Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. janúar 2016. Útgáfa 145a. Prenta í tveimur dálkum.
Tilskipun um ferminguna
1759 25. maí
1. Það skal vera aðalregla, að prestar megi eigi taka börn til fermingar, þau er fermast eiga, fyrr en þau eru orðin fullra 14 eða 15 ára, með því að börn, sem yngri eru, kunna sjaldan að meta rétt, eða hafa hugsun á að færa sér í nyt það er kennarar þeirra leiða þeim fyrir sjónir og brýna fyrir þeim, og skynja eigi, hve þýðingarmikill sáttmáli sá er, er þau í fermingunni endurnýja og staðfesta. Þó er þess að gæta um tímaákvörðun þessa, að börn, sem eiga að fara í langferðir, svo sem til Indlands eða Vesturheimseyja, má taka til fermingar, þó að hálft ár eða nokkuð meira skorti til þess að þau hafi náð greindum aldri, og eins er það, ef það ber við, að barn, sem eigi er orðið fullra 14 ára, verður hættulega sjúkt, og beiðist þess á sóttarsæng sinni, að mega njóta hins heilaga sakramentis, og hefir innilega þrá eftir því, þá skal það prestinum leyft vera, ef hann telur barnið vera vel upplýst, að veita því hluttöku í þessu sáluhjálparmeðali. En ef barninu batnar aftur, þá skal það þó hið fyrsta mæta fyrir söfnuðinum í kirkjunni og vera þar yfirheyrt opinberlega og fermt ásamt öðrum fermingarbörnum. Hvað þau börn áhrærir, sem eru í vist eða eiga að fara í vist eða læra handiðn einhverja, þá viljum Vér alvarlega banna húsbændum þeirra eða meisturum að draga nokkuð frá launum barnanna eða láta þau vera lengur að náminu en annars skyldi verið hafa, fyrir þá sök, að nokkur tími eyðist til uppfræðslu þeirra og undirbúnings undir fermingu. En þótt Vér viljum þannig allramildilegast setja þá reglu, að börn eigi ekki yfir höfuð að ferma fyrr en þau eru 14–15 ára gömul, þá viljum Vér þó eigi, að hlutaðeigendur skilji þetta svo, sem prestar með því séu skyldaðir til að taka börn til fermingar fyrir það, að þau eru svo gömul orðin, hvort sem þau hafa næga þekkingu til þess eður eigi; en það skal vera komið undir áliti hlutaðeigandi fræðara og ábyrgð, hvort slík börn eru nægilega uppfrædd og hæf til að takast til fermingar.
2. Vér viljum allramildilegast, að yfir höfuð sé búið að ferma ungmenni áður en þau eru fullra 19 ára, ef þau eru talin hæf til þess að þekkingu og öðru. Ef nokkur verður eldri ófermdur, skal hlutaðeigandi prestur tilkynna það prófasti, en hann aftur biskupi, og skýra frá ástæðunni til þess, að presturinn treystist eigi til þess að ferma slíkan ungling. Skal prófastur láta unglinginn koma fram til sín og yfirheyra hann sjálfur, og biskup leggja ráð á um, hvernig prestur eigi að haga sér eftirleiðis í því máli. En ef nokkur skyldi þykjast aflaga borinn í þessu efni af presti, þá er honum frjálst að kæra það fyrir yfirboðurum prests, prófasti eða biskupi. …
4. … og viljum Vér því allramildilegast, að þá er börn hafa fermd verið, þá neyti þau þegar næsta sunnudag eftir ferminguna altarissakramentisins, og skulu hlutaðeigandi prestar í því skyni láta unglingana koma til sín daginn fyrir, halda yfir þeim upphvatningarræðu og brýna fyrir þeim af nýju hinn þýðingarmikla sáttmála, er þeir svo nýlega hafa endurnýjað við guð, svo og útlista fyrir þeim, hvernig þeir eigi réttilega að búa sig undir hið mikla sáluhjálparmeðal, er þeir daginn eftir eiga að verða hluttakandi í.