Lagasafn.  Íslensk lög 20. apríl 2022.  Útgáfa 152b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl.

1963 nr. 69 12. desember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Samkvæmt fyrirmælum í augl. B 224/1963 skyldu lögin öðlast gildi gagnvart þeim ríkjum sem talin eru upp í 1. mgr. 1. gr. hinn 1. janúar 1964. Lögin voru hins vegar ekki birt fyrr en 15. janúar 1964. Breytt með: L. 82/1998 (tóku gildi 1. okt. 1998). L. 15/2000 (tóku gildi 28. apríl 2000). L. 70/2006 (tóku gildi 30. júní 2006). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 12/2010 (tóku gildi 16. okt. 2012 skv. augl. A 106/2012). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 145/2013 (tóku gildi 1. febr. 2014 nema 2.–4. mgr. 24. gr. sem tóku gildi 1. júní 2014). L. 51/2016 (tóku gildi 14. júní 2016 að því er varðar norræna handtökuskipun, en að því er varðar evrópska handtökuskipun taka lögin gildi við gildistöku samnings milli Evrópusambandsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Fullnusta sektarrefsinga o.fl.
1. gr.
Fullnægja má hér á landi sektarrefsingu, sem aðila hefur verið gerð í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.
Sama gildir um ákvarðanir, sem varða upptöku eignar, sakarkostnað í … 1) refsimálum og einkarefsimálum og hald á eignum grunaðs manns til tryggingar sektargreiðslu, eignarupptöku, skaðabótum, miskabótum eða sakarkostnaði í refsimálum.
    1)L. 88/2008, 234. gr.
2. gr.
Fullnægja má í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð ákvörðunum, sem gerðar hafa verið hér á landi og eru sams konar þeim, sem í 1. gr. getur.

II. kafli. [Fullnusta fangelsisdóma o.fl.]1)
    1)L. 82/1998, 159. gr.
3. gr.
Fullnægja má hér á landi dönskum dómum um „fængsel“ og „hæfte“, finnskum dómum um „tukthus“ og „fängelse“, norskum dómum um „fengsel“ og „hefte“ og sænskum dómum um „straffarbete“ og „fängelse“, enda sé dómfelldi íslenskur ríkisborgari eða heimilisfastur hér á landi, þegar fullnusta skal fram fara. Sama gildir, ef dómfelldi er staddur hér á landi og haganlegast þykir að fullnægja dóminum hér.
Ákvæði 1. mgr. taka einnig til þess, eftir því sem við á, er afplána skal fésekt með [fangelsisrefsingu]. 1)
    1)L. 82/1998, 159. gr.
4. gr.
[Fullnusta skal refsingu skv. 3. gr. í fangelsi að íslenskum lögum um jafnlangan tíma.] 1)
    1)L. 82/1998, 159. gr.
[4. gr. a.
Hafi dómþoli komið sér undan fullnustu refsingar að hluta til eða í heild með því að flýja til landsins er heimilt eftir beiðni frá til þess bæru stjórnvaldi í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð að úrskurða dómþola í gæsluvarðhald til að tryggja nærveru hans þar til fullnægjandi gögn með beiðni um fullnustu refsingar hafa borist eða ákvörðun um hvort fallist verði á beiðni er tekin. Í stað gæsluvarðhalds má beita úrræðum [100. gr. laga um meðferð sakamála] 1) ef slík úrræði teljast fullnægjandi til að tryggja nærveru dómþola.] 2)
    1)L. 88/2008, 234. gr. 2)L. 15/2000, 2. gr.
5. gr.
Fangelsisrefsingu …, 1) sem dæmd hefur verið hér á landi, má fullnægja í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, enda sé dómfelldi ríkisborgari viðkomandi lands eða eigi þar heimilisfang, þegar fullnusta skal fram fara. Sama gildir, ef dómfelldi er staddur í viðkomandi landi og haganlegast þykir að fullnægja dóminum þar.
Ákvæði 1. mgr. taka einnig til þess, eftir því sem við á, er afplána skal fésekt með [fangelsisrefsingu]. 1)
    1)L. 82/1998, 159. gr.
6. gr.
[Nú er maður fluttur samkvæmt ákvæðum 5. gr. til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar til að afplána fangelsisrefsingu þar og gilda þá ákvæði laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar um málsmeðferð, fullnustu refsingar og um afhendingu og áframhaldandi framsal fyrir aðra verknaði sem framdir eru fyrir afhendinguna.] 1)
    1)L. 51/2016, 43. gr.

III. kafli. Umsjón með mönnum, sem dæmdir hafa verið skilorðsbundnum dómi.
7. gr.
Ákveða má, að umsjón fari fram hér á landi með mönnum, sem umsjón skulu sæta samkvæmt skilorðsbundnum refsidómum, er upp hafa verið kveðnir í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð. Skilyrði, sem sett eru í hinum skilorðsbundna dómi, skulu þá hafa gildi hér á landi, eftir því sem við getur átt.
8. gr.
Nú hefur umsjón verið ákveðin eftir 7. gr., og skal þá, eftir því sem við á, beita ákvæðum VI. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955. Ef dómstóll ákveður fullnustu refsingar samkvæmt skilorðsbundnum dómi, fer um [refsingu] 1) eftir reglum 4. gr.
    1)L. 82/1998, 159. gr.
9. gr.
Nú hefur maður, sem dæmdur hefur verið skilorðsbundnum refsidómi í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, orðið sannur að sök hér á landi um refsivert atferli, og er þá heimilt, enda þótt umsjón hafi ekki verið ákveðin hér eftir 7. gr., að dæma bæði málin í einu lagi eftir reglum 3. og 4. málsl. 60. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955.
10. gr.
[Ráðherra] 1) er heimilt þegar atvik mæla með því, að fela þar til bærum opinberum aðila í því landi, þar sem skilorðsdómur var upp kveðinn, að veita úrlausnir í málum, þegar til álita kemur eftir ákvæðum 8. og 9. gr. að breyta skilorðsbundnum dómi.
    1)L. 126/2011, 38. gr.
11. gr.
Umsjón og aðrar ráðstafanir, sem ákveðnar hafa verið í skilorðsbundnum refsidómi, upp kveðnum hér á landi, má framkvæma í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.
Nú hafa opinberir aðilar í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð tekið við umsjón með dómfelldum manni samkvæmt 1. mgr., og koma þá ákvæði íslenskra hegningarlaga um skilorðsbundna refsidóma því aðeins til framkvæmdar, að dómfelldi verði sannur að sök hér á landi um refsivert atferli, eða að þar til bær opinber aðili í einhverju áðurgreindra ríkja feli íslenskum dómstóli að veita úrlausn um breytingu á hinum skilorðsbundna dómi.
Ef þar til bær opinber aðili í því landi, sem tekið hefur við umsjóninni, ákveður lengingu skilorðstímans eða breytingu á öðrum skilyrðum, sem mælt eru í dóminum, hafa slíkar ákvarðanir gildi hér á landi.
12. gr.
Ákvarðanir, sem teknar eru í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð um fullnustu refsingar fyrir verknað, sem skilorðsbundinn dómur hefur gengið um hér á landi, skulu hafa sömu réttaráhrif og samsvarandi ákvarðanir, sem gerðar eru eftir reglum íslenskra hegningarlaga.
Nú hefur maður, sem hlotið hefur hér á landi skilorðsbundinn refsidóm, verið dæmdur í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð fyrir refsivert atferli, framið á skilorðstímanum, en ekki hefur í hinum nýja dómi verið haggað við ákvæðum skilorðsbundna dómsins, og skal þá, eftir því sem við á, beita reglum 59. og 60. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 6. og 7. gr. laga nr. 22/1955.

IV. kafli. [Umsjón með mönnum sem fengið hafa reynslulausn.]1)
    1)L. 82/1998, 159. gr.
13. gr.
Heimilt er að koma á umsjón hér á landi með mönnum, sem hlotið hafa reynslulausn, eftir að hafa tekið út [fangelsisrefsingu] 1) í „fængsel“ í Danmörku, „tukthus“ eða „fängelse“ í Finnlandi, „fengsel“ í Noregi eða „straffarbete“ eða „fängelse“ í Svíþjóð.
    1)L. 82/1998, 159. gr.
14. gr.
Nú hefur umsjón samkvæmt 13. gr. verið ákveðin og koma þá til framkvæmdar um hana, eftir því sem við á, reglur [laga um fullnustu refsinga] 1) um reynslulausn úr fangelsi.
Heimilt er [ráðherra], 2) þegar sérstakar ástæður mæla með því, að fella niður eitt eða fleiri settra skilyrða, eða setja ný í þeirra stað, er svari til hinna settu skilyrða, eftir því, sem við verður komið.
Nú hefur verið tekin lögmæt ákvörðun um, að viðkomandi maður skuli taka út refsingu þá, sem eftir stendur, og fer þá um [refsingu] 3) eftir reglum 4. gr.
    1)L. 145/2013, 13. gr. 2)L. 162/2010, 99. gr. 3)L. 82/1998, 159. gr.
15. gr.
Ef maður, sem fengið hefur reynslulausn í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, verður hér á landi dæmdur sekur um refsivert atferli, má láta hann taka út refsingu þá, sem eftir stendur, og fer um það eftir reglum almennra hegningarlaga um reynslulausn. Skiptir hér ekki máli, þó að umsjón samkvæmt 13. gr. hafi ekki verið ákveðin.
16. gr.
[Ráðherra] 1) er heimilt, þegar atvik mæla með því, að fela þar til bærum opinberum aðila í því landi, þar sem reynslulausn var veitt, að taka ákvarðanir um málefni, sem varða brot á skilyrðum fyrir reynslulausn.
    1)L. 162/2010, 99. gr.
17. gr.
Umsjón með mönnum, sem fengið hafa reynslulausn úr fangelsi hér á landi, má framkvæma í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Nú hafa opinberir aðilar í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð tekið við umsjón samkvæmt 1. mgr. með manni, sem reynslulausn hefur hlotið, og koma þá ákvæði íslenskra hegningarlaga um brot gegn reynslulausnarskilyrðum því aðeins til framkvæmdar, að viðkomandi maður verði sannur að sök hér á landi um refsivert atferli, eða að þar til bær opinber aðili í því landi, sem umsjón hefur á hendi, feli [ráðherra] 1) að taka ákvarðanir varðandi önnur brot á skilyrðum.
Ef þar til bær opinber aðili í því landi, sem tekið hefur við umsjóninni, breytir skilyrðum reynslulausnar, skulu þær ákvarðanir hafa gildi hér á landi.
    1)L. 126/2011, 38. gr.
18. gr.
Ákvarðanir, sem teknar eru í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, um að maður, sem reynslulausn hefur hlotið hér á landi, skuli að nýju settur í [fangelsi], 1) skulu hafa sömu réttaráhrif og samsvarandi ákvarðanir, sem gerðar eru eftir reglum íslenskra hegningarlaga.
    1)L. 82/1998, 159. gr.

V. kafli. Umsjón með mönnum, sem fengið hafa skilorðsbundna náðun.
19. gr.
Nú hefur maður hlotið uppgjöf á [fangelsisrefsingu] 1) að öllu eða nokkru leyti með náðun, en það skilyrði sett, að hann skuli háður umsjón, og gilda þá ákvæði 13.–16. gr. og 1. mgr. 17. gr., eftir því sem við á.
    1)L. 82/1998, 159. gr.

VI. kafli. Almenn ákvæði.
20. gr.
Fullnusta refsingar o.fl. og ákvörðun um umsjón hér á landi samkvæmt 1., 3., 7., 13. og 19., sbr. 13. gr., kemur því aðeins til framkvæmdar, að tilmæli um það komi frá þar til bærum opinberum aðila í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð. [Ráðherra] 1) ákveður, hvort verða skuli við tilmælunum. [Ráðherra er heimilt að fela lögreglustjóra, Fangelsismálastofnun ríkisins eða öðrum aðila á landsvísu að ákveða hvort verða skuli við tilmælum skv. 1., 3., 7. og 13. gr., 2. mgr. 14. gr. og 19. gr. 2)] 3)
    1)L. 162/2010, 99. gr. 2)Rg. 664/2006, sbr. 1152/2014. 3)L. 145/2013, 14. gr.
21. gr.
Tilmæli, sem um getur í 20. gr., verða því aðeins tekin til greina, að fullnægja megi ákvörðun þeirri, sem tilmælin lúta að, í því landi, þar sem hún var gerð.
22. gr.
[Ákvörðun um að maður skuli taka út fangelsisrefsingu eða sæta umsjón hér á landi samkvæmt lögum þessum er endanleg og verður ekki kærð til ráðherra. Hægt er að bera lögmæti ákvörðunarinnar undir dómstóla og skal þá fara eftir reglum laga um meðferð sakamála.] 1)
Þó að ákvörðun sé borin undir dómstóla samkvæmt framansögðu, frestar það ekki framkvæmd hennar, nema svo verði ákveðið í dómsúrskurði.
    1)L. 145/2013, 15. gr.
23. gr.
Fullnusta refsingar o.s.frv. eftir 1. og 3. gr. skal fara fram í samræmi við fyrirmæli íslensks réttar.
Reglur íslensks réttar um reynslulausn og náðun skulu einnig koma til greina, eftir því sem við á.
24. gr.
Eftir að fullnusta refsingar eða umsjón hefur verið ákveðin hér á landi samkvæmt lögum þessum, verður saksókn til refsingar ekki höfðuð fyrir verknað, sem um er fjallað í ákvörðun þeirri, sem tekin hefur verið í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.
25. gr.
Um kostnað af ráðstöfunum, sem gerðar eru eftir lögum þessum hér á landi á grundvelli ákvarðana, sem teknar hafa verið í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, fer eftir sömu reglum og um kostnað af samsvarandi ráðstöfunum, sem framkvæmdar eru eftir ákvörðunum, sem teknar hafa verið hér á landi.
26. gr.
[Ráðuneytið] 1) ber fram tilmæli til stjórnvalda í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð um fullnustu refsingar o.fl. og um framkvæmd umsjónar eftir ákvæðum 2., 5., 11., 17. eða 19., sbr. 17. gr. laga þessara. [Ráðherra er heimilt að fela lögreglustjóra, Fangelsismálastofnun ríkisins eða öðrum aðila á landsvísu að bera fram tilmæli eftir ákvæðum 2., 5., 11., 17. og 19. gr. 2)] 3)
    1)L. 162/2010, 99. gr. 2)Rg. 664/2006, sbr. 1152/2014. 3)L. 145/2013, 16. gr.
27. gr.
[Ráðherra] 1) ákveður, hvenær lög þessi koma til framkvæmdar gagnvart hverju einstöku ríki, sem í 1. gr. getur.
    1)L. 162/2010, 99. gr.