Lagasafn.  Íslensk lög 20. apríl 2022.  Útgáfa 152b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um heimild til samninga um álver í Helguvík

2009 nr. 51 27. apríl


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. maí 2009. Breytt með: L. 141/2009 (tóku gildi 31. des. 2009). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 46/2018 (tóku gildi 1. júlí 2018; um lagaskil sjá 19. gr.).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Heimild.
[Ráðherra] 1) er veitt heimild til að gera samning fyrir hönd ríkisstjórnarinnar innan ramma þessara laga við Century Aluminum Company (eigandinn) og Norðurál Helguvík ehf. (félagið) en félagið mun reisa og reka álver á Íslandi (verkefnið).
Samningurinn skal kveða á um þær skuldbindingar af hálfu ríkisins, eigandans og félagsins sem kunna að þykja nauðsynlegar og viðeigandi fyrir félagið og starfsemina, þar með talin framkvæmd á ákvæðum laga þessara. [Í slíkum samningi skal ákveðið hversu lengi ákvæði hans skuli gilda og skulu þau eigi gilda skemur en í 20 ár frá undirritun samnings.] 2)
Samningur sá sem [ráðherra] 1) undirritar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar samkvæmt lögum þessum (fjárfestingarsamningurinn) um meginatriði verkefnisins skal birtur í B-deild Stjórnartíðinda. 3)
Starfsemi félagsins skal vera í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.
    1)L. 126/2011, 511. gr. 2)L. 141/2009, 1. gr. 3) Augl. 732/2009.
2. gr. Verkefnið.
Verkefnið sem lög þessi taka til felur í sér að félagið byggir álver í Helguvík á Reykjanesi til framleiðslu á áli og aðstöðu sem tengist slíkri framleiðslu og skyldri starfsemi eins og nánar verður kveðið á um í fjárfestingarsamningi sem gerður verður innan ramma laga þessara á milli [ráðherra], 1) félagsins og eigandans. Álverið er hannað til framleiðslu á allt að 360.000 tonnum af áli á ári.
    1)L. 126/2011, 511. gr.
3. gr. Undanþágur frá lögum.
Félagið skal undanþegið ákvæðum 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sem setur það skilyrði að 4/ 5 hlutar hlutafjár hlutafélags séu eign íslenskra ríkisborgara og að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar.
Félagið skal undanþegið ákvæðum laga nr. 48/1994, um brunatryggingar, eða ákvæðum síðari laga um sameiginlega skyldutryggingu húseigna, enda verði með öðrum hætti tryggilega séð fyrir brunatryggingum. Ákvæði [laga um Náttúruhamfaratryggingu Íslands] 1) skulu ekki eiga við um félagið. Félagið skal viðhalda fullnægjandi [náttúruhamfaratryggingu]. 1)
    1)L. 46/2018, 20. gr.
4. gr. Skattlagning.
Félagið skal greiða skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er mælt í lögum þessum:
    1. Þrátt fyrir breytingar sem síðar kunna að verða á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal félagið greiða 15% tekjuskatt með eftirfarandi sérákvæðum:
    a. Ef tekjuskattshlutfall á félög með takmarkaðri ábyrgð, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er lægra en 15% skal hið lægra tekjuskattshlutfall gilda um félagið á upphaflegum gildistíma fjárfestingarsamningsins og á framlengingartíma hans. Verði tekjuskattshlutfallið hækkað að nýju skal það gilda um félagið en skal þó aldrei vera hærra en 15%.
    b. Félaginu skal heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu tíu almanaksárum eins og nánar er kveðið á um í 8. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ef íslenskum fyrirtækjum verður heimilað að draga eftirstöðvar rekstrartapa frá skattskyldum tekjum vegna fleiri ára, sbr. þessa málsgrein, skal sama gilda um félagið. Verði árunum fækkað síðar skal það sama gilda um félagið, þó þannig að því skal ávallt heimilt að draga frá skattskyldum tekjum eftirstöðvar rekstrartapa síðustu tíu almanaksára.
    c. Varanlegir rekstrarfjármunir vegna byggingar álversins skulu teljast byggingar, vélar og tæki í ákveðnum hlutföllum sem samið verður um. Fastafjármunir, sem að öðru leyti er aflað vegna viðhalds eða endurbóta á álverinu, skulu flokkaðir í samræmi við 37. og 38. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Fyrningu skal hagað í samræmi við 3. tölul. þessarar greinar.
    2. Félagið skal undanþegið iðnaðarmálagjaldi samkvæmt lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, með síðari breytingum, og markaðsgjaldi samkvæmt lögum nr. 160/2002, um útflutningsaðstoð, með síðari breytingum, sem og sköttum eða gjöldum sömu eða að verulegu leyti svipaðrar tegundar sem síðar kunna að verða lögð á til viðbótar eða í staðinn fyrir iðnaðarmálagjald eða markaðsgjald.
    3. Á því ári þegar nýjar eignir eru teknar í notkun getur félagið valið að fyrna þær í hlutfalli við notkun á árinu í stað fullrar árlegrar fyrningar skv. 34. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal félaginu heimilt að fyrna eignir sínar að fullu.
    4. [Stimpilgjöld sem greiða bæri samkvæmt lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, skulu vera 0,15% af öllum stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnað er til í tengslum við byggingu álversins.] 1)
    5. Félagið skal undanþegið ákvæðum 1., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.
    6. Félagið skal þrátt fyrir 35. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, greiða skipulagsgjald, sem nemur 180.000 bandaríkjadölum, vegna byggingar álvers með allt að 360.000 tonna ársframleiðslugetu. Greiðslur skulu standa í hlutfalli við framvindu byggingar álversins.
    7. Eftir undirritun fjárfestingarsamningsins skal félagið undanþegið breytingum, sem kunna að verða á ákvæðum laga um tekjuskatt, varðandi frádrátt vaxtakostnaðar, að teknu tilliti til meginreglna OECD um viðskipti tengdra aðila og milliverðlagningu.
    8. Í stað fasteignaskatts skv. II. kafla laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum, sem og skatta eða gjalda sömu eða að verulegu leyti svipaðrar tegundar sem síðar kunna að verða lögð á til viðbótar við eða í staðinn fyrir fasteignaskatt, skal félagið greiða Reykjanesbæ og Sveitarfélaginu Garði fasteignaskatt sem skal vera 0,75% af álagningarstofni sem er 6.839.000.000 kr. vegna fyrsta áfanga álversins sem miðast við allt að 90.000 tonna grunnframleiðslugetu af áli á ári. Vegna annars áfanga bætast 3.943.000.000 kr. við álagningarstofninn, vegna þriðja áfanga 4.135.000.000 kr. og vegna fjórða áfanga 4.670.000.000 kr., en hver framangreindra áfanga miðast við viðbótargrunnframleiðslugetu allt að 90.000 tonna ársframleiðslu. Miðað er við byggingarvísitölu desember 2008 (478,8 stig). Fasteignaskattur skal lagður á og innheimtur fyrir sérhvert ár á grundvelli álagningarstofnsins svo sem hann er framreiknaður samkvæmt byggingarvísitölu desembermánaðar næstliðins árs. Hann skal lagður á í fyrsta sinn 1. janúar næsta ár eftir gangsetningu hvers áfanga fyrir sig.
    9. Með samningum, sem gerðir verða innan ramma laga þessara, má ákveða að félagið skuli greiða umsamda fjárhæð til Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs í stað byggingarleyfisgjalds samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997.
Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða á um að:
    a. ekki skuli leggja á félagið umhverfisgjöld eða umhverfisskatta, sem tengjast losun lofttegundanna CO 2 og SO 2 eða annarri losun eða öðrum mengunarvöldum, nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þar með talin öll önnur álver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti,
    b. ekki skuli leggja skatta eða gjöld á raforkunotkun félagsins eða útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna nema slík gjöld eða skattar séu jafnframt lögð með almennum hætti á öll önnur íslensk fyrirtæki, þar með talin álver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti,
    c. ekki skuli leggja á gjöld eða skatta í tengslum við raforkukaup og/eða raforkunotkun félagsins nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þar með talin öll önnur álver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti.
Almenn ákvæði íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á og í gildi eru á hverjum tíma og varða skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á, auk andmæla og ágreinings í tengslum við þau, skulu gilda um félagið.
Á upphaflegum gildistíma fjárfestingarsamningsins getur félagið valið að almenn ákvæði íslenskra skattalaga, eins og þau eru á hverjum tíma, gildi um það. Beiðni um slíka breytingu skal gerð með skriflegri tilkynningu sem lögð skal fram eigi síðar en 1. júní almanaksárið áður en breytingin á að taka gildi. Berist slík beiðni skulu ríkisstjórnin, eigandinn og félagið þegar ganga til samninga um breytinguna yfir í hið almenna skattakerfi. Ríkisstjórnin, eigandinn og félagið skulu koma sér saman um aðferðir við framkvæmd slíkrar breytingar. Eftir það skal félagið lúta almennum íslenskum skattalögum það sem eftir er af gildistíma fjárfestingarsamningsins.
    1)L. 141/2009, 2. gr.
5. gr. Reikningsskilareglur.
Með samningi, sem gerður er samkvæmt lögum þessum, má ákveða sérstakar reikningsskilareglur fyrir félagið sem grundvallaðar eru á íslenskum lögum með þeim skýringum og breytingum sem taldar eru viðeigandi. Í þessum reikningsskilareglum er heimilt að hafa ákvæði þar sem félaginu er heimilað að skrá allar færslur og gefa út fjárhagsyfirlit í bandaríkjadölum, í samræmi við almennt viðurkenndar reikningsskilareglur sem gefnar eru út af Alþjóðareikningsskilaráðinu. Slíkt fyrirkomulag má fela í sér undanþágur frá ákvæðum laga um tekjuskatt.
6. gr. Innflutningur.
Innflutningur og kaup félagsins eða einhvers fyrir þess hönd hérlendis á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum fyrir álverið og tengd mannvirki, svo og til reksturs þeirra, skulu vera undanþegin tollum og vörugjöldum samkvæmt lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, sem og sams konar sköttum eða gjöldum er kunna síðar að verða lögð á til viðbótar eða í staðinn fyrir framangreind gjöld. Með samningum, sem gerðir eru innan ramma laga þessara, er heimilt að fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld á vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna byggingar álversins.
7. gr. Framsal.
Heimilt er að semja um framsal félagsins og eigandans á fjárfestingarsamningnum með tilteknum skilyrðum sem fram skulu koma í fjárfestingarsamningnum.
8. gr. Lögsaga og lausn deilumála.
Uppbygging, túlkun og framkvæmd samninga, sem gerðir eru innan ramma þessara laga, skal lúta lögsögu íslenskra laga. Heimilt er þó að vísa ágreiningi til gerðardóms.
9. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.