Lagasafn.  Íslensk lög 20. apríl 2022.  Útgáfa 152b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um þjóðkirkjuna

2021 nr. 77 25. júní


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 2021. Um lagaskil sjá 12. gr.
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Skilgreining.
Þjóðkirkjan á Íslandi er evangeliskt lúterskt trúfélag.
2. gr. Réttarstaða.
Um stöðu þjóðkirkjunnar fer samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 62. gr. og 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944.
Um tengsl þjóðkirkjunnar og ríkisins fer samkvæmt þeim lögum og samningum sem eru í gildi hverju sinni er varða samskipti þjóðkirkjunnar og ríkisins, sbr. og 1. mgr. þessarar greinar og 3. mgr. 3. gr.
Þjóðkirkjan ræður starfi sínu og skipulagi innan lögmæltra marka.
3. gr. Þjónusta.
Þjóðkirkjunni ber að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni. Prestar og djáknar gegna vígðri þjónustu í þjóðkirkjunni.
Þjóðkirkjan heldur úti ýmiss konar fræðslu og kærleiksþjónustu, eftir því sem við verður komið.
Stjórnvöld geta leitað til þjóðkirkjunnar í störfum sínum telji þau þess þörf.
4. gr. Jafnræði og lýðræði.
Þjóðkirkjan skal í starfsháttum sínum hafa í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis.
5. gr. Innganga og úrsögn úr þjóðkirkjunni.
Um inngöngu í þjóðkirkjuna og úrsögn úr henni fer skv. 8. og 9. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999, eftir því sem við getur átt.
6. gr. Söfnuðir og sóknir.
Söfnuður er félagsleg og fjárhagsleg grunneining þjóðkirkjunnar.
Söfnuður á tilteknu landsvæði myndar sókn. Ein eða fleiri sóknir mynda prestakall.
Sóknarbörn eru allir þeir sem lögheimili eiga í sókn og eru skráðir í þjóðkirkjuna.
Þjóðskrá Íslands skal árlega, miðað við 1. desember, standa þjóðkirkjunni skil á skrá yfir nöfn, kennitölur og fjölda sóknarbarna sem lögheimili eiga í hverri sókn fyrir sig. Um greiðslur fyrir skrána fer eftir gjaldskrá skráarhaldara. Sama gildir um greiðslur óski þjóðkirkjan tíðari upplýsinga og fyllri um sóknarbörn sín.
7. gr. Kirkjuþing.
Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þar með talið fjárstjórnarvald, nema lög kveði á um annað. Kirkjuþing markar stefnu þjóðkirkjunnar í sameiginlegum málefnum hennar, öðrum en þeim sem lúta að kenningu hennar.
Kosið skal til kirkjuþings leynilegri kosningu til fjögurra ára í senn. Á kirkjuþingi skulu leikmenn vera fleiri en vígðir. Kirkjuþing kýs þingforseta úr röðum leikmanna þingsins og tvo varaforseta með sama hætti. Saman mynda þeir forsætisnefnd kirkjuþings. Forseti kirkjuþings boðar til þingsins.
Við afgreiðslu mála á kirkjuþingi er varða fjárstjórnarvald skulu þeir þingfulltrúar sem hagsmuna hafa að gæta í tilteknu máli víkja sæti. Um sérstakt hæfi þingfulltrúa fer eftir starfsreglum kirkjuþings, sbr. 1. mgr. 8. gr. Má í þeim reglum kveða svo á um að þingið sé ályktunarhæft, óháð fjölda fulltrúa, við afgreiðslu þeirra. Rísi ágreiningur um túlkun þessarar málsgreinar sker forseti þingsins úr.
8. gr. Verkefni kirkjuþings.
Kirkjuþing setur starfsreglur um málefni þjóðkirkjunnar, þar á meðal um skipulag kirkjuþings, svo sem kjör til þess, kjördæmaskipan, fjölda kirkjuþingsmanna, þingsköp og verkefni þingsins. Enn fremur samþykkir kirkjuþing ályktanir og samþykktir um málefni þjóðkirkjunnar.
Forseti kirkjuþings skal birta starfsreglur, samþykktir og ályktanir kirkjuþings á opnum vef kirkjunnar innan fjögurra vikna frá samþykkt þeirra.
9. gr. Frumvörp um kirkjuleg málefni.
Kirkjuþing hefur að jafnaði frumkvæði að frumvörpum til laga um málefni þjóðkirkjunnar og leggur til við ráðherra kirkjumála að þau verði flutt á Alþingi.
Ráðherra leitar umsagnar og tillagna kirkjuþings um lagafrumvörp um kirkjuleg málefni sem hann hyggst flytja á Alþingi.
10. gr. Biskupsdæmi.
Ísland er eitt biskupsdæmi. Um biskupskjör fer samkvæmt starfsreglum kirkjuþings, sbr. 1. mgr. 8. gr.
Biskup Íslands fer með yfirstjórn þjóðkirkjunnar eftir því sem kirkjuþing mælir nánar fyrir um.
Biskup Íslands gætir einingar kirkjunnar og hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu.
11. gr. Samningar milli þjóðkirkjunnar og ríkisins.
Íslenska ríkið greiðir þjóðkirkjunni árlega gagngreiðslu á grundvelli samninga milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar til viðbótar öðrum tekjustofnum hennar.
Prestssetur, þ.e. prestssetursjarðir og prestsbústaðir, eru eign þjóðkirkjunnar með öllum réttindum, skyldum og kvöðum samkvæmt samningi um prestssetur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar.
12. gr. Gildistaka og lagaskil.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021.
Um mál sem við gildistöku laga þessara eru til meðferðar hjá úrskurðar- og áfrýjunarnefnd sem starfar á grundvelli 12. og 13. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, og mál til meðferðar hjá ráðuneytinu á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. sömu laga fer samkvæmt ákvæðum þeirra laga.
13. gr. Brottfall laga og réttarreglna.
Ákvæði til bráðabirgða.
Starfsfólk þjóðkirkjunnar sem var skipað í embætti í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, við gildistöku 2. mgr. 19. gr. laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar), nr. 153/2019, heldur þeim réttindum og skyldum sem af skipuninni leiðir út skipunartíma sinn, en að öðru leyti fer um réttindi þess og skyldur samkvæmt starfsreglum settum af kirkjuþingi.
Starfsreglur og samþykktir, sem kirkjuþing hefur sett eða samþykkt í gildistíð laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, halda gildi sínu, eftir því sem við á, þar til kirkjuþing hefur fellt þær niður, breytt þeim eða sett eða samþykkt nýjar, þó eigi síðar en 31. desember 2021.