtum andmælarétti aðila máls þar sem honum skal gefinn kostur á að setja viðhlítandi tryggingu fyrir greiðslu á kostnaði við geymslu, fóður og umhirðu fyrir dýrin uns dómur fellur, sbr. 41. gr. Matvælastofnun skal ráðstafa dýrunum og getur látið bjóða dýr upp, selt þau til lífs eða slátrunar eða látið aflífa þau sé ekki unnt að ráðstafa þeim á annan hátt.
Matvælastofnun er heimilt að leggja hald á tæki og tól sem standast ekki kröfur 32. gr. til að koma í veg fyrir slæma meðferð á dýrum.
Sláturleyfishöfum er skylt að taka slík dýr án tafar til slátrunar óski Matvælastofnun þess.
38. gr. Úrbætur þola ekki bið.
Telji Matvælastofnun að úrbætur þoli enga bið getur stofnunin tekið dýr úr vörslu umráðamanns eða aflífað dýr sem hafa orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar. Framangreindar aðgerðir skulu gerðar í samráði við eða samkvæmt fyrirmælum lögreglu. Matvælastofnun er ekki skylt að veita andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögum þegar úrbætur þola enga bið.
Aflífun samkvæmt grein þessari skal framkvæmd af Matvælastofnun en henni er jafnframt heimilt að leita aðstoðar lögreglu. Sláturleyfishöfum er skylt að taka slík dýr án tafar til slátrunar óski Matvælastofnun þess.
39. gr. Tímabundið bann við dýrahaldi.
Telji Matvælastofnun það nauðsynlegt, til að stöðva eða koma í veg fyrir illa meðferð á dýrum, getur hún fyrirvaralaust og til bráðabirgða svipt umráðamann heimild til þess að hafa eða sjá um dýr þar til úrbætur hafa verið gerðar eða dómur fallið, sbr. 44. gr.
40. gr. Kostnaður af þvingunaraðgerðum.
Heimilt er að krefja umráðamann dýra og aðila sem er ábyrgur fyrir starfsemi sem lögin ná til um endurgreiðslu kostnaðar vegna 37.–39. og 44. gr. Kröfum um kostnaðarendurgreiðslu fylgir lögveð Matvælastofnunar og lögreglustjóra í dýrum. Lögveðið nær einnig til vaxta og innheimtukostnaðar af kröfunni ef því er að skipta. Þá er Matvælastofnun og lögreglu heimilt að innheimta kostnað vegna þvingunaraðgerða með fjárnámi án undanfarandi dóms eða sáttar. Ekki er skylt að greiða bætur til eiganda dýrs vegna aflífunar á dýrinu eða annarrar ráðstöfunar á því í samræmi við lögin.
41. gr. Ágreiningsefni um aðgerðir.
Nú vill umráðamaður dýrs ekki hlíta því að dýr sé tekið úr vörslu hans eða að hann sé til bráðabirgða sviptur heimild til að hafa eða sjá um dýr og getur hann þá borið ágreiningsefnið undir dómstóla, hvort sem er sérstaklega eða í sakamáli sem höfðað kann að vera á hendur honum. Slíkt frestar þó ekki aðgerðum eða framkvæmd slíkra ákvarðana skv. 37. gr. og 39. gr.
42. gr. Stjórnvaldssektir.
Matvælastofnun getur lagt stjórnvaldssektir á mann eða lögaðila sem brýtur gegn eftirfarandi ákvæðum og stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra:
a. banni skv. 6. gr.,
b. skyldu skv. 14. gr.,
c. banni skv. 15. gr.,
d. banni skv. 16. gr.,
e. skyldu skv. 17. gr.,
f. banni skv. 18. gr.,
g. banni skv. 19. gr.,
h. banni skv. 20. gr.,
i. skyldu og banni skv. 21. gr.,
j. banni skv. 23. gr.,
k. banni skv. 26. gr.,
l. banni skv. 27. gr.,
m. banni skv. 28. gr.,
n. skyldu skv. 29. gr.,
o. skyldu skv. 30. gr.,
p. skilyrði skv. 31. gr.,
q. skyldu skv. 32. gr.
Stjórnvaldssektir geta numið frá 10 þús. kr. til 1 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Matvælastofnun er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti. Skal upphæð stjórnvaldssektar þá ákveðin sem allt að tvöfaldur sá hagnaður sem aðili hefur aflað sér með broti gegn lögum þessum, þó aldrei hærri en 5 millj. kr. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Matvælastofnunar skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar og renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu.
Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort brot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Réttur þessi tekur þó ekki til synjunar um afhendingu dýra. Matvælastofnun skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
Heimild Matvælastofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
Nú vill aðili ekki una ákvörðun Matvælastofnunar um stjórnvaldssekt og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Mál skal höfða innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun Matvælastofnunar. Málshöfðun frestar hvorki réttaráhrifum ákvörðunar Matvælastofnunar né heimild til aðfarar.
Frestur skv. 5. mgr. rofnar þegar Matvælastofnun tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
Ekki skal beita öðrum refsiviðurlögum þegar stjórnvaldssekt er beitt.
43. gr. Leyfissvipting.
Matvælastofnun er heimilt að svipta leyfishafa leyfi sem gefið er út skv. 18. gr. verði hann ítrekað uppvís að því að vanrækja skyldur sem á honum hvíla samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum sem um reksturinn eða flutningana gilda eða brjóti hann að öðru leyti ítrekað gegn skilyrðum eða skilmálum leyfisins.
Áður en kemur til sviptingar skv. 1. mgr. skal Matvælastofnun senda leyfishafa viðvörun þar sem fram komi tilefni sviptingar og skal leyfishafa eftir atvikum gefinn frestur til að bæta úr annmörkum, sbr. 36. gr.
44. gr. Heimildarsvipting með dómi.
Hafi aðili gerst sekur um stórfellt eða ítrekað brot á lögum þessum eða reglugerðum sem eru settar með stoð í þeim má svipta hann með dómi heimild til að hafa dýr í umsjá sinni, versla með þau eða sýsla með þau með öðrum hætti. Sama gildir ef ljóst þykir að aðili hafi ekki getu til að annast dýr, sbr. 10. gr. Heimildarsvipting getur lotið að dýrum almennt eða einstökum tegundum og staðið tiltekið tímabil eða ævilangt. Ákæruvaldið getur haft uppi kröfu um heimildarsviptingu í sakamáli hvort sem krafist er refsingar á hendur sakborningi eða ekki. Sá sem sviptur er heimild samkvæmt þessari málsgrein og skeytir ekki dómi um heimildarsviptingu skal sæta sektum.
45. gr. Refsiábyrgð.
Það varðar mann sektum eða fangelsi allt að einu ári ef:
a. hann vanrækir tilkynningarskyldu skv. 8. gr.,
b. hann vanrækir umönnunarskyldur skv. 14. gr.,
c. hann brýtur gegn bannákvæðum skv. 15. gr.,
d. hann þjálfar dýr án þess að þau hafi til þess líkamlegt heilbrigði eða notar dýr í keppni og sýningar eða á annan hátt án þess að þau hafi til þess líkamlegt heilbrigði og hafi hlotið viðeigandi þjálfun,
e. hann meðhöndlar dýr sem eru notuð í keppni og sýningar eða á annan hátt með lyfjum sem deyfa sjúkdómseinkenni eða auka afkastagetu andstætt velferð þeirra,
f. hann beitir dýr sem eru notuð í keppni og sýningar eða á annan hátt meðferð sem veldur þeim skaða eða óþarfa ótta,
g. hann vanrækir skyldur til að tryggja dýrum aðbúnað skv. 29. gr. eða stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli hennar,
h. hann brýtur ákvæði 16., 18.–28., 31. og 32. gr. eða gegn stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra.
Nú er brot skv. 1. mgr. stórfellt eða ítrekað og skal maður þá sæta fangelsi allt að tveimur árum nema brot teljist meiri háttar svo að það varði refsingu skv. 174. gr. almennra hegningarlaga.
Brot skv. 1. og 2. mgr. varða mann refsiábyrgð ef þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Gera má lögaðila sekt vegna brots skv. 1. eða 2. mgr. óháð sök fyrirsvarsmanns lögaðilans, starfsmanns hans eða annars á hans vegum í starfsemi lögaðilans. Lögaðila verður gerð refsing þó að ekki verði staðreynt hver þessara aðila hafi átt í hlut. Refsiábyrgð stjórnvalda er bundin sömu skilyrðum, enda hafi verið framið brot skv. 1. eða 2. mgr. í starfsemi sem telst vera sambærileg starfsemi einkaaðila.
Tilraun til brota og hlutdeild í brotum skv. 1. og 2. mgr. eru manni refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Matvælastofnunar.
Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Matvælastofnun hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Matvælastofnun að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Matvælastofnun á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
Með kæru Matvælastofnunar skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Matvælastofnunar um að kæra mál til lögreglu.
Matvælastofnun er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 7. mgr.
Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Matvælastofnun í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 7. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Matvælastofnunar sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 7. mgr.
Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Matvælastofnunar til meðferðar og ákvörðunar.
46. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um framkvæmd laga þessara í reglugerð. 1)
1)Rg. 1160/2013.
XI. kafli. Gildistaka o.fl.
47. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2014. … Reglugerðir sem settar hafa verið með heimild í lögum nr. 15/1994, um dýravernd, sem og reglugerðir um aðbúnað og velferð dýra settar á grundvelli laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þær samrýmast lögum þessum. 1)
1)Sjá nú: Rg. 127/1958, sbr. 232/1968. Rg. 251/1995, sbr. 904/2001 og 701/2002. Rg. 635/1996. Rg. 504/1998, sbr. 246/1999 og 15/2000. Rg. 557/1998. Rg. 59/2000. Rg. 60/2000. Rg. 526/2001. Rg. 279/2002. Rg. 438/2002, sbr. 1319/2011. Rg. 743/2002, sbr. 231/2003. Rg. 1077/2004. Rg. 160/2006. Rg. 165/2007. Rg. 353/2011, sbr. 518/2012. Rg. 968/2011. Rg. 969/2011. Rg. 970/2011, sbr. 215/2012. Rg. 971/2011. Rg. 972/2011, sbr. 89/2012 og 183/2012. Rg. 973/2011, sbr. 182/2012. Rg. 974/2011. Rg. 975/2011, sbr. 336/2012. Rg. 1189/2011. Rg. 911/2012. Rg. 916/2012.
48. gr. Lagaskil.
Ef málsmeðferð hjá Matvælastofnun hefur hafist í tíð eldri laga gilda ákvæði laga þessara um meðferð máls eftir gildistöku þeirra. Gildir það þótt atvik þau sem mál er sprottið af hafi gerst að einhverju eða öllu leyti í tíð eldri laga.
49. gr. Breyting á öðrum lögum. …