Lagasafn.  Íslensk lög 20. apríl 2022.  Útgáfa 152b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um prentrétt

1956 nr. 57 10. apríl


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 24. apríl 1956. Breytt með: L. 31/1990 (tóku gildi 1. júlí 1992). L. 23/1991 (tóku gildi 17. apríl 1991). L. 91/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992). L. 92/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 103. gr. sem tók gildi 9. jan. 1992). L. 133/1993 (tóku gildi 1. jan. 1994; EES-samningurinn: V. viðauki tilskipun 64/221/EBE, VII. viðauki tilskipun 67/43/EBE, V. viðauki tilskipun 68/360/EBE og 72/194/EBE, VIII. viðauki tilskipun 73/148/EBE, 75/34/EBE og 75/35/EBE, VII. viðauki tilskipun 77/249/EBE og 89/48/EBE, VIII. viðauki tilskipun 90/364/EBE, 90/365/EBE og 90/366/EBE). L. 82/1998 (tóku gildi 1. okt. 1998). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 38/2011 (tóku gildi 21. apríl 2011; EES-samningurinn: X. viðauki tilskipun 89/552/EBE).


I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr.
Rit samkvæmt lögum þessum telst hvert það rit, sem prentað er eða letrað á annan vélrænan eða efnafræðilegan hátt. Til rita teljast og uppdrættir, teikningar og myndir, þótt ekki sé á letrað mál, svo og nótur, ef letrað mál fylgir.
[Lög þessi taka ekki til rita sem teljast til fjölmiðla samkvæmt lögum um fjölmiðla.] 1)
    1)L. 38/2011, 65. gr.
2. gr.
Ákvæði laga þessara taka einungis til rits, sem gefið hefur verið út. Rit telst vera gefið út hér á landi, þegar það hefur verið afhent til sölu eða dreifingar á annan hátt.
3. gr.
Útgefandi rits, sem prentað er hér á landi, skal nafngreina sig á hverju eintaki þess.
Ef útgefandi ræður ritstjóra, einn eða fleiri, að riti, skal hver þeirra einnig nafngreina sig á ritinu.
Nú er nafngreining samkvæmt 1. eða 2. mgr. vanrækt eða rangt frá skýrt, og varðar það sektum eða [fangelsi allt að 2 árum], 1) ef miklar sakir eru.
    1)L. 82/1998, 153. gr.

II. kafli. Prentarar og prentsmiðjur.
4. gr.
Hverjum þeim, er starfrækir prentsmiðju hér á landi eða starfsstöð, þar sem rit eru letruð með öðrum þeim hætti, er getur í 1. gr. laga þessara, er skylt, í síðasta lagi tveim vikum áður en nokkurt rit er látið af hendi úr prentsmiðjunni, að tilkynna lögreglustjóra í umdæminu starfrækslu prentsmiðjunnar, nafn sitt eða firma svo og nákvæmt heimilisfang. Á sama hátt skal tafarlaust tilkynna lögreglustjóra, ef breyting verður á nafni, firma eða heimilisfangi.
5. gr.
Sá, sem annast prentun eða letrun rits hér á landi, skal á hverju eintaki ritsins geta nafns síns eða firma, prentstaðar og prentárs.
Ákvæði 1. mgr. tekur ekki til þeirra eintaka, þótt prentuð séu eða letruð, sem getur í 7. gr. laganna.
6. gr.
Samtímis því, sem rit, sex arkir að stærð eða minna, er gefið út, er þeim, sem annast prentun þess eða letrun, skylt að afhenda lögreglustjóra í umdæminu eitt eintak ritsins. Ef lögreglustjóra þykir ástæða til, getur hann þó krafist afhendingar á eintaki stærra rits.
Eintak þetta skal vera óskert og að öðru leyti í sömu mynd og eintök þau, sem ætluð eru til sölu eða dreifingar.
Ákvæði 1. mgr. tekur ekki til eintaka þeirra, er getur í 7. gr., eða tilkynninga frá opinberum stjórnvöldum.
7. gr.
Sérákvæði 2. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 6. gr. taka til póstkorta og mynda, nafn- og þakkarspjalda, boðskorta, vörumiða, eyðublaða og annarra slíkra eintaka, þótt prentuð séu eða letruð, er ætla má, að geti ekki falið í sér ólögmætt efni.
8. gr.
Nú er tilkynning samkvæmt 4. gr. vanrækt eða rangt frá skýrt, vanrækt að greina atriði þau, er í 5. gr. getur, eða rangt frá skýrt, eða brotið gegn ákvæðum 6. gr., og varðar það þá sektum eða [fangelsi allt að 2 árum], 1) ef miklar sakir eru.
Ef nafngreining samkvæmt 5. gr. skortir eða rangt er frá skýrt og ekki verður leitt í ljós, hver hefur prentað eða letrað ritið, ber útgefandi rits refsiábyrgð samkvæmt 1. mgr.
    1)L. 82/1998, 153. gr.

III. kafli. Útgáfa blaða og tímarita.
9.–10 gr.1)
    1)L. 38/2011, 65. gr.

IV. kafli. Dreifing rita.
11. gr.
Hverjum [manni eða ópersónulegum aðila, sem á heimili hér á landi], 1) er rétt sjálfum eða með aðstoð annarra að annast sölu eða dreifingu rits með öðrum hætti.
    1)L. 133/1993, 9. gr.
12. gr.
Sá, sem hefur til sölu eða dreifingar rit, sem skortir nafngreiningu skv. 3. gr. eða 5. gr., eða veit, að rangt er skýrt frá þeim atriðum, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 2 árum], 1) ef miklar sakir eru.
    1)L. 82/1998, 153. gr.

V. kafli. Ábyrgð á efni rita.
13. gr.
Hver sá, sem birtir eða dreifir eða á hlut að birtingu eða dreifingu annars rits en blaðs eða tímarits, ber refsi- og fébótaábyrgð samkvæmt almennum reglum laga, ef efni ritsins brýtur í bága við lög.
14.–17. gr.1)
    1)L. 38/2011, 65. gr.

VI. kafli. Leiðréttingarskylda útgefanda (ritstjóra).
18.–22 gr.1)
    1)L. 38/2011, 65. gr.

VII. kafli. Rit, sem prentuð eru erlendis.
23. gr.
Nú er rit, sem prentað er erlendis, flutt til landsins, og getur þá lögreglustjóri í umdæmi því, sem ritið er fyrst flutt í, krafist afhendingar á einu eintaki þess með þeim hætti, er getur í 6. gr.
Skylda til afhendingar rits samkvæmt 1. mgr. hvílir á þeim, sem afhendir það til sölu eða dreifingar hér á landi.
Brot gegn ákvæðum greinar þessarar varðar sektum eða [fangelsi allt að 2 árum], 1) ef miklar sakir eru.
    1)L. 82/1998, 153. gr.
24. gr.
Ákvæði 13. gr. gilda um ábyrgð á efni allra rita, sem prentuð eru erlendis og gefin út hér á landi.
25. gr.
Um rit, sem prentuð eru erlendis og gefin út hér á landi, gilda að öðru leyti ákvæði 1. gr., 7. gr. og 11. gr. laga þessara, eftir því sem við á.
26. gr.
[Ríkissaksóknari] 1) getur fengið lagt lögbann við sölu eða dreifingu hérlendis á riti, sem prentað er erlendis, ef talið er, að efni þess varði við lög. Lögbann verður lagt á hjá þeim, sem hefur ritið til sölu eða dreifingar. Nú er eigi vitað, hver sá er, og má þá leggja lögbannið á hjá hverjum þeim, er hefur ritið í vörslum sínum. Um framkvæmd lögbanns þessa fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga … 2) um kyrrsetningu og lögbann.
    1)L. 92/1991, 34. gr. 2)L. 31/1990, 44. gr.
27. gr.
Nú skal gert upptækt rit, sem flutt hefur verið til landsins, og má þá ákveða í dómi, að ritið skuli sent úr landi innan tiltekins frests, að viðlagðri upptöku, ef ákvörðun þessari verður ekki sinnt.

VIII. kafli. Ákvæði um upptöku, málsmeðferð og gildistöku laganna.
28. gr.
Nú er rit gert upptækt samkvæmt ákvæðum 69. gr. almennra hegningarlaga, og skal þá með fara, eins og hér segir:
   Ef upptaka byggist eingöngu á tilteknum hluta rits, skal greina hann í dómi, og ber þá, eftir því sem unnt er og á kostnað dómþola, að greina hina hlutana frá og skila þeim aftur.
   Upptaka getur einnig tekið til prentstafa þeirra, mynda og annars, sem notað hefur verið til að framkvæma prentunina eða letrunina.
29. gr.
Nú hefur rit verið gert upptækt með dómi, hald lagt á það [eftir reglum laga um meðferð [sakamála] 1)] 2) eða sala þess og dreifing verið bönnuð hér á landi, og ber [ríkissaksóknara] 2) þá tafarlaust að láta birta dóminn eða ákvörðunina í Lögbirtingablaðinu. Ef upptaka, hald eða lögbann er fellt úr gildi, ber að birta þá ákvörðun með sama hætti.
    1)L. 88/2008, 234. gr. 2)L. 92/1991, 34. gr.
30. gr.
Sala eða önnur dreifing prentaðs rits er bönnuð, þegar birting um ákvörðun samkvæmt 29. gr. hefur farið fram eða þegar aðilja er fyrr kunnugt um upptöku, hald eða lögbann.
Brot gegn ákvæðum 1. mgr. varðar sektum eða [fangelsi allt að 2 árum], 1) ef miklar sakir eru.
    1)L. 82/1998, 153. gr.
31. gr.1)
    1)L. 38/2011, 65. gr.