Lagasafn.  Íslensk lög 20. apríl 2022.  Útgáfa 152b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Menntamálastofnun

2015 nr. 91 10. júlí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 5. ágúst 2015 nema 1. og 4.–7. gr. sem tóku gildi 1. júlí 2015; birtust í Stjtíð. 4. ágúst 2015. Breytt með: L. 89/2021 (tóku gildi 8. júlí 2021).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við mennta- og barnamálaráðherra eða mennta- og barnamálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Hlutverk.
Menntamálastofnun er stjórnsýslustofnun á sviði menntamála sem stuðla skal að auknum gæðum skólastarfs og framförum í þágu menntunar í samræmi við lög og stefnu stjórnvalda, bestu þekkingu og alþjóðleg viðmið.
Menntamálastofnun skal sinna verkefnum á sviði menntamála samkvæmt lögum þessum og því sem ráðherra felur stofnuninni.
2. gr. Skipulag.
Ráðherra skipar forstjóra til fimm ára í senn. Hann skal hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi og þekkingu á verksviði stofnunarinnar.
Forstjóri ber ábyrgð á að stofnunin starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf.
3. gr. Ráðgjafarnefnd.
Forstjóri hefur sér til ráðuneytis sjö manna ráðgjafarnefnd sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Tveir nefndarmanna skulu skipaðir án tilnefningar og er annar þeirra formaður, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga, einn samkvæmt tilnefningu Félags íslenskra framhaldsskóla, einn samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu Kennarasambands Íslands og einn samkvæmt tilnefningu Heimilis og skóla. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Forstjóri situr fundi með ráðgjafarnefnd.
Ráðgjafarnefnd skal funda einu sinni á ári og oftar ef þurfa þykir. Formaður nefndarinnar kveður hana saman til fundar.
Verkefni nefndarinnar er að vera forstjóra til ráðgjafar um langtímastefnumótun um starfsemi stofnunarinnar.
4. gr. Fagráð.
Forstjóri skal setja á fót fagráð fyrir helstu verksvið stofnunarinnar sem skipuð skulu sérfróðum aðilum á viðkomandi sviði. Fagráð skulu vera stofnuninni til ráðgjafar og aðstoðar. Ráðherra setur reglugerð 1) um stofnun og starf fagráða.
    1)Rg. 530/2016.
5. gr. Verkefni.
Verkefni Menntamálastofnunar er að stuðla að umbótum og framþróun í skólastarfi með því að:
    a. sjá nemendum í skyldunámi fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum og öðrum nemendum eftir því sem stofnuninni kann að verða falið,
    b. annast söfnun, greiningu og birtingu upplýsinga um menntamál,
    c. hafa eftirlit með og meta árangur af skólastarfi og bera saman við sett viðmið,
    d. veita stjórnvöldum, fagaðilum og almenningi upplýsingar og leiðbeiningar um málefni á verksviði stofnunarinnar,
    e. sinna framkvæmd laga, reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla,
    f. veita ráðherra aðstoð og ráðgjöf við undirbúning laga, reglugerða og aðalnámskráa á sviði menntamála og
    g. annast önnur verkefni sem stofnuninni verða falin með lögum, reglugerðum eða samkvæmt ákvörðun ráðherra.
[5. gr. a. Vinnsla persónuupplýsinga.
Menntamálastofnun er heimil vinnsla persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er til að sinna lögbundnu hlutverki sínu, svo sem vegna upplýsingakerfa um námsefni og námsmat. Menntamálastofnun er heimil vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar nemenda, svo sem vegna innritunar í framhaldsskóla, innlendra og erlendra skólaverkefna og framkvæmdar samræmdra könnunarprófa.
Menntamálastofnun er heimil vinnsla persónuupplýsinga, að því marki sem nauðsynlegt er, um skólastjórnendur og starfsfólk til að sinna lögbundnu hlutverki sínu, svo sem vegna ytra mats og kannana. Menntamálastofnun er heimil vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar skólastjórnenda og starfsfólks, svo sem við veitingu leyfisbréfa og veitingu undanþágu til kennslustarfa, í tengslum við alþjóðlegar rannsóknir á aðstæðum og vinnuumhverfi kennara og skólastjórnenda.
Menntamálastofnun er heimil öflun persónuupplýsinga um nemendur í tengslum við lögbundin verkefni stofnunarinnar, svo sem frá leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum, háskólum, sveitarfélögum og frá þeim aðilum sem veita nemendum þjónustu samkvæmt sérlögum.
Ráðherra setur reglugerð um vinnslu persónuupplýsinga. Í henni skulu koma fram nánari skilyrði um vinnsluna, svo sem hvaða persónuupplýsingar heimilt er að vinna með og í hvaða tilgangi vinnsla þeirra er heimil, verklag við vinnslu persónuupplýsinga, auk tilgreiningar þeirra fagaðila og stofnana sem er heimil vinnslan.] 1)
    1)L. 89/2021, 6. gr.
6. gr. Sérstök heimildarákvæði.
Menntamálastofnun er heimilt að:
    a. semja við aðra aðila um afmörkuð verkefni sem stofnuninni er falið að annast enda sé ekki um að ræða starfsemi sem felur í sér vald til að taka ákvarðanir er lúta að réttindum og skyldum aðila,
    b. krefja skóla og rekstraraðila þeirra um upplýsingar og gögn sem stofnunin telur nauðsynleg til að sinna hlutverki sínu á því formi sem óskað er og innan tiltekinna tímamarka; er þeim skylt að verða við slíkri kröfu án þess að taka gjald fyrir; Menntamálastofnun skal jafnan upplýsa í hvaða tilgangi gagna er aflað og hvernig úrvinnslu, varðveislu og birtingu niðurstaðna verður háttað; Menntamálastofnun skal hafa samstarf við Hagstofu Íslands um söfnun gagna þar sem það á við og er öðrum stjórnvöldum og stofnunum skylt að afhenda stofnuninni gögn, sem safnað er um fræðslumál, án þess að taka gjald fyrir,
    c. leggja próf og kannanir fyrir nemendur og birta upplýsingar um niðurstöður þeirra eftir skólum, sveitarfélögum, landshlutum og öðrum breytum sem kunna að skýra niðurstöður,
    d. setja og birta reglur um afhendingu námsgagna,
    e. hafa námsgögn sem stofnunin framleiðir og dreifir til skóla einnig til sölu á almennum markaði,
    f. ívilna fámennum skólum en réttur hvers grunnskóla til að fá afhent námsgögn vegna skyldunáms nemenda, sbr. a-lið 5. gr., ræðst af nemendafjölda.
7. gr. Sértekjur.
Menntamálastofnun er heimilt að afla sértekna fyrir sérþjónustu við skýrslugerð og þjónustu við skóla, rekstraraðila þeirra, hagsmunasamtök, rannsóknaraðila og aðra gagnabeiðendur, svo og vegna hagnýtingar á upplýsingakerfum stofnunarinnar, þjónustu í því sambandi og fyrir útgefið efni.
Menntamálastofnun skal birta gjaldskrá á aðgengilegan hátt.
8. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra setur reglugerð þar sem kveðið er nánar á um framkvæmd laga þessara.
9. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó taka 1. gr. og 4.–7. gr. ekki gildi fyrr en 1. júlí 2015
10. gr. Breytingar á öðrum lögum.
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Frá gildistöku laga þessara er ráðherra heimilt að skipa forstjóra Menntamálastofnunar og verður honum þar með heimilt að undirbúa starfsemi Menntamálastofnunar.
Embætti og störf þeirra sem eru með ráðningarsamband við Námsgagnastofnun, Námsmatsstofnun og eftir atvikum mennta- og menningarmálaráðuneyti, sem heyra munu undir Menntamálastofnun við gildistöku laga þessara, verða lögð niður 30. september 2015. Þessum starfsmönnum skal boðið nýtt starf hjá Menntamálastofnun. Þeir kunna þó að þurfa að hlíta breytingum á starfi eða starfsstigi í samræmi við nýtt skipurit og starfslýsingu. Við ráðstöfun þessara starfa þarf ekki að gæta að auglýsingaskyldu 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
II.
Þar sem ákvæði til bráðabirgða I sleppir tekur Menntamálastofnun, frá 1. október 2015, við eigum, réttindum og skyldum Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar.