Lagasafn.  Íslensk lög 20. apríl 2022.  Útgáfa 152b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Lýðveldissjóð

1994 nr. 125 12. nóvember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 14. nóvember 1994. Breytt með: L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við forsætisráðherra eða forsætisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Lýðveldissjóður er stofnaður í tilefni 50 ára afmælis lýðveldisins. Hann er eign ríkisins. Varsla hans og dagleg umsýsla heyrir undir [það ráðuneyti er fer með málefni er varða stjórnskipan lýðveldisins Íslands]. 1) Starfstími sjóðsins er frá ársbyrjun 1995 til ársloka 1999.
    1)L. 126/2011, 200. gr.
2. gr.
Hlutverk sjóðsins er tvíþætt: að stuðla að rannsóknum á lífríki sjávar og að efla íslenska tungu.
3. gr.
Alþingi skal fyrir árslok 1994 kjósa sjóðnum þriggja manna stjórn.
Stjórnin skal staðfesta rannsóknaáætlun fyrir verkefni í vistfræðirannsóknum á lífríki sjávar og reglur um stjórn verkefnisins, svo og um þátttöku vísindamanna og stofnana í því.
Enn fremur skal sjóðstjórnin skipta því fé sem er til ráðstöfunar til eflingar íslenskri tungu og samþykkja verkefnaáætlun.
Sjóðstjórn skal semja greiðsluáætlun fyrir sjóðinn ár hvert og fylgjast með framvindu verkefna sem unnin eru með fé úr sjóðnum.
Stjórnin skal gangast fyrir vali á þriggja manna verkefnisstjórnum er hafi á hendi faglega yfirstjórn verkefnaáætlana um lífríkisrannsóknir og eflingu íslenskrar tungu.
4. gr.
Ríkissjóður skal samkvæmt sérstökum lið á fjárlögum leggja sjóðnum til 100 millj. kr. fyrir hvert starfsár. Heildarfjárveiting á starfstíma sjóðsins skal skiptast jafnt á milli þeirra tveggja verkefna sem sjóðnum eru falin.
5. gr.
Lýðveldissjóður er undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum til ríkissjóðs eða sveitarsjóðs eða annarra stofnana.
6. gr.
Nánari ákvæði um skipulag sjóðsins og framkvæmd laga þessara má setja með reglugerð að höfðu samráði við forsætisnefnd Alþingis.
7. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.