Lagasafn.  Íslensk lög 20. apríl 2022.  Útgáfa 152b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um heimild til fjárhagslegrar fyrirgreiðslu úr ríkissjóði í tengslum við málshöfðun fyrir erlendum dómstólum vegna íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana erlendra stjórnvalda á tímabilinu 1. október til 1. desember 2008

2008 nr. 172 29. desember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 2009. Breytt með: L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við fjármála- og efnahagsráðherra eða fjármála- og efnahagsráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
[Þeim ráðherra er fer með fjárreiður ríkisins er samkvæmt lögum þessum heimilt, fyrir hönd íslenska ríkisins, að veita fjárhagslega fyrirgreiðslu til að standa undir kostnaði af undirbúningi og rekstri dómsmála, sem kveðið er á um í 2. gr., fyrir erlendum dómstólum.] 1)
Fyrirgreiðsla sú sem mælt er fyrir um í 1. mgr. skal byggjast á samningi milli aðila og getur meðal annars falið í sér beinan fjárhagslegan styrk, lánveitingu eða fjárhagslega aðstoð að öðru leyti.
    1)L. 126/2011, 504. gr.
2. gr.
Skilyrði fyrir veitingu fjárhagslegrar fyrirgreiðslu skv. 1. gr. eru eftirfarandi:
    a. að fyrirhuguð málshöfðun lúti með einhverjum hætti að lögmæti íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunar eða stjórnvaldsathafnar erlends stjórnvalds á tímabilinu 1. október til 1. desember 2008 í garð íslenskra lögaðila,
    b. að ætla megi að með málshöfðun fáist niðurstaða sem sé mikilvæg fyrir íslenska almannahagsmuni og væri mögulega til þess fallin að styrkja hagsmuni Íslands á erlendri grundu.
3. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
Lög þessi skulu endurskoðuð fyrir árslok 2009.