Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. janúar 2016. Útgáfa 145a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn
2011 nr. 142 28. september
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 4. október 2011. Breytt með l. 21/2012 (tóku gildi 16. mars 2012) og l. 150/2012 (tóku gildi 3. jan. 2013).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við mennta- og menningarmálaráðherra eða mennta- og menningarmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr. Tilgangur og hlutverk.
Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er þjóðbókasafn og bókasafn Háskóla Íslands. Safnið er rannsóknarbókasafn og þekkingarveita fyrir alla landsmenn. Safnið sinnir virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu á sviði vísinda og fræða, stjórnsýslu og atvinnulífs og lista- og menningarmála.
Safnið er háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og heyrir undir [ráðherra]. 1)
1)L. 21/2012, 2. gr.
2. gr. Stjórn.
Ráðherra skipar sjö menn í stjórn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns til fjögurra ára í senn. Skulu tveir tilnefndir af háskólaráði Háskóla Íslands, einn af samstarfsnefnd háskólastigsins, einn af vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs, einn af Upplýsingu, félagi bókasafns- og upplýsingafræða, einn af starfsfólki Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og einn er skipaður án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í stjórn safnsins lengur en tvö samfelld starfstímabil.
Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna.
Stjórn safnsins er forstöðumanni þess, landsbókaverði, til ráðgjafar um stefnu safnsins og önnur málefni sem varða starfsemi þess. Stjórnin veitir landsbókaverði umsagnir um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir og skipulag safnsins.
Landsbókavörður situr fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétt.
3. gr. Landsbókavörður.
Ráðherra skipar landsbókavörð til fimm ára í senn, að fenginni umsögn stjórnar safnsins. Skal landsbókavörður hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði safnsins.
Landsbókavörður ákveður skipulag safnsins að fenginni umsögn stjórnar og annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri þess. Hann ræður starfsmenn og er í fyrirsvari fyrir safnið. Hann ber ábyrgð á rekstri safnsins og að starfsemi þess sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.
4. gr. Verkefni.
Hlutverk sitt rækir Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn einkum með því:
a. að annast alhliða upplýsinga- og þekkingarmiðlun til almennings, fræðimanna og annarrar vísinda- og fræðslustarfsemi í landinu með leiðsögn og aðgengi að upplýsingalindum í hvaða formi sem er,
b. að sinna þörfum kennslu og rannsóknarstarfsemi í Háskóla Íslands, öðrum háskólum landsins og vísinda- og fræðslustarfsemi í landinu með fjölþættri upplýsinga- og þekkingarmiðlun,
c. að efla aðgang að erlendum gögnum í þágu vísinda og fræða, stjórnsýslu og atvinnulífs, meðal annars með því að annast framkvæmd samninga um landsaðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum í samráði við helstu hagsmunaaðila,
d. að varðveita handritasöfn þau og einkaskjalasöfn sem stofnað hefur verið til og vinna að frekari söfnun og rannsóknum á íslenskum handritum og einkaskjölum og samsvarandi efni á nýrri miðlum,
e. að þaulsafna íslenskum gögnum, m.a. með viðtöku skylduskila samkvæmt lögum, svo og að afla erlendra gagna er varða íslensk málefni, skrá þau, veita aðgang að þeim og varðveita til framtíðar,
f. að vinna að rannsóknum og veita aðstoð við rannsóknir á sviði bókfræði, bóksögu og bókasafns- og upplýsingafræði og veita upplýsingar um íslenska útgáfustarfsemi,
g. að stuðla að samstarfi, samræmingu og þróun starfshátta bókasafna og veita þeim faglega ráðgjöf,
h. að sinna öðrum þeim verkefnum sem tengjast starfsemi safnsins samkvæmt nánari ákvörðun landsbókavarðar í samráði við stjórn.
5. gr. Samstarf við Háskóla Íslands og aðra háskóla.
Samstarf Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Háskóla Íslands skal byggjast á sérstökum samstarfs- og þjónustusamningi.
Safninu er heimilt að veita öðrum háskólum landsins þjónustu eftir því sem nánar er ákveðið í gagnkvæmum þjónustusamningum við einstaka háskóla.
6. gr. Fjárhagsmálefni.
Kostnaður við rekstur Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns greiðist úr ríkissjóði. Framlagið er ætlað til lögbundinna verkefna safnsins, sbr. 4. gr. Þá skal hluti af fjárveitingum til Háskóla Íslands renna árlega til safnsins samkvæmt samstarfs- og þjónustusamningi milli safnsins og háskólans, sbr. 5. gr.
Safninu er heimilt að gera samninga við stofnanir og aðra aðila um samstarf eða þjónustu.
7. gr. Samningar.
Landsbókaverði er heimilt að fenginni umsögn stjórnar Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns að gera þjónustusamninga um afmarkaða þætti í starfsemi safnsins.
Enn fremur getur safnið með samþykki [ráðuneytisins] 1) gert samkomulag við aðrar stofnanir um að litið sé á gagnakost þeirra sem hluta af safninu.
1)L. 21/2012, 2. gr.
8. gr. Gjaldtökuheimildir.
[Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni er heimilt að innheimta gjöld fyrir þjónustu sína, svo sem útlánastarfsemi, millisafnalán, afritun, fjölföldun, ljósmyndun, sérfræðilega heimildaþjónustu, heimildaleit í gagnagrunnum og útlán á sérstökum safnkosti.
Landsbókavörður setur gjaldskrá um alla gjaldtöku skv. 1. mgr. að fenginni umsögn stjórnar. Umrædd gjöld skulu ekki vera hærri en raunkostnaður safnsins vegna þjónustunnar og er ætlað að standa straum af eftirfarandi kostnaðarþáttum við hana:
a. launum starfsfólks sem sinnir þjónustunni,
b. sérstökum efniskostnaði vegna þjónustunnar.
Safninu er heimilt að innheimta dagsektir fyrir afnot safnefnis fram yfir skilafrest og bætur fyrir safnefni sem glatast eða skemmist í meðförum notenda. Landsbókavörður setur reglur um innheimtu dagsekta og bóta að fenginni umsögn stjórnar. Skal í þeim kveðið á um að dagsektir sem lagðar eru á hvern lánþega vegna tiltekins safnefnis, eða bætur sem innheimtar eru vegna þess, megi mest nema innkaupsverði viðkomandi efnis. Þá er heimilt að mæla fyrir um að sé safnefni ófáanlegt skuli verð metið að álitum og það mat lagt til grundvallar við ákvörðun bóta eða sekta, eftir atvikum með allt að 50% álagi á sektir eða bætur ef um mikilvægt efni er að ræða.
Gjaldskrá skv. 2. og 3. mgr. skal birta notendum á aðgengilegan hátt.] 1)
1)L. 150/2012, 24. gr.
9. gr. Grisjun.
Heimilt er að grisja efniskost safnsins og farga eða ráðstafa til annarra aðila því efni sem safnið telur sig ekki lengur þurfa á að halda. Landsbókavörður setur reglur um slíka grisjun í samráði við stjórn safnsins.
10. gr. Reglugerð.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð 1) nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.
1)Rg. 170/2014.
11. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi. …
Ákvæði til bráðabirgða. Lög þessi fela ekki í sér breytingar á stöðu og réttindum starfsmanna Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.